• Post Category:Fréttir

Alls bárust 10 framboð til stjórnar fyrir komandi aðalfund þann 17. mars næstkomandi. Samkvæmt 4.8 grein laga félagsins skal senda út, viku fyrir fund, lista yfir frambjóðendur auk lagabreytingatillagna sem borist hafa. Engar lagabreytingatillögur bárust. Kosið verður um eftirfarandi stöður: Um formann, um fjögur sæti aðalmanna og fjögur sæti varamanna. Frambjóðendur til stjórnar 2021 eru sem hér segir:

Framboð til formanns:

Inga Auðbjörg K. Straumland
35 ára verkefnastjóri, Kaospilot og athafnarstjóri

Nú hef ég verið þess heiðurs aðnjótandi að vera formaður Siðmenntar, félags siðrænna húmanista á Íslandi, í eitt kjörtímabil. Þegar ég bauð mig fram til forystu fyrir tveimur árum voru mín helstu stefnumál að standa fyrir stefnumótun, virkja félagana og auka fagleika í verki. Við höfum áorkað ýmsu í þessum málaflokkum á þessum tveimur árum; samið og samþykkt siðareglur, innleitt verklagsreglur um gæði athafnarþjónustu og virkni athafnarstjóra, gefið út fyrstu ársskýrslu félagsins, stofnað kennsluráð fermingarfræðslu og staðið fyrir stefnumótun á hinu fyrsta Siðmenntarþingi félagsins fyrir ári síðan.
Þó er enn ýmsu ólokið sem ég vil gjarnan vera með í að vinna að, COVID hefur sett strik í reikninginn og álag á skrifstofuna verið mikið. Því langar mig að halda áfram formennsku í félaginu, ef ég fæ traust til þess og gef því kost á mér í embætti formanns Siðmenntar.

Ég leyfi hér framboðssíðunni minni frá 2019 að fylgja með, en þó textinn sé óuppfærður gefur þetta enn glögga mynd af mér og mínum húmanísku hugðarefnum: https://straumland.is/frambod/

 

 

Framboð til aðalstjórnar í stafrófsröð:

Árný Björnsdóttir

Ég heiti Árný Björnsdóttir og býð mig fram í stjórn Siðmenntar núna á aðalfundinum 17.03.2021.
Á mínum rétt rúmlega 28 árum hef ég brallað ýmislegt og lært allskonar. Hef verið virk í félagsstarfi eins lengi og ég man eftir mér, þar sem ég hef unnið með ýmsum nefndum, stjórnum og verkefnahópum. Fyrst í skátunum, bæði heima í Hafnarfirði og með landssamtökunum. Einnig starfaði ég með Hugarafli og hef setið í stjórn Siðmenntar sem varamaður í eitt ár. Ég hef mest starfað og nemið í námunda við byggingariðnaðinn og mun ljúka námi í tækniteiknun núna í vor.
Það hefur verið mjög lærdómsríkt og skemmtilegt að kynnast starfi félagsins betur síðastliðið ár sem varamaður. Mér þætti afskaplega vænt um að fá að leggja mitt af mörkum til félagsins sem stjórnarmaður næsta árið.

 

Kristín Sævarsdóttir

Ég býð mig fram sem aðalmaður í stjórn Siðmenntar á aðalfundi félagsins 17.mars nk.
Ég er 57 ára og bý í Kópavogi með konu minni Valgerði Þ.E. Guðjónsdóttur. Ég starfa sem vörustjóri hjá Húsasmiðjunni.
Ég hef verið félagi í Siðmennt í fjölda ára og verið gjaldkeri í stjórn undanfarin tvö ár. Ég var stofnfélagi í SARK. Ég var í mörg ár í stjórn Hinsegin daga í Reykjavík og hef starfað mikið með Samfylkingunni.
Starf Siðmenntar undanfarin tvö ár hefur verið mikið uppbyggingarstarf undir forystu okkar kraftmikla formanns. Stefnumótun og fagmennska í starfi hefur verið rauði þráðurinn í starfi stjórnar og við þar höfum við náð miklum árangri. Við innleiddum verklagsreglur og siðareglur og byggðum upp nýtt kennsluráð BF auk þess sem við höfum fest Siðmennt í sessi sem lífsskoðunarfélag sem litið er til í umræðu um veraldleg málefni. Covid hefur sett strik í reikninginn og valdið því að forysta og starfsfólk hefur orðið að finna nýjar leiðir til að halda úti athöfnum og vaxandi starfi við Borgaralegar fermingar og fræðslu til fermingarhópsins. Það hefur gengið merkilega vel og við getum verið stolt af árangrinum. Ég bið um stuðning til að fá að halda áfram þessu mikilvæga starfi í stjórn Siðmenntar.

Sigurður Rúnarsson

Kæru félagar. Ég býð mig hér með fram í stjórn Siðmenntar á aðalfundi sem fer fram þann 17. mars 2021.

Ég er tæplega 47 vetra ungur maður alinn upp að mestu í Reykjavík og hef verið félagi í Siðmennt frá 2012. Ég lauk námskeiði fyrir nýja athafnarstjóra haustið 2013 hef starfað sem athafnastjóri félagsins síðan þá. Þar að auki var ég athafnastjóri í Noregi hjá HEF – systursamtökum Siðmenntar í Noregi í 2 ár.
Ég sat í stjórn tveggja félaga HEF (Drammen og Buskerud) um 3 ára skeið og hef reynslu af uppbyggingu lífsskoðunarfélaga – bæði landshluta og á landsvísu. Ég flutti á síðasta ári til Íslands eftir 7 ára búsetu í Noregi og starfa í dag sem sérfræðingur í upplýsingatækni hjá Reykjavíkurborg.

Þar sem ég hef mikinn áhuga á starfi, tilgangi og stöðu Siðmenntar í íslensku samfélagi að þá langar mig til að leggja mitt á vogarskálarnar til að styrkja og byggja upp félagið næstu árin.

Ég vill auk þess í störfum mínum störfum fyrir félagið leggja áherslu á að efla kynningu Siðmenntar í samfélaginu og fjölga félögum með fræðslu og jákvæðri kynningu á Siðmennt sem fallegur og virðulegur valkostur þegar kemur að stóru viðburðunum í lífinu. Einnig vill ég efla enn frekar samtarf við erlend systurfélög Siðmenntar ekki síst á Norðrulöndum og í Bretlandi.

Ég hef persónulega mikinn áhuga á tungumálum, sagnfræði og mannfræði ásamt tölvu- og upplýsingatækni. Ég tel að reynsla mín af félagsstörfum, starfinu og lífinu öllu geti komið félaginu til góða og óska því eftir stuðningi ykkar í á aðalfundinum þann 17. næstkomandi.

Sveinn Atli Gunnarsson

Ég er 48 ára, giftur og á tvær unglingsdætur, svo er ég húmanisti og trúleysingi og býð mig aftur fram til aðalstjórnar Siðmenntar, þar sem ég er núna starfandi varaformaður.

Síðustu misserin hef ég sokkið mér enn meira í málefni tengd húmanisma og hefur það opnað hug minn enn meira gagnvart gagni húmanisma og trúleysis í viðfangsefnum okkar í veröldinni. Það er í mínum huga besta nálgun okkar allra að nálgast málefni með húmanisma, þekkingu og vísindi að leiðarljósi.

Ég hef setið í stjórninni sem varamaður í eitt ár og svo sem varaformaður í eitt ár, s.s. í tvö kjörtímabil samanlagt. Mér er það sannarlega heiður að hafa unnið með góðu fólki í stjórninni á þessum ca. tveimur árum og ég vonast til að fá að vinna áfram að störfum Siðmenntar með ykkar brautargengi. Ég sit m.a. í undirbúningsnefnd fyrir heimsþing húmanista sem haldið verður í ágúst 2023 og mig langar til að halda þeirri vinnu áfram. Á síðasta ári skrifaði ég svo tvær greinar á Visir.is sem fengu ágæta athygli, sú fyrri kallaðist “Veraldleg þjóð í hlekkjum þjóðkirkju” og sú síðari (sem var svar við svargrein séra Skúla Ólafssonar) var “Sál­gæsla hinna verald­legu Norður­landa”, sem ég tel hafi verið málefnleg nálgun við umræðuna.

Viggó E. Viðarsson

Hef ákveðið að bjóða mig fram til stjórnar Siðmenntar þar sem mér finnst það óeðlilegt að rukka fyrir athafnir þegar samtökin fá framlag úr skattpeningum meðlima.

 

 

 

 

 

Framboð til varastjórnar í stafrófsröð:

Hope Knútsson

Hope Knútsson iðjuþjálfi, aðgerðasinni, – starfað í þágu mannréttinda og jafnréttis mismunandi hópa á Íslandi í rúmlega 4 áratugi:

– BA sálfræði og heimspeki, masters í iðjuþjálfun
– Vann á Kleppsspítalanum (2.5 ár)
– Einn af stofnendum Iðjuþjálfafélags Íslands,(formaður 22 ár)
– Vann að stofnun námsbrautar í iðjuþjálfun (2 áratugir)
– Fulltrúi Íslands til Heimssambands Iðjuþjálfa (28 ár)
– Formaður Geðhjálpar (5 ár)
– Stofnaði Félag nýrra íslendinga, samtök enskumælandi útlendinga formaður þess (5 ár).
– Stofnaði Fjölmenningarráð: málsvari útlendinga á Íslandi, til að standa vörð um mannréttindi útlendinga. (Formaður 6 ár)
– 1989 stofnaði fyrstu borgaralegu ferminguna á Íslandi. Var framkvæmdastjóri BF þar til í ágúst 2019 (31 ár)
– Tók þátt í að stofna Siðmennt, félag siðrænna húmanista á Íslandi 1990. Formaður 1996-2015

Ég elska Siðmennt og er tilbúin að starfa fyrir félagið til eilífðar.

Kristín Helga Schiöth

Ég heiti Kristín Helga Schiöth og býð mig fram í varastjórn Siðmenntar í ár. Ég hef verið félagi í Siðmennt frá fermingu, eða í 20 ár. Ég flutti heim til Akureyrar síðasta vor eftir áralanga dvöl við nám og störf í Danmörku, og ég mun koma inn í fermingarfræðsluna hér fyrir norðan í vor.

Ég er með BA í heimspeki frá HÍ og MA í alþjóðafræðum frá Aarhus Universitet, hvar ég einbeitti mér að málefnum Norðurslóða. Ég hef mikinn áhuga á mannréttindamálum og hef mikla reynslu af ýmsum félagsstörfum; hef verið formaður nemendafélags, setið í Háskólaráði og sinnt ýmsum trúnaðarstörfum nemenda og unnið sjálfboðastörf fyrir Red barnet og Rauða krossinn. Ég starfa nú sem aðstoðarkona fjölfatlaðs manns auk þess að vinna í lausamennsku fyrir Umhverfisstofnun, þar sem ég útbý fræðsluefni um heilnæmt umhverfi barna og stýri nýsköpunarverkefni um borgarrækt.

Ég er 33ja ára fjölskyldumanneskja, gift Ottó Elíassyni eðlisfræðingi og saman eigum við tvo drengi. Ég vonast til að fá tækifæri til að vinna frekar fyrir Siðmennt og taka þátt í að efla starfsemina á landsbyggðinni enn frekar.

Mörður Árnason

Ég býð mig fram til að vera áfram varamaður í stjórn Siðmenntar. Siðmennt er frábær félagsskapur — bæði mikilvæg mannréttindasamtök og þjónustustofnun fyrir þá sem vilja hafa merkisdaga á mannsævinni án afskipta trúar. Siðmennt hefur eflst verulega undanfarin ár, og er nú orðin sjálfsagður hluti af fjölbreyttu íslensku menningarsamfélagi. Ég skal halda áfram að efla Siðmennt á þessum vegi, þannig að í forystunni fari saman frumkvæði og reynsla, léttlyndi og dýpt í hæfilegum hlutföllum. Svo þarf ég líka meiri tíma til að efna gamalt kosningaloforð um íslenskulestur á vefsetrinu — þegar það er loksins tilbúið úr langavarandi endurreisn !

 

 

Stefán Rafn Sigurbjörnsson

Ég heiti Stefán Rafn Sigurbjörnsson og er 31. árs gamall upplýsingafulltrúi hjá Seðlabanka Íslands. Undanfarið ár hef ég setið sem varamaður í stjórn Siðmenntar og óska eftir að fá að halda því áfram. Samhliða frábærri þjónustu við þá einstaklinga sem kjósa að sækja veraldlegar athafnir hjá Siðmennt er mikilvægt að félagið haldi áfram að beita sér fyrir húmanísku- og veraldlegu samfélagi og fyrir því að hið opinbera hætti afskiptum af trúmálum fólks. Ég hef sérstakan áhuga á að efla útgáfumál Siðmenntar og myndi gjarnan vilja leggja mitt lóð á vogarskálarnar í þeim efnum.