Posts Tagged ‘Blaðagreinar’

Siðrænir húmanistar á Íslandi fagna 20 ára afmæli Siðmenntar

Siðmennt, félag siðrænna húmanista á Íslandi, er málsvari manngildisstefnu og frjálsrar hugsunar. Það starfar óháð trúarsetningum og stendur fyrir félagslegum athöfnum. Siðmennt var stofnað 15. febrúar 1990 og verður 20 ára 15. febrúar n.k. Það er við hæfi að spyrja hvað hefur breyst í íslensku samfélagi á þessum tveimur áratugum í kjölfar stofnun Siðmenntar.

Hugtakið lífsskoðunarfélag hefur náð fótfestu í þjóðfélaginu. Siðmennt hefur unnið markvisst að því að kynna hugtakið fyrir þjóðinni. Lífsskoðunarfélög geta verið bæði veraldleg og trúarleg. Með lífsskoðunarfélagi er átt við félagsskap sem fjallar um siðfræði, þekkingarfræði og þjónustar við tímamótaathafnir fjölskyldna. Þessi viðfangsefni eru sambærileg þjónustu trúfélaga en inntakið er ekki trúarlegt og athöfnunum stýrir athafnarstjóri í stað prests. Hugtakið lifsskoðunarfélag er nú víða notað, bæði meðal almennings og innan stjórnsýslunnar. Þekkingarfræðin fjallar um hvernig við getum öðlast skilning á umheiminum, þ.e. hvað sé haldbær þekking og hvað ekki.

Nú (Gallup des. 2009) eru 74% þjóðarinnar þeirra skoðunar að það beri að aðskilja ríkið og kirkju. Ennfremur eru 70% meðlima þjóðkirkjunnar sammála því. Siðmennt hefur frá upphafi barist fyrir raunverulegu trúfrelsi á Íslandi. Þar með fyrir aðskilnaði ríkis og kirkju og gegn hvers kyns mismunun lífsskoðunarfélaga. Með fullum aðskilnaði gætu nokkrir milljarðar króna sparast árlega.

Í dag þykir sjálfsagt og eðlilegt að unglingar velti fyrir sér hvort þeir vilji fermast kirkjulega eða borgaralega eða alls ekki. Borgaraleg ferming verður vinsælli valkostur með ári hverju. Þannig hefur þátttakendum í borgaralegri fermingu fjölgað um 35% frá því á síðasta ári og eru nú ríflega 160 talsins skipt niður á sex námskeiðshópa auk fjarnáms. Það verða fjórar athafnir í vor; tvær í Reykjavík, ein á Akureyri og ein á Fljótsdalshéraði.

Lesa áfram ...

Staðlausir stafir um Siðmennt

[Þessi grein var birt í Morgunblaðinu 3. febrúar 2010 og einnig á www.skodun.is]

„Fordómar Siðmenntar gagnvart kristinni trú og fagmennsku kennara eru löngu orðnir augljósir og þegar rök þeirra eru úr lausu lofti gripin færi betur á að ritstjórar blaðanna stöðvuðu slíkar greinar. En í þessu sem öðru þurfa forsvarsmenn Siðmenntar ætíð að hafa síðasta orðið og því fróðlegt að sjá hvenær næsta grein birtist.“

Með þessum orðum lýkur grunnskólakennarinn Fjalar Freyr Einarsson grein sem hann skrifar um Siðmennt. Grein sem ber titilinn „Staðlausir stafir Siðmenntar“.

Titillinn og lokaorðin eru áhugaverð af ýmsum ástæðum. Þó helst þeim að innihald greinarinnar er lítið annað en samansafn af staðlausum stöfum um Siðmennt og þeirri ótrúlegu tillögu grunnskólakennarans, uppfræðara barna, að greinar frá Siðmennt verði ritskoðaðar að hætti Google í Kína.

Afstaða kennarans til tjáningarfrelsis er að mörgu leyti skiljanleg þegar hún er sett í sögulegt samhengi. Ritskoðun hefur í gegnum tíðina verið helsta vopn þeirra sem hafa valdið og ekki síður þeirra sem hafa vondan málstað að verja. Ef ritstjórar Morgunblaðsins ákveða að hlýða kennaranum og ákveða að koma í veg fyrir birtingu þessarar greinar fá lesendur blaðsins seint að vita að fullyrðingar kennarans um Siðmennt eru rangar eða með öðrum orðum staðlausir stafir.

Í grein sinni fullyrðir Fjalar að Siðmennt sé á móti fræðslu um trúarbrögð. Þetta er vitleysa sem hefur svo oft verið leiðrétt að það eru aðeins til tvær líklegar ástæður fyrir því að kennarinn fer með þessa staðlausu stafi. Annað hvort er hann ótrúlega fáfróður um efnið sem hann skrifar um eða hann er beinlínis að segja ósatt málstað sínum til framdráttar. Hvorug skýringin ber vott um vönduð eða heiðarleg vinnubrögð af hálfu uppfræðara barna.

Sannleikurinn er auðvitað sá að Siðmennt styður eindregið öfluga kennslu um trúarbrögð, siðfræði og gagnrýna hugsun. Þetta hefur alltaf verið stefna félagsins og hefur það komið skýrt fram í opinberum stefnuskrám Siðmenntar, ótal blaðagreinum, opinberum erindum og fjölmiðlaumfjöllun. Það sem Siðmennt hefur gagnrýnt er trúboð og trúariðkun innan opinberra skóla. Slíkt er ekki það sama og fræðsla um trú og trúarbrögð. Fjölmörg dæmi um umkvartanir foreldra vegna trúboðs og trúariðkunar í skólum má finna á vef Siðmenntar, www.sidmennt.is. Þar má líka finna stefnuskrár, opinber erindi og blaðagreinar þar sem afstaða Siðmenntar kemur skýrt fram. Ég hvet kennarann til að kynna sér þar stefnu Siðmenntar áður en hann nýtir sér næst tjáningarfrelsið og hvetur til ritskoðunar.

Að lokum vil ég nota tækifærið og vitna í stefnuskrá Siðmenntar, sem væntanlega er til vitnis um „fordóma“ og „umburðarleysi“ félagsins:

„Siðmennt lítur svo á að sannfæringarfrelsi, trúfrelsi og tjáningarfrelsi teljist til almennra lýðréttinda. Þau skuli ná til allra og þau megi hvorki afnema né skerða undir neinum kringumstæðum. Félagið telur að hið opinbera (ríkið, stjórnkerfið, þingið, dómskerfið, mennta- og heilbrigðiskerfið) eigi að starfa eftir veraldlegum leikreglum og án merkimiða einstakra trúar- eða lífsskoðunarfélaga. Félagið fer því fram á aðskilnað ríkis og kirkju og berst fyrir breytingum á lagaákvæðum sem mismuna þeim er standa utan trúfélaga.“

Höfundur situr í stjórn Siðmenntar.

Vinur aftansólar sértu. Sonur morgunroðans vertu

„Vinur aftansólar sértu. Sonur morgunroðans vertu.“

Þannig orti siðræni húmanistinn, vestur-íslenska skáldið Stephan G. Stephanson, fyrir rúmri öld. Og þannig kjósa afkomendur Sigurbjarnar Einarssonar biskups að byrja minningargrein sína um hann í Morgunblaðinu 6. september og bæta við: „Þennan texta raulaði afi (þ.e. Sigurbjörn biskup) svo oft fyrir lítil börn“.

Þorsteinn Pálsson skrifaði í leiðara Fréttablaðsins sama dag: „Í honum (Sigurbirni Einarssyni) var einhver merkileg blanda þeirrar hógværðrar og lágra bursta sem einkenna skaftfellska sveitamenningu og mustera heimsmenningarinnar“. Lokaorð Þorsteins eru: „Kirkjan á hins vegar ekki sögu hans ein og sér. Á sinn hátt var Sigurbjörn Einarsson svo ríkur þáttur í sjálfsmynd Íslendinga að í sögunni verður hann maður fólksins í landinu“.

Lesa áfram ...

Borgaralegar athafnir

Mér finnst ekki úr vegi að í þessum helsta trúarumræðudálki íslenskra dagblaða, sem Bréf til blaðsins óneitanlega er, komi fréttir af okkur efasemdarmönnunum.

Mánudaginn 20. apríl fór fram fjórða borgaralega fermingin hérlendis. Fjöldi fermingarbarna var mjög svipaður og undanfarin ár, eða 15 talsins. Um 250 manns voru viðstaddir athöfnina, sem fram fór í menningarmiðstöðinni Hafnarborg. Dagskrá var fjölbreytt: tónlist, söngur, upplestur og ávörp. Ræðumenn dagsins voru rithöfundarnir Sigurður A. Magnússon og Sjón. Sigurður lagði í orðum sínum áherslu á dýrmætasta frelsið væri hið innra frelsi. í því fælist viljinn til að vera sjálfstæður, fylgja ekki fjöldanum í öllu, til að mynda neysluvenjum og lífsskoðunum. Sjón notaði tækifærið í sínu erindi til að eiga stefnumót við unglinginn í sjálfum sér. Nokkuð langt væri um liðið síðan hann hefði yrt á þann kumpána.

Að mati okkar í Siðmennt eru borgaralegar fermingar nú að festast varanlega í sessi. Slíkt er mjög ánægjulegt því að viðeigandi sé að bjóða alla einstaklinga velkomna í fullorðinna manna tölu hverjar sem lífsskoðanir þeirra séu.

En Siðmennt hefur ekki aðeins staðið fyrir fermingum. Hún hefur einnig stundað ráðgjöf varðandi borgaralegar útfarir. Nýkominn er út bæklingurinn „Borgaraleg útför, annar möguleiki.“ Augljóst er að þörf hefur verið fyrir hann, því að viðbrögð við honum hafa verið bæði öflug og jákvæð. Dreifing hans hefur af þeim sökum gengið mun hraðar en búist hafði verið við. Bæklinginn má fá ókeypis hjá stjórnarmönnum Siðmenntar, t.d. Helga (s. 641613) eða Hope (s. 73734). Fyrir þá sem vilja fá nánari upplýsingar verður hins vegar umræðu og kynningarfundur um borgarlega útför miðvikudaginn 13. maí kl. 20.30 á Hverfisgötu 21 (húsi Félags bókagerðarmanna).

HELGI M. SIGURÐSSON, formaður Siðmenntar, félags um borgaralegar athafnir, Fagrahjalla 4, Kópavogi.

Húmanismi í stað trúar

Orðið húmanismi hefur verið skilgreint á marga vegu í gegnum tíðina því að margir hafa viljað skreyta sig með honum ef svo má segja. Undantekning var þó 68kynslóðin, eða hluti hennar. Hún sagði húmanista gjarnan vera gervilegir og loftkenndir. Meðal hinna mörgu sem hafa viljað eigna sér húmanismann eru hins vegar til að mynda ýmsar stjórnmálahreyfingar. Þær segja sem svo að stefna sín stuðli að friði og velferð i heiminum. Sumir guðfræðingar líta einnig svo á að kristnin boði húmaníska siðfræði: elska skaltu náunga þinn o.s.frv. Alþjóðahreyfing húmanista tengist þó hvorki trúarstefnum né stjórnmálastefnum. Innan hennar er beinlínis litið svo á að húmanismi sé andstæða trúarhyggju. Og markmið húmanismans varðandi stjórnmál eru almennari en svo að þau megi tengja einstökum stjórnmálastefnum.

Samtök húmanista hafa verið við lýði i heiminum síðan á 19. öld og starfa þau nú í yfir 40 löndum, þar á meðal á öllum Norðurlöndunum. Þeirra yngst er íslenska félagið, sem nefnist „Siðmennt, félag áhugafólks um borgaralegar athafnir“. Það hefur starfað í á annað ár og hefur um eitt hundrað félagsmenn. I Noregi, heimalandi fyrirlesarans Kari Vigeland, nefnist félag húmanista „HumanEtisk Forbund“ (skammstafað: HEF). HumanEtisk Forbund hefur náð því að verða gífurlega fjölmennt og áhrifamikið. Fundi þess og samkomur sækja árlega nálægt eitt hundrað þúsund manns. Þegar umræður fara fram í fjölmiðlum um skóla og menntamál eru þau einnig nær sjálfsagður þátttakandi. Sömuleiðis er leitað ráðgjafar hjá þeim ef samin eru frumvörp eða reglugerðir sem tengjast lífsskoðunarmálum. Aðstæður í Noregi eru að mestu leyti þær sömu hérlendis, en þó ekki öllu. Trúaráhugi Norðmanna er mjög lítill, eitt til tvö prósent sækja kirkjur reglulega. Vel er þó búið að kirkjulegu starfi með opinberum fjárframlögum engu síður en hér. En þjóðkirkjan norska er meira bókstafstrúar en við eigum að venjast og sama gildir um hinn almenna Norðmann.

HumanEtisk Forbund var stofnað árið 1956 og taldi lengi aðeins nokkur hundruð félaga. Fjölgunin í félaginu hefur einkum átt sér stað á undanförnum 15 árum. Árið 1976 voru félagsmenn um 1600, en eru nú um 44000. HEF er nú stærsta lífsskoðunar eða trúfélagið í Noregi utan þjóðkirkjunnar og raunar stærsta félag sinnar tegundar í heiminum. Ástæður þessa mikla uppgangs hafa menn rakið meðal annars til lífseiglu bókstafstrúarinnar í Noregi. Fríþenkjarar þar hafi fundið hjá sér sterkari þörf en ella að þjappa sér saman. Önnur ástæða og ekki síður mikilvæg er hæfir forystumenn og öflugt og markvisst starf. Sagt er að í hvert skipti sem norska kirkjan gengur fram af almenningi þá fjölgi í HumanEtisk Forbund. En það gerist þeim mun fremur sem HumanEtisk Forbund láti betur vita af sér.

Umfang starfsemi HumanEtisk Forbund má meðal annars marka af reikningum þess. Árið 1989 var veltan 15 miljónir norskra króna, þ.e. 150 miljónir íslenskar, og árið 1990 var hún komin upp í 17 miljónir. Þessi háa velta stafar af hinum mikla fjölda félagsmanna. Með hverjum þeirra borgar ríkið „sóknargjald“, auk sérstyrkja til ýmissa verkefna, aðallega á sviði fræðslumála. Ennfremur leggja félagsmenn fram greiðslur í formi áskrifta o.s.frv. Styrkir og tekjur af hverjum félagsmanni eru þannig rúmlega 4000 íslenskar krónur á ári. Launaðir starfsmenn HumanEtisk Forbund eru um 15 talsins og vinnur um helmingur þeirra á aðalskrifstofunni í Osló. Hinir starfa úti í fylkjunum.

Stærð HumanEtisk Forbund kann að vekja upp ýmsar spurningar. Félag með svo stóran hóp á bak við sig er orðið umtalsvert samfélagslegt afl í ekki stærra landi en Noregur er. Og hvernig og i hvers þágu á að beita þessu afli? Þess má geta að 5 af 18 ráðherrum í ríkistjórn Noregs fram að síðustu kosningum (fyrir nokkrum vikum), þar á meðal Brundtland sjálf, voru eða höfðu verið félagar í HEF. Þessari staðreynd var velt upp fyrir skömmu i norskum fjölmiðlum, m.a. vegna þess að í stjórnarskrá landsins segir að ríkisstjórn landsins skuli styðja og styrkja ríkis kirkjuna. En í raun er lítil forsenda fyrir vangaveltum af þessu tagi. Starfsemi HumanEtisk Forbund snýst fyrst og fremst um borgaralegar athafnir. Á árunum 19891990 fóru fram 350 útfarir á vegum félagsins, 1700 börn voru nefnd og 8600 unglingar fermdust. Um 120.000 manns voru viðstaddir þessar athafnir. Nafngiftirnar eru nýjasti þátturinn í starfi HEF. Þær komust ekki á verulegan skrið fyrr en árið 1988, en síðan hafa þær tekið mikinn fjörkipp. Hafa þær náð mun hraðari útbreiðslu en til að mynda fermingin gerði.

Fermingarnar eru þó sem fyrr stærsti þátturinn í starfinu. Um 4000 ungmenni fermast árlega á vegum félagsins á um 100 stöðum á landinu. Eru það nálægt 10% allra fimmtán ára ungmenna í landinu. Ýmis vandamál hamla þó enn starfi HEF á þessum vettvangi. Til að mynda hefur ekki nema á stöku stað fengist leyfi til að kynna borgarlega fermingu í skólum (sama sagan og á Íslandi). Kirkjunnar menn hafa hins vegar þrengt sér inn í skólana í mun meiri mæli en lög leyfa. Togstreitan um borgaralegu ferminguna kemur einnig fram í dagblöðunum. Á síðastliðnu ári voru til að mynda um 100 greinar skrifaðar með henni og móti.

Á árunum 1989 og 1990 voru fulltrúar HumanEtisk Forbund ræðumenn við um 3150 útfarir. Er það svipaður fjöldi og verið hefur um nokkurt skeið. Fyrir um ári gerðist það að fimm þingmenn Verkamannaflokksins lögðu fram frumvarp um að kirkjur landsins skyldu opnaðar borgaralegum útförum. Það fékk lítinn hljómgrunn. Slíkt tíðkast hins vegar hérlendis, eins og kunnugt er.

Meðal áhugamála HumanEtisk Forbund er skólastaf. Er skóla og námsfulltrúi í fullu starfi og gegnir því nú maður af íslensku móðerni, Kjartan Selnes. Norska kirkjan hefur verið ágeng í skólum. Meðal annars fer fermingarundirbúningur þar fram að hluta til. Þessu hefur HEF unnið gegn.

Einnig hefur félagið unnið að námsefni sem komið getur í stað kristnidómsfræðslu og er byrjað að taka það til kennslu.

Útgáfustarfsemi er veruleg á vegum Human

Etisk Forbund. Flaggskipið, ef svo má segja, er tímaritið Humanist. Það hefur eflst eins og annað í félaginu með auknum félagafjölda og hefur nú mesta útbreiðslu „menningartímarita“ í Noregi. Húmainstaverðlaunin eru enn einn þátturinn. Þau eru veitt árlega einstaklingi sem haldið hefur á lofti húmanískum sjónarmiðum í ræðu og riti. Einnig veitir HEF námsstyrk einum nemanda á ári o.s.frv.

Að lokum má nefna eitt megin stefnumið HumanEtisk Forbund. Það er aðskilnaður ríkis og kirkju í Noregi. Beinist baráttan þar sérstaklega að stjórnarskrárgrein númer tvö. Lítið virðist hafa miðað á því sviði upp á síðkastið. En þó fara undirtektir heldur vaxandi. Jafnvel margir kirkjunnar menn sjá kosti við aðskilnað ríkis og kirkju, þ.e. þeir telja að draga muni úr lognmollu í trúarlífinu. Margvísleg starfsemi fer fram af hálfu HEF gegn stjórnarskrárgrein nr. 2, m.a. fundahöld, upplíming auglýsingaspjalda, dreifing eyðublaða fyrir fólk til að segja sig úr ríkiskirkjunni o.s.frv. Enda virðist ríkiskirkja, með öllum sínum forréttindum, samræmast illa frjálsri skoðanamyndun og lýðræðisvitund nútímans.

Höfundur er formaður Siðmenntar


Login