Hið trúfrjálsa ríki

Arndís A. Kristínar- og Gunnarsdóttir

Arndís Anna Kristínar- og Gunnarsdóttir lögfræðingur með sérhæfingu í mannréttindum flutti hugvekju við setningu Alþingis þann 1. október 2013 á Hótel Borg. Í erindi sínu fjallaði Arndís Anna um Hið trúfrjálsa ríki.

Arndís skrifaði fyrri meistararitgerð sína á sviði réttarheimspeki en þá síðari á sviði mannréttinda, um trúfrelsi í Evrópu. Hún hefur nýlokið viðbótarnámi í Belgíu með áherslu á mannréttindi. Hún hefur starfað með Rauða krossinum frá árinu 2009 og veitt lögfræðilega aðstoð við hælisleitendur.

Þetta er í sjöunda skiptið sem Siðmennt býður þingmönnum upp á valkost við messu í Dómkirkjunni fyrir setningu Alþingis ár hvert.

Í ár mættu tíu þingmenn frá þrem flokkum á hugvekju Siðmenntar. 

Komið þið sæl. Fyrst ég fékk svona ágæta kynningu ætla ég bara að bjóða ykkur velkomin og takk fyrir komuna.

Ég hafði hugsað mér að vera bara með smávegis hugvekju, og hugvekju er auðvitað fyrst og fremst ætlað að vekja fólk til umhugsunar frekar en að setja fram fullyrðingar eða kenningar um hvað er satt og rétt. Þess vegna hef ég líka ákveðið að vera ekki með neinar glærur eða annað slíkt.

Mig langar að tala um tvennt í dag. Hið fyrra er það sem mig langar til að kalla á íslensku hið veraldlega ríki, eða það sem á ensku er kallað the secular state.

Seinna efnið sem mig langar til að tala um snýr að mannréttindum, og þá í rauninni að lagalega hugtakinu mannréttindi, enda teljast mannréttindi til lagalegra réttinda á Íslandi í dag og í fleiri ríkjum. Þessi seinni hlutinn ber yfirskriftina Hið trúfrjálsa ríki, og langar mig þar aðeins að velta fyrir mér hugtakinu trúfrelsi og hvað í því felst.


Hið veraldlega ríki

Í tengslum við þetta fyrra efni mitt er ég væntanlega ekki að fara að segja ykkur neitt sem þið hafið ekki heyrt áður, en mig langaði að tala um það samt, þar sem ég held það sé mjög gott að stíga alltaf af og til nokkur skref til baka, til að rifja upp og skerpa á grundvallaratriðum.

Hvað er veraldlegt ríki?

Það er sú grundvallarhugmynd að stofnanir ríkisins og fólk sem skipað er til að vera í forsvari fyrir ríkið, séu óháð trúarlegum stofnunum og embættum.

Trú er mjög persónulegt fyrirbrigði. Trú er ekki bara persónuleg í þeim skilningi að fólk eigi rétt á að fá að hafa trúarskoðanir sínar í friði fyrir gagnrýni eða að trúarbrögð séu yfir gagnrýni hafin. Þau eru líka persónulegur hlutur í þeim skilningi að fólk túlkar sín trúarbrögð á mismunandi hátt, fólk trúir á mismunandi forsendum og með mismunandi útkomu.

Ástæða þess að það er mikilvægt að ríki sé hlutlaust gagnvart trú er einkum sú að reglur trúarbragða eru ólíkar. Og ekki nóg með að reglur trúarbragða séu ólíka, heldur er túlkunin á þeim líka margskonar og ólík.

Við getum verið ósammála um margt en við getum allavega örugglega verið sammála um það að það sem við öll viljum þegar upp er staðið er að fá að lifa í friði, lifa því lífi sem við kjósum okkur og þurfa ekki að óttast um líf okkar og limi í okkar daglega lífi. Þrátt fyrir að vera ósammála um margt og hafa mismunandi forsendur í lífinu og misjöfn markmið þá stefnum við þannig flest í meginatriðum að því sama.

Með þetta sameiginlega markmið, að tryggja frið, hamingju og lífsfyllingu hvers einstaklings, ættum við að geta náð saman, þó allavega um það að ríki sé trúhlutlaust, því það er forsenda þess að ríki geti skapað frið fyrir alla.

Hið trúfrjálsa ríki
Setning alþingis 1. okt 2013Seinni hluti þessarar stuttu hugvekju minnar ber sömu yfirskrift og hugvekjan sjálf, hið trúfrjálsa ríki.

Hvað er trúfrelsi?

Í 9. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu segir: „Sérhver maður á rétt á að vera frjáls hugsana sinna, samvisku og trúar. Í þessu felst frelsi manna til að breyta um trú eða sannfæringu svo og til að rækja trú sína eða sannfæringu, hvort heldur einslega eða í samfélagi með öðrum, opinberlega eða á einkavettvangi, með guðsþjónustu, boðun, breytni og helgihaldi.“

Trúfrelsi má í raun skipta í tvennt. Það er annars vegar hið innra trúfrelsi, sem jafnan lagt að jöfnu við og samnefnt hugsana- og skoðanafrelsi, og það er frelsið til þess að hugsa það sem manni sýnist og hafa þær skoðanir sem manni sjálfum þykja réttar, án utanaðkomandi afskipta og án þvingunar. Augljós dæmi um inngrip í hið innra trúfrelsi er t.d. einfalt bann við tilteknum skoðunum eða tiltekinni trú. Í sumum ríkjum er brotið á innra trúfrelsi fólks með tilraunum til að þvinga það til skoðanaskipta, pyntingum og heilaþvotti.

Hin hliðin á trúfrelsinu er hið ytra trúfrelsi, sem er frelsið til að iðka sína trú eða lífsskoðun, opinberlega eða á einkavettvangi, með guðsþjónustu, boðun, breytni og helgihaldi. Þetta er ansi víðtækt og hafa ýmsar athafnir komið til kasta Mannréttindadómstóls Evrópu undir formerkjum trúfrelsis á grundvelli þessa ákvæðis.

En trúfrelsi eru ekki einu mannréttindin sem viðurkennd hafa verið í heiminum, þó vissulega séu þau almennt talin á meðal grundvallar mannréttinda.

Það sem mig langar til að brydda upp á hér í dag er samspil hinna ýmsu mannréttinda, ekki síst samspil trúfrelsis og annarra mannréttinda, og mig langar til þess að vekja athygli á því hvernig hin ýmsu mannréttindi önnur en trúfrelsi eru í raun vel til þess fallin að tryggja hið sanna hugsana-, skoðana- og trúfrelsi. Tjáningarfrelsi, funda- og félagafrelsi, friðhelgi einkalífs og fjölskyldu og bann við mismunun eru þau réttindi helst sem mig langar til að nefna hér sérstaklega til samanburðar.

Það að bera kross um hálsinn eða slæðu um höfuð getur hæglega talist tjáning. Það að setja á fót samtök eða félag um sameiginlegar skoðanir eða viðhorf fellur vitanlega undir funda- og félagafrelsi og auðvelt er að ímynda sér tilvik þar sem friðhelgi einkalífs og hið mikilvæga bann við mismunum ná til þess að vernda trúfrelsi einstaklings.

Með því að tryggja að tjáningarfrelsið sé í heiðrum haft, að funda- og félagafrelsi sé virt, með því að vernda friðhelgi einkalífs og fjölskyldu og framfylgja banni við allri mismunun er þannig hægt að tryggja raunverulegt trúfrelsi í mjög mörgum tilvikum, án þess jafnvel að tala um það sem slíkt. Í frjálsu samfélagi er trúfrelsið sjálfsagt.

Besta leiðin til að tryggja raunverulegt trúfrelsi, þ.e. frelsið til að hugsa og trúa því sem maður sjálfur velur sér, er að tryggja það að önnur mannréttindi séu einnig í hávegum höfð. Með því að setja trúhlutleysi ríkisins og vernd allra þeirra mannréttinda sem við höfum viðurkennt með lögum á oddinn, stuðlum við að möguleikum allra til þess að hugsa og trúa því sem þeir kjósa, og með því að tryggja það að landslög, ekki síst stjórnskipunarlög, feli í sér reglur sem öllum beri að fylgja jafnt, óháð trú eða öðrum skoðunum, stuðlum við að því að fólk geti lifað og búið í sátt og samlyndi.

Arndís Anna Kristínar- og Gunnarsdóttir

Lýðræði og ríkisvald

Ólafur Páll Jónsson, dósent við menntavísindasvið Háskóla Íslands, flutti hugvekju fyrir þingmenn um Lýðræði og ríkisvald við setningu Alþingis þann 6. júní 2013 á Hótel Borg. 

Ríki og samfélag

Ólafur Páll Jónsson
Ólafur Páll Jónsson

Ríkið er umgjörð um samfélagið í tvennum skilningi. Annars vegar myndar það lagalegan og stofnanalegan ramma um samfélagið, hins vegar er það vettvangur valdabaráttu og valdbeitingar; í lýðræðisríki hefur ríkisvaldið einkaleyfi á valdbeitingu. Á meðan allt leikur í lyndi getur verið erfitt að greina ríkið, í þessum skilningi, frá samfélaginu. Lög og stofnanir ríkisins birtast þá sem eðlilegur rammi um þá samvinnu sem er grundvöllur samfélagsins og opinber valdabarátta á vettvangi ríkisins birtist einnig sem hluti af því að lifa og vinna saman.(1) En þegar talað er um að gjá hafi myndast á milli ríkisvaldsins og þjóðarinnar – hvort heldur framkvæmdavaldsins, löggjafarvaldsins eða dómsvaldsins – þá birtist andstæða ríkisins og samfélagsins með einkar skýrum hætti. Þegar slíkt gerist skiptir ríkið um eðli, það umhverfist frá því að vera sameinandi afl yfir í að verða sundrandi afl; í stað þess að ríkið sé sterkasta einingarafl samfélagsins verður það sundrungar-afl sem heggur að rótum þess. Í stað þess að stofnanir ríkisins stuðli að samheldni samfélagsins, þá leiða þær til gliðnunar þess. Slík þróun getur síðan hæglega leitt til þess að eðli ríkisins sem eðlilegrar umgjarðar um samvinnu borgaranna víki fyrir eðli ríkisins sem vettvangi valdabaráttu. Lokastig þeirrar þróunar er svo að ríkið sjálft verði tæki valdbeitingar.

Lesa

Siðmennt bauð upp á hugvekju fyrir alþingismenn í fimmta sinn

Við setningu Alþingis í dag 11. september 2012 flutti Svanur Sigurbjörnsson, læknir og stjórnarmaður í Siðmennt, hugvekju um „heilbrigði þjóðar“. Er þetta í fimmta sinn sem Siðmennt býður Alþingismönnum upp á veraldlegan valkost í stað messu við setningu Alþingis. Að þessu sinni mættu níu þingmenn ásamt nokkrum góðum gestum á Hótel Borg. Hugvekju Svans má lesa í heild sinni hér á vefsíðu Siðmenntar.

Athygli vekur að séra Kristján Valur Ingólfsson vígslubiskup, sem predikaði yfir alþingismönnum í Dómkirkjunni í dag, notaði tækifærið til að segja þingmönnum að tilvist þjóðkirkju ógnaði ekki trúfrelsi í landinu. Er þetta að mati Siðmenntar dæmi um það hvernig Þjóðkirkjan getur nýtt sér aðstöðu sína til að breiða út einhliða áróður. Siðmennt er einmitt þeirrar skoðunar að þjóðkirkjufyrirkomulagið samræmist ekki trúfrelsi.

 

Heilbrigði þjóðar. Ræða flutt við þingsetningu 2012

Flutt í athöfn Siðmenntar fyrir alþingismenn í Silfursal Hótel Borgar vegna setningar Alþingis þriðjudaginn 11. september 2012.  Svanur Sigurbjörnsson samdi og flytur.

Kæru alþingismenn og aðrir gestir

Þennan dag fyrir 11 árum síðan vaknaði ég í þáverandi heimili mínu, í háhýsi í New York borg, við þá frétt að stór herflugvél hefði flogið inn í annan af tvíburaturnunum á Manhattan.  Um 17 mínútum síðar flaug önnur flugvél inn í hinn turninn. Tvíburaturnarnir loguðu og af þeim lagði þykkan reykmökk. Skelfing greip um sig og allt lamaðist. Í ljós kom að flugvélarnar voru ekki hervélar, heldur breiðþotur fullar af fólki, fólki sem átti sér einskis ills von. Tvær aðrar árásir með farþegavélum áttu sér stað þennan dag í Pennsylvaniu og Washington D.C. og samtals létu nærri þrjú þúsund manns lífið í þessum fjórum árásum. Að kveldi þessa dags var erfitt að kyngja þessu sem veruleika.

Um leið og ég vil minnast fórnarlamba þessara hræðilegu hryðjuverkaárása á friðsama borgara, þá er það ekki aðeins vegna dagsetningarinnar að ég nefni þetta í tengslum við yfirskrift hugvekju minnar, heilbrigði þjóðar, til ykkar kæru þingmenn.

Lesa