Siðmennt

Málsvari manngildisstefnu og frjálsar hugsunar.

Siðmennt – félag siðrænna húmanista á Íslandi, var stofnað 1990. Félagið er málsvari manngildisstefnu (húmanisma) og frjálsrar hugsunar, óháð trúarsetningum, og stendur fyrir veraldlegum athöfnum.

Meira um Siðmennt

Það er mikilvægt að eiga val.

Frá árinu 1989 hefur Siðmennt staðið fyrir borgaralegum fermingum.

Mörg ungmenni á fermingaraldri eru ekki reiðubúin til að vinna trúarheit. Sum eru annarrar trúar eða trúa á guð á sinn hátt og önnur eru ekki trúuð. Fyrir þau ungmenni er borgaraleg ferming góður kostur.

Nánari upplýsingar um borgaralega fermingu

Fallegar veraldlegar eða húmanískar nafngjafarathafnir.

Siðmennt býður uppá uppá þjónustu athafnarstjóra við fallegar veraldlegar eða húmanískar nafngjafarathafnir til þess að gefa barni formlega nafn og fagna þeirri merku ákvörðun í lífi þess og fjölskyldunnar.

Meira um veraldlega nafngjöf

Siðmennt leiðir pör saman til giftingar óháð kynhneigð eða lífsskoðun.

Veraldleg/húmanísk gifting fer fram til að fagna því að par (óháð kynhneigð) vill opinbera heit sín til hvors annars á formlegan og hátíðlegan máta fyrir framan fjölskyldu sína og vini.

Nánar um veraldlega giftingu

Til að minnast látins ættingja eða vinar á virðulegan máta.

Veraldleg útför fer fram til að minnast á formlegan og virðulegan máta látins ættingja eða vinar rétt eins og þær trúarlegu, en munurinn er sá að í veraldlegri athöfn fer ekki fram lestur trúarlegra ritninga, bænalestur eða sálmasöngur.

Meira um veraldlega útför

Stjórnvöld eiga að vera hlutlaus og óháð trúarbrögðum.

Stjórnvöld eiga að tryggja frelsi einstaklinga og vernda rétt þeirra til að lifa samkvæmt þeim lífsskoðunum sem þeir sjálfir kjósa. Stjórnvöld eiga að vera hlutlaus, óháð trúarbrögðum og eiga ekki að hygla ákveðnum lífsskoðunum umfram önnur.

Meira um áherslur Siðmenntar í trúfrelsismálum

Taktu þátt í starfsemi Siðmenntar!

Siðmennt fagnar nýjum félögum. Til viðbótar við hinn félagslega ávinning að því að vera félagi í Siðmennt fá félagar afslátt af athafnaþjónustu félagsins.

Stjórn félagsins svarar öllum skriflegum erindum félagsmanna og aðstoðar eftir bestu getu og aðstöðu.

Hafðu samband

Lög Siðmenntar

Lög Siðmenntar – félags siðrænna húmanista á Íslandi

1 Heiti og hlutverk
1.1 Félagið heitir Siðmennt – félag siðrænna húmanista á Íslandi. Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík.

1.2 Félagið er lífsskoðunarfélag í samræmi við lög nr.108/1999 með síðari breytingum.

2 Hlutverk og markmið Siðmenntar er að:

  • vera málsvari húmanisma (manngildisstefnu), frjálsrar hugsunar, óháð trúarsetningum.
  • fjalla um siðferði og þekkingarleit mannsins.
  • standa fyrir veraldlegum og húmanískum athöfnum, svo sem nafngjöf, fermingu, giftingu, útför.
  • hafa samvinnu og rækta tengsl við erlendar hreyfingar veraldlegra húmanista.
  • efla og styrkja þekkingu almennings á siðrænum húmanisma og skal markmiðum félagsins frekar lýst í stefnuskrá Siðmenntar.

 

3 Félagsaðild -réttindi og skyldur
3.1 Félagar geta allir gerst sem vilja styðja markmið félagsins.

3.2 Félagar teljast vera; fólk sem hefur skráð nafn sitt í Siðmennt hjá Þjóðskrá Íslands, eða með skriflegri ósk um skráningu til stjórnar Siðmenntar og greiðslu félagsgjalds. Hægt er að vera skráð/ur í félagið á báða vegu.

4 Aðalfundur
4.1 Aðalfundur fer með æðsta vald í málum félagsins. Aðalfund skal halda á fyrsta fjórðungi hvers árs. Stjórn skal undirbúa aðalfund og einnig huga að starfsnefndum fyrir fundinn og komandi starfsár ef þurfa þykir.

4.2 Boðað skal til aðalfundar skriflega með tveggja vikna fyrirvara. Fundarboð skal sent með netpósti eða bréfleiðis. Auglýsing í útsendu fréttabréfi Siðmenntar jafngildir boðun á aðalfund.

4.3 Aðalfundur er löglegur ef löglega er til hans boðað.

4.4 Kjörgengi og rétt til atkvæðagreiðslu á aðalfundi hafa félagar sem skráðir eru í Siðmennt hjá Þjóðskrá og/eða fólk sem er skráð beint og hefur greitt félagsgjald undangengins starfsárs.

4.5 Aukaaðalfundur. Meirihluti stjórnar getur boðað til aukaaðalfundar ef talið er að verkefni sem fjalla á um á aðalfundi megi ekki bíða aðalfundar. Einnig geta 50 félagar óskað skriflega eftir aukaaðalfundi og skal þá tilgreint hvert fundarefni skal vera. Boða skal fundinn innan viku eftir að slík ósk hefur komið fram. Skal þá halda slíkan fund tveimur vikum eftir að boðun fer fram.

4.6 Heimilt er að kjósa heiðursfélaga á aðalfundi. Kosning heiðursfélaga skal haga þannig að stjórn félagsins ber fram tillögu á aðalfundi um hvern/hverja heiðra skuli. Kosningin er gild sé hún samþykkt af 2/3 atkvæðisbærra fundarmanna.

4.7 Dagskrá aðalfundar skal m.a. hafa eftirtalda liði:

1. Kjör fundarstjóra og fundarritara
2. Skýrsla stjórnar fyrir liðið starfsár
3. Áritaðir reikningar fyrra árs lagðir fram til umræðu og samþykktar
4. Breytingar á lögum
5. Ákvörðun félagsgjalda
6. Kjör stjórnar, sbr. grein 5.1
7. Kjör félagslegra skoðunarmanna reikninga, sbr. grein 6.7
8. Önnur mál.

5 Stjórn
5.1 Stjórn skipa fimm félagsmenn og allt að sjö til vara. Kjósa skal í stjórn, ráð, nefndir og aðrar trúnaðarstöður innan félagsins árlega nema formann. Skal kjörtímabil formanns vera tvö ár. Formaður er kosinn sérstaklega, þá annað fólk í stjórn og loks varamenn. Önnur embætti innan stjórnar eru: varaformaður, gjaldkeri, ritari og meðstjórnandi. Ef fleiri eru í kjöri en fjöldi í stjórn segir til um skal viðhafa leynilega kosningu.

5.2 Æðsta vald Siðmenntar er í höndum stjórnar milli aðalfunda. Stjórn félagsins skiptir með sér verkum á fyrsta fundi eftir aðalfund. Á sama fundi nýkjörinnar stjórnar skal ákvarða röðun varamanna með hlutkesti. Komi til atkvæðagreiðslu á stjórnarfundum ræður einfaldur meirihluti stjórnarmanna.

5.3 Formaður stýrir fundum stjórnar og ber ásamt stjórn ábyrgð á að starfsemi félagsins sé samkvæmt lögum þess. Ritari heldur fundargerðir stjórnarfunda, varðveitir lög og fundargerðir félagsins og sér til þess að þær séu tiltækar. Gjaldkeri ábyrgist fjárreiður félagsins, heldur bókhald félagsins, varðveitir fylgiskjöl og annast nauðsynlega samningagerð í tengslum við stjórn. Varaformaður er staðgengill formanns. Að öðru leyti skiptir stjórn með sér verkum eftir því sem þurfa þykir hverju sinni.

5.4 Stjórn hefur umboð til að skipa ábyrgðarmenn með verkefnum félagsins hverju sinni. Umsjónaraðilar athafnaþjónustu hafa rétt til setu á stjórnarfundum með málfrelsi og tillögurétt.

5.5 Stjórn hefur umboð til að ráða starfsfólk og semja við það um kaup og kjör.

6 Fjármál, starfsár
6.1 Starfsár og reikningsár félagsins er almanaksárið.

6.2 Firmaritun er í höndum meirihluta stjórnar. Stjórn er þó ekki heimilt að stofna til fjárskuldbindingar í nafni félagsins um meira er nemur ársinnkomu, nema að undangengnu samþykki aðalfundar.

6.3 Gjaldkeri skal kynna fjárhagslega stöðu félagsins fyrir stjórn á um hálfs árs fresti og ársreikning hið minnsta tíu dögum fyrir boðaðan aðalfund.

6.4 Á aðalfundi skal stjórn gera upp árangur liðins árs.

6.5 Skoðaður og staðfestur ársreikningur skal lagður fram til umræðu og staðfestingar á aðalfundi.

6.6 Gjaldkeri skal á aðalfundi, fyrir hönd stjórnar, leggja fram fjárhags- og framkvæmdaáætlun til kynningar.

6.7 Kjósa skal tvo félagslega skoðunarmenn reikninga og einn til vara á aðalfundi félagsins.

7 Breytingar á lögum og félagsslit
7.1 Lögum þessum verður aðeins breytt á aðalfundi. Svo breytingar teljist samþykktar þarf 2/3 hluta greiddra atkvæða.

7.2 Breytingatillögur á auglýstar tillögur, sem fram koma á aðalfundi skulu vera skriflegar. Breytt lög taka gildi strax að aðalfundi loknum.

7.3 Tillögur að breytingum á lögum skulu hafa borist stjórn félagsins fyrir 10. janúar og skulu sendar út með aðalfundarboði.

7.4 Félaginu verður ekki slitið og ekki lagt niður nema með samþykkt tveggja aðalfunda. Meðferð tillögu um slit félagsins skal vera eins og um tillögu að breytingum á lögum félagsins sé að ræða. Síðari aðalfundur sem staðfestir slit félagsins skal ráðstafa eignum og skuldum félagsins til annarra félagasamtaka í samræmi við markmið Siðmenntar samkvæmt annarri grein laga félagsins.

Samþykkt heildarendurskoðun laga Siðmenntar á aðalfundi 26. febrúar 2015

 

Afmælishátíð Siðmenntar

Skráning á afmælishátíð Siðmenntar

Að tilefni 25 ára afmælis Siðmenntar verður sérstök hátíðardagskrá laugardaginn 3. október kl 20-23 í Salnum í Kópavogi.

Felix Bergsson stýrir hátíðinni. Boðið verður upp á tónlist og aðra skemmtun.

Í Salnum eru sæti fyrir tæplega 300 manns og eru félagsmenn hvattir til að fagna saman og er aðgangur ókeypis.

Þar sem það er takmarkaður sætafjöldi eru félagsmenn hvattir til að skrá sig á hátíðina sem fyrst.

Skráðu þig á hátíðina hér

Hafðu samband

Hafðu samband

Viltu gerast félagi í Siðmennt?

Siðmennt fagnar nýjum félögum. Skráðu þig í félagið ef þú vilt styðja eða taka þátt í starfsemi Siðmenntar

Skráðu þig í Siðmennt

Sendu okkur tölvupóst

Borgaraleg ferming

Skráning í BF

Login