Spurningar og svör sýslumanna

11. júlí 2000

Erindi bréfs: Upplýsingaleit varðandi framkvæmd borgaralegar giftingar

Stjórn Siðmenntar hefur áhuga á því að safna upplýsingum um borgaralega giftingu. Stjórnin sendi bréf til dóms- og kirkjumálaráðherra nýlega og bað um upplýsinga um hverjir mega gifta fólk borgaralega, hvar giftingin fari fram og hvenær tíma dags og hvaða vikudaga. Svar ráðherra hefur borist okkur.

Hann segir að sýslumenn og löglærðir fulltrúar geti framkvæmt borgaralegar hjónavígslur og að vígslur fari oftast fram á skrifstofu sýslumanns en geta farið fram annars staðar í samráði við hann. Í svarbréfinu kemur fram varðandi tímasetningu vígslu, að hún fari eftir samkomulagi vígslumanns og hjónaefna í hverju tilviki. Að gefnu tilefni leitum við því til ykkar um svör við eftirfarandi spurningum.

 1. Vinna löglærðir embættismenn hjá sýslumanni eða hefur sýslumaður samráð við aðra löglærða menn um giftingar?
 2. Hvenær getur borgaraleg gifting farið fram hjá ykkar embætti (tími dags og vikudagar)?
 3. Leggst embættið gegn því við hjónavígslu á vegum embættisins fari fram annars staðar en á skrifstofu þess?
 4. Allir sem hafa haft samband við okkur vilja hafa giftinguna hátíðlega. Er hægt að hafa tónlistaratriði eða ræðu? Má koma fyrir skreytingu í salnum fyrir vígsluna?
 5. Hvað geta margir verið viðstaddir vígslu?
 6. Gætum við fengið sýnishorn af þeim texta sem lesinn er upp fyrir hjónaefnin við hjónavígslu?
 7. Er leyfilegt að bæta við einhverjum texta við hjónavígslutexta eins og t.d. ljóðum, heitum eða persónulegum ávörpum?

Virðingarfyllst,
Hope Knútsson
formaður Siðmenntar

• Sýslumaðurinn á Akranesi
• Sýslumaðurinn á Akureyri
• Sýslumaðurinn á Blönduósi
• Sýslumaðurinn á Bolungarvík
• Sýslumaðurinn á Búðardal
• Sýslumaðurinn á Eskifirði
• Sýslumaðurinn í Hafnarfirði
• Sýslumaðurinn á Höfn
• Sýslumaðurinn á Hólmavík
• Sýslumaðurinn á Ísafyrði
• Sýslumaðurinn í Keflavík
• Sýslumaðurinn á Keflavíkurflugvelli
• Sýslumaðurinn í Kópavogi
• Sýslumaðurinn á Patreksfirði
• Sýslumaðurinn í Rangárvallasýslu
• Sýslumaðurinn í Reykavík
• Sýslumaðurinn á Sauðárkróki
• Sýslumaðurinn á Selfossi
• Sýslumaðurinn á Seyðisfirði
• Sýslumaðurinn á Siglufirði
• Sýslumaðurinn í Stykkishólmi
• Sýslumaðurinn á Vestmannaeyjum
• Sýslumaðurinn í Vík í Mýrdal

Svörin:

Sýslumaðurinn á Akranesi

 1. Við sýslumannsembættið á Akranesi starfar einn löglærður fulltrúi þessa stundina. Þær hjónavígslur sem sýslumaður framkvæmir ekki sjálfur er fulltrúanum falið að framkvæma.
 2. Á virkum dögum frá kl. 8.00 til kl. 17.00 en aðrar tímasetningar eftir samráð við sýslumann eða fulltrúa hans ef honum er falið að framkvæma vígsluna.
 3. Nei svo framarlega að staðurinn sé innan umdæmis sem og þarf að hafa samráð við sýslumann um staðsetninguna.
 4. Hjónaefnin mæta yfirleitt hjá sýslumanni eða fulltrúa hans í tengslum við útgáfu könnunar og svaramannavottorðs og þá eru þau innt eftir óskum um form vígslunnar og er orðið við þeim óskum eftir því sem mögulegt er. Tónlist, ræða og skreytingar eru bornar undir sýslumann hverju sinni og ræðst nokkuð af staðsetningu athafnarinnar.
 5. Í sal embættisins geta með góðu móti 30 manns komist fyrir.
 6. Til er staðlaður texti sem dómsmálaráðuneytið leggur til en ef hjónaefni óska þá hafa verið settar saman sér ræður.
 7. Ef ekki er stuðst við texta ráðuneytisins þá semur sýslumaður textann og reynir að taka tillit til óska hjónaefni um hluta innihalds hans.

14.07.2000
Ólafur Þ. Hauksson

Sýslumaðurinn á Akureyri

 1. Sýslumaður framkvæmir sjálfur vígslur ef hann hefur tök á því, annar eru það löglærðir fulltrúar sýslumanns sem framkvæma vígsluna. Vegna þess hvernig spurningin er sett fram skal tekið fram að sýslumenn geta einungis framkvæmt vígslu innan síns umdæmis og geta þeir ekki falið það neinum öðrum en löglærðu fulltrúum sínum.
 2. Aðal reglan er sú að vígslur fara fram á skrifstofutíma. Hins vegar hefur verið reynt að verða við óskum um annan tíma ef þess hefur verið kostur.
 3. Embættið hefur ekki lagst gegn því að vígslur fari fram utan skrifstofunnar.
 4. Hjá þessu embætti er reynt að hafa vígsluna sem virðulegasta. Sett eru blóm í vasa og þannig reynt að hafa aðeins hátíðarblæ yfir athöfninni. Ef óskað hefur verið eftir hefur verið leyft að hafa tónlist.
 5. 10-15.
 6. Lesinn er staðlaður texti frá ráðuneyti.
 7. Slík gæti komið til greina en þá í fullu samráði við vígslumann.

10.10.2000
Björn Jósef Arnviðarson

Sýslumaðurinn á Blönduósi

 1. Við embættið starfar einn lögfræðingur sem getur séð um giftingar auk sýslumanns.
 2. Samkomulagsatriði hverju sinni.
 3. Nei, oft utan skrifstofu embættisins.
 4. Embættið skiptir sér ekki af slíku og leggst alls ekki gegn því.
 5. Engin sérstök takmörk á því, fer mest eftir stærð húsnæðis.
 6. Meðfylgjandi er staðlaður vígslutexti.
 7. Ekki hefur reynt á slíkt, yrði metið sérstaklega þegar á það reyndi.

22.09.2000
Kjartan Þorkelsson

Sýslumaðurinn á Bolungarvík

 1. Sýslumenn og fulltrúar þeirra skulu lögum samkvæmt vera löglærðir.
 2. Hjónavígslur er hægt að framkvæma á öllum þeim tímum sem sýslumaður samþykkir og eru engar sérstakar reglur í gildi í þeim efnum.
 3. Það er samkomulagsatriði hvar innan umdæmis sýslumanns hjónavígsla fer fram og ekkert því til fyrirstöðu að hún fari fram annars staðar en í skrifstofu embættisins.
 4. Ekki getur talist heppilegt að tónlist eða ræður séu fluttar inni á skrifstofum embættanna í tengslum við hjónavígslur eða að þar sé komið fyrir miklum skreytingum. Ef um slíkt er að ræða verður að teljast heppilegra að vígslan fari fram annars staðar. Þó má geta þess, að undir sama þaki og þetta embætti er góður salur, sem embættið hefur að jafnaði fengið lánaðan fyrir hjónavígslur og þar hefur gjarnan verið komið fyrir látlausum skreytingum við hjónavígslur.
 5. Þeim fjölda sem kemst fyrir með góðu móti er heimilt að vera viðstaddur vígslu í skrifstofu (sal) embættisins.
 6. Vísað er til dómsmálaráðuneytisins varðandi texta þann sem ætlaður er til lestrar fyrir hjónaefnin við vígsluna.
 7. Ekki er gert ráð fyrir að sýslumaður sem slíkur flyti annað og meira en þann texta sem dómsmálaráðuneytið hefur samið í því skyni.

02.08.2000
Jónas Guðmundsson

Sýslumaðurinn á Búðardal

 1. Engir löglærðir starfsmenn aðrir en sýslumaður starfa við embættið.
 2. Eftir samkomulagi sýslumanns og hjónaefna.
 3. Nei
 4. Ef gifting fer fram annars staðar en á skrifstofu sýslumanns er ekkert á móti því að hafa tónlistaratriði, ræðuhöld og þess háttar eftir sjálfa athöfnina. Skreyting á húsakynnum eftir atvikum.
 5. Nokkurn veginn eftir óskum hjónaefna, hvort sem athöfnin fer fram á skrifstofu eða annars staðar eftir samkomulagi.
 6. Dóms- og kirkjumálaráðuneytið lætur sýslumönnum í té texta og vísast til þess.
 7. Í 2. mgr. 24. gr. hjúkaparlaga, nr. 31/1993, er tilgreint hvað verður að koma fram í ræðu og jákvætt svar við því, svo giftingin teljist gild. Hvað annað komi fram til viðbótar texta ráðuneytisins, verður hver sýslumaður að gera upp við sig.

16.08.2000
Ólafur Stefán Sigurðsson

Sýslumaðurinn á Eskifirði

 1. Löglærðir embættisins vinna hjá sýslumanni
 2. Almennt fara vígslur fram á skrifstofutíma, mánud.-föstud., frá kl. 8:00-15:00 en til grein kemur að hafa vígslur á öðrum tímum s.s. um helgar.
 3. Vígslur á vegum embættisins hafa farið fram annars staðar en á skrifstofu þess.
 4. Það gæti verið erfitt í framkvæmd þar sem vígslur fara fram á skrifstofu embættisins og er því embættið ekki fylgjandi slíku.
 5. Erfitt er að setja ákveðna tölu en meðan húsrúm leyfir er ekkert því til fyrirstöðu að gestir séu viðstaddir vígslur.
 6. Þessum spurningum er vísað til dómsmálaráðuneytisins.
 7. Þessum spurningum er vísað til dómsmálaráðuneytisins.

11.09.2000
Kolbrún Ólafsdóttir

Sýslumaðurinn í Hafnarfirði

 1. Við embætti sýslumanns í Hafnarfirði starfa, auk sýslumanns sjálfs, sex löglærðir fulltrúar sem geta gefið brúðhjón saman.
 2. Hjónavígslurnar geta farið fram alla virka daga frá 9:00 á morgnana til kl. 16:00 síðdegis. Afar fátítt er að vígslur fari fram utan skrifstofutíma, en það er háð samkomulagi hverju sinni.
 3. Að jafnaði fer hjónavígsluathöfnin fram í húsnæði embættisins. Nokkuð er um að óskir komi fram um aðra staðsetningu og er þá reynt að verða við þeim. Slíkt yrði að ræða við þann fulltrúa sem vígsluna annast, með nægum fyrirvara.
 4. Hjónavígsluathöfnin sjálf tekur ekki langan tíma. Þegar hún fer fram á embættinu er reynt að gera stundina hátíðlega, t.d. með því að kveikja á kertum, en ekki hefur verið um sérstakar skreytingar eða tónlistarflutning að ræða, enda hafa ekki komið fram óskir um það undanfarin ár. Öðru máli gegnir þegar vígslan fer fram í heimahúsi eða annarsstaðar utan embættisins, enda geta brúðhjónin þá skipulagt slíkt sjálf.
 5. Hjónavígslurnar fara að jafnaði fram í sérstökum fundarsal þar sem rúm er fyrir 20 – 25 manns. Salurinn er nýinnréttaður og nokkuð vistlegur. Þar sem hann er einnig nýttur til annars en hjónavígslna kann að verða erfiðleikum bundið að setja þar upp sérstakar skreytingar, enda mun það yfirleitt gert með einhverjum fyrirvara. Óski brúðhjónin eftir að vera tvö við athöfnina útvegar embættið tvo votta sem lögum samkvæmt verða að vera viðstaddir.
 6. Nokkuð er misjafnt hvaða texti er lesinn upp við hjónavígslur. Fer það bæði eftir aðstæðum hverju sinni, t.d. aldri brúðhjóna, svo og eftir því hvaða fulltrúi annast vígsluna. Ekkert er því til fyrirstöðu af hálfu embættisins að brúðhjón eða gestir bæti einhverju við frá eigin brjósti, eða setji fram óskir um efnisinnihald texta við fulltrúa, innan eðlilegra marka. Ekki hefur komið fram ósk þessa efnis undanfarin ár.
 7. Rétt er að minna á að tilvonandi brúðhjón þurfa að skila inn öllum nauðsynlegum gögnum og ganga frá greiðslu a.m.k. þremur sólarhringum áður en athöfnin á að fara fram. Hafi brúðhjón sérstakar óskir, sbr. ofangreint er nauðsynlegt að þeim sé komið á framfæri með enn lengri fyrirvara.

01.08.2000
Edda Andrésdóttir

Sýslumaðurinn á Höfn

 1. Löglærður fulltrúi vinnur við embættið í hálfu starfi. Bæði sýslumaður og hinn löglærði fulltrúi framkvæma giftingar.
 2. Gifting getur farið fram nánast á hvaða tíma sem er og hafa giftingar gjarnan verið framkvæmdar á hátíðisdögum, t.d. jólum, um nýár eða páska. Þá eru giftingar framkvæmdar eftir lokun skrifstofunnar.
 3. Hjónavígslur hafa í nokkkur skipti farið fram utan skrifstofu embættisins þegar þess hefur verið óskað. Embættið leggst ekki gegn því.
 4. Ekkert er því til fyrirstöðu að brúðhjón komi fyrir skreytingum í því húsnæði sem giftingin fer fram í, en það verður að vera í samráði við vígslumann. Hins vegar hefur enginn farið fram á þetta og flestir leita til sýslumanns vegna þess að þeir vilja ekki hafa athöfnina hátíðlega í hefðbundnum skilningi þess orðs.
 5. Um 10 manns getur verið viðstatt hjónavígslu.
 6. Texti sá sem lesinn er yfir hónaefnum er hinn staðlaði texti sem dómsmálaráðuneytið hefur lagt fyrir að skuli vera lesinn.
 7. Undirritaður lítur svo á að ekki sé eðlilegt að bæta í textann atriðum sem nefnd eru í 7. tl. bréfs yðar.

27.07.2000
Páll Björnsson

Sýslumaðurinn á Hólmavík

 1. Einungis sýslumaður er löglærður hér við embættið. Starfar sjálfstætt.
 2. Samkomulagsatriði um vikudaga og tíma dags.
 3. Nei.
 4. Sjálfsagt að hafa athöfnina hátíðlega. Skreytingar í hófi velkomnar.
 5. Eins og viðkomandi aðstæður leyfir.
 6. Fylgir hjálagður.
 7. Hjónavíglustextann flytur sýslumaður eða fulltrúi hans. Skoða verður hjónavígslutextann sjálfstætt og með virðingu en þar er um að ræða hámark athafnarinnar. Aðrar óskir um hófleg atriði við athöfnina, t.d. lestur ljóða o.s.frv. metur sýslumaður hverju sinni.

31.08.2000
Bjarni Stefánsson

Sýslumaðurinn á Ísafirði

 1. Sýslumaður og löglærðir fulltrúar sjá um borgaralegar giftingar.
 2. Borgaralegar giftingar, staður og stund, fara fram samkvæmt samkomulagi
 3. Embættið hefur ekki lagst gegn því að hjónavígslur fari fram annars staðar en á skrifstofu þess.
 4. Skreytingar og hátíðleiki er samkomulagsatriði milli aðila
 5. Fjöldi vígslugesta er samkomulagsatriði.
 6. Vísað er til dómsmálaráðuneytisins varðandi texta þann sem ætlaður er til lestrar fyrir hjónaefnin við vígsluna.
 7. Viðbótar texti við hefðbundinn vígslutexta er háð samkomulagi.

17.07.2000
Ólafur Helgi Kjartansson

Sýslumaðurinn í Keflavík

 1. Löglærðir starfsmenn sýslumannsins í Keflavík, sem og sýslumaðurinn sjálfur framkvæma hjónavígslur innan umdæmis embættisins.
 2. Borgaraleg gifting getur farið fram hvaða dag vikunnar sem er, ef óskað er eftir. Einnig eru þess dæmi að gifting hafi farið fram að kvöldi til í miðri viku. Að jafnaði fer þó hónavígsla fram á hefðbundnum skrifstofutíma.
 3. Embættið leggst ekki gegn því að vígsla fari fram annars staðar en á skrifstofu þess, ef brúðhjón óska eftir öðrum vígslustað. Má t.a.m. nefna að vígslur hafa t.d. farið fram í Bláa lóninu.
 4. Heimilt er að hafa tónlistaratriði eða ræðu ef brúðhjón óska eftir. Ef óskað er eftir að koma fyrir skreytingum er slíkt einnig leyfilegt.
 5. Eins margir geta verið viðstaddir vígslu og vilja, a.m.k. meðan salarkynni leyfa.
 6. Hjálagt fylgir sýnishorn af texta þeim sem lesinn er fyrir brúðhónin við vígsluna, bæði á íslensku og ensku.
 7. Reynt er að hafa athöfnina eins frjálslega og mögulegt er. Er jafnan reynt að verða við óskum brúðhjóna um framkvæmd athafnarinnar, og viðbótartexta ef því er að skipta.

21.09.2000
Brynjólfur Hjartarson

Sýslumaðurinn á Keflavíkurflugvelli

 1. Hér við embættið starfar löglærður fulltrúi. Sýslumaður hefur ekki samráð við aðra um giftingar
 2. Skrifstofa embættisins er opin frá mánudegi til föstudags, kl. 09:00-12:00 f.h. og kl. 13:00-15:30 e.h. Algengast er að gifting fari fram á þessum tíma.
 3. Embættið leggst ekki á móti slíkur og má nefna að sýslumaður hefur nýverið gefið hjónaleysi saman í Reykjavík og Garðabæ. Vígslunar fóru fram í heimahúsum. Í samræmi við hjúskaparlög fór könnun hjónavígsluskilyrða fram hjá viðkomandi sýslumönnum.
 4. Það hefur ekki verið óskað eftir því við embættið að koma að tónlistaratriði eða ræðu við slíka athöfn svo undirritaður viti til en varla væri neitt því til fyrirstöðu. Salinn má skreyta og hefur það verið gert.
 5. Um 15 manns geta verið viðstaddir.
 6. Texti sá sem lesinn er yfir hónaefnum er hinn staðlaði texti sem dómsmálaráðuneytið hefur lagt fyrir að skuli vera lesinn. Texti í enskri þýðingu er oftast lesinn þar sem flest pör eru varnarliðsmenn. Þess má geta ef annað hjónaefnanna er íslenskt og hitt skilur ekki íslensku þá eru báðir textarnir lesnir.
 7. Það er ekki gert ráð fyrir að vígslumaður bæti við textann. Nokkuð er um það að pör ávarpi hvort annað stuttlega í lok víglu.

20.07.2000
Sævar Lýðsson

Sýslumaðurinn í Kópavogi

Um hjónavígsluathafnir, vígslumenn og fl. er fjallað í hjúskaparlögum nr. 31/1993. Í lögunum segir m.a. að borgaralega hjónavígslu framkvæmi sýslumenn og löglærðir fulltrúar þeirra. Með löglærðum fulltrúa sýslumanns er átt við sýslumannsfulltrúa (lögfræðing) er starfar á embætti sýslumanns. Í hjúskaparlögum segir enn fremur að borgaraleg hjónavígsla fari fram á skrifstofu vígslumanns nema vígslumaður og hjónaefni verði á annað sátt og að hjónavígsla skuli fara fram í viðurvist tveggja vitna. Þá segir að vígslumaður spyrji hjónaefni, sem bæði séu viðstödd, hvort fyrir sig hvort þau vilji stofna til hjúskaparins og lýsi þau hjón er þau hafa játað því. Áður en vígslumaður spyr hjónaefni hinna hefðbundnu spurninga fer hann með stutta ræðu/texta.

Á embætti sýslumanns í Kópavogi eru hjónavígslur að jafnaði framkvæmdar á virkum dögum (mán. til fös.) á hefðbundnum skrifstofutíma og á embættinu.

Þær fara nú fram á skrifstofu fulltrúa er annast vígsluna og af því leiðir að það geta ekki margir gestir verið viðstaddir athöfnina. Rétt er að taka fram að gert er ráð fyrir að embættið flytji á næsta ári eða 2001 í nýtt húsnæði og fara þá hjónavígsluathafnir fram í sérstöku herbergi og verður aðstaða þar væntanlega mjög góð.

Komi fram ósk frá hjónaefnum um frávik eða viðbætur við hina lögbundnu athöfn skv. framansögðu, eða ósk um að vígsla fari fram utan embættis eða hefðbundins skrifstofutíma er reynt að mæta slíkum óskum, verði því við komið með hliðsjón af atvikum öllum. Það er á hinn bóginn mat sýslumanns að skyldur sýslumanna og fulltrúa þeirra varðandi framkvæmd hjónavígslna einskorðist við það sem greinir í lögum og reglum um hjónavígslur og því hvíli ekki lagaskylda á borgaralegum vígslumönnum að verða við þess háttar óskum hjónaefna.

04.10.2000
Jóhanna Gunnarsdóttir

Sýslumaðurinn á Patreksfirði

Svörin voru tekin niður í gegnum síma í byrjun árs 2001.

 1. Tveir.
 2. Samkvæmt samkomulagi.
 3. Nei.
 4. Já, þetta gæti verið samkomulagsatriði einnig hefur sýslumaður látið skreyta salinn sérstaklega.
 5. Tuttugumanns komast í salinn.
 6. Staðlaður texti notaður.
 7. Ekkert því til fyrirstöðu að bæta við einhverjum texta við hjónavígslutexta.

Spurningarnar (aftur hér til viðmiðunar)

 1. Vinna löglærðir embættismenn hjá sýslumanni eða hefur sýslumaður samráð við aðra löglærða menn um giftingar?
 2. Hvenær getur borgaraleg gifting farið fram hjá ykkar embætti (tími dags og vikudagar)?
 3. Leggst embættið gegn því við hjónavígslu á vegum embættisins fari fram annars staðar en á skrifstofu þess?
 4. Allir sem hafa haft samband við okkur vilja hafa giftinguna hátíðlega. Er hægt að hafa tónlistaratriði eða ræðu? Má koma fyrir skreytingu í salnum fyrir vígsluna?
 5. Hvað geta margir verið viðstaddir vígslu?
 6. Gætum við fengið sýnishorn af þeim texta sem lesinn er upp fyrir hjónaefnin við hjónavígslu?
 7. Er leyfilegt að bæta við einhverjum texta við hjónavígslutexta eins og t.d. ljóðum, heitum eða persónulegum ávörpum?

Sýslumaðurinn í Rangárvallasýslu

 1. Sýslumaður og löglærður fulltrúi við embætti hans framkvæma vígslur.
 2. Alla daga, einnig um helgar tími frá 09:00, til miðnættis.
 3. Nei.
 4. Gifting er með hátíðlegri umgjörð eins og hægt er, gjarnan blóm í vasa og logandi kerti á borði. Hófleg skreyting í sal (skrifstofu sýslumanns) frá hendi væntalegra brúðhjóna yrði samþykkt. Tónlistarflutningur er hæpinn.
 5. Viðstaddir gæta verið 12-15 persónur.
 6. Vísa þessu til sýslúmanns í Reykjavík.
 7. Nei. Ræða, önnur en vígslumanns færi ekki fram við athöfnina.

31.07.2000
Friðjón Guðröðarson

Sýslumaðurinn í Reykavík

 1. Framkvæmd hjónvígslna heyrir undir sifja- og skiptadeild hjá embætti sýslumannsins í Reykjavík og eru flestar hjónvígslur á embættinu framkvæmdar af löglærðum fulltrúum í þeirri deild embættisins. Aðrir löglærðir fulltrúar sýslumanns auk sýslumanns sjálfs eru einnig bærir til að framkvæma hjónavígslur í umdæminu.
 2. Hjónavígslur hjá sýslumanninum í Reykjavík geta farið fram virka daga, þ.e. frá mánudegi til föstudags, á skrifstofutíma.
 3. Hjónavígslur fara fram í húsakynnum embættisins, að jafnaði í fundarsal á 2. hæð hússins. Ef hjónaefni hafa ósk um að vígslan fari fram utan skrifstofu fer það eftir samkomulagi þeirra við viðkomandi vígslumanna hvort af því getur orðið.
 4. Borgaraleg hjónavígsla er látlaus og stutt athöfn og fer fram á skrifstofu embættisins, þar sem á sama tíma fer fram önnur starfsemi. Því er ekki hægt að koma við tónlistarflutningi við athöfnina. Hinsvegar er hægt að óska eftir að við athöfnina verði haldin stutt ræða. Embættið hefur séð um að koma fyrir hófsömum skreytingum í salnum, þ.e. silkiblómum og kertum, í þeim tilgangi að skapa hátíðlegt andrúmsloft. Ef óskað er eftir því af hálfu hjónaefna að koma fyrir skreytingum, verður að hafa í huga að salnum, sem notaður til þessara athafna, kann að vera ráðstafað undir allt að þrjár vígslur á dag og er einnig notaður til annarra þarfa hjá embættinu. Ekki sýnist þó vera neitt því til fyrirstöðu að hálfu hjónaefna verði komið með skreytingar, sem hægt er að fjarlægja strax að lokinni vígslu, að höfðu samráði við embættið.
 5. Hægt er að koma fyrir sætum í fundarherberginu fyrir u.þ.b. 10 gesti en hægt er að hafa allt að 20 gesti ef viðstaddir standa. Það er þó alltaf smekks- og matsatriði hve mörgum er hægt að koma fyrir við athöfnina.
 6. Til er texti á ensku og dönsku sem notaður er eftir þörfum.
 7. Slíkt er hægt að gera í samráði við þann sem vígsluna framkvæmir, er þá haft að leiðarljósi það sem að ofan greinir, þ.e. að borgaraleg hjónavígsla sé látlaus og stutt athöfn.

Að lokum: Sýslumaðurinn hefur það að leiðarljósi að reyna að verða við óskum hjónaefna um tilhöfun athafnar, innan ákveðins ramma.

01.11.2000
Eyrún Guðmundsdóttir

Sýslumaðurinn á Sauðárkróki

 1. Sýslumaður annast hjónavígslur eða löglærður fulltrúi í umboði hans.
 2. Alla virka daga á opnunartíma skrifstofunnar. Einnig á öðrum tíma ef þess er sérstaklega óskað, þó ekki síðar en kl. 21.00.
 3. Ef hjónaefni óska eftir öðrum stað en skrifstofu sýslumanns þá er það athugað hverju sinni. Hjónavígsla er ekki bundin við skrifstofu sýslumanns en þó má sýslumaður ekki framkvæma hjónavígslu utan síns umdæmis.
 4. Erfitt er að hafa tónlistaratriði eða skreytingar á skrifstofu sýslumanns, en ef hjónavíglsa fer fram í heimahúsi eða í samkomusal ætti það að vera auðvelt.
 5. Eins og húsrúm leyfir.
 6. Staðlaður texti.
 7. Undirritaður telur vígslumann bundinn af hjónavígslutextanum.

10.08.2000
Ríkarður Másson

Sýslumaðurinn á Selfossi

 1. Við embætti sýslumannsins á Selfossi starfa fjórir lögfræðingar, sýslumaður og þrír fulltrúar, og annast þeir framkvæmd hjónavígslna.
 2. Borgaraleg hjónavígsla getur farið fram á skrifstofutíma og auk þess um helgar eða síðdegis virka daga, eftir samkomulagi hvejru sinni. Yfirleitt er unnt að verða við óskum fólks um hjónavígslu utan venjulegs vinnutíma.
 3. Embættið leggst ekki gegn því að hjónavígslur fari fram annars staðar en á skrifstofu embættisins. Um það bil helmingur hjónavígslna á undanförnum árum hafa farið fram utan skrifstofu embættisins, t.d. Gullfoss, Geysi, við sumarhús, í heimahúsum eða félagsheimilum.
 4. Ef hjónavígsla fer fram utan skrifstofu embættisins er fólki það í sjálfsvald sett hvernig umgjörðin er. Heimilt er að hafa tónlistaratriði eða flytja ræðu á skrifstofu embættisins, en reyndin er sú að flestir þeir sem óska eftir borgaralegri hjónvígslu og vilja að hún fari fram á skrifstofu embættisins, vilja sem minnst umstang. Heimilt er að koma fyrir skreytingum á þeirri skrifstofu sem notuð er fyrir hjónavígsluna.
 5. Gestir geta verið við vígslu sem fram fer á skrifstofu embættisins, líklega væri pláss fyrir um tuttugu manns, þó ekki í sæti. Mjög sjaldgæft er að fólk óski eftir að gestir séu viðstaddir.
 6. Texti sem lesinn er upp fyrir hjónaefni er staðlaður.
 7. Persónulegum texta verður ekki bætt við hjónavígslutextann sjálfan, en væntanlega yrði heimilaður einhver flutningur slíks texta ef farið yrði fram á það.

18.08.2000
Ásta Stefánsdóttir

Sýslumaðurinn á Seyðisfirði

 1. Lögum samkvæmt framkvæma sýslumenn og fulltrúar þeirra hjónvígslur. Ekki er því um það að ræða að löglærðir aðilar utan embættanna séu með í ráðum. Á embætti sýslumannsins á Seyðisfirði fer sýslumaður sjálfur með málaflokkinn, en fulltrúar hans annast einnig hjónavígslur ef sýslumaður er forfallaður eða ef sérstaklega er óskað eftir því.
 2. Að öllu jöfnu er miðað við skrifstofutíma, en hægt er að semja um annan tíma ef sérstaklega stendur á og a.m.k. í einu tilviki hefur vígsla farið fram á laugardegi.
 3. Nei. Vígslur hafa farið fram í heimahúsum a.m.k. 2 á undanförnum 11 árum og einu sinni utan dyra framan við sýsluskrifstofuna.
 4. Já það er umsemjanlegt. Reyndar hefur enginn leitað eftir þessu við okkur, en við reynum að hafa vígslurnar eins huggulegar og okkur er unnt m.a. með kertaskreytingum og sýslumaður framkvæmir alltaf hjónavígslur í hátíðarbúningi sýslumanns (nema óskað sé eftir því að vígslan sé látlaus). Tónlistaratriði og ræður eru ekki illa séðar.
 5. Fjöldi viðstaddra fer eftir því hvað húsrúm leyfir, en eins og fram kemur hér að framan er umsemjanlegt að flytja vígsluna annað en á skrifstofuna þannig að engin takmörk eru á því hversu margir geta verið viðstaddir á meðan húsrúm leyfir.
 6. Já, fylgir með í ljósriti á eftirtöldum tungumálum: Íslensku 3 útgáfur (staðfest samvist, hjónavígsla og eldir útgáfa vegna hjónavígslu), ensku, þýsku og dönsku (tekið fram að erlendu útg. eru þýðing á eldri íslenzku útgáfunni). Einnig meðf. sýnishorn af hjónavígsluvottorði.
 7. Í sjálfu sér er að mínu viti ekkert sem bannar það. Skv. lögum eru lágmarksskilyrði þau að vígslumaður spyrji hjónaefni hvort þau vilji ganga að eiga hvort annað, að þau svari játandi og að hann lýsi því yfir að þau séu gefin saman í lögmætt hjónaband. Allt um fram það er valkvætt og þótt gefnar hafa verið út leiðbeiningar um það hvernig textinn eigi að vera má bæta við hann eins og vill. Þetta myndi vígslumaður þó aldrei gera án samráðs við hjónaefni. Eins mætti vel hugsa sér að vinir og vandamenn vildu leggja eitthvað til málanna og þá er það vel.

21.06.2000
Lárus Bjarnason

Sýslumaðurinn á Siglufirði

 1. Engir löglærði fulltrúar vinna við embættið og sér sýslumaður um allar giftingar.
 2. Samkomulagsatriði.
 3. Nei, samkomulagsatriði.
 4. Samkomulagsatriði.
 5. Eins og húsrúm eða aðstæður leyfa.
 6. Lesinn er texti sem dómsmálaráðuneytið hefur gefið út.
 7. Ekki reynt á það hér en yrði skoðað með opnum huga.

19.07.2000
Björn Rögnvaldsson

Sýslumaðurinn í Stykkishólmi

 1. Sýslumaður er löglærður svo sem áskilið er í lögum um framkvæmdavald ríkisins í héraði, nr. 92/1989. Við embætti Sýslumannsins í Hafnarfirði starfa að auki tveir löglærðir sýslumannsfulltrúar. Hjónavígslu framkvæma sýslumaður eða löglærðir fulltrúar hans, sbr. 18. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993.
 2. Tímasetning hjónavígslu fer fram eftir samkomulagi vígslumanns og hjónaefna hverju sinni, ekkert er útilokað í þeim efnum.
 3. Nei.
 4. Um framkvæmd hjónavíglsu gilda reglur frá 31. maí 1980, þar sem fram kemur hvernig veraldlegir valdsmenn skuli gefa saman hjón. Ekkert mælir gegn skreytingum af einhverju tagi. Að öðru leytil má segja að framkvæmd borgaralegra hjónavígslna sé með mjög hefðbundnu sniði. Sýslumaðurinn í Stykkishólmi hefur fyrir sitt leyti ekkert á móti því að við slíkar athafnir verði aukið tónlistaraðtriðum eða ræðuhöldum. Við það verður þó að gera þann fyrirvara að æskilegt væri að um slíkt væru settar samræmdar reglur á landsvísu.
 5. Svo margir sem rými er fyrir þar sem vígsla fer fram hverju sinni.
 6. Sjá staðlaðan texta.
 7. Sjá svar við 4. lið.

17.07.2000
Aðalsteinn Þorsteinsson

Sýslumaðurinn á Vestmannaeyjum

 1. Einungis sýslumaður sjálfur eða löglærðir fulltrúar hans, sem starfa á embættinu framkvæma hjónavígslur.
 2. Hjónavíglslur fara fram í samráði við hjónaefnin á skrifstofutíma, á laugardögum ef þess er óskað eða á öðrum tímum sé þess sérstaklega óskað. Ákvörðun um þetta er alfarið í höndum sýslumanns, en ekki hafa komð upp nein vandræði með að finna hentugan tíma fyrir alla aðila eða framkvæma vígslu á tíma sem hjónaefnin óska sérstaklega eftir.
 3. Nei, það er sama um þetta að segja, staðurinn er einnig ákveðin í samráði við viðkomandi löglærða starfsmann og dæmi eru um að vígslur fari fram undir berum himni. Staðsetningin mætti þó ekki vera hættuleg, s.s. í fallhlífastökki. Einnig getur vígslumaður ekki farið út fyrir umdæmi sitt.
 4. Já, þetta gæti verið samkomulagsatriði, en hins vegar eru takmörk fyrir þessu á skrifstofunni, þ.e.a.s. að ekki sé um of mikla röskun að ræða, en t.d. væri blómaskreyting oft viðeigandi. Hins vegar mætti segja að embættið gæti ekki samþykkt að taka þá í athöfnum, t.a.m. í öðrum húsakynnum ef hún væri á einhvern hátt ósæmileg eða fáránleg.
 5. Eins og húsrúm leyfir.
 6. Við notumst við sama texta og víðast hvar er notaður.
 7. Það yrði að athugast í hverju tilfelli.

26.09.2000
Karl Gauti Hjaltason

Sýslumaðurinn í Vík í Mýrdal

 1. Sýslumaður eða löglærður fulltrúi hans framkvæmir hjónavígslur.
 2. Á skrifstofutíma á virkum dögum, ef ekki er um annað beðið. Ef beðið er um annan tíma, t.d., kvöld eða helgar hef ég orðið við því ef ég hef ekki verið lofaður í annað.
 3. Nei, ég hef t.d. bæði gift í heimahúsum og úti í náttúrunni.
 4. Ef fólk vill einfalda athöfn á skrifstofu minni, er ég í venjulegum einkennisbúningi. Ef fólk vill hátíðlega athöfn er ég í hátíðabúning. Ég læt fólk alfarið ráða því sjálft hvernig umgjörð það vill hafa, þmt. ræður og ljóð.
 5. Eins margir og fólk vill, en fer að sjálfsögðu eftir húsplássi.
 6. Staðlaður texti.
 7. Nei, en vinir og ættingar geta að sjálfsögðu flutt ávörp oþh, eftir vígslu.

14.07.2000
Sigurður Gunnarsson

Nánari upplýsingar um veraldlegar og húmanískar giftingar:
Nánari upplýsingar veraldlegar athafnir á vefsíðu Siðmenntar:
Fræðsluefni (PDF):
Síðast uppfært 13. May 2013

Login