Þórunn Ólafsdóttir og Akkeri hlutu hina árlegu Húmanistaviðurkenningu sem Siðmennt veitir. Þórunn og Akkeri hafa unnið gríðarlega mikilvægt og óeigingjarnt starf í þágu flóttamanna, bæði hér á landi og erlendis. Akkeri hlaut einnig 150.000 króna styrk til viðbótar verðlaununum til áframhaldandi góðs starfs.

Einstaklingar, félagasamtök eða aðrir sem lagt hafa talsvert af mörkum í þágu mannréttinda eða mannúðar eiga möguleika á að hljóta viðurkenninguna.
Háskóli ungafólksins hlaut Fræðslu- og vísindaviðurkenningu Siðmenntar 2016


Siðmennt veitti einnig Háskóla unga fólksins Fræðslu- og vísindaviðurkenningu félagsins. Háskóli unga fólksins hefur verið starfræktur hvert sumar frá árinu 2004 þar sem fróðleiksfús börn á aldrinum 12-16 ára hafa komið í nokkra daga og lagt stund á hin ýmsu fræði. Námskeiðin sem hafa verið kennd við Háskóla unga fólksins skipta hundruðum og brautskráðir nemendur skólans eru komnir hátt í 3000 talsins
Siðmennt veitti þremur samtökum styrki
Í ár var ákveðið að veita þremur aðilum styrki. Það má segja að málefni flóttamanna séu Siðmennt sérlega hugleikin í ár og því hefur verið ákveðið að veita stuðning til flóttabarna í Sýrlandi að upphæð kr. 350.000 með milligöngu Unicef, barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna og Akkeri 150.000 krónur fyrir störf í þágu flóttafólks.

Einnig var styrkur að upphæð 100.000 krónur veittur til innlendrar hreyfingar sem vinnur alveg gríðarlega gott mannréttindastarf og það er hreyfingin Tabú sem er femínísk hreyfing þar sem sjónum er beint að margþættri mismunun gagnvart fötluðu fólki. Hún er sprottin af baráttukrafti kvenna, sem hafa ekki einungis upplifað misrétti á grundvelli fötlunar og kyngervis, heldur einnig mögulega kynhneigðar, kynþáttar og aldurs svo eitthvað sé nefnt.

Siðmennt fær greitt til félagsins hluta af tekjuskatti fólks sem í daglegu tali nefnist „sóknargjald“.
Þegar Siðmennt fékk fyrst hlutdeild í svokölluðum sóknargjöldum, tók stjórn félagsins ákvörðun um að gefa á hverju ári hluta af þeirri upphæð til góðgerðamála. Húmanistar hafa ávallt viljað styrkja uppbyggjandi mannúðar- og mannréttindastarfsemi.
Myndir: Árni Sæberg