Eitt hundraðasta athöfnin!

Steinar Harðarson hefur náð þeim merka áfanga að hafa verið úthlutað eitt hundruðustu athöfn sinni sem athafnarstjóri Siðmenntar. Hann er því reynslumesti athafnarstjóri félagsins en 40 konur og karlar sinna þessu mikilvæga starfi. Á meðfylgjandi mynd er Steinar að stjórna giftingu sumarið 2016 við Hvaleyrarvatn.

Steinar var í hópi fyrstu félagsmanna Siðmenntar sem sóttu námskeið í athafnastjórnun síðla árs 2007. Hann hefur sinnt flestum nafngjöfum allra, verið öflugur við giftingar en einnig þjónustað flestar útfarir á vegum Siðmenntar. Það er mikilvægt fyrir Siðmennt að hafa slíkan dugnaðarfork á sínum snærum sem nýtur trausts og álits þeirra sem hann hefur þjónað.

Á tímabilinu frá 2007-2017 eru skráðar 838 athafnir sem Siðmennt hefur sinnt og hefur farið hratt fjölgandi. Það sem einkennir athafnirnar er að þær eru veraldlegar, persónulegar, fallegar og miðast við óskir þeirra sem til félagsins leita. Ekki er spurt um trú eða lífsskoðun, kynhneigð eða litarhátt heldur er verið þjónusta fólk.

Stjórn Siðmenntar óskar Steinari til hamingju.

Námskeið í athafnarstjórnun – Siðmennt óskar eftir nemum af landsbyggðinni

Helgina 14-15. maí mun Siðmennt standa fyrir námskeiði í athafnarstjórnun.

Ljósm. Bragi Þór Jósefsson
Ljósm. Bragi Þór Jósefsson

Áhersla verður lögð á að fá nema á námskeiðið sem búsettir eru á landsbyggðinni því að þar sárvantar athafnarstjóra.  Eftirspurn eftir athafnarstjórum í nafngjafir og sérstaklega giftingar hefur aukist mikið síðustu 2 árin úti á landi.  Giftingar í náttúrufegurð landsins njóta vaxandi vinsælda, bæði meðal Íslendinga og erlendra para.  Það vantar athafnarstjóra í alla landsfjórðunga.

Þátttökuskilyrði. Til þess að koma til greina sem nemi í athafnarstjórnun hjá Siðmennt þarf umsækjandi að hafa náð 25 ára aldri og:

  • Eiga samleið í lífsskoðunum með félaginu (sjá stefnuskrá Siðmenntar).
  • Hafa áhuga á athöfnum, mannlegum samskiptum og því að gera athafnardag fólks eftirminnilegan.
  • Búa yfir reynslu í því að koma fram og halda ræður/fyrirlestra.  Skýrmælgi og opna tjáningu.
  • Geta ritað gott mál og skipulegan texta með heimspekilegri nálgun og andríki.
  • Búa yfir sjálfstrausti, hlýleika, yfirvegun, snyrtimennsku, þolinmæði, staðfestu, sveigjanleika og frumkvæði.

Þá er kunnátta í tungumálum (a.m.k. ensku) æskileg.  Fleiri atriði eiga við en þau eru rædd nánar við umsækjendur eftir fyrirspurn/umsókn.

Námskeiðið er í tveimur hlutum:

  1. Fjarkennsla í 4 vikur.  Lesefni vikulega og eitt ritverkefni.  Hefst 17. apríl. (má hefjast viku síðar ef nauðsyn ber til).
  2. Námskeið helgina 14-15. maí.  Viðvera 09-16 báða dagana.  Staðsetning líklega á höfuðborgarsvæðinu. Umsækjendur af landsbyggðinnni fá greiddan ferðakostnað.

Námskeiðsgjald er 0 kr.  Að loknu námskeiði er ákveðin þjálfun sem þarf að uppfylla áður en vígsluleyfi fæst fyrir giftingar.  Ábyrgðarmaður athafna Siðmenntar er Jóhann Björnsson, formaður félagsins.

Námskeiðið beinist aðallega að því að kenna athafnarstjórnun við nafngjafir og giftingar.  Athafnarstjórnun við útfarir er einnig kennd en ekki er ætlast til að athafnarstjóraefni taki þær að sér eftir námskeiðið. Athafnarstjórar Siðmenntar eiga þess einnig kost að stýra athöfnum borgaralegrar fermingar.

Umsóknir (með nafni, kt., heimilisfangi og síma) óskast sem fyrst eða í síðasta lagi 16. apríl.  (undanþágu frá fresti má skoða til 10. maí).  Þær skal senda á athafnir@sidmennt.is

Fagstjóri athafnaþjónustu Siðmenntar og umsjónarkennari námskeiðsins er Svanur Sigurbjörnsson.

Framkvæmdastjóri Siðmenntar og rekstrarstjóri athafnaþjónustunnar er Bjarni Jónsson.

Nánari upplýsingar má fá með sendingu fyrirspurnar til Svans/Bjarna á athafnir@sidmennt.is

Fyrsta gifting samkynhneigðra hjá Siðmennt

Fyrsta gifting samkynhneigðra hjá Siðmennt

Fyrsta gifting samkynhneigðra sem athafnarstjóri hjá Siðmenntar stýrði átti sér stað laugardaginn 11. ágúst. Það voru þær Jana Björk Ingadóttir og Jóhanna Kristín Gísladóttir sem giftu sig með persónulegri athöfn í viðurvist sinna nánustu, að morgni dags rétt fyrir Gay Pride gönguna. Það var ánægjulegt að Hörður Torfason, einn af 15 athafnarstjórum Siðmenntar og handhafi húmanistaviðurkenningar félagsins 2010, sá um athöfnina en hann er upphafsmaður réttindabaráttu samkynhneigðra á Íslandi. Siðmennt fagnar þessum tímamótaviðburði, enda hefur félagið alltaf stutt jafnréttisbaráttu samkynhneigðra.

Lesa

Meirihluti Skota giftir sig með veraldlegum hætti

Húmanistar í Skotlandi hafa náð einstökum árangri í að veita veraldlega/húmanískar athafnir. Samkvæmt tölum um giftingar fyrir 2011 kjósa 52% Skota að gifta sig með veraldlegum hætti og þá eru með taldar athafnir á vegum borgaralegra yfirvalda.. Árið 1971 kusu 31% veraldlega athöfn og því ljóst að vinsældir húmanískra athafna hafa aukist mjög hratt.

Humanist Society Scotland (HSS), systurfélag Siðmenntar, fékk lagalega stöðu árið 2005 til að gifta. Það árið giftu sig um 100 pör á vegum HSS. Árið 2010 giftu sig 2.092 pör hjá HSS og árið 2011 2.846 pör. Til samanburðar fyrir árið 2011 giftu sig 1.729 pör hjá kaþólsku kirkjunni og 5.557 pör hjá Church of Scotland (CoS) og er því gifting á vegum HSS önnur vinsælust. Með sama áframhaldandi vexti í húmanískum athöfnum munu fleiri velja giftingu hjá HSS en hjá CoS árið 2015

Lesa