Spurt og svarað um trúleysi

Þetta er þýðing á „atheism FAQ“ sem fylgir og er viðhaldið af fréttagrúppunni alt.atheism á usenetinu.

Trúleysi einkennist einkum af skorti á trú á tilveru guða. Þessi skortur á trú er yfirleitt til kominn vegna þess að viðkomandi hefur meðvitað valið það eða vegna þess að viðkomandi hefur það hreinlega ekki í sér að trúa kennisetningum trúarbragða sem bókstaflega tekið eru jú ansi ótrúlegar. Þessi skortur á trú á þó ekki rætur að rekja til vanþekkingar á kenningum trúarbragðanna.

Suma trúleysingja skortir ekki aðeins trú á guði heldur eru þeir þess fullvissir að ákveðnir guðir, eða allir guðir, séu ekki til. Að vera laus við trú á guð er oft nefnt „veikt trúleysi“. Að vera þess fullviss að guðir séu ekki (eða geti ekki verið) til er þekkt sem „sterkt trúleysi“.

Vegna þess fólks sem aldrei hefur þekkt hugtakið „guð“: Það er nokkuð umdeilt atriði hvort þetta fólk beri að skilgreina sem „trúleysingja“. En þar sem nokkuð ólíklegt má teljast að þú hafir nokkru sinni hitt einhvern sem aldrei hefur heyrt um trúarbrögð er þetta ekki mjög mikilvægt…

Það sem er þó mikilvægt er að gera sér grein fyrir þeim mun sem er á milli afstöðu „veiks trúleysis“ og „sterks trúleysis“. „Veikt trúleysi“ er einföld vantrú, vantrú á tilveru guðs. „Sterkt trúleysi“ er sú einarða afstaða að guð sé ekki til. Ekki falla í þá gildru að halda að allir trúleysingjar séu „sterkir trúleysingjar“. Það er eðlismunur á „veiku“ og „sterku“ afstöðunni, ekki bara stigsmunur.

Sumir trúleysingjar eru fullvissir um að engir guðir séu til; aðrir takmarka trúleysi sitt við ákveðna guði eins og guð kristinna manna frekar en að neita öllu.

1. „En er skortur á trú á guð ekki bara það sama og að trúa að hann sé ekki til?“
Alls ekki. Að hafa ekki trú á ákveðinni staðhæfingu þýðir að maður trúir ekki að hún sé sönn. Að trúa ekki að eitthvað sé satt er ekki það sama og að trúa að það sé ósatt; maður gæti einfaldlega ekki vitað hvort það sé satt eða ósatt. Þá erum við eiginlega komin að „agnostík“.

2. „Hvað er þá agnostík“?
Það var prófessor T.H. Huxley sem fyrstur notaði orðið „agnostík“ á fundi í Metaphysical Society árið 1876. Hann skilgreindi agnostíker sem einhvern sem hafnar bæði („sterku“) trúleysi og trú, og sem trúir því að spurningunni um tilveru æðri máttarvalda sé og verði alltaf ósvarað. Það má einnig skilgreina það sem svo að agnostíker sé sá sem trúir því að við vitum ekki og getum ekki vitað hvort guð sé til.Seinna hefur orðið agnostíker einnig verið notað til að lýsa þeim sem trúa ekki endilega að ekki sé hægt að fá svar við spurningunni heldur telja frekar að sannanir með eða á móti tilveru guðs séu ófullnægjandi og geta því ekki tekið afstöðu til málsins.

Til þess að takmarka þann rugling sem getur hlotist af notkun orðsins agnostík er mælt með því að sé upprunalega skilgreiningin notuð að þá sé meint „ströng agnostík“ en „reynslufræðileg agnostík“ í síðara tilfellinu.

Orð eru tvíræð og tungan ónákvæm. Ekki gera ráð fyrir að þú getir skilið heimspekilega afstöðu einhvers bara út frá því hvort hann/hún skilgreinir sig sem trúleysingja eða agnostíker. Til dæmis nota margir agnostík í þeim skilningi sem við hér skilgreinum sem „veikt trúleysi“ og nota orðið „trúleysi“ þegar þeir eru í raun að tala um „sterkt trúleysi“.

Varaðu þig líka á því að þar sem orðið „trúleysingi“ er svo margþætt er mjög erfitt að alhæfa um trúleysingja. Það eina sem í raun er hægt að segja um trúleysingja er að hann trúi ekki á guð. Til dæmis er það alls ekki svo að allir trúleysingjar telji vísindin vera bestu leiðina til þess að skilja alheiminn.

3. „Hvað með hugtakið „frí-þenkjari“?, “ Hvað þýðir það?““
Frí-þenkjari er sá sem hugsar frjálst — sá sem er þess albúinn að vega og meta alla möguleika og sem vegur og metur réttmæti eða óréttmæti hugmynda með því að beita raunsærri rökhugsun þar sem ákveðnum fastmótuðum reglum er fylgt eins og t.a.m. vísindalegum aðferðum.

4. „Hver er þá hin heimspekilega réttlæting eða grundvöllur trúleysis?“
Það eru til margar heimspekilegar réttlætingar á trúleysi. Til þess að komast að því hvers vegna ákveðin manneskja er trúleysingi þá er best að spyrja hana sjálfa. Mörgum trúleysingjum finnst að guðshugmyndin eins og hún er sett fram af stærstu trúarhreyfingunum sé í eðli sínu mótsagnakennd og að það sé rökfræðilega ómögulegt að slíkur guð gæti verið til. Aðrir eru trúleysingjar vegna efahyggju þar sem þeir sjá ekkert til marks um að guð sé til.Það er til fjöldi bóka þar sem hin heimspekilega réttlæting trúleysis er lögð fram svo sem bók Martins „Atheism: A Philosophical Justification“ og bók Smiths „Atheism: The Case Against God“. Nokkrar slíkar bækur má finna á listanum „Atheist Media“.

Auðvitað er svo til fólk sem er trúleysingjar án þess að hafa nokkur sérstök rök til að styðja trúleysi sitt. Sumum finnst það einfaldlega þægilegasta og eðlilegasta afstaðan.

5. „En er ekki ómögulegt að sanna að eitthvað sé ekki til?“
Það er margt sem mælir á móti því. Til dæmis er mjög auðvelt að sanna að ekki sé til prímtala sem er stærri en allar aðrar prímtölur. Auðvitað er þar um að ræða vel skilgreindan hlut sem fellur undir vel skilgreindar reglur. Það má deila um hvort guðir eða alheimar séu jafn vel skilgreindirEf við gefum okkur samt sem áður að það sé kannski ekki mögulegt að afsanna tilveru guðs að þá eru samt til nokkuð góð rök fyrir því að gefa sér það að guð sé ekki til. Ef við gefum okkur það að eitthvað sé ekki til þá er alltaf hægt að sýna fram á að það sé rangt ef við finnum bara eitt gagndæmi.

Ef við gerum á hinn bóginn ráð fyrir að eitthvað sé til og ef segja má að ekki sé hægt að afsanna tilvist þess að þá gæti það þurft tæmandi leit á öllum mögulegum stöðum þar sem slíkt gæti verið að finna til þess að sýna fram á að það sé ekki þar. Slík tæmandi leit er oft ópraktísk eða ómöguleg. Slíkt vandamál er ekki til staðar með stærstu prímtölurnar vegna þess að við getum sannað að þær séu ekki til.

Þess vegna er það almennt viðurkennt að við gerum ráð fyrir að hlutir séu ekki til nema að við höfum vísbendingar um tilveru þeirra. Jafnvel trúaðir fylgja þessari reglu að mestu leyti; þeir trúa t.d. ekki á einhyrninga jafnvel þótt þeir geti ekki alveg sannað að einhyrningar séu hvergi til.

Ekki er hægt að láta reyna á sannleiksgildi þeirrar staðhæfingar að guð sé til. Við getum ekki leitað á öllum þeim stöðum þar sem guð gæti verið að finna til þess að sanna að hann finnist hvergi. Vantrúa trúleysingi gefur sér því það að guð sé ekki til þar sem það er staðhæfing sem við getum látið reyna á.

Þeir sem teljast „sterkir trúleysingjar“ segja venjulega ekki að engin tegund guðs sé til; heldur afmarka þeir staðhæfingar sínar svo þær taki yfir ýmsar guðshugmyndir eins og þeim er lýst af fylgjendum hinna ýmsu trúarbragða. Þótt kannski sé ekki hægt að sanna endanlega að enginn guð sé til þá er þó mögulegt að sanna að guð eins og honum er lýst af ákveðinni trúarbók sé ekki til. Það er jafnvel hægt að sanna að enginn guð trúarbragða nútímans geti verið til.

Í raun er vissan um að enginn guð sé til eins og honum er lýst af nokkrum trúarbrögðum mjög nálægt því að jafngilda því að segja að enginn guð sé til. Samt er það nægilega ólíkt til þess að ekki sé hægt að beita gagnrökum sem byggja á því að ómögulegt sé að afsanna allar tegundir guða.

6. „En ef guð er bara þannig að það er ekki hægt að verða var við hann?“
Ef guð á einhverskonar samskipti við veröld okkar hlýtur að vera hægt að mæla afleiðingu þeirra samskipta. Því hlýtur að vera hægt að verða var við hann vegna samskipta hans.

Ef guð er í grundvallaratriðum þannig að ekki er hægt að verða var við hann hlýtur það að vera svo að hann hafi ekki afskipti af veröld okkar á neinn hátt. Margir trúleysingjar myndu halda því fram að ef guð hefur engin samskipti við veröld okkar að þá skipti engu máli hvort hann er til eða ekki.

Ef trúa skal Biblíunni urðu Ísraelsmenn mjög auðveldlega varir við guð. Ættum við þá ekki líka að verða vör við hann í dag? Af hverju hefur staðan breyst?

Takið eftir að ég er ekki að krefjast þess að guð eigi einhver samskipti sem hægt sé að sanna á efnislegan og vísindalegan hátt. Hugsanlega myndi mér hlotnast einhver opinberun, einhverskonar bein upplifun af guði. Slík upplifun væri ólýsanleg og ekki hægt að staðfesta hana á vísindalegan hátt — en samt væri það ansi góð sönnun.

En hvort sem það gerist með beinni opinberun eða með því að verða þess var á annan hátt hlýtur samt að vera hægt að sjá afleiðingar nærveru guðs; hvernig ætti ég að öðrum kosti að greina hann frá öllum hinum hlutunum sem ekki eru til?

7. „Guð er einstakur. Hann er hin æðsta vera, skapari heimsins. Samkvæmt skilgreiningunni hlýtur hann því að vera til.“
Hlutir verða ekki til bara af því að þeir hafa verið skilgreindir þannig. Við þekkjum öll skilgreininguna á því hvað jólasveinninn er — hvernig hann lítur út, hvað hann gerir, hvar hann á heima, hvað hreindýrin hans heita o.s.frv. En það þýðir samt ekki að jólasveinninn sé til.

8. „En ef ég gæti nú rökfræðilega sannað að guð sé til?“
Fyrst, áður en þú kemur með sönnun þína verður þú að koma með hreina og nákvæma skilgreiningu á því hvað þú meinar nákvæmlega með orðinu „guð“. Rökfræðileg sönnun krefst nákvæmrar skilgreiningar á því sem þú ætlar að reyna að sanna.

9. „En allir vita hvað meint er með orðinu „guð““
Mismunandi trúarbrögð hafa mjög misjafnar hugmyndir um það hvernig „guð“ er; þau greinir jafnvel á í grundvallaratriðum eins og þeim hve margir guðirnir eru, hvort þeir séu kvennkyns eða karlkyns, o.s.frv. Hugmynd trúleysingja um orðið „guð“ gæti verið allt önnur en það sem þú heldur.

10. „Því virðist mér sem að ekkert muni nokkru sinni sannfæra þig um að guð sé til“
Hrein og klár skilgreining á orðinu „guð“ ásamt slatta af hlutlægum og óvéfengjanlegum vísbendingum myndi vera nóg til þess að sannfæra marga trúleysingja.

Sannanirnar yrðu þó að vera hlutlægar, frásagnir af trúarupplifunum annars fólks duga ekki. Og óvéfengjanlegar sannanir eru nauðsynlegar því tilvera guðs er svo ótrúleg fullyrðing — ótrúlegar fullyrðingar krefjast ótrúlega góðra sannanna.

11. „OK, þú heldur að trúleysi sé heimspekilega réttlætanlegt en er þetta ekki bara eins og hver önnur trú hjá þér?“
Algengur leikur í heimspekilegum umræðum er „endurskilgreiningar leikurinn“. Kaldhæðnisleg lýsing á honum er svona:

A byrjar á því að varpa fram vafasamri staðhæfingu. Þegar B bendir honum á að það geti ekki verið rétt fer A smátt og smátt að endurskilgreina orðin sem hann notaði í staðhæfingu sinni til þess að nálgast eitthvað sem B væri tilbúinn að samþykkja. Þá skrifar hann niður staðhæfinguna og staðfestir að B hafi samþykkt hana og heldur svo áfram. Loks notar A staðhæfinguna sem „staðreynd sem menn eru sammála um“ en notar nú frumskilgreiningu sína á orðum staðhæfingarinnar frekar heldur en hinar skrýtnu endurskilgreiningar sem nauðsynlegar voru til þess að fá B til að samþykkja hana.

B lætur þá oftast tilleiðast til þess að sýnast ekki vera ósamkvæmur sjálfum sér..

Ástæða þess að ég fór svona út fyrir umræðuefnið er sú að svarið við spurningunni „Er trúleysi ekki bara eins og hver önnur trú?“ er algerlega háð því hvað átt er við með „trú“. Það sem yfirleitt einkennir „trú“ er sannfæring fyrir því að til sé ofurmannlegt stjórnandi vald — einkum bundið einhverskonar guði — auk trúarlífs og tilbeiðslu.

(Það er þess virði að benda á í framhjáhlaupi að sumar tegundir Búddisma falla ekki undir þessa skilgreiningu á „trú“)

Trúleysi er svo sannarlega ekki neinskonar sannfæring um tilveru yfirmannlegs máttar, né er hægt að flokka það sem tilbeiðslu. Það að víkka út hugtakið „trú“ svo mikið að það taki til trúleysis veldur því að margt annað sem telst til mannlegrar hegðunar myndi skyndilega flokkast sem „trú“ — svo sem vísindi, stjórnmál og það að horfa á sjónvarp.

12. „OK, það er kannski ekki „trú“ í strangasta skilningi orðsins. En er nú ekki bara trú á trúleysi (eða vísindi) einskonar trúaratriði svipað og í trúarbrögðum?“
Í fyrsta lagi er það alls ekki ljóst að efasemdir trúleysis séu eitthvað sem maður raunverulega trúir á.

Í öðru lagi þá er nauðsynlegt að tileinka sér nokkrar grunnhugmyndir eða forsendur til þess að eitthvert vit sé í þeim skynupplýsingum sem við fáum. Flestir trúleysingjar reyna að tileinka sér sem fæstar þessara grunnhugmynda og jafnvel þær eru véfengdar ef reynslan sýnir okkur að þær séu vafasamar.

Vísindin eru með nokkrar grunnforsendur. Til dæmis er almennt gert ráð fyrir því að lögmál eðlisfræðinnar séu þau sömu fyrir alla allsstaðar. Þannig eru líkar þær grunnforsendur sem trúlausir gefa sér. Ef slíkar grunnhugmyndir eru kallaðar „trúaratriði“ þá er nú bara flest af því sem við vitum byggt á slíkum „trúaratriðum“ og orðið tapar merkingu sinni.

Hugtakið trú er líka notað sem tilvísun í fullvissu um eitthvað án þess að styðjast við nokkur sönnunargögn. Efasemdar-trúleysi passar alls ekki við þá skilgreiningu þar sem það hefur engar kennisetningar. Sterkt trúleysi er nær þessu en passar samt ekki þar sem jafnvel hinn kreddufyllsti trúleysingi vísar jafnan í tilraunagögn (eða skort á þeim) þegar hann fullyrðir að guð sé ekki til.

13. „Ef trúleysi er ekki trúarlegs eðlis þá er það þó örugglega and-trúarlegt?“
Hún er óheppileg þessi tilhneiging mannsins að stimpla alla annað hvort „með“ eða „á móti“, „vin“ eða „óvin“. Sannleikurinn er ekki svona klipptur og skorinn.Trúleysi er sú afstaða sem er rökfræðileg andstæða trúar; í þeim skilningi má segja að það sé „and-trúarlegt“. Þegar trúaðir, hins vegar, tala um trúlausa þannig að þeir séu „and-trúarlegir“ þá eiga þeir oftast við það að með trúlausum búi einhvers konar óbeit eða hatur á trúuðu fólki.

Þessi flokkun á trúleysingjum sem óvinveittum trúarbrögðum er mjög ósanngjörn. Viðhorf trúlausra til trúaðra ná yfir mjög vítt svið.

Flestir trúlausir hafa afstöðuna „lifðu og leyfðu öðrum að lifa“. Ef þeir eru ekki spurðir minnast þeir oftast ekki á trúleysi sitt nema við nána vini. Auðvitað má vera að þetta sé vegna þess að í mörgum löndum er trúleysi ekki „félagslega viðurkennt“.

Til eru trúleysingjar sem eru mjög and-trúarlegir og sem reyna jafnvel að tala um fyrir öðrum ef þeir geta. Sögulega hefur slíkum and-trúarlegum trúleysingjum orðið lítið ágengt í þjóðfélögum utan Austantjaldslandanna.

(Ef við förum aðeins útfyrir efnið þá var það þannig í Sovétríkjunum í upphafi að stefnan snerist um aðskilnað ríkis og kirkju eins og í USA. Sovéskir borgarar voru löglega frjálsir að því að tilbiðja svo sem þeim sýndist. „Ríkis trúleysi“ var fyrst sett á laggirnar þegar Stalín komst til valda í Sovétríkjunum og reyndi að eyða kirkjunum til þess að ná fullkomnu valdi á almenningi.)

Sumir trúleysingjar hafa mjög hátt um sannfæringu sína en aðeins þar sem þeir sjá að trúarbrögð eru að skipta sér af málum sem þeim kemur ekki við — eins og stjórnun Bandaríkjanna. Slíkum einstaklingum er venjulega umhugað um að ríki og kirkja skuli áfram aðskilin.

14. „En ef þið leyfið ekki að trúarbrögðin komi að stjórnun ríkisins er það þá ekki bara það sama og ríkistrúleysi?“
Megininntak aðskilnaðar ríkis og kirkju er það að ríkið eigi ekki að setja í lög mál er snerta trúarsannfæringu. Það þýðir ekki aðeins að ríkið geti ekki haldið fram einni trú á kostnað annarrar, heldur einnig að það geti ekki haldið á lofti neinni sannfæringu sem er trúarlegs eðlis.Trúarbrögðin geta samt sem áður átt sér rödd í umræðum um veraldleg málefni. Til dæmis eru söguleg fordæmi þess að trúmenn séu ábyrgir fyrir því að hvatt sé til stjórnmálalegra breytinga.

Jafnvel í dag eru mörg þeirra samtaka sem berjast fyrir auknum útgjöldum til þróunarhjálpar grundvölluð sem trúarsamtök. Svo lengi sem þau berjast fyrir veraldlegum málefnum, og svo lengi sem þau mismuna ekki á grundvelli trúarbragða, eru flestir trúleysingjar nokkuð sáttir við það að þau hefji raust sína.

15. „Þú minnist á kristið fólk sem berst fyrir auknu fé til mannúðarmála erlendis. Hvað með trúlausa? Hvers vegna eru ekki til neinar hjálparstofnanir eða spítalar trúlausra? Eru trúlausir ekki á móti góðgerðarfélögum trúaðra?“
Það eru til mörg góðgerðarfélög sem ekki hafa nein trúarleg tengsl sem trúlausir geta stutt. Sumir trúleysingjar styðja einnig við góðgerðarfélög trúaðra vegna þess góða sem þau framkvæma. Sumir trúleysingjar stunda jafnvel sjálfboðaliðsstarf á vegum góðgerðarfélaga sem byggjast á trúarlegum grunni.Flestum trúleysingjum finnst sem ekki eigi að hrópa eitthvað um trúleysi í tengslum við góðgerðir. Fyrir þá er trúleysi einfalt og hversdagslegt mál eins og hjálparstarf. Mörgum finnst það annsi aumt og jafnvel sjálfsrembingslegt að nota einfalt góðgerðarstarf sem afsökun fyrir áróðri um ákveðnar trúarskoðanir.

Frá sjónarhóli trúleysingja er það furðuleg hugmynd að byggja spítala til þess að segja „Ég trúi ekki á guð“; það er ekki ósvipað því og að halda veislu til þess að segja „Ég á ekki afmæli í dag“. Hvers vegna allur þessi fyrirgangur? Trúleysi verður sjaldan nokkurskonar trúboð.

16. „Þú sagðir að trúleysi sé ekki and-trúarlegt. En er það þá kannski viðbrögð gegn uppeldinu, eins konar uppreisn?“
Kannski fyrir suma. En margir eiga foreldra sem reyna ekki að troða uppá þá trúarhugmyndum (eða trúleysishugmyndum) og margir þeirra kjósa að kalla sig trúleysingja.Án efa er það svo líka svo að margt trúað fólk kýs trú sem viðbrögð við uppeldi í trúleysi sem aðferð til þess að vera öðruvísi. Á hinn bóginn eru það svo margir sem kjósa að aðhyllast trúarbrögð til þess eins að uppfylla væntingar annarra.

Í það heila tekið getum við nú ekki ályktað of mikið um það hvort trúleysi eða trú séu viðbrögð eða bara til að standast væntingar þótt almennt hafi fólk þó tilhneigingu til þess að fylgja hópnum frekar en að framkvæma eða hugsa sjálfstætt.

17. „Að hvaða leyti eru trúlausir öðruvísi en trúað fólk?“
Þeir trúa ekki á guð. Það er allt og sumt.Trúlausir hlusta á þungarokk — jafnvel afturábak — eða kannski hlusta þeir frekar á Requiem Verdis, jafnvel þótt þeir kunni textann. Þeir klæðast kannski Hawai-skyrtum, kannski svörtum fötum, jafnvel klæðast þeir appelsínugulum kuflum. (Marga Búddista skortir trú á guð.) Sumir trúleysingjar ganga jafnvel um með Biblíuna — auðvitað til þess að gagnrýna hana!

Hver sem þú ert eru allar líkur á að þú hafir þegar hitt marga trúleysingja án þess að gera þér grein fyrir því. Trúleysingjar eru yfirleitt ósköp venjulegir í hegðun og útliti.

18. „Ósköp venjulegir? En eru trúlausir ekki siðferðislega veikari en trúað fólk?“
Það fer eftir ýmsu. Ef þú skilgreinir siðferði sem hlýðni við guð þá eru trúlausir auðvitað siðferðislega veikari þar sem þeir hlýða ekki neinum guði. En venjulega þegar rætt er um siðferði er verið að ræða um það sem er ásættanleg hegðun („rétt“) og óásættanleg hegðun („rangt“).Við mannfólkið erum félagsverur og til þess að ná hámarksárangri þurfum við á samstarfi að halda. Það er nógu góð ástæða til þess að fæla flesta trúlausa frá „and-félagslegri“ eða „ósiðferðilegri“ hegðun, bara vegna sjálfsbjargarviðleitni.

Margir trúlausir haga sér á „siðferðilegan“ hátt eða af „umhyggju“ við aðra einfaldlega vegna þess að þeir finna með sér meðfædda samhygð með öðru fólki. Og hvers vegna er þeim umhugað um hvað verður um aðra? Þeir vita það ekki, þeir bara eru þannig gerðir.

Auðvitað er til fólk sem hagar sér siðferðilega illa og reynir að nota trúleysi til þess að réttlæta hegðun sína. Hins vegar er alveg jafnmargt fólk sem hagar sér „siðferðilega illa“ og reynir síðan að nota trúarskoðanir til þess að réttlæta hegðun sína. Til dæmis:

„Hér er traustvekjandi setning sem allir ættu að geta samþykkt: Jesús Kristur kom í heiminn til þess að frelsa synduga…En einmitt þess vegna var mér sýnd miskunn…svo að Jesús Kristur gæti opinberað óendanlega þolinmæði sína sem fyrirmynd þeim sem myndu trúa á hann og öðlast eilíft líf. Til dýrðar hinum eilífa konungi, ódauðlegum, ósýnilegum, hinum eina sanna guði, að eilífu.“
Þessi tilvitnun hér að ofan er tekin úr yfirlýsingu Jeffrey Dahmer, hins óhugnanlega mannætu-raðmorðingja frá Milwaukee, Wisconsin, við réttarhöld hans 17. febrúar 1992. Svo virðist sem að á móti hverjum trúlausum raðmorðingja sé til trúaður raðmorðingi. En hvað um léttvægara siðferði?

Samvkæmt skoðanakönnun Roper Organization fór hegðan fólks hrakandi eftir að það hafði „frelsast“. Á meðan aðeins 4% aðspurðra sögðust hafa keyrt undir áhrifum áfengis áður en þeir „frelsuðust“ höfðu 12% gert það eftir frelsun. Á sama hátt höfðu 5% notað ólögleg fíkniefni fyrir frelsun en 9% á eftir. Tvö prósent viðurkenndu ólöglegt kynlíf fyrir frelsun en 5% á eftir.

[„Freethought Today“, September 1991, p. 12.]

Svo útlit er fyrir að trú hafi nú ekki neitt einkaleyfi á siðferðilegri hegðun.

Auðvitað er mörgum snúið til (og frá) kristinnar trúar á unglingsárunum og uppúr tvítugsaldri. Þetta er einnig sá aldur er fólk byrjar að drekka áfengi og fer að stunda kynlíf. Það má því vera að þessar tölur hér að ofan sýni ekki annað en það að kristindómur hefur ekki nein áhrif á siðferðilega hegðun eða ekki nægilega til að hafa þau áhrif að ósiðleg hegðun minnki.

19. „Er til eitthvað sem kalla mætti siðferi trúleysis?“
Ef þú átt við „Er til eitthvað sem kalla mætti siðferði fyrir trúleysingja?“ þá er svarið já, eins og það er útskýrt hér að ofan. Margir trúleysingjar hafa tileinkað sér siðferðishugmyndir sem eru a.m.k. jafn sterkar og þær sem trúaðir hafa.Ef þú átt við „Hefur trúleysi sínar sértöku siðferðisreglur?“, þá er svarið nei. Trúleysi, í sjálfu sér, segir ekki mikið til um það hvernig einstaklingur hagar sér. Margir trúlausir fylgja sömu „siðferðisreglum“ og hinir trúuðu en af öðrum ástæðum. Margir trúlausir líta á siðferði sem eitthvað sem mennirnir hafa skapað eftir því hvernig mennirnir sjálfir hafa viljað láta lífið ganga, frekar heldur en að líta á það sem reglugerð sem sett hefur verið af yfirnáttúrulegri veru.

20. „Eru þá trúleysingjar ekki bara trúaðir sem hafna guði?“
Samkvæmt skoðanakönnun Freedom From Religion Foundation völdu 90% trúlausra trúleysið vegna þess að trúarbrögð virkuðu ekki fyrir þá. Þeir höfðu komist að raun um að trúaratriðin voru í grundvallar ósamræmi við það sem þeir sáu í kringum sig.Trúlausir eru ekki vantrúa vegna vanþekkingar eða afneitunar; það er þeirra val að trúa ekki. Langflestir þeirra hafa varið miklum tíma í að fræðast um ein eða fleiri trúarbrögð, stundum þannig að þekking þeirra er mjög mikil. Þannig hafa þeir tekið vandaða og velígrundaða ákvörðun um að hafna trúarskoðunum.

Slík ákvörðun getur auðvitað verið óhjákvæmileg afleiðing sérstaks persónuleika einstaklingsins. Fyrir þann sem er efasemdarmaður í eðli sínu er ákvörðun um trúleysi oft sú eina sem hefur einhverja merkingu og því sú eina sem viðkomandi einstaklingur getur tekið af heiðarleika.

Orðið að „hafna“ getur haft merkinguna „samþykkja ekki sannleiksgildi“. Aðeins í þeirri merkingu hafna trúlausir til

Nánari upplýsingar um trúleysi og SAMT:
Fræðsluefni (PDF):

Login