Siðmennt býður upp á veraldlegan valkost í hugvekju fyrir þingsetningu

F R É T T A T I L K Y N N I N G

30. september 2010

Siðmennt býður upp á veraldlegan valkost í hugvekju fyrir þingsetningu

Löng hefð hefur verið fyrir því að setning Alþingis hefjist á guðsþjónustu í Dómkirkjunni. Fyrir setningu Alþingis í maí og október 2009 opnuðust aðrir valkostir fyrir þingmenn þegar Siðmennt bauð þeim sem ekki kjósa að ganga til kirkju upp á heimspekilega hugvekju og léttar veitingar að Hótel Borg.

Siðmennt vill benda á að Alþingi er veraldleg stofnun og er það í hæsta máta óeðlilegt að setning Alþingis hefjist með trúarathöfn. Við teljum að lífsskoðunarfélög eigi ekki að hafa hönd í bagga með formlegri dagskrá Alþingis, en á meðan hin evangelísk-lúterska kirkja fær einkaaðgang að Alþingi með messu sem forsetinn og ríkisstjórnin hafa sótt , mun Siðmennt, félag siðrænna húmanista á Íslandi, bjóða alþingismönnum að koma á Hótel Borg áður en þing er sett  föstudaginn 1. október kl. 13:30 og hlýða á Eyju Margréti Brynjarsdóttur, heimspeking, flytja stutta hugvekju. Hún nefnir hana: AF VANDAÐRI HUGSUN.

Allir alþingismenn eru hjartanlega velkomnir til að eiga stutta samverustund óháð öllum trúarsetningum áður en þeir ganga til þingstarfa.

Góður rómur gerður að hugvekju Siðmenntar

Í gær þann 1. október 2009, hélt Siðmennt hugvekjustund fyrir þá alþingismenn sem ekki kjósa að vera við messu fyrir setningu Alþingis. Steinar Harðarson, athafnarstjóri hjá Siðmennt, flutti hugvekju sem hann nefndi: Eru stjórnmálamenn gagnrýnir? og fjallaði hún um mikilvægi gagnrýninnar hugsunnar fyrir þjóðina.

Lesa

Þingsetning: Siðmennt býður upp á valkost við guðsþjónustu

Siðmennt býður alþingismönnum aftur að koma á Hótel Borg áður en þing er sett fimmtudaginn 1. október kl.13:30 og hlýða á Steinar Harðarson, athafnarstjóra, flytja hugvekju um gagnrýna hugsun.

Lesa

Vel heppnuð hugvekja fyrir þingmenn

Þingsetning 2009 - Jóhann BjörnssonÍ dag föstudaginn 15. maí, braut Siðmennt og fjórir þingmenn blað í sögu þjóðarinnar.  Hefðin er sú að fyrir setningu Alþingis tvisvar á ári fara þingmenn til messu í Dómkirkjunni, en nú bauð Siðmennt þingmönnum að hlýða á siðræna hugvekju óháða trúarbrögðum þannig að þeir hefðu val við kristilegu hefðina.  Alls komu fjórir þingmenn, þar af þrír þingmenn Borgarahreyfingarinnar, þau Birgitta Jónsdóttir, Þór Saari og Margrét Tryggvadóttir og ein þingkona frá Vinstri hreyfingunni, grænu framboði, Lilja Mósesdóttir.  Að auki kom varaþingmaður Borgarahreyfingarinnar, Katrín Snæhólm Baldursdóttir. Jóhann Björnsson athafnarstjóri og kennslustjóri borgaralegrar fermingar hélt um 10 mínútna hugvekju sem bar yfirskriftina um mikilvægi góðs siðferðis í þágu þjóðar og kom þar víða niður á þær siðferðislegu aðstæður sem þingmaður þarf að takast á við.  Hugvekjan féll í góðan jarðveg og var Jóhanni vel fagnað að henni lokinni.  Þingmennirnir og aðrir gestir fengu létta köku með rjóma og eftir stutt spjall og yfirlýsingar um ánægju með framtak Siðmenntar fóru þeir inní Alþingishúsið til að taka sinn stað í áframhaldandi inngöngu hinna þingmanna sem fóru í messu.

(Hugvekju Jóhanns má lesa í fréttinni hér fyrir neðan.)

Sjá umfjöllun og myndband Mbl.is hér