Nýir athafnarstjórar Siðmenntar

Hér má sjá glæsilegan hóp sem útskrifaðist úr bóklega hluta athafnarstjórnanáms Siðmenntar eftir fjarnám í 4 vikur og námskeiðshelgi 14-15. maí.

Athafnastjóranámskeið 2016
Neðri röð f.v. Elísabet Gunnarsdóttir (Ísafirði), Anna Pála Sverrisdóttir, Gyða Einarsdóttir, Árni Grétar Jóhannsson og Stefanía Pálsdóttir, Efri röð f.v. Kristrún Ýr Einarsdóttir (Húsavík), Kristín Amalía Atladóttir (Héraði) Tinna Jóhannsdóttir, Ingibjörg Sædís Bergsteinsdóttir, Elías Bjartur Einarsson, Bæring Jón Breiðfjörð Guðmundsson (Hella), Helga Jóhanna Úlfarsdóttir (Skeiðum, Gnúpvhr.), Ólöf Hugrún Valdimarsdóttir og Brynja Finnsdóttir (Akureyri).

Námskeið í athafnarstjórnun – Siðmennt óskar eftir nemum af landsbyggðinni

Helgina 14-15. maí mun Siðmennt standa fyrir námskeiði í athafnarstjórnun.

Ljósm. Bragi Þór Jósefsson
Ljósm. Bragi Þór Jósefsson

Áhersla verður lögð á að fá nema á námskeiðið sem búsettir eru á landsbyggðinni því að þar sárvantar athafnarstjóra.  Eftirspurn eftir athafnarstjórum í nafngjafir og sérstaklega giftingar hefur aukist mikið síðustu 2 árin úti á landi.  Giftingar í náttúrufegurð landsins njóta vaxandi vinsælda, bæði meðal Íslendinga og erlendra para.  Það vantar athafnarstjóra í alla landsfjórðunga.

Þátttökuskilyrði. Til þess að koma til greina sem nemi í athafnarstjórnun hjá Siðmennt þarf umsækjandi að hafa náð 25 ára aldri og:

  • Eiga samleið í lífsskoðunum með félaginu (sjá stefnuskrá Siðmenntar).
  • Hafa áhuga á athöfnum, mannlegum samskiptum og því að gera athafnardag fólks eftirminnilegan.
  • Búa yfir reynslu í því að koma fram og halda ræður/fyrirlestra.  Skýrmælgi og opna tjáningu.
  • Geta ritað gott mál og skipulegan texta með heimspekilegri nálgun og andríki.
  • Búa yfir sjálfstrausti, hlýleika, yfirvegun, snyrtimennsku, þolinmæði, staðfestu, sveigjanleika og frumkvæði.

Þá er kunnátta í tungumálum (a.m.k. ensku) æskileg.  Fleiri atriði eiga við en þau eru rædd nánar við umsækjendur eftir fyrirspurn/umsókn.

Námskeiðið er í tveimur hlutum:

  1. Fjarkennsla í 4 vikur.  Lesefni vikulega og eitt ritverkefni.  Hefst 17. apríl. (má hefjast viku síðar ef nauðsyn ber til).
  2. Námskeið helgina 14-15. maí.  Viðvera 09-16 báða dagana.  Staðsetning líklega á höfuðborgarsvæðinu. Umsækjendur af landsbyggðinnni fá greiddan ferðakostnað.

Námskeiðsgjald er 0 kr.  Að loknu námskeiði er ákveðin þjálfun sem þarf að uppfylla áður en vígsluleyfi fæst fyrir giftingar.  Ábyrgðarmaður athafna Siðmenntar er Jóhann Björnsson, formaður félagsins.

Námskeiðið beinist aðallega að því að kenna athafnarstjórnun við nafngjafir og giftingar.  Athafnarstjórnun við útfarir er einnig kennd en ekki er ætlast til að athafnarstjóraefni taki þær að sér eftir námskeiðið. Athafnarstjórar Siðmenntar eiga þess einnig kost að stýra athöfnum borgaralegrar fermingar.

Umsóknir (með nafni, kt., heimilisfangi og síma) óskast sem fyrst eða í síðasta lagi 16. apríl.  (undanþágu frá fresti má skoða til 10. maí).  Þær skal senda á athafnir@sidmennt.is

Fagstjóri athafnaþjónustu Siðmenntar og umsjónarkennari námskeiðsins er Svanur Sigurbjörnsson.

Framkvæmdastjóri Siðmenntar og rekstrarstjóri athafnaþjónustunnar er Bjarni Jónsson.

Nánari upplýsingar má fá með sendingu fyrirspurnar til Svans/Bjarna á athafnir@sidmennt.is

Athafnaþjónusta Siðmenntar þakkar fyrir sig

Á árinu sem nú er að líða hafa miklar breytingar átt sér stað hjá athafnaþjónustu Siðmenntar.  Þann 3. maí síðastliðinn fékk félagið lögskráningu sem lífsskoðunarfélag hjá Innanríkisráðuneytinu og með því þann rétt að athafnarstjórar þess gátu gefið saman hjónaefni í hjónaband á lögformlegan máta.Gifting við Gróttu

Við þetta varð sprenging í beiðnum um giftingar og nú í lok árs hafa athafnarstjórar Siðmenntar gefið saman 36 pör, þar af 33 lögformlega.  Síðustu tvær gifingarnar fóru einmitt fram í dag gamlársdag.  Þetta er meira en 300% aukning frá í fyrra þegar félagið gaf saman 11 pör eftir að þau höfðu leitað til sýslumanns með lögformlega hlutann.

Einnig var áframhaldandi aukning á öðrum athöfnum og samanlagt urðu þær 79 í ár en voru 43 í fyrra.  Æ fleiri leita til félagsins með útfarir því að óháð aðild fólks í trú- eða lífsskoðunarfélag segist það “ekki vilja prest” og fær því veraldlega útför hjá Siðmennt.  Æ fleiri vita nú af þessum möguleika.

Í fyrra gaf félagið saman samkynhneigðar konur í flottri athöfn í Grand Hotel og í ár við vetrarsólstöður gaf athafnarstjóri frá Siðmennt saman samkynhneigað menn í sólarlaginu kl 15:20 úti á Gróttu.  Það voru menn frá Ástralíu og því hefðu þeir vart getað ferðast lengra til að fá að gifta sig.

Félagið hefur fengið sjö nýja athafnarstjóra til liðs við sig eftir athafnarstjóranám í haust og á nú að skipa 20 manns sem munu taka við hinu aukna álagi sem við búumst fastlega við á nýju ári.

Þann 1. janúar tekur gildi ný verðskrá fyrir athafnir.  Nafngjöf kostar kr. 14.500, gifting kr 28.500 og hlutur beiðanda í útför kr. 17.000. –  Viðbótargjöld vegna ferða umfram 30 km geta átt við.

Fyrir hönd athafnaþjónustu Siðmenntar þökkum við athafnarstjórar félagsins og undirritaður umsjónarmaður fyrir fyrir frábærar viðtökur og hlýjar samverustundir á árinu sem nú er senn liðið og óskum ykkur gleðilegs nýs árs.  Það er með tilhlökkun sem við nætum nýju ári, 2014 og vonum að góðu stundirnar við athafnir ykkar verði sem flestar og áfram ríkulegar af gæðum.

Svanur Sigurbjörnsson

Athafnaþjónusta Siðmenntar á vaxandi vinsældum að fagna

Athafnaþjónusta Siðmenntar á Suðvesturlandi og Norðurlandi

Siðmennt hefur starfrækt athafnaþjónustu fyrir tímamótaathafnir fjölskylda frá 29. maí 2008 (jarðskjálftadaginn) og hefur nú þjónað ríflega hundrað fjölskyldum yfir þann tíma við nafngjafir, heimafermingar, giftingar og útfarir.  Athafnirnar hafa verið á víð og dreif á höfuðborgarsvæðinu en einnig í Kjósinni, Mosfellsbæ, Heiðmörk, Hveragerði, Selfossi, Grindavík, Búðum, Þrastarskógi, Haukadal og Skagafirði.  Útigiftingar hafa verið vinsælar á sumrin, sérstaklega í Elliðaárdalnum.

Um 9 af hverjum 10 sem biðja um athafnarstjórn hjá Siðmennt eru utan félagsins.  Athafnir félagsins eru ekki með  trúarlegu innihaldi, heldur byggja þær á heimspekilegu siðferði (húmanisma) og þáttum sem eru persónulegir og vekja upp góðar tilfinningar.  Athafnir á vegum félagsins miðla hlýleika, hátíðleika og gleði.  Margir sjá sammannlega þætti í þeim og vilja athöfn hjá Siðmennt, t.d. foreldrar barns sem eru sitt hvorrar skoðunar í málum trúar eða lífsskoðana.  Athafnir Siðmenntar hafa þann eiginleika að þær geta sameinað fólk um þann grunn sem er sameiginlegur öllu mannfólki.

Siðmennt hefur í þjónustu sinni athafnarstjóra á Suðvesturhorni landsins og á Akureyri – Dalvíkursvæðinu. Smám saman er áætlað að auka þjónustuna og bjóða á fleiri stöðum.

Lagahliðin

Fyrir Alþingi liggur lagafrumvarp sem á að jafna stöðu veraldlegra lífsskoðunarfélaga eins og Siðmenntar fyrir lögunum og fái frumvarpið brautargengi er þess ekki langt að bíða að pör þurfi ekki að fara fyrst til sýslumanns til að gifting hjá Siðmennt sé bæði á lagalegum og fjölskyldulegum forsendum.  Nafngjafir hafa svo sem ekki haft neinn lagalegan tilgang þó að prestar hafi tekið af ómakið af foreldrunum og sent inn tilkynninguna um nafn barnsins.  Í lögum segir að það þurfi að nefna barn og skila inn skýrslu til Þjóðskrár áður en það er 6 mánaða gamalt.  Foreldrarnir geta gert það sjálfir og þurfa ekki neinn lögaðila til að koma að því.  Í tilviki útfara þarf að liggja fyrir leyfisbréf sýslumanns um að útför megi fara fram og þarf sá aðili sem stýrir útförinni að hafa það bréf í höndum hvort sem að það er ættingi, prestur eða athafnarstjóri.

Víð skírskotun

Athafnir Siðmenntar eru tilvaldar fyrir fólk sem vill ekki hafa trúarlega þætti í sinni athöfn sem það trúir ekki á eða höfðar ekki til þeirra.  Við það verður athöfnin mun persónulegri.  Þá eru nafngjafirnar einungis til að gefa barninu nafn og fagna komu þess í fjölskylduna en ekki til að fara með trúarjátningar eða skrá barnið í söfnuð eða félag.  Með því að fá nafngjafarathöfn gegnum Siðmennt er barninu leyft að vera barn.  Réttur þess til að velja þegar það er orðið sjálfráða um flókin efni er virtur.  Sama gildir um fermingar hjá Siðmennt.  Engar játningar um hollnustu gagnvart sérstökum hugmyndum eða leiðtogum.  Borgaraleg ferming er tími uppbyggilegrar fræðslu og þátttöku í umræðum um margt það sem skiptir máli í daglegu lífi.  Virt er að barnið fái að velja þegar það er orðið fullorðið.

Auðvelt að fá athöfn

Það er auðvelt að panta athöfn hjá Siðmennt.  Hér á síðunni fyrir ofan má finna hlekki á hverja athöfn og opna síðu með rafrænu umsóknarformi.  Eftir að það er sent mun umsjónarmaður athafnaþjónustunnar hafa samband innan fárra daga og finna athafnarstjóra fyrir umbeiðanda.  Verðið er hóflegt því að þessi þjónusta er að miklu leyti hugsjónavinna athafnarstjóranna. Fólk sem fær athöfn hjá félaginu og vill jafnframt ganga í það fær fyrsta ár aðildar frítt.  Í ár stefnir í tvöföldun á fjölda athafna frá í fyrra og það er von okkar að með hverju ári notfæri sér fleiri og fleiri þennan góða kost þegar að tímamótum kemur.

F.h. Athafnaþjónustu Siðmenntar, Svanur Sigurbjörnsson