Hvað með aðskilnað ríkis og kirkju?

Fyrir kosningar sendi Siðmennt öllum framboðunum til Alþingiskosninga spurningar sem m.a. vörðuðu afstöðu þeirra til aðskilnaðar ríkis og kirkju og hvort þeir ætluðu að setja málið í ferli á kjörtímabilinu.

Sjálfstæðisflokkur, Viðreisn og Björt framtíð voru sammála um að styðja aðskilnað ríkis og kirkju.

Þegar þessir flokkar voru spurðir hvort tímabært væri að hefja undirbúning að slíku ferli má lesa um það í svörum flokkanna að breið samstaða væri um slíkt á nýju þingi.

Afstaða flokkanna var því í samræmi við vilja Íslendinga sem birst hefur í skoðanakönnunum sem gerðar hafa verið frá árinu 1994. Þá voru rúm 60% hlynnt aðskilnaði en á síðustu árum hefur sá stuðningur vaxið í 72%.

Þess vegna kemur það verulega á óvart að ekkert sé minnst á aðskilnað ríkis og kirkju í nýjum stjórnarsáttmála. Ekki hefur neinn flokkur þurft að gera málamiðlun í málinu eða þurft að sjá það hverfa út af borðinu vegna andstöðu hinna.

Hver er því ástæðan fyrir að málið er ekki í sáttmálanum? Voru svörin sem gefin voru fyrir kosningar innistæðulaus?

Stjórn Siðmenntar lýsir yfir verulegum vonbrigðum sínum með að stjórnarflokkarnir hafi ekki geta staðið við það sem þeir sögðu fyrir kosningar.

Stefnir í aðskilnað ríkis og kirkju!

domkirkja_althingi

Í svörum framboða til Alþingis, sem Siðmennt sendi þeim nú fyrir kosningar, kemur fram að næstum öll svara spurningunni um hvort þau styðja aðskilnað ríkis og kirkju með JÁ-i.

Framsókn sker sig úr með því að svara þvert NEI. Dögun og Alþýðufylkingin hafa ekki mótað sér stefnu og Flokkur fólksins og Íslenski þjóðernissinnar kusu að svara ekki.

Miðað við skoðanakönnun Félagsvísindadeildar Háskóla Íslands frá 21.10 þá nyti aðskilnaður ríkis og kirkju stuðnings 50 þingmanna af 63!

Um hvort framboðin hyggjast beita sér fyrir því að hefja undirbúning að ferli sem ljúki með aðskilnaði ríkis og kirkju er einnig stór hluti framboðanna sammála gera það.

Síðan er að bíða og sjá hvað gerist þegar úrslit liggja fyrir á sunnudaginn. Kjósendur geta hins vegar skoðað svör framboðanna hér á heimasíðu Siðmenntar.

 

Sjálfstæðisflokkurinn ályktar um aðskilnað ríkis og kirkju

Siðmennt sendi öllum framboðum til Alþingis fimm spurningar og óskaði eftir afstöðu þeirra. Svörin verða birt á næstu dögum í þeirri röð sem þau bárust.

Spurningarnar snúa að veraldlegu samfélagi og nauðsynlegt að kjósendur geti áttað sig á afstöðu framboðanna.

sjalfstaedisflokkurinn

Styður framboðið aðskilnað ríkis og kirkju?

Landsfundur 2015 ályktaði að aðskilja bæri ríki og kirkju með farsæld þjóðkirkjunnar og þjóðarinnar að leiðarljósi.

Mun framboðið beita sér fyrir því að á næsta kjörtímabili verði hafinn undirbúningur að ferli sem ljúki með aðskilnaði ríkis og kirkju?

Nei, hér ræðir um mál sem ekki verður ráðist í að frumkvæði eins flokks.

Styður framboðið skráningu trúar- og lífsskoðanir almennings?

Flokkurinn hefur ekki tekið afstöðu til þess.

Mun framboðið beita sér fyrir því að þau sem standa utan trúfélaga verði undanþegin svokölluðum sóknargjöldum?

Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki tekið afstöðu til þess.

Mun framboðið að beita sér fyrir því að afnema lagaskyldu (lög nr. 35/1970) um að sveitarfélögum sé skylt að sjá trúfélögum fyrir ókeypis lóðum og ívilnunum tengdum því?

Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki tekið afstöðu til þess.

 

Frá Siðmennt:

Sumar gætu virst léttvægar en falla í þann flokk sem við getum kallað „frelsis“ málefni. Þó þau skori ekki hátt í áherslum kjósenda eins og t.d. heilbrigðismál og skólamál þá eru margir sem telja þau þrátt fyrir það mikilvæg. Fólk samsamar sig viðhorfum framboðanna og mátar sig við þau.

Það skal tekið fram að Siðmennt tekur ekki afstöðu til einstakra flokka eða frambjóðenda

 

 

Samfylkingin vill aðskilnað ríkis og kirkju

Siðmennt sendi öllum framboðum til Alþingis fimm spurningar og óskaði eftir afstöðu þeirra. Svörin verða birt á næstu dögum í þeirri röð sem þau bárust.

Spurningarnar snúa að veraldlegu samfélagi og nauðsynlegt að kjósendur geti áttað sig á afstöðu framboðanna.

samfylking

Styður framboðið aðskilnað ríkis og kirkju?

Á landsfundi Samfylkingarinnar árið 2015 var eftirfarandi stefna samþykkt:

Til að tryggja jafna stöðu allra trúar- og lífsskoðanafélaga og skapa samfélag án mismununar telur Samfylkingin nauðsynlegt að slík félög hafi öll sömu stöðu innan samfélagsins og gagnvart ríkisvaldinu, og að gerð verði skýr aðgerðaráætlun sem miðar að því að ríki og kirkja verði aðskilin.

Mun framboðið beita sér fyrir því að á næsta kjörtímabili verði hafinn undirbúningur að ferli sem ljúki með aðskilnaði ríkis og kirkju?
Já, það er stefna Samfylkingarinnar að gera skýra aðgerðaáætlun sem miðar að aðskilnaði ríkis og kirkju. Fyrir því mun Samfylkingin beita sér á næsta kjörtímabili.

Styður framboðið skráningu trúar- og lífsskoðanir almennings?

Samfylkingin hefur ekki ályktað sérstaklega um skráningu trúar- og lífsskoðana almennings. Mjög mikilvægt er að slíkar viðkvæmar upplýsingar séu ekki misnotaðar og við meðferð þeirra sé gætt ítrustu persónuverndarsjónarmiða. Samfylkingin vill að stjórnvöld séu hlutlaus gagnvart lífsskoðunum, trúarlegum eða veraldlegum. Vandséð er að skráning trúar- og lífsskoðana samræmist því markmiði og því þyrfti að finna aðra leið til að finna viðmið fyrir svokölluð sóknargjöld.

Mun framboðið beita sér fyrir því að þau sem standa utan trúfélaga verði undanþegin svokölluðum sóknargjöldum?

Samfylkingin hefur ekki ályktað sérstaklega um sóknargjöld en leiðarljós í ályktunum Samfylkingarinnar um trú og lífsskoðanir er jöfn staða trúar- og lífsskoðunarfélaga og hlutleysi stjórnvalda gagnvart lífsskoðunum.

Mun framboðið að beita sér fyrir því að afnema lagaskyldu (lög nr. 35/1970) um að sveitarfélögum sé skylt að sjá trúfélögum fyrir ókeypis lóðum og ívilnunum tengdum því?

Samfylkingin hefur ekki ályktað um hvort afnema beri lagaskyldu um að sveitarfélögum sé skylt að sjá trúfélögum fyrir ókeypis lóðum og ívilnunum tengdum því. En ljóst er að ef á að ívilna á annað borð þá eigi öll lögformleg og skráð trúar- og lífsskoðunarfélög að hafa sama rétt í því efni.

 

Frá Siðmennt:

Sumar gætu virst léttvægar en falla í þann flokk sem við getum kallað „frelsis“ málefni. Þó þau skori ekki hátt í áherslum kjósenda eins og t.d. heilbrigðismál og skólamál þá eru margir sem telja þau þrátt fyrir það mikilvæg. Fólk samsamar sig viðhorfum framboðanna og mátar sig við þau.

Það skal tekið fram að Siðmennt tekur ekki afstöðu til einstakra flokka eða frambjóðenda