Þátttaka í borgaralegri fermingu slær öll met!

fermingarskjöl 2012Nú hafa 322 börn skráð sig í borgaralega fermingu Siðmenntar árið 2016. Aldrei fyrr hafa þau verið svo mörg en um er að ræða 8% barna sem eru á fermingaraldri. Stjórn Siðmenntar er afar ánægð með þátttökuna sem sýnir að það er mikilvægt að börn eigi valkosti m.a. þegar kemur að fermingarfræðslu.

Fermingarfræðslan hefst í fyrstu viku janúar en börnin sækja námskeið einu sinni í viku yfir 12 vikna tímabil. Einnig er boðið upp á helgarnámskeið fyrir börn utan af landi. Þá verða sérstök námskeið á Akureyri og í Árborg vegna mikillar þátttöku. Umsjón kennslunnar er í höndum Jóhanns Björnssonar en auk hans verða 8 kennarar á námskeiðum vetrarins.

Námskeiðin hafa hlotið afburða góða einkunn bæði barna og foreldra þeirra. Þar er mikil áhersla lögð á að þjálfa þátttakendur í að hugsa gagnrýnið og skapandi ásamt því að auka færni í að takast á við siðferðileg álitamál. Þátttakendur fá síðan tækifæri til þess að bregðast við og taka afstöðu til ýmissa mála á gagnrýninn hátt og af siðferðilegum heilindum. Þessi mál eru m.a.: hvernig er að vera unglingur í auglýsinga- og neyslusamfélagi, fordómar og fjölmenning, hamingjan og tilgangur lífsins, skaðsemi vímuefna, sjálfsmynd unglinga og samskipti kynjanna, sorg og áföll, samskipti unglinga og fullorðinna, hverju getur maður trúað?

Móðir eins fermingarbarns sem býr erlendis hefði þetta að segja um námskeiðið sem sonur hennar tók þátt í síðastliðinn vetur:

„Við höfðum heyrt um ferminguna frá vinum og kunningjum en vissum í sjálfu sér ekki hvað námskeiðið fól í sér. Það kom okkur skemmtilega á óvart þegar við sáum hvernig verkefnin voru sett upp fyrir krakka sem búa erlendis. Að skrifa bréf vikulega var vissulega stressandi fyrir strákinn og ekki síður fyrir fjölskylduna sem sat og skeggræddi verkefni vikunnar yfir matartímum, á hóteli, í bílnum og nánast hvar sem er. Vinir og vandamenn bættust inn í umræðuna og umræðurnar eignuðust sjálfstætt líf í hvert skipti sem við ræddum þetta við aðila utan fjölskyldunnar (vinnufélaga, vini, skólafélaga og ættingja).”

Hún bætti svo við að „við fjölskyldan erum ótrúlega ánægð með námskeiðið ykkar“.

Nánari upplýsingar um Siðmennt og borgaralega fermingu gefa:
Jóhann Björnsson, s: 8449211
Bjarni Jónsson, s: 8968101

Myndir frá borgaralegri fermingu 2015

Kynningarfundur um borgaralega fermingu 2016, 15. nóvember

Kynningarfundur vegna borgaralegrar fermingar 2016 verður haldin sunnudaginn 15. nóvember 2015. Verður hann haldinn í stóra salnum í Háskólabíói og hefst kl 12:00.

Vonumst við til þess að sjá sem flesta þar. Reiknað er með því að fundurinn taki um 1 klukkustund þar sem farið verður yfir veturinn í stuttu máli, námskeiðið, athöfnina, kostnað, kennslustaði og aðra praktíska hluti.

Öll ungmenni og foreldrar/aðstandendur velkomnir!

BF2016-Kynningarfundur-723x1024

 

Ávarp fermingarbarns (Akureyri) – Elísabet Kristjánsdóttir

Elísabet Kristjánsdóttir

Ræða flutt við borgaralega fermingu í Hofi á Akureyri 30. maí 2015.

Komið þið sæl ég heiti Elísabet Kristjánsdóttir og er fædd á vörutalningardaginn 2. janúar árið 2001.  Vörutalningin sem foreldrar mínir lentu í þann daginn byrjaði í einum og endaði í einum. Og þó ég hafi fengið að njóta mín ein sem eftirlæti foreldra minna í 2 ár þá átti mikið eftir að breytast. Ég fékk litla systir nánast í tveggja ára afmælisgjöf og í dag þá á ég sjö systkyni, allavega síðast þegar ég taldi.

Ég er nefninlega í svona nútímafjölskyldu, hún samanstendur af; tveimur heimilum, hjá mömmu og fósturpabba þar sem alsystir mín býr líka ásamt tveimur hálfsystkinum. Og síðan hjá pabba og fósturmömmu en þar búa svo tvö fóstursystkin og tvær hálfsystur.

Ég er frá Akureyri, svona að mestu. Ég fæddist að vísu  á úlivoll spítalanum í Osló. flutti  til Reykjarvíkur eins árs gömul og byrjaði þá í mínum fyrsta leikskóla sem hét Korpukot en ég man voða lítið eftir þeim stað. Ég prófaði einnig  leikskóla á Stórutjörnum og á Akureyri.  Ég get því kallað mig heimsborgarbarn, borgarbarn, bæjarbarn og sveitarbarn. En ég get líka bara kallað mig, Elísabet.

Lesa

Borgaraleg ferming 2015 á Akureyri – ræða

Ræða sem Sigrún Stefánsdóttir forseti hug- og félagsvísindasviðs HA flutti við borgaralega fermingu í Hofi á Akureyri 30. maí 2015.

Sá á kvölina sem á völina

Kæru vinir.

Sigrún StefánsdóttirÞetta er stór dagur fyrir ykkur og hann er líka stór fyrir mig. Þetta er nefnilega í fyrsta skipti sem ég er viðstödd borgaralega fermingu. Mér þykir þetta falleg athöfn og fallegur hópur, sem situr hér fyrir framan mig á fyrsta bekk.

Mér þykir gaman að tala við börn og unglinga. Ég reyni að umgangast þennan aldurshóp eins mikið og ég get. Og niðurstaða mín er sú að mér þykja börn skemmtilegust á árunum 2-6 ára því þá eru þau að uppgötva heiminn og svo aftur þegar þau eru á aldrinum 12-16 ára því þá eru þau að uppgötva sjálf sig – þá eru þau farin að spyrja spurninga um lífið og tilveruna – um framtíðina og farin að þurfa að velja og hafna. Þar eruð þið einmitt stödd.

Stundum er talað um að þegar maður fermist sé verið að taka þann sama í tölu fullorðinna – ég er svolítið ósátt við þetta viðhorf sem má misskilja. – Maður er ekki barn einn daginn og fullorðinn næsta dag. Það er betra að líta á þessi tímamót sem áfanga í þroskaferli en ekki einhvers konar stökkbreytingu úr barni í fullorðinn einstakling. Þetta er ekkert hókus pókus – nú er ég fullorðinn og má allt. Það er alls ekki þannig.

Þið eruð á þeim stað í lífinu þar sem þið viljið prófa ykkur áfram og fá að ákveða sjálf hvaða leiðir þið farið. Það er eðlilegt.

Og það er einmitt þetta með valið – val um leiðir sem mig langar til að tala um. Og þess vegna kalla ég þessa litlu tölu mína – Sá á kvölina sem á völina

Lesa