Almennt um borgaralega fermingu

Skráning

Skráning í borgaralega fermingu fer fram á sumrin og haustin ár hvert. Kynningarbæklingar eru sendir út í lok júlí til fjölskyldna sem eiga börn á fermingaraldri, ef forráðamenn eru ekki með bannmerki við slíkum sendingum í þjóðskrá. Auglýsingar eru birtar í dagblöðum á haustmánuðum bæði til að auglýsa skráningu og hinn árlega kynningarfund. Sá fundur er haldinn í nóvember.

Skráningarfrestur

Æskilegast er að skrá sig fyrir 15. nóvember og skráningarfrestur rennur út 30. nóvember ár hvert.

Fyrstu dagana í desember fer fram mikil skipulagsvinna við að finna öllum stað í þeim hópi sem þeim hentar best og er reynt að fara eftir óskum þátttakanda eins mikið og hægt er.

Þó að formlegri skráningu sé lokið 30. nóvember er tekið við seinskráningum í byrjun desember en það er EKKI æskilegt þar sem skipulagsvinnu er þá lokið.  Seinskráningargjald er þá lagt við námskeiðsgjaldið og beiðandi getur ekki vænst þess það verði hægt að verða við óskum um hvaða hóp er hægt að skrá hann/hana í.  Óvíst er að hægt sé að taka við beiðnum um skráningu eftir miðjan desember en námskeiðin byrja venjulega í fyrstu heilu vikunni í janúar.  Greiða þarf þátttökugjaldið (námskeið og athöfn innifalin) fyrir byrjun kennslunnar.

Hvað er borgaraleg ferming?

Frá árinu 1989 hefur Siðmennt staðið fyrir borgaralegum fermingum. Borgaralega ferming er valkostur sem nýtur sífellt meiri vinsælda og stendur öllum unglingum til boða.

Íslenska orðið ferming er þýðing á latneska orðinu confirmare sem merkir m.a. að styðja og styrkja.    Ungmenni sem fermast borgaralega eru einmitt studd í því að vera heilsteyptir og ábyrgir borgarar í lýðræðislegu samfélagi en megintilgangur borgaralegrar fermingar er að efla heilbrigð og farsæl viðhorf unglinga til lífsins og kenna þeim að bera virðingu fyrir manninum, menningu hans og umhverfi.

Nánari umfjöllun um orðanotkun og hugtök í veraldlegum athöfnum Siðmenntar má sjá hér og frekari umfjöllun um orðið ferming má lesa um hér.

Fyrir hverja?

Með kirkjulegri fermingu staðfestir einstaklingurinn skírnarheit og játast kristinni trú. Mörg ungmenni á fermingaraldri eru ekki reiðubúin til að vinna trúarheit. Sum eru annarrar trúar eða trúa á guð á sinn hátt og önnur eru ekki trúuð. Fyrir þau ungmenni er borgaraleg ferming góður kostur. Allir sem áhuga hafa geta fermst borgaralega, jafnvel þótt þeir telji sig trúaða eða tilheyri trúfélagi. Fjölmargir þátttakendur með ólíkar lífsskoðanir fermast borgaralega ár hvert. Sumir tilheyra trúfélögum og aðrir ekki.

Námið

Fermingarbörnin sækja vandað námskeið þar sem þau læra ýmislegt sem er góður undirbúningur fyrir það að verða fullorðinn með öllum þeim réttindum og skyldum sem því fylgja. Ungmenni hvaðanæva að af landinu mynda nokkra fermingarhópa sem sækja undirbúningsnámskeið.

Á undirbúningsnámskeiðinu er það talinn kostur hversu ólíkir þátttakendur eru þegar kemur að lífsafstöðu þeirra og skoðunum, enda hefur það margoft sannast á námskeiðunum að þrátt fyrir ólíkan bakgrunn og mismunandi skoðanir hafa þátttakendur vel getað rökrætt og átt samskipti á jákvæðan og uppbyggilegan hátt.

Haldið er námskeið í Reykjavík sem inniheldur alls tólf kennslustundir, 80 mínútur í senn, einu sinni í viku og hefjast í byrjun janúar ár hvert. Fyrir börn af landsbyggðinni er boðið upp á námskeið sem stendur yfir í heila helgi í Reykjavík. Ef næg þátttaka er fyrir hendi á tilteknum stað á landsbyggðinni getur Siðmennt skipulagt námskeið á staðnum. Á árinu 2011 voru auk Reykjavíkur haldin námskeið á Selfossi og Akureyri (frá 2010).  Stefnt er að því að halda því áfram. Einnig er boðið upp á undirbúningsnámskeið í fjarnámi fyrir þátttakendur sem búa erlendis. Nokkrir þátttakendur hafa þegar tekið þátt með slíkum hætti undanfarin ár.

Umsjón kennslu

Kennslustjóri Siðmenntar, Jóhann Björnsson hefur umsjón með hópnum og kennir megin hluta námsefnisins en auk hans koma nokkrir gestafyrirlesarar í heimsókn ár hvert.

Námsefni

Á námskeiðinu eru umfjöllunarefnin fjölbreytt, t.d. samskipti unglinga og fullorðinna, fjölskylduna, mismunandi lífsviðhorf, frelsi, ábyrgð, hamingju, gleði, sorg, samskipti, mannréttindi og réttindi unglinga, jafnrétti, siðfræði, efahyggju og trúarheimspeki, baráttu fyrir friði, samskipti kynjanna, umhverfismál, fordóma, tilfinningar, sorgarviðbrögð og fleira. Foreldrum / forráðamönnum fermingarbarnanna er síðan boðið að koma í eina kennslustund undir lok námskeiðs.

Námsgögn eru afhent í byrjun námskeiðs. Nemendur þurfa að sækja allar kennslustundir og ekki er sjálfgefið að þeir sem sækja illa undirbúningsnámskeið taki þátt í fermingarathöfn. Engin formleg próf eru haldin og ekki gefnar einkunnir.

Kennsluaðferðir: Ýmsum kennsluaðferðum er beitt en þó fyrst og fremst stuttum fyrirlestrum, umræðum og hópavinnu svo dæmi séu nefnd.

Fermingarathöfnin

Hápunktur fermingarinnar er virðuleg lokaathöfn sem foreldrar barnanna skipuleggja og stjórna með hjálp Siðmenntar. Þar eru börnin sjálf í aðalhlutverkinu. Þau koma fram prúðbúin, flytja ávörp, ljóð og sögur, spila á hljóðfæri og dansa svo fátt eitt sé nefnt. Að lokum fá þau afhent skrautritað skjal til staðfestingar á því að þau hafi lokið fermingarnámskeiðinu.

Markmið fermingarnámskeiðsins

  • Að nemendur vinni með lífsviðhorf, viðhorfin til sjálfra sín og annars fólks. Viðhorf og afstaða skipta miklu um það hvernig lífi fólk lifir, hvernig því líður í daglegu amstri og hvernig lífsstíl það temur sér. Þess vegna er brýnt að rækta afstöðu sína til lífsins þegar á unglingsárum.
  • Að nemendur öðlist skilning á mikilvægi gagnrýninnar hugsunar.
  • Að nemendur læri á eigin tilfinningar, jafnt gleði sem sorg. Þeir búi sig jafnt undir að njóta gleðistunda og mæta áföllum, stórum og smáum.
  • Að nemendur læri að treysta eigin dómgreind, bera ábyrgð á lífi sínu og taka ábyrga afstöðu. Þeir skilji nauðsyn þess að þykja vænt um sjálfa sig og hugsa vel um bæði líkama og hug.
  • Að nemendur læri að þekkja hvatir sínar og þrár og að virkja þær í stað þess að láta stjórnast af þeim í blindni. Þeir temji sér m.a. þá afstöðu að sækjast ekki eftir því sem ekki fæst.
  • Að nemendur þjálfist í samskiptum við félaga sína og fjölskyldu. Þeir læri að greina tvöföld skilaboð og keppist við að láta orð og athöfn fara saman, að standa við orð sín og hvetja aðra til hins sama.
  • Að nemendur öðlist þekkingu á ýmsum réttindum og skyldum í samfélaginu. Dæmi: almenn mannréttindi, réttindi barna, ökuréttindi, kosningaréttur, reglur um útivist, kynlíf, áfengi og tóbak.
  • Að nemendur læri að líta á sjálfa sig sem hluta af heild; sem hluta af hópnum, þjóðinni, mannkyninu, lífríkinu, jörðinni og óravíðum alheimi. Í því felst m.a. friðsamlegri sambúð fólks og þjóða og umhverfisvernd, jafnt í nánasta umhverfi sem heiminum öllum.
  • Að nemendum verði ljóst mikilvægi þess að þekkja ólík trúarbrögð og veraldlegar lífsskoðanir til að skilja hugsanir og gerðir fólks og virða þá sem eru frábrugðnir þeim sjálfum.

Kynning, skráning og skipan námshópa

Í lok sumars ár hvert eru fermingarnámskeið vetrarins kynnt. Auk kynningar á vefsíðum Siðmenntar og í dagblöðum er forráðamönnum ungmenna á fermingaraldri sendur kynningabæklingur. Bæklingurinn berst þó ekki til þeirra sem hafa látið taka sig út af póstskrá sem gefin er út af Hagstofu Íslands. Mögulegt er að óska eftir bæklingi með því að hafa samband við stjórnarmenn eða kennslustjóra Siðmenntar. Bæklinginn er hægt að niðurhala hér á pdf-formi.

Í kynningarbæklingnum er auglýstur umsóknarfrestur og kynningarfundur fyrir ungmenni og foreldra sem haldinn er rétt áður en fresturinn er úti.

Kennslustjóri Siðmenntar

Jóhann Björnsson, MA í heimspeki og kennari, hefur umsjón með fermingarnámskeiðum Siðmenntar og hefur kennt á þeim frá árinu 1997. Hann hefur meðal annars fengist við að þróa námsefni sem ætlað er að stuðla að frekari siðferðisþroska ungs fólks. Hægt er að senda Jóhanni póst á johann@sidmennt.is eða hringja í síma 5530877.

3-5 gestakennarar kenna á námskeiðum Siðmenntar ár hvert.

Login