Jafnrétti lífsskoðunarfélaga

Baráttan fyrir jafnrétti lífsskoðunarfélaga

Siðmennt sótti tvisvar sinnum um á árunum 2002 til 2005 að vera skráð sem trúfélag á grundvelli laga um skráð trúfélög í þeim tilgangi að njóta sömu þjónustu og réttinda sem trúfélög njóta hér á landi. Þessi réttindi fela m.a. í sér að þeir félagar í Siðmennt sem standa utan trúfélaga og borga árlega í gegnum skattkerfið svokölluð sóknargjöld (kr 8.640 árið 2006, kr 9.492 árið 2007) til ríkissjóðs (til Háskóla Íslands fyrir lagabreytingu 2009) geta látið upphæðina renna til Siðmenntar í staðinn.  Þau fela einnig í sér rétt til að gifta pör lagalega en í dag þurfa þau pör sem vilja fá húmaníska / veraldlega giftingu hjá Siðmennt að fara einnig til sýslumanns.

Sem dæmi má nefna að í byrjun árs 2011 voru 4.42% (14.091) Íslendinga skráðir utan trúfélaga og þar af voru 11.868 einstaklingar 18 ára eða eldri.  Þá er sá hópur sem er skráður í flokkinn önnur trúfélög og ótilgreind (ekki vitað hvar eiga að skrást) all stór eða 5.93% (18.869) þar af 14.846 manns 18 ára og eldri. Greiðsla sóknargjalda miðast við 16 ára og eldri en sá fjöldi er ekki gefinn upp á vefsíðu Hagstofunnar fyrir þessa tvo hópa því að nú fer féð til ríkissjóðs.

Er þetta fólk (28.945 manns) þá laust við að greiða til trúfélaga? Nei í raun ekki.  Ástæðan er sú að sóknargjöldin (og afleidd gjöld eins og jöfnunarsjóður sem renna einungis til Þjóðkirkjunnar) eru greidd til trúfélaganna óháð greiðslugetu þeirra sem í þau eru skráð.  Þannig greiðir ríkið sóknargjöldin einnig fyrir skráða öryrkja, atvinnulausa eða aðra tekjulága sem greiða enga skatta.  Þetta er ekki lítill hópur.  Til dæmis voru 2800 manns atvinnulausir allt árið 2010.  Það sama ár voru 14.714 einstaklingar á örorkubótum.  Samtals eru þessir tveir hópar 17.514 manns og eru þá ekki nærri allir upptaldir sem eru undir skattleysismörkum.  Fyrir þetta fólk (ríflega 20 þúsund manns) þurfa allir landsmenn sem greiða skatta að greiða sóknargjald fyrir.  Heildarfjárútlátin vegna þessa má varlega áætla að séu að minnsta kosti 160 milljónir króna (8 þús kr x 20 þús manns).  Sóknargjaldið er því í raun skattur en ekki miðlun félagsgjalds til trúfélaga fyrir þá sem það geta greitt.

Samkvæmt núgildandi lögum er aðeins hægt að láta sóknargjöld renna til skráðra trúfélaga (trúarleg lífsskoðunarfélög), en hvergi er kveðið á um rétt einstaklinga til að láta þessa upphæð renna til veraldlegra lífsskoðunarfélaga.  Þannig er fólki sem aðhyllist trúarlega sannfæringu gert hærra undir höfði en þeim sem aðhyllast veraldlega sannfæringu.

Þó að Siðmennt sé veraldlegt lífsskoðunarfélag en ekki trúfélag þá taldi stjórn Siðmenntar á sínum tíma á það reynandi að fá félagið skráð sem ígildi trúfélags því að félagið fjallar um siðferði og þjónar við tímamótaathafnir fjölskyldna líkt og trúfélögin gera.  Þó að Siðmennt sé ekki trúfélag er það hægara sagt en gert að fá fram lagabreytingu til þess að ávinna veraldlegu lífsskoðunarfélagi sama rétt og trúarlegu.  Siðmennt fékk aldrei umsóknir sínar um skráningu sem ígildi trúfélags samþykktar því að leyfisnefndin taldi Siðmennt ekki vera trúfélag.  Reyndar fékkst aldrei góður rökstuðningur fyrir synjununumog það er kaldhæðið að ósjaldan hafa áberandi klerkar í Þjóðkirkjunni kallað Siðmennt trúfélag.  Skilgreiningin á því hvað sé trúfélag stjórnast því stundum af hentisemi.

Fyrirmynd frá Noregi

Norska systurfélag Siðmenntar, Human-Etisk Forbund (HEF, www.human.no) tókst árið 1981 að fá viðurkenningu sem ígildi trúfélags og fékk svo lögunum breytt síðar þannig að skattar þessir renna til allra lífsskoðunarfélaga, ekki einungis trúfélaga. HEF var stofnað árið 1956 af 256 félagsmönnum. Félagið hefur eflst mjög undanfarna áratugi eftir að það fékkst skráð sem lífsskoðunarfélag og eru félagsmenn nú árið 2008 um 75.000 en voru aðeins 5000 árið 1980. Félagsdeildir eru í 120 sveitarfélögum. Ársvelta félagsins er um 250 milljónir íslenskra króna en þrír fjórðu hlutar teknanna koma frá ríki og sveitarfélögum.

Rétt eins og Siðmennt þá berst HEF fyrir fullu trú- og skoðanafrelsi (lífsskoðanafrelsi), ekki síst fyrir réttindum skólabarna til alhliða fræðslu um lífsskoðanir og trúarbrögð. Langtímamarkmið félagsins er að komið verði á skyldufagi fyrir alla nemendur í grunnskóla um siðfræði og lífsskoðanir auk kynningu á trúarbrögðum á jafnréttisgrundvelli.

HEF stendur fyrir mörg hundruð hátíðlegum athöfnum á hverju ári. T.a.m. fermdust yfir 8700 börn borgaralega á árinu 2001. Það eru um 15% allra norskra unglinga. Um 20% unglinga sem búa í Ósló völdu að fermast borgaralega árið 2005.  Þar að auki stendur HEF fyrir fjölmörgum nafngiftarhátíðum, húmanískum útförum og giftingum. Frá árinu 2006 hefur félagið nefnt allar athafnir sínar húmanískar, í samræmi við þá siðræna stefnu sem það aðhyllist.

Tvær umsóknir – tvær hafnanir

Eins og fram hefur komið hefur umsóknum Siðmenntar verið hafnað í bæði skiptin, án viðunandi raka að mati stjórnar félagsins.  Þó rök hafi skort og ekki tekið fullt tillit til jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar, þá má segja að sú nefnd sem fjallar um umsóknir um trúfélagaskráningu hafi farið að lögum því þau leyfa einungis skráningu trúfélaga.  Það þarf því að breyta lögunum.

Siðmennt biður um sérstök lög um lífsskoðunarfélög

Siðmennt hefur nú sent öllum alþingismönnum og allsherjarnefnd bréf og óskað eftir því sett verði sérstök lög sem tryggja veraldlegum lífsskoðunarfélögum sömu réttindi og skráð trúfélög njóta. Í Noregi hafa lífsskoðunarfélög eins og Siðmennt notið sömu réttinda og hefðbundin trúfélög. Með lífsskoðunarfélagi er átt við félagsskap sem fjallar um siðfræði, þekkingarfræði og veitir sambærilega þjónustu og trúfélög veita á sviði félagslegra athafna fjölskyldna, þ.e. útfarir, giftingar, fermingar og nafngjafir (sjá nánar í stefnuskrá félagsins).

Stjórn Siðmenntar vill með þessu óska eftir því að allsherjarnefnd Alþingis beiti sér fyrir því að lögum um skráningu trúfélaga nr. 108/1999 verði breytt í þá veru að staða ólíkra lífsskoðana verði jöfnuð. Þetta er að minnsta kosti hægt að gera með tvennum hætti. Annars vegar með því að breyta lögum nr. 108/1999 þannig að þau tryggi rétt allra lífsskoðunarfélaga og hins vegar með því að setja sérstök lög um stöðu veraldlegra lífsskoðunarfélaga eins og gert var í Noregi. Siðmennt hefur sent allsherjarnefnd tillögur að sértökum lögum um lífsskoðunarfélög og um breytingar á lögum um sóknargjöld.

Haust 2011: Þau tíðindi hafa gerst að Innanríkisráðuneytið hefur nú á dagskrá sinni drög að breytingu laga um sóknargjöld fyrir þingið í vetur.

Hér fyrir neðan eru umsóknir og tillögur Siðmenntar og öll opinber samskipti vegna þeirra:

2002
Umsókn um skráningu trúfélags 2002
Sent til Dóms- og kirkjumálaráðuneytis 3. júní 2002.

Fréttatilkynning vegna umsóknar árið 2002

Niðurstaðar nefndar um skráð trúfélög
Sent til Dóms- og kirkjumálaráðuneytis 5. júlí 2002.

Svar Dóms- og kirkjumálaráðuneytisins
Sent til Siðmenntar 18. júlí 2002.

Gísli Gunnarsson og Sigurður Hólm Gunnarsson: Viðbrögð við áliti nefndar um skráningu trúfélaga og svari dómsmálaráðuneytisins í júlí 2002.

2004
Umsókn um skráningu trúfélags 2004
Sent til Dóms- og kirkjumálaráðuneytis 26. mars 2004.

Ítrekun Siðmenntar vegna umsóknar 26. mars 2004
Sent til Dóms- og kirkjumálaráðuneytis 7. október 2004.

2005
Önnur ítrekun Siðmenntar vegna umsóknar 26. mars 2004
Sent til Dóms- og kirkjumálaráðuneytis 3. mars 2005.

Niðurstaðar nefndar um skráð trúfélög
Sent til Dóms- og kirkjumálaráðuneytis 20. mars 2005.

Svar Dóms- og kirkjumálaráðuneytisins
Sent til Siðmenntar 29. mars 2005.

Álit lögfræðings Siðmenntar
dagsett 09/06/2005

Bréf til alþingismanna – EFNI: Lög um lífsskoðunarfélög og breytingar á lögum um skráningu trúfélaga nr. 108/1999
Sent 15. ágúst 2005

Erindi til allsherjarnefndar – EFNI: Tillaga að lögum um lífsskoðunarfélög og breytingar á lögum um sóknargjöld
Sent 17. nóvember 2005

Tillaga að lögum um skráð lífsskoðunafélög
Sent 17. nóvember 2005

Tillaga að breytingum lögum um sóknargjöld o.fl.
Sent 17. nóvember 2005

2006
Erindi Siðmenntar á fundi Allsherjarnefndar (Power Point glærur)
Fundurinn var haldinn 14. febrúar 2006

Bréf sent til Björns Bjarnasonar, dómsmálaráðherra, þar sem Siðmennt óskar eftir því að sérstök lög verði sett um lífsskoðunarfélög
Sent 1. september 2006

Svar Björns Bjarnasonar, dómsmálaráðherra, við erindi Siðmenntar sem sent var 1. september

Sent til Siðmenntar 20. september 2006

2007-2011:  Listi gagna ekki uppfærður enn.

Lög
Lög um skráð trúfélög

Lög um sóknargjöld

Lagafrumvörp
Frumvarp til laga um afnám gjalds á menn utan trúfélaga.

Norsk lög um trú- og lífsskoðunarfélög
LOV 1981-06-12 nr 64: Lov om tilskott til livssynssamfunn.

Forskrift om tilskot til livssynssamfunn.

Norsk Lovtidend avd I nr 5 2004

Lov om trudomssamfunn og ymist anna.

Login