Kafli um húmanisma í nýrri bók

Trúarbrögð og útfararsiðirNú eftir áramótin kom út ný bók sem heitir Trúarbrögð og útfararsiðir, gefin út af Kirkjugörðum Reykjavíkurprófastsdæma. Bók þessi er að mestu þýdd úr norskri bók eftir Gunnar Neegaard, sem ber sama heiti, en í henni eru einnig þrír nýir frumsamdir kaflar um bálfarir, ásatrú og húmanisma. Kaflinn um húmanismann er saminn af Svani Sigurbjörnssyni fyrir Siðmennt, en félaginu var boðið af ritstjóra bókarinnar og þýðanda, Guttormi Helga Jóhannessyni að kynna sína sögu, hugmyndafræði og útfararsiði þar sem systurfélag okkar í Noregi átti sinn stað í norsku frumútgáfunni.

Kaflinn um húmanismann er 16 síður og í honum er í fyrsta sinn tekin saman á íslensku saga húmanismans frá tímum Forn-Grikkja til dagsins í dag í vestrænni menningu, saga Siðmenntar rakin, útskýrð hugmyndafræði siðræns húmanisma og hvernig við almennt viljum haga útför okkar. Það er von okkar að þessi bók verði góð heimild fyrir þá sem vilja fræðast um eða kenna lífsskoðanir húmanista og brúi bil þeirrar fáfræði sem ríkt hefur í þessum efnum. Íslenskar bækur um mannkynssögu hafa auðvitað fjallað um margt af því sem hefur mótað húmanismann eins og endurreisnina og upplýsinguna, en ekki undir þessum formerjkum og nálgun.

Á tímum Hinriks 8. Englandskonungs var byrjað að tala um húmanista og var honum það orð vel kunnugt eins og glöggt kom fram í þáttunum The Tudors sem sýndir voru á stöð 2 fyrr í vetur. Halldór Kiljan Laxness aðhylltist húmanisma (sem hann íslenskaði sem mannúðarhyggja) og skrifaði um hann ritgerð. Einhvern veginn rataði þessi fróðleikur um mikilvæga og þekkta hugmyndafræði húmanismans aldrei í kennslubækur grunnskólanna og því er fólk almennt hérlendis fáfrótt um manngildishyggju. Nú verður vonandi breyting þar á og er þessi bókarkafli eitt skref í þá átt.

Bókin fæst m.a. í Kirkjuhúsinu laugavegi og á skrifstofu kirkjugarðanna í Fossvogi samkvæmt þessu.

Fyrsta veraldlega útförin á vegum Siðmenntar

GrafreiturFöstudaginn 9. maí síðastliðinn fór fram í Bænhúsinu við Fossvogskirkjugarð fyrsta útförin sem athafnarstjóri á vegum athafnarþjónustu Siðmenntar stýrir. Að ósk aðstandenda hinnar látnu fór útförin fram í kyrrþey og óskað var bálfarar. Fjölskyldan á langa sögu með Siðmennt og fermdist sonur hinnar látnu með fyrsta hóp borgaralegrar fermingar árið 1989.

Það var Svanur Sigurbjörnsson, umsjónarmaður athafnaþjónustu Siðmenntar og einn af sex athafnarstjórum sem hafa lokið þjálfun og lýst sig reiðubúna til starfans, sem stýrði athöfninni. Hún hófst með kistulagningu fyrir luktum dyrum og hálfri klukkustund síðar var haldin minningarathöfn.

Í kynningarorðum minningarathafnarinnar sagði Svanur meðal annars:

„Siðmennt er nú að hefja fulla þjónustu við athafnarstjórnun félagslegra athafna fjölskyldna og er þetta fyrsta útförin sem fer fram með þátttöku félagsins. Það er því enn á ný að fjölskyldan að Hólastekk brýtur með okkur blað í sögunni.“

Í hugvekju Svans var rætt um mennskuna og hversu ríkur þáttur þroskinn er í henni, sérstaklega sá tilfinningalegi. Þetta þema endurspeglaðist síðan í minningarorðunum um hina látnu.

Kringum opnunarorð, hugvekju, minningarorð og lokaorð var flutt tónlist af félögum úr Kammerkór Langholtskirkju undir styrkri stjórn og orgelleik Jóns Stefánssonar. Einar Clausen söng einsöng. Um útfararþjónustu sá Ísleifur Jónsson frá Útfararstofu Kirkjugarðanna. Siðmennt kann þessum aðilum miklar þakkir fyrir góða samvinnu, leiðbeiningu og afbragðs þjónustu.

Athöfnin þótti takast afskaplega vel og mæltist vel fyrir hjá aðstandendum. Einfaldleiki og virðuleiki einkenndi hana. Siðmennt þakkar fjölskyldunni að Hólastekk 4 auðsýnt traust og vottar henni um leið innilega samúð sína.

Athafnarþjónusta Siðmenntar hefst formlega í lok maí

Siðmennt stefnir að því að kynna formlegt upphaf athafnarþjónustu sinnar í lok maí með blaðamannafundi. Kynningarefni í formi þriggja bæklinga sem fjalla um húmanískar útfarir, giftingar og nafngjafir og svo almennt um Siðmennt er í undirbúningi. Svanur Sigurbjörnsson mun svo kynna þjónustuna með stuttum kynningarfyrirlestrum um allt land næstu vikur og mánuðina á eftir. Merki félagsins var endurhannað og vefsíðan sömuleiðis til þess að gefa kynningu okkar ferskan blæ því nú eru mikil tímamót í sögu félagsins. Gömlu táknmyndum félagsins fyrir athafnirnar var skipt út fyrir táknrænar ljósmyndir til merkis um að nú væri allt komið í gang. Búið er að uppfæra allar upplýsingar um athafnir á vegum félagsins undir yfirskriftinni Veraldlegar athafnir og er þar nánar útskýrt t.d. hvernig félagið ætlar að nota hugtökin „veraldleg, húmanísk og borgaraleg“ í þessu samhengi.

Það fer vel á því að nú á 20. ári borgaralegrar fermingar skuli Siðmennt ýta úr vör þjónustu fyrir allar hinar klassísku félagslegu athafnir fjölskyldna. Þetta er okkur mikið gleðiefni og nú opnast mikilvægir menningalegir valkostir í lífi allra þeirra er aðhyllast veraldlegar eða húmanískar lífsskoðanir á Íslandi.

Húsnæðissjóður stofnaður

Á aðalfundi Siðmenntar í febrúar síðastliðnum var ákveðið að stofna sjóð til byggingar eða kaupa á framtíðarheimili félagsins og vonandi með hjálp stórhuga fólks getum við eignast okkar eigið húsnæði til fallegra athafna í náinni framtíð. Stofnfé sjóðsins, hálfa milljón króna fékk Siðmennt að gjöf í fyrra frá Gunnari Leó Leóssyni að honum látnum.

Óvígðir grafreitir

Í Fréttablaðinu þann 4. desember birtist ítarleg grein um dauðann. Í greininni var gerð úttekt á kostnaði við legsteina, jarðafarir, erfidrykkju o.s.frv. Bent var á að “Þeir sem eru heiðnir og vilja ekki hvíla í vígðri mold hafa þann kost að hvíla í óvígðum grafreit í Gufuneskirkjugarði. Á þeim 8 árum sem reiturinn hefur staðið til boða hefur aðeins ein gröf verið tekin”

Lesa

Trúleysið og sorgin

Fyrir allnokkru síðan sótti ég um starf sem auglýst var hjá Nýrri dögun sem eru samtök um sorg og sorgarviðbrögð. Það er í sjálfu sér ekki í frásögu færandi nema hvað ég fékk á tilfinninguna eftir spjall við fulltrúa samtakanna að syrgjendur mættu hvorki vera trúyleysingjar né trúarlegir efahyggjumenn. Samt hafa samtökin gefið það út að vera vettvangur fyrir alla syrgjendur.

Lesa