Siðmennt

Málsvari manngildisstefnu og frjálsar hugsunar.

Siðmennt – félag siðrænna húmanista á Íslandi, var stofnað 1990. Félagið er málsvari manngildisstefnu (húmanisma) og frjálsrar hugsunar, óháð trúarsetningum, og stendur fyrir veraldlegum athöfnum.

Meira um Siðmennt

Það er mikilvægt að eiga val.

Frá árinu 1989 hefur Siðmennt staðið fyrir borgaralegum fermingum.

Mörg ungmenni á fermingaraldri eru ekki reiðubúin til að vinna trúarheit. Sum eru annarrar trúar eða trúa á guð á sinn hátt og önnur eru ekki trúuð. Fyrir þau ungmenni er borgaraleg ferming góður kostur.

Nánari upplýsingar um borgaralega fermingu

Fallegar veraldlegar eða húmanískar nafngjafarathafnir.

Siðmennt býður uppá uppá þjónustu athafnarstjóra við fallegar veraldlegar eða húmanískar nafngjafarathafnir til þess að gefa barni formlega nafn og fagna þeirri merku ákvörðun í lífi þess og fjölskyldunnar.

Meira um veraldlega nafngjöf

Siðmennt leiðir pör saman til giftingar óháð kynhneigð eða lífsskoðun.

Veraldleg/húmanísk gifting fer fram til að fagna því að par (óháð kynhneigð) vill opinbera heit sín til hvors annars á formlegan og hátíðlegan máta fyrir framan fjölskyldu sína og vini.

Nánar um veraldlega giftingu

Til að minnast látins ættingja eða vinar á virðulegan máta.

Veraldleg útför fer fram til að minnast á formlegan og virðulegan máta látins ættingja eða vinar rétt eins og þær trúarlegu, en munurinn er sá að í veraldlegri athöfn fer ekki fram lestur trúarlegra ritninga, bænalestur eða sálmasöngur.

Meira um veraldlega útför

Stjórnvöld eiga að vera hlutlaus og óháð trúarbrögðum.

Stjórnvöld eiga að tryggja frelsi einstaklinga og vernda rétt þeirra til að lifa samkvæmt þeim lífsskoðunum sem þeir sjálfir kjósa. Stjórnvöld eiga að vera hlutlaus, óháð trúarbrögðum og eiga ekki að hygla ákveðnum lífsskoðunum umfram önnur.

Meira um áherslur Siðmenntar í trúfrelsismálum

Taktu þátt í starfsemi Siðmenntar!

Siðmennt fagnar nýjum félögum. Til viðbótar við hinn félagslega ávinning að því að vera félagi í Siðmennt fá félagar afslátt af athafnaþjónustu félagsins.

Stjórn félagsins svarar öllum skriflegum erindum félagsmanna og aðstoðar eftir bestu getu og aðstöðu.

Hafðu samband

Nokkur dæmi

Nokkur dæmi um óviðeigandi áróður í skólum

•    [Barst Siðmennt 15. janúar 2007]
Ég hef lítillega fylgst með umræðunni um vinaleið í grunnskólum og tekið eftir að félagið Siðmennt lætur sig málið varða. Mig langar að deila með ykkur reynslu minni sem foreldri.

Vinaleið byrjaði í grunnskóla dóttur minnar núna í haust án þess að ég gæfi því nokkurn gaum. Í síðustu viku bryddaði dóttir mín upp á málefninu þar sem skólapresturinn hafði komið inn í bekkinn og rætt við krakkana. Samkvæmt dóttur minni talaði presturinn um ör og fékk krakkana til að sýna örin sem þau hafa fengið á líkamann. Síðan benti hann þeim á að þetta væru ör sem aldrei færu. Þá fór hann að ræða um ör á sálinni og sagði að örin á sálinni gætu farið ef krakkarnir kæmu að tala við sig.

Ég sem foreldri er mjög ósátt við þetta tilboð prestsins og þá aðallega framsetninguna. Presturinn opnar þarna mjög viðkvæma umræðu og virðist hafa lofað einhverju sem jaðrar við kraftaverk, það er að afmá ör af sálinni. Ég er ósammála nálgun prestsins. Dóttir mín varð fyrir erfiðu áfalli fyrir nokkrum árum og fékk góðan stuðning hjá fagaðila sem þá starfaði við skólann og einnig fagaðilum skólanum óviðkomandi. Þá var unnið með kvíða sem áfallið olli og reiði. Ég tel mikilvægt að barn sem verður fyrir áfalli læri að lifa með því. Það verður aldrei horft framhjá því að áföll móta okkur og hafa áhrif á hver við erum sem manneskjur. Ég hef sagt minni dóttur að örin verði ekki afmáð en okkur geti með tímanum farið að þykja vænt um örin og þá erfiðu reynslu sem olli þeim af því það er hluti af því hver við erum.

Mér skildist að vinaleið væri stuðningur en ekki meðferð. Ég veit ekki hvernig skólaprestur skilgreinir þessi tvö hugtök en mér finnst hann þarna vera að bjóða meðferð.

Nú vill svo til að dóttir mín þáði ekki tilboð skólaprests um viðtöl. Það er samt ekki erfitt að sjá fyrir sér að illa geti farið ef barn þiggur meðferð sem foreldri ber ekki traust til. Togstreitan sem þá gæti skapast milli foreldris og barns er engum til góðs. Því sem er ætlað að gera heilt er þá farið að skapa sundrung.

Með virðingu og vinsemd en einnig í trausti þess að nafnið mitt komi ekki fram þótt þetta viðhorf mitt til vinaleiðar megi birta.

———-

•    Ég var að horfa á Silfur Egils núna áðan [27. febrúar 2005] og ég verð að segja að ég var algerlega sammála fulltrúa ykkar í þeim þætti.

Ég tilheyri frekar fámennum trúarhóp í samanborði við hina Íslensku þjóðkirkju og hef því fengið að kynnast hvernig það er að hafa börn í skóla sem tilheyra minnihlutahóp. Það má vera að hér í Reykjavík sé þroski manna á þessu sviði lengra kominn en úti á landi þar sem ég bjó á meðan börnin mín voru í skóla, en það voru oft erfiðir tímar sem við áttum þegar við vorum að glíma við skólayfirvöld með sóknarprestinn í broddi fylkingar. Oftar en einu sinni fór Presturinn inn í tíma hjá syni okkar og hann var neyddur til að syngja lofgjörðarsálma um , þrí einann guð, þrátt fyrir að við vorum margbúin að benda á að slíkt kæmi ekki til greina með okkar börn. Þannig að þessi umræða er mjög nauðsynleg. Skólar eiga að vera hlutlausir gagnvart trúarbrögðum. Þar á að vera almenn trúarbragða fræðsla að mínu mati. Trúariðkun sína eiga menn að stunda með sínu trúfélagi utan veggja hinna almennu skóla. Skólarnir eru menntastofnun fyrir almenning í landi sem ríkir trúfrelsi og eiga algerlega að vera aðgreindir frá trúarbrögðunum, að mínu mati.

———-

•    Í Austurbæjarskóla árið 2004 hefur kennari nokkur hafið daginn í skólastofunni með bænastund. Foreldri gerði athugasemd við það að barnið þyrfti að sitja undir bænahaldinu og fékk þá það svar að barnið þyrfti ekkert að biðja. Jóhann Björnsson, kennari.

———-

•    Í desember 2004 þegar foreldri nemanda spurði í Hliðarskóla hvort nemendum væri skylt væri að fara í árlega kirkjuheimsókn skólans var svarið sem gefið var af starfsmanni skólans afdráttarlaust já. Foreldrið óskaði þá eftir að fá leyfi fyrir barnið sitt og var þá sagt að það væri ekki mögulegt því það væri skylda að fara í kirkju. Jóhann Björnsson, kennari.

———-

•    Á haustdögum 2004 fengu nemendur 8. bekkjar í Réttarholtsskóla stundatöflu þar sem fermingarfræðsla Bústaðasóknar var merkt inn á töfluna eins og hvert annað fag óháð því hvort nemendur ætluðu sér að fermast eða ekki. Einn umsjónarnemandi minn kom til mín og sagðist ekki ætla að fermast en spurði svo hvort hann fengi skróp ef hann mætti ekki í fermingarfræðsluna.

Ég sem grunnskólakennari geri athugasemd vegna þess að nemendum er ekki gerð grein fyrir því að í landinu ríkir trúfrelsi og hversvegna á að blanda fermingarfræðslu trúfélags inn í almenna stundatöflu? Jóhann Björnsson, kennari.

———-

•    Árið 2003 starfaði ég sem stuðningsfulltrúi í grunnskóla í Reykjavík. Tók ég eftir því að auglýsingar frá kristnum söfnuðum voru að finna víðs vegar á göngum skólans. Strangar reglur voru um hvað mátti auglýsa í skólanum. Félagasamtök máttu almennt ekki setja upp tilkynningar. Þeir einu sem virtust mega auglýsa voru íþróttafélög og kirkjur.

Í sama skóla var að finna innrammaðar bænir hengdar upp á vegg í mörgum kennslustofum og á skrifstofu skólans. Þetta þótti mér óeðlilegt enda vissi ég ekki að grunnskólinn væri kristilegur vinnustaður. Fjölmargir krakkar sem sóttu skólann voru ættaðir frá útlöndum og veit ég að þó nokkrir komu frá heimilum þar sem kristin trú var ekki iðkuð.

Verst þótti mér að einn kennari skólans hóf fyrstu kennslustund á hverjum einasta morgni á því að láta börnin fara með kristna bæn þar sem Jesú kristur var lofaður sem frelsari manna. Þetta þótti mér afar óeðlilegt og vakti máls á þessu við skólastjórann. Hann sagði mér að honum þætti ekkert eðlilegra en að láta börnin biðja til Jesú á morgnanna. Sjálfur hafi hann látið nemendur sína biðja þegar hann var kennari. Þegar ég spurði hann hvort honum þætti ekki verið að brjóta trúfrelsi þegar ríkisrekin skóli væri með slíkan trúaráróður sagði hann svo ekki vera. Hér væri ríkiskirkja og “Íslendingar kristin þjóð”. Hann sagði að “minnihlutin mætti ekki breyta þeirri staðreynd” að “við Íslendingar værum kristnir”.

———-

•    Ég á aðeins uppkomnar dætur en þær lentu á 9. áratugnum báðar í vandræði vegna hneykslunartals KENNARA á trúleysi þeirra, voru báðar skammaðar beint fyrir framan bekkinn fyrir að trúa ekki á guð. Önnur þeirra, sú skapfastari, var spurð 13 ára ásamt öðrum í bekknum hvort hún tryði ekki örugglega á guð og hún svaraði neitandi og fékk svívirðingar kennara fyrir vikið.

Í hitt skiptið gerðist atvik þegar yngri dóttir mín ákvað að taka þátt í fyrstu borgaralegu fermingunni. Þegar einn kennaranna frétti þetta, nb. það var ekki fyrrnefndur kennari né kristinfræðikennari, hélt sú langar tölur yfir bekknum um siðleysi trúleysis og borgaralegrar fermingar.

———-

•    Dóttir mín lenti í atviki sem átti sér stað í hittifyrra þegar hún var í 5. bekk í Snælandsskóla. Í einum kristinfræðitímanum bað kennarinn alla sem tryðu á Guð að rétta upp hönd! Dóttir mín þorði ekki annað en rétta upp hönd eins og allir hinir. Ég velti því fyrir mér hvað ætli hefði gerst ef hún hefði ekki gert það — ætli kennarinn hefði farið að láta hana standa fyrir máli sínu fyrir framan alla krakkana?

Ef þetta er ekki skoðanakúgun þá veit ég ekki hvað er það. Hvernig getur manneskja með kennaramenntun, sem hefur væntanlega lært heilmikið um uppeldisfræði og annað slíkt, látið sér detta í hug að beita 10 ára börn þrýstingi á þennan hátt? Hefur hún virkilega aldrei heyrt talað um hópþrýsting? Og hvað kemur henni það við hverju krakkarnir trúa? Ætli hún segi líka í samfélagsfræðitímum: ,,Rétt upp hönd, allir sem ætla að kjósa Sjálfstæðisflokkinn þegar þeir verða stórir“?

———-

•    Það var ekki laust við að ég héldi að um grín væri að ræða þegar kom tilkynning til foreldra að nú ætti að leggja niður kennslu í TVO HEILA KENNSLUDAGA hjá barni mínu því nú ættu að vera „bænadagar“! En kaldur raunveruleikinn var nú sá. Börnin áttu sumsé að verja tveimur heilum dögum í að skrifa og læra bænir. Þau áttu líka að myndskreyta bænirnar og fara í kirkjuheimsókn. Ég var orðlaus. Þarna var illilega hulunni svipt af hinni ætluðu „hlutlausu“ trúarkennslu. Þegar ég baðst undan þessari fáránlegu áætlun þeirra var mér sagt að ég yrði þá að fjarlægja barnið úr skólanum og hafa það heima í tvo daga! Enn á ný var mér gert að taka frí frá vinnu, setja starfsöryggi mitt í hættu og skerða tekjur fjölskyldunnar vegna þess að við aðhyllumst ekki yfirnáttúrutrú.

Á 21. öld í vestrænu samfélagi er þetta hreinlega ótækt en samt varð ég að gefa eftir og láta barnið sitja undir þessu. Var mér lofað að mitt barn yrði undanþegið því að læra utanbókar bænir og að það þyrfti ekki sjálft að semja bæn heldur mætti skrifa upp eftir öðrum (mig minnir að barnið mitt hafi svo teiknað mynd af jólasveini í stað Jesúmyndar, kannski ekki svo vitlaust!). Mikill höfðingsskapur var það að trúlaust barnið þyrfti ekki að læra bænir utanbókar. Reyndar var ég ekki einn um að finnast þetta stórfurðulegt og allsendis óðeðlilegt því málið komst í fréttir Stöðvar 2. Bænadagar hafa ekki verið endurteknir eftir þetta.

———-

•    Börnin fengu það verkefni að skrifa bænir til guðs í réttritunartíma. Var þetta sérstakt verkefni tengt bókaútgáfu. Allir voru sendir heim með bréf sem foreldrar voru látnir undirrita ef þeir samþykktu þessar sérstöku „réttritunaræfingar“. Ekki er hægt að bjóða barninu sínu uppá það að ganga útúr réttritunartíma af trúarástæðum án þess að það verði fyrir stríðni. Enn á ný er maður í raun kúgaður til að samþykkja ferli sem er þvert gegn samvisku manns.

———-

•    Prestur mætti í leikskóla barna minna og predikaði yfir þeim. Starfsfólk þessa sama leikskóla var alfarið á móti því að bólusetning færi fram í skólanum, þar sem það væri hlutverk foreldra að sjá um heilsugæslu fyrir börnin sín. Þannig ætti það líka að vera hlutverk foreldra að sjá um trúarlegt uppeldi barna sinna.

———-

•    Einu sinni til tvisvar á ári er farið með börnin í kirkju til messu. Allir bekkir, allir árgangar. Um þetta var tilkynnt og bað ég um að barnið mitt færi ekki. Var tekið nokkuð vel í það en þó sagt að slíkt væri kannski ekki hægt nema finnist starfsmaður sem vildi vera eftir til að gæta barnsins á meðan ALLIR færu til messu. Var mér gert ljóst að ég væri að skapa vesen. Ég varð að samþykkja það að hugsanlega myndi farið með barnið í messu (ég var ekki í aðstöðu til að taka mér frí frá vinnu). Þegar til kom gat hann fengið að vera einn eftir að spila tölvuleik á kennarastofunni með einhverjum gæslumanni.

———-

•    Kristinfræði var ekki á stundaskrá barns míns fyrsta veturinn. Í öðrum bekk kom kristinfræði á dagskrá. Þar sem ég óska þess að barnið mitt alist upp við lífssýn trúleysis þótti mér ótækt að það þyrfti að sitja trúfræðslutíma í kristni. Hafði ég því samband við skólastjórn til að spyrja hvort það væri eitthvað mál að undanbiðja barnið kristinfræði og hvort boðið væri uppá eitthvað annað í staðin fyrir trúlausu börnin eða þau sem væru annarar trúar en kristni. Ekki tókst að ná sambandi við skólastjóra en aðstoðarskólastjórinn varð fyrir svörum. Sagði hann að leyfilegt væri að taka börnin úr kristinfræði ef ég myndi óska þess skriflega við skólastjóra. Sagði hann að þar sem nær enginn bæði um undanþágu frá kristinfræði (með tónbrigðum var mér gert ljóst að þetta væri í meira lagi undarleg og óeðlileg fyrirspurn hjá mér) væri ekki boðið uppá neitt sérstakt fyrir þau börn sem ekki myndu fara í kristinfræði.

Taldi hann að hugsanlega hefðu eitt eða tvö börn Votta Jehóva verið tekin útúr kristinfræði en annars ræki hann ekki minni í að foreldrar höfnuðu slíkri kennslu. Gott og vel, ég sagði að samt myndi ég óska eftir að barnið slyppi við kristinfræði og að ég ætlaði að skrifa þetta bænaskjal til skólastjóra. Þá kom afar undarlegt svar frá aðstoðarskólastjóra. Hann sagði að ég gæti svo sem gert það en þar sem ekki væri nóg starfsfólk í skólanum yrði ég líkast til að koma og sækja barn mitt í tímann og taka það sjálfur út úr skólanum og gæta þess á meðan því það mætti ekki hanga eitt frammi á gangi! Með þessu lauk samtali okkar. Ég átti sumsé að taka mér frí frá vinnu í hvert sinn sem var kristinfræðitími hjá barninu mínu, keyra í skólann, banka uppá í stofunni og draga barnið fram á gang fyrir augum bekkjarsystkina! Ef þetta er ekki kúgun þá þekki ég ekki skilgreiningu þess hugtaks. Ég bar því málið undir barnið sjálft og leyfði barninu að velja. Auðvitað vildi barnið frekar láta sig hafa yfirnáttúrukennsluna heldur en að verða gert að athlægi í skólanum. Þetta særir.

———-

•    Í dagvistargæslu eftir að skóladegi lauk var farið með börnin að hitta prest í Neskirkju á HVERJUM EINASTA MÁNUDEGI! Um þetta trúarskólastarf var foreldrum barna í daggæslu ekki tilkynnt. Það var ekki fyrr en barnið sjálft hafði orð á því, að fyrra bragði, að ég komst að því að börnin færu einu sinni í viku í kirkju! Ég varð afar sár og reiður þar sem ég vil ala barn mitt upp við lífssýn trúleysis og þarna er skólinn að ganga þvert gegn þeim vilja foreldris fyrir aftan bak hans. Ég mótmælti og bannaði að barnið færi í þessar kirkjuferðir. Var tekið nokkuð vel í þetta og lofað að foreldrar myndu látnir vita í framtíðinni og beðnir um samþykki.

———-

•    Fyrsta kennslustundin í siðfræði (í framhaldsskóla) byrjaði á spurningunni: Hvernig varð heimurinn til? Því var svarað strax af kennaranum sjálfum að Guð hefði skapað heiminn og allt sem tilheyrir því. Svo var skellt upp glæru með beinum tilvitnunum úr biblíunni sem allir þurftu að skrifa upp orðrétt. Það var um hvernig manneskjan varð til, eins og við vitum vel var það Guð sem mótaði leir og blés svo lífi í leirinn!Leirinn með útöndun Guðs varð að manni, Adam. (halló!! hvar er munnurinn á Guði? Er hann með líkama?) Eftir einhvern tíma leiddist síðan Adam í Eden, þannig að Guð skapaði fullt af leikfélögum (dýrum) handa honum. En samt leiddist honum e-ð og var svo eirðarlaus. Þá greip Guð til þess ráðs að taka eitt rifbein úr Adam og móta leir utan um beinið og blása svo aftur lífi í leirinn og úr því varð kona! Eva. Þá voru allir glaðir! Ég rétti upp hendi og spurði hvort kennarinn hefði heyrt um þróunarkenninguna? ,,Það er ekki sannleikurinn” var svarið sem ég fékk.

———-

•    Um miðja haustönn tók prestlærði siðfræði kennarinn minn upp á því að biðja alla um að rétta upp hendi sem ættu biblíu. Það vakti mikla undrun kennarans að ekki ættu allir eina slíka. Ég spurði af hverju honum þætti það vera sjálfsagður hlutur. Hann var ekki ánægður með allar þessar öðruvísi spurningar og athugasemdir. Hann hafði greinilega haldið fyrirfram að allir væru kristnir eins og hann sjálfur. Stuttu eftir þetta var sagt ,, Þið eruð AUÐVITAÐ öll fermd, er það ekki?“ Aftur var ég ein um að svara ,,Ó nei“. Ég hélt að kennarinn minn myndi hníga niður hann var svo hneykslaður. Þá byrjaði ballið. Hann hafði ótal margar spurningar og reyndar vildi oft ekki bíða eftir svari, þangað til ég sagðist hafa fermst borgaralega. ,,það er ekki ferming“ voru viðbrögð hans og eftir það þagnaði hann loksins þannig að ég gat frætt hann um að Borgaraleg ferming væri víst ferming. Ég sagði honum frá uppruna orðsins og um kennsluna sem fram fer í námskeiðinu og alla kosti þess.

Afmælishátíð Siðmenntar

Skráning á afmælishátíð Siðmenntar

Að tilefni 25 ára afmælis Siðmenntar verður sérstök hátíðardagskrá laugardaginn 3. október kl 20-23 í Salnum í Kópavogi.

Felix Bergsson stýrir hátíðinni. Boðið verður upp á tónlist og aðra skemmtun.

Í Salnum eru sæti fyrir tæplega 300 manns og eru félagsmenn hvattir til að fagna saman og er aðgangur ókeypis.

Þar sem það er takmarkaður sætafjöldi eru félagsmenn hvattir til að skrá sig á hátíðina sem fyrst.

Skráðu þig á hátíðina hér

Hafðu samband

Hafðu samband

Viltu gerast félagi í Siðmennt?

Siðmennt fagnar nýjum félögum. Skráðu þig í félagið ef þú vilt styðja eða taka þátt í starfsemi Siðmenntar

Skráðu þig í Siðmennt

Sendu okkur tölvupóst

Borgaraleg ferming

Skráning í BF

Login