• Post Category:Fréttir

Þing unga fólksins var haldið í af ungliðahreyfingum allra stjórnmálaflokkanna dagana 11. – 13. mars 2005. Fulltrúar allra ungliðahreyfinga voru sammála um nauðsyn þess að aðskilja ríki og kirkju og tryggja trúfrelsi á Íslandi. Er þetta afar ánægjulegt sérstaklega í ljósi þess að fulltrúar stjórnmálaflokkanna hafa verið tvístígandi í þessum málum þrátt fyrir að mikill meirihluti þjóðarinnar styðji aðskilnað ríkis og kirkju.


Ályktun unga fólksins var samþykkt svohljóðandi:

Aðskilnaður ríkis og kirkju
Þing unga fólksins telur mikilvægt að aðskilja ríki og kirkju að fullu leyti sem fyrst. Í nútímaþjóðfélagi er ótækt að ríkisvaldið taki að sér að styðja og vernda eitt trúfélag umfram önnur. Þetta fyrirkomulag samrýmist ekki hugmyndum um frelsi borgaranna í lýðræðisþjóðfélagi og mismunar trúfélögum hér á landi. Einnig er mikilvægt að tryggja jafnræði milli trúfélaga eftir aðskilnað þannig að ríkið styrki ekki sum trúfélög hlutfallslega meira en önnur með fjárveitingum. Mikilvægt er að réttur til trúleysis sé jafn vel tryggður og trúfrelsi og að þeim er standa utan trúfélaga verði ekki gert að greiða sérstakt gjald til ríkisins líkt og nú er. Einnig telur ÞUF að ríkið eigi ekki að annast innheimtu sóknargjalda fyrir trúfélög.