Er lýðræðið í krísu?

Sævar Finnbogason  doktorsnemi í heimspeki við Háskóla Íslands flutti hugvekju við setningu Alþingis þann 6. desember 2016: „Er lýðræðið í krísu?“

Ágætu þingmenn og aðrir gestir.

Sævar Finnbogason

Er lýðræðið í krísu? Þið þekkið væntanlega öll einhverja útgáfu af brandaranum þegar læknirinn segir við sjúklinginn, „hvort viltu heyra góðu fréttirnar eða slæmu fréttirnar fyrst?“.

Góðu fréttirnar eru þær að lýðræðishugsjónin og sú trú að lýðræði sé þrátt fyrir allt skásta stjórnarformið, er við hestaheilsu. Slæmu fréttirnar eru hinsvegar þær að það er virðist sama á hvaða mælikvarða er litið; hvort sem það er traust á stjórnvöldum, stjórnmálaflokkum og stofnunum eða almennt minnkandi kosningaþátttöku, að lýðræðið  í flestum vestrænum lýðræðisríkjum er krísu.

Eflaust kemur þessi upptalning Íslendingum ekki á óvart, eftir allt það sem hér hefur gengið á frá Hruni. En staðan er sú að í dag er það upplifun margra borgara í lýðræðisríkjum beggja vegna Atlantsála að fulltrúalýðræðið sé komið í vissar ógöngur. Upplifun er sú að kjörnir fulltrúar ýmist megi sín lítils gagnvart sérhagsmunaöflunum eða gangi jafnvel beinlínis gangi erinda þeirra á kostnað almannahagsmuna í ákveðnum málum. Þeim finnst það orðið litlu skipta hver er kosinn til valda. Kjör þeirra batna ekki, ójöfnuður heldur áfram að aukast og ný skörð eru hoggin í velferðarkerfið.
Með réttu eða röngu er það svona sem stjórnmálin blasa við mörgum.

Ef okkur er annt um lýðræðið, og þá á ég einnig við fulltrúalýðræðið, verðum við rannsaka betur orsakir þessarar óánægju og finna lýðræðislegar leiðir til þess að bregðast við henni.

Eitt af sjúkdómseinkennunum og jafnframt ein helsta hættan sem stafar að lýðræðinu í Evrópu og Skandinavíu um þessar mundir er uppgangur þjóðernispoppúlista sem ala á þjóðernishyggju, andúð í garð útlendinga, minnihlutahópa og alþjóðasamvinnu,  sem nærist einmitt á andrúmslofti óánægju og ótta.

Við skulum þó fara varlega og varast óþarfa einfaldanir og alhæfingar. Þó að BREXIT hafi reynst vatn á millu þjóðernissinna þar í landi, fer því auðvitað fjarri að allir sem kusu með úrsögn úr Evrópusambandinu séu þjóðernissinnar eða rasistar.

Sumir töldu að með úrgöngu úr Evrópusambandinu myndi innflæði vinnuafls, einkum frá austurhluta Evrópu stöðvast og við það myndu laun hækka og draga úr atvinnuleysi meðal innfæddra Breta. Það er auðvelt að skilja slík rök fólks sem vinnur þau illa launuðu og ósérhæfðu störf sem erlent vinnuafl sækir gjarnan í.

Enn aðrir trúðu því að um leið og Bretland segði sig úr sambandinu myndu svimandi fjárhæðir sem haldið var fram að rynnu til Evrópusambandsins streyma inn í breska heilbrigðiskerfið. Þeir urðu hins vegar fyrir sárum vonbrigðum þegar talsmenn úrsagnarinnar leiðréttu loksins þann “misskilning” stuttu eftir atkvæðagreiðsluna.

Það hefur líka komið á daginn að nokkur hópur þeirra sem kaus með úrsöginni gerði það hvorki vegna andúðar á Evrópusambandinu eða útlendingum, heldur —að því er virðist til þess að mótmæla— “kerfinu” án þess að kynna sér fyllilega hvað í úrsögninni fólst. Fyrir þennan hóp má segja að BREXIT hafi síður snúist um Evrópusambandið sem slíkt heldur um uppreisn gegn kerfinu, það er að segja stjórnmálastéttinni, sérhagsmunaöflum og fjármálakerfinu og jafnvel menntafólki sem réri að því öllum árum að Bretar yrði áfram í ESB.

Í þessu sjáum við skýrt klofninginn á milli þeirra sem verst eru settir, fólksins sem þarf að treysta á framfærslu velferðarkerfis, fólksins sem vinnur á lægstu laununum og hefur minnsta menntun og svo hinna sem hafa það best í samfélaginu. Það er eins og þessir hópar búi hvort í sínum heimi, hvor með eigin orðræðu og hagsmuni sem varla skarast.
Og eftir því sem verkefni ríkisins verða flóknari og umfangsmeiri og stjórnmálin að sama skapi flóknari og sérhæfðari, eykst enn valdaójafnvægið milli þeirra.

Þá er hættan sú að fólk hreiðri um sig í skotgröfnum og við þær aðstæður er öll uppbyggileg samræða ómöguleg.

Þessi lýðræðiskrísa er í grófum dráttum sú lýðræðiskrísa (eða Legitimation Crisis) sem þýski heimspekingurinn Jurgen Habermas spáði árið 1975 að kæmi upp ef ekki væri gripið til ráðstafana til þess að styrkja forsendur lýðræðislegrar samræðu í samfélaginu og lýðræðislega þátttöku almennings. Þetta höfum við vanrækt.

Ég vil taka það skýrt fram að ég er ekki að tala gegn fulltrúalýðræðinu. Enda þurfum við á því að halda. Fyrir því eru tvær megin ástæður. Sú fyrri er sú að venjulegir borgarar hafa einfaldlega ekki tök á því að setja sig inn í allan þann fjölda umfangsmikilla mála sem kjörnir fulltrúar fjalla um. Sú seinni er að fulltrúalýðræðið hefur marga kosti sem við ættum efla og virkja enn frekar enn frekar með auknu samráði við almenning af ýmsu tagi.

Það virðist ljóst að til þess að vinna okkur út úr þeirri krísu sem fulltrúalýðræðið er í þurfum við að þróa lýðræðishugmyndir okkar þannig að allir hópar samfélagsins hafi rödd og komi sínum hagsmunum og sjónarmiðum á framfæri á jafnræðisgrundvelli.

En það sem vill hins vegar stundum gleymast er að upplýst skoðanamyndun krefst góðs aðgengis að upplýsingum, öflugra og óháðra fjölmiðla og sérstakrar fræðslu um þau málefni sem eru til umræðu hverju sinni. Mér er næst að segja að við þurfum að stórefla lýðræðismenntun. Og það má færa rök fyrir því þetta sé sá þáttur í þessu öllu saman sem gæti reynst hvað torveldastur þegar við horfum upp á það hvernig miðlar á Netinu á borð Facebook og Google ýta undir þennan vanda með því að reyna að birta okkur aðeins það sem þeir telja að við viljum sjá og heyra. Þannig að við eigum á hættu að lokast inni í bergmálsklefum á Netinu, þar sem við rekumst aðeins á þá sem við erum sammála.

Ein algengasta mótbáran við hugmyndum af þessu tagi er að fara eigi varlega í allar breytingar á stjórnskipulaginu til þess að kollsteypa því ekki. Sígandi lukka er best, en við megum ekki vera svo hrædd við að gera tilraunir að steinrennum. Því lýðræðið ætti einmitt ekki að vera meitlað í stein heldur lifandi afl í samfélaginu.

Ég held að einn helsti lærdómurinn af nýafstöðunum forsetakosningum í Bandaríkjunum sé sá að þegar stórir hópar í samfélaginu eru farnir að upplifa sig afskipta í lýðræðinu getur illa farið.

Bandaríkjamenn kusu yfir sig forseta sem sagðist í kosningabaráttu sinni ætla að meina öllum múslímum að koma til landsins í ótilgreindan tíma og byggja vegg eftir endilöngum landamærum Mexíkó og Bandaríkjanna og láta Mexíkó borga framkvæmdina. Burtséð frá þessu (og mætti þó tína margt annað til), er ástæða til að hafa verulegar áhyggjur af viðhorfi Trumps til mannréttinda. Aðspurður um það hvernig hann myndi takast á við ógnina sem stafar af hryðjuverkamönnum sagði hann að þar sem hryðjuverkamönnunum væri sama um eigið líf, því myndi hann —ef hann yrði kjörinn forseti— ráðast á fjölskyldur þeirra.
Eða eins og hann orðaði það sjálfur „You have to take out their families“.

Getur verið að nær helmingur kjósenda í Bandaríkjum hafi beinlínis kosið hann út af þessum hryllingi? Vissulega einhverjir. En nær væri að segja að fólk hafi kosið hann þrátt fyrir þetta allt. Margt þessa fólks sem hefði líklega kosið Bernie Sanders er það hefði staðið til boða.

Þetta var fólkið sem er búið að missa trúna á hin hefðbundnu stjórnmál. Fólkið sem —með réttu eða röngu— telur að kerfið gangi beinlínis erinda stórfyrirtækja og Wall Steet á kostnað almannahagsmuna. Þetta er fólkið sem treystir ekki „kerfinu“ lengur.

Þau efast um að Trump byggi vegginn, hvað þá að honum takist að láta Mexíkó borga fyrir hann eða að hann ætli sér raunverulega að geri árásir á fjölskyldur grunaðra hryðjuverkamanna.

Nei, þegar rýnt er kosningaúrslitin birtast samskonar klofningur og í BREXIT og kosningarnar í það minnsta öðrum þræði snúast um eitthvað allt annað en raunverulega var kosið um. Eða, eins og einn kjósandi Trumps orðaði það, hvort sem hann getur staðið við allt það sem hann hefur lofað eða ekki er hann þó allavega ekki stjórnmálamaður.

Ég veit að ég hef hér á köflum dregið upp dökka mynd af stöðunni. En ég held að staðan sé hreint ekki eins dökk á Íslandi. Það er hinsvegar staðreynd að það er hópur fólks á Íslandi rétt eins og í öðrum Vestrænum lýðræðisríkjum sem finnst hann afskiptur. En við erum hinsvegar í þeirri öfundsverðu stöðu á Íslandi að við getum breytt þessu. Hér hefur líka ýmislegt áunnist á undanförnum árum. Og þrátt fyrir allt sem hefur gengið hér á, á undanförnum árum—og kannski einmitt þess vegna— vitum við að lýðræðið hér á vel að þola það að við þróum það áfram í átt að aukinn þátttöku almennings og prófum okkur áfram með nýjar leiðir.

Og kannski má segja að við séum einmitt núna í miðri slíkri tilraun, þegar verið er að setja Alþingi á þessum óvenjulega tíma, rúmum mánuði eftir kosningar — þegar ekki er enn búið að mynda nýja ríkisstjórn— til þess fjalla um fjárlagafrumvarp sem lagt er fram af starfsstjórn.

Og það er sama hvert maður lítur, það virðist enginn vera að fara af hjörunum úf af þessu.

Að standa fyrir fólkið

Nanna Hlín Halldórsdóttir doktorsnemi í heimspeki við Háskóla Íslands flutti hugvekju við setningu Alþingis þann 8. september 2015 sem hún nefnir: „Að standa fyrir fólkið“. Að þessu sinni mættu níu þingmenn frá fjórum þingflokkum.

Nanna Hlín er með mastersgráðu í heimspeki og gagnrýnum fræðum frá Kingston-háskóla í London og B.A gráðu í heimspeki frá HÍ. Í doktorsverkefni sínu skoðar Nanna samband siðfræði og stjórnspeki út frá femínískum og Marxískum kenningum en hún hefur einnig skrifað greinar um gagnrýni, vald og jafnrétti.

Lesa

Verðum að gera betur – Upplýsingabyltingin og nútíminn

Huginn Freyr Þorsteinsson, doktorsnemi í heimspeki, flutti hugvekju við setningu Alþingis þann 9. september 2014 á Hótel Borg sem hann nefnir: Verðum að gera betur – Upplýsingabyltingin og nútíminn.

Huginn Freyr er aðjúnkt við Háskólann á Akureyri. Hann er með B.A gráðu í heimspeki frá Háskóla Íslands, mastersgráðu í vísindaheimspeki og vísindasögu frá háskólanum í Bristol á Suðvestur Englandi. Huginn er einnig með M.Phil gráðu í vísindaheimspeki frá sama skóla og hefur ritað fjölda fræðigreina og greina um þjóðfélagsmál.

Ágætu þingmenn.

Huginn FreyrSú stefnuyfirlýsing húmanista sem Siðmennt sækir sinn boðskap og finna má á heimasíðu félagsins, er góður vitnisburður um jákvæð áhrif þeirrar stefnu í sögu mannsandans sem við kennum við upplýsingu. Áhersla á vísindi sem uppsprettu þekkingar, náttúrulegar skýringar, lýðræðislega ákvarðanatöku, lausn undan ótta og mikilvægi gagnrýni, trúarbragðafrelsi og rétt til einkalífs eru gildi sem varða stöðu okkar sem borgara í samfélagi manna og eru gildi sem okkur eiga að vera kær og liðsinna okkur í að bæta samfélag okkar.

Lesa

Hið trúfrjálsa ríki

Arndís A. Kristínar- og Gunnarsdóttir

Arndís Anna Kristínar- og Gunnarsdóttir lögfræðingur með sérhæfingu í mannréttindum flutti hugvekju við setningu Alþingis þann 1. október 2013 á Hótel Borg. Í erindi sínu fjallaði Arndís Anna um Hið trúfrjálsa ríki.

Arndís skrifaði fyrri meistararitgerð sína á sviði réttarheimspeki en þá síðari á sviði mannréttinda, um trúfrelsi í Evrópu. Hún hefur nýlokið viðbótarnámi í Belgíu með áherslu á mannréttindi. Hún hefur starfað með Rauða krossinum frá árinu 2009 og veitt lögfræðilega aðstoð við hælisleitendur.

Þetta er í sjöunda skiptið sem Siðmennt býður þingmönnum upp á valkost við messu í Dómkirkjunni fyrir setningu Alþingis ár hvert.

Í ár mættu tíu þingmenn frá þrem flokkum á hugvekju Siðmenntar. 

Komið þið sæl. Fyrst ég fékk svona ágæta kynningu ætla ég bara að bjóða ykkur velkomin og takk fyrir komuna.

Ég hafði hugsað mér að vera bara með smávegis hugvekju, og hugvekju er auðvitað fyrst og fremst ætlað að vekja fólk til umhugsunar frekar en að setja fram fullyrðingar eða kenningar um hvað er satt og rétt. Þess vegna hef ég líka ákveðið að vera ekki með neinar glærur eða annað slíkt.

Mig langar að tala um tvennt í dag. Hið fyrra er það sem mig langar til að kalla á íslensku hið veraldlega ríki, eða það sem á ensku er kallað the secular state.

Seinna efnið sem mig langar til að tala um snýr að mannréttindum, og þá í rauninni að lagalega hugtakinu mannréttindi, enda teljast mannréttindi til lagalegra réttinda á Íslandi í dag og í fleiri ríkjum. Þessi seinni hlutinn ber yfirskriftina Hið trúfrjálsa ríki, og langar mig þar aðeins að velta fyrir mér hugtakinu trúfrelsi og hvað í því felst.


Hið veraldlega ríki

Í tengslum við þetta fyrra efni mitt er ég væntanlega ekki að fara að segja ykkur neitt sem þið hafið ekki heyrt áður, en mig langaði að tala um það samt, þar sem ég held það sé mjög gott að stíga alltaf af og til nokkur skref til baka, til að rifja upp og skerpa á grundvallaratriðum.

Hvað er veraldlegt ríki?

Það er sú grundvallarhugmynd að stofnanir ríkisins og fólk sem skipað er til að vera í forsvari fyrir ríkið, séu óháð trúarlegum stofnunum og embættum.

Trú er mjög persónulegt fyrirbrigði. Trú er ekki bara persónuleg í þeim skilningi að fólk eigi rétt á að fá að hafa trúarskoðanir sínar í friði fyrir gagnrýni eða að trúarbrögð séu yfir gagnrýni hafin. Þau eru líka persónulegur hlutur í þeim skilningi að fólk túlkar sín trúarbrögð á mismunandi hátt, fólk trúir á mismunandi forsendum og með mismunandi útkomu.

Ástæða þess að það er mikilvægt að ríki sé hlutlaust gagnvart trú er einkum sú að reglur trúarbragða eru ólíkar. Og ekki nóg með að reglur trúarbragða séu ólíka, heldur er túlkunin á þeim líka margskonar og ólík.

Við getum verið ósammála um margt en við getum allavega örugglega verið sammála um það að það sem við öll viljum þegar upp er staðið er að fá að lifa í friði, lifa því lífi sem við kjósum okkur og þurfa ekki að óttast um líf okkar og limi í okkar daglega lífi. Þrátt fyrir að vera ósammála um margt og hafa mismunandi forsendur í lífinu og misjöfn markmið þá stefnum við þannig flest í meginatriðum að því sama.

Með þetta sameiginlega markmið, að tryggja frið, hamingju og lífsfyllingu hvers einstaklings, ættum við að geta náð saman, þó allavega um það að ríki sé trúhlutlaust, því það er forsenda þess að ríki geti skapað frið fyrir alla.

Hið trúfrjálsa ríki
Setning alþingis 1. okt 2013Seinni hluti þessarar stuttu hugvekju minnar ber sömu yfirskrift og hugvekjan sjálf, hið trúfrjálsa ríki.

Hvað er trúfrelsi?

Í 9. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu segir: „Sérhver maður á rétt á að vera frjáls hugsana sinna, samvisku og trúar. Í þessu felst frelsi manna til að breyta um trú eða sannfæringu svo og til að rækja trú sína eða sannfæringu, hvort heldur einslega eða í samfélagi með öðrum, opinberlega eða á einkavettvangi, með guðsþjónustu, boðun, breytni og helgihaldi.“

Trúfrelsi má í raun skipta í tvennt. Það er annars vegar hið innra trúfrelsi, sem jafnan lagt að jöfnu við og samnefnt hugsana- og skoðanafrelsi, og það er frelsið til þess að hugsa það sem manni sýnist og hafa þær skoðanir sem manni sjálfum þykja réttar, án utanaðkomandi afskipta og án þvingunar. Augljós dæmi um inngrip í hið innra trúfrelsi er t.d. einfalt bann við tilteknum skoðunum eða tiltekinni trú. Í sumum ríkjum er brotið á innra trúfrelsi fólks með tilraunum til að þvinga það til skoðanaskipta, pyntingum og heilaþvotti.

Hin hliðin á trúfrelsinu er hið ytra trúfrelsi, sem er frelsið til að iðka sína trú eða lífsskoðun, opinberlega eða á einkavettvangi, með guðsþjónustu, boðun, breytni og helgihaldi. Þetta er ansi víðtækt og hafa ýmsar athafnir komið til kasta Mannréttindadómstóls Evrópu undir formerkjum trúfrelsis á grundvelli þessa ákvæðis.

En trúfrelsi eru ekki einu mannréttindin sem viðurkennd hafa verið í heiminum, þó vissulega séu þau almennt talin á meðal grundvallar mannréttinda.

Það sem mig langar til að brydda upp á hér í dag er samspil hinna ýmsu mannréttinda, ekki síst samspil trúfrelsis og annarra mannréttinda, og mig langar til þess að vekja athygli á því hvernig hin ýmsu mannréttindi önnur en trúfrelsi eru í raun vel til þess fallin að tryggja hið sanna hugsana-, skoðana- og trúfrelsi. Tjáningarfrelsi, funda- og félagafrelsi, friðhelgi einkalífs og fjölskyldu og bann við mismunun eru þau réttindi helst sem mig langar til að nefna hér sérstaklega til samanburðar.

Það að bera kross um hálsinn eða slæðu um höfuð getur hæglega talist tjáning. Það að setja á fót samtök eða félag um sameiginlegar skoðanir eða viðhorf fellur vitanlega undir funda- og félagafrelsi og auðvelt er að ímynda sér tilvik þar sem friðhelgi einkalífs og hið mikilvæga bann við mismunum ná til þess að vernda trúfrelsi einstaklings.

Með því að tryggja að tjáningarfrelsið sé í heiðrum haft, að funda- og félagafrelsi sé virt, með því að vernda friðhelgi einkalífs og fjölskyldu og framfylgja banni við allri mismunun er þannig hægt að tryggja raunverulegt trúfrelsi í mjög mörgum tilvikum, án þess jafnvel að tala um það sem slíkt. Í frjálsu samfélagi er trúfrelsið sjálfsagt.

Besta leiðin til að tryggja raunverulegt trúfrelsi, þ.e. frelsið til að hugsa og trúa því sem maður sjálfur velur sér, er að tryggja það að önnur mannréttindi séu einnig í hávegum höfð. Með því að setja trúhlutleysi ríkisins og vernd allra þeirra mannréttinda sem við höfum viðurkennt með lögum á oddinn, stuðlum við að möguleikum allra til þess að hugsa og trúa því sem þeir kjósa, og með því að tryggja það að landslög, ekki síst stjórnskipunarlög, feli í sér reglur sem öllum beri að fylgja jafnt, óháð trú eða öðrum skoðunum, stuðlum við að því að fólk geti lifað og búið í sátt og samlyndi.

Arndís Anna Kristínar- og Gunnarsdóttir