Lög Siðmenntar – að grunni til samþykkt á stofnfundi 15. febrúar 1990, síðast breytt á aðalfundi Siðmenntar 6. mars 2014.

 

1. Nafn félagsins er Siðmennt – félag siðrænna húmanista á Íslandi. Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík.

2. Siðmennt er málsvari húmanisma (manngildisstefnu), frjálsrar hugsunar og er óháð trúarsetningum. Siðmennt fjallar um siðferði og þekkingarleit mannsins. Siðmennt stendur fyrir borgaralegum, veraldlegum og húmanískum athöfnum. Stefnu og markmiðum félagsins skal frekar lýst í stefnu Siðmenntar.

3. Þeir sem styðja stefnu félagsins sbr. 2. grein geta gerst félagar. Hægt að gerast félagi með því að skrá sig hjá Þjóðskrá. Þeir sem vilja gerast félagar án þess að skrá sig hjá Þjóðskrá Íslands geta gert það með því að senda félaginu bréf með ósk um skráningu og greiða félagsgjald. Þá er einnig hægt að vera skráður á báðum stöðum og styrkja þannig félagið aukalega.

4. Aðalfundur hefur æðsta vald í málum félagsins. Hann skal halda á fyrsta fjórðungi árs hvers og skal boðað til hans skriflega með tveggja vikna fyrirvara og skal fundarboð sent með netpósti (rafrænn sendingartími netþjóns) eða bréfleiðis (dagsetning póststimpils) þegar félagi hefur ekki netfang. Senda skal eina ítrekun með minnst 48 klst. fyrirvara með netpósti (eingöngu). Rétt til atkvæðagreiðslu á aðalfundi hafa þeir sem skráðir eru í félagið hjá Þjóðskrá og/eða þeir sem eru skráðir beint og hafa greitt félagsgjald undangengins starfsárs. Meirihluti stjórnar getur boðað til aukaaðalfundar.

5. Dagskrá aðalfundar skal vera:

1. Kjör fundarstjóra og fundarritara
2. Ársskýrsla stjórnar
3. Reikningar félagsins
4. Lagabreytingar
5. Ákvörðun félagsgjalds
6. Kosning í stjórn og varastjórn
7. Kjör tveggja félagslegra skoðunarmanna reikninga
8. Önnur mál.

Formaður skal kjörinn sérstaklega og til tveggja ára í senn. Aðrir í stjórn og varastjórn skulu kjörnir til eins árs í senn. Í stjórn skulu vera 5 einstaklingar og allt að 7 til vara, og skal kjósa í laus embætti á hverjum aðalfundi.

6. Breytingar á lögum og stefnu Siðmenntar má aðeins samþykkja á aðalfundi. Skulu tillögur þess efnis hafa borist stjórn félagsins fyrir janúarlok ár hvert og sendir stjórnin þær til félagsmanna ásamt aðalfundarboði.

7. Stjórn félagsins skiptir með sér verkum. Stjórn fer með æðsta vald í málum félagsins milli aðalfunda. Ákvarðanir stjórnar þurfa einfaldan meirihluta stjórnarmanna.

Stjórn hefur umboð til að skipa í nefndir og umsjónarstörf með verkefnum félagsins hverju sinni. Umsjónarmaður athafnaþjónustu skal eiga rétt til setu á stjórnarfundum og hafa málfrelsi og tillögurétt.

Á fyrsta fundi nýkjörinnar stjórnar skal ákvarða röðun varamanna með hlutkesti.

Stjórn hefur umboð til að ráða starfsfólk og semja við það um kaup og kjör.

8. Félagsfundir eru haldnir eftir þörfum og í fundarboði skal geta dagskrár.

9.
Krefjist þriðjungur félagsmanna þess skriflega skal boðað til félagsfundar og/eða aukaaðalfundar og skal þá með skýrum hætti tilgetið í þeirri ósk hvert fundarefni skal vera. Skal það gert bréflega eða með netpósti og skal stjórn félagsins senda út fundarboð eigi síðar en viku eftir að beiðnin hefur borist henni. Skal fyrirvari í fundarboði vera hinn sami og fyrir reglulega félagsfundi og/eða aðalfundi. Í fundarboði skal fundarefni koma skýrt fram.

10. Starfsár félagsins er almanaksárið. Á aðalfundi skal stjórn gera upp árangur liðins árs. Rekstrarafgangur/hagnaður af starfsemi félagsins skal færast á næsta starfstímabil. Firmaritun er í höndum meirihluta stjórnar.

11. Slit félagsins skulu eingöngu ákveðin á löglegum aðalfundi með auknum meirihluta atkvæða mættra félagsmanna. Ekki má taka tillöguna fyrir nema hún hafi verið tilkynnt í fundarboði. Fundur sá er slítur félaginu skal ákveða hvernig á að ráðstafa eignum þess sem og greiðslu skulda. Eignum má þó eingöngu ráðstafa í samræmi við markmið félagsins.

Bráðabirgðaákvæði:
Þrátt fyrir ákvæði 5. gr. skal formaður vera kosinn til eins árs. Þetta ákvæði skal falla brott við upphaf aðalfundar árið 2015.

Samþykkt á aðalfundi Siðmenntar 6. mars 2014

 

Síðast uppfært 19. March 2014


Login