Hvað er borgaraleg ferming?

Borgaraleg ferming er valkostur fyrir þá sem t.d. eru ekki reiðubúnir að strengja trúarheit, en vilja samt halda upp á þetta tímabil í lífi sínu eins og algengt er í fjölmörgum samfélögum. Tilgangur borgaralegrar fermingar er meðal annars að efla heilbrigð og farsæl viðhorf unglinga til lífsins.

Eiga sér stað sambærilegar athafnir erlendis?

Víðsvegar um heim eiga sér stað einhverskonar hátíðir þar sem lífi ungs fólks er fagnað. Oft er talað um manndómsvígslur í þessu samhengi. Í Noregi hafa borgaralegar fermingar tíðkast frá árinu 1951.

Hvenær var fysta borgaralega fermingin haldin á Íslandi?

Fyrsta borgaralega fermingin á Íslandi var árið 1989 og fermdust þá 16 ungmenni. Vorið 2019 var fjöldinn kominn upp í 545, sem eru tæp 13% af fermingarárgangnum. Tölfræði BF er uppfærð árlega og má skoða hana með því að smella hér.

Fyrir hverja er borgaraleg ferming?

Öll ungmenni. Trúarbrögð, kyn, uppruni, aldur, fötlun o.s.frv. skiptir engu máli. Við eigum það öll sameiginlegt að vera manneskjur hvernig sem við erum og borgaraleg ferming er fyrir alla.

Af hverju er orðið ferming notað um þetta?

Íslenska orðið “ferming” er dregið af latneska orðinu “confirmare” sem þýðir meðal annars “að styðja” eða “að styrkjast”. Ungmenni sem fermast borgaralega eru að styrkja þá ákvörðun sína að vera ábyrgir borgarar í lýðræðislegu samfélagi. Sjá nánar í grein eftir Jóhann Björnsson frá árinu 2001.

Hvernig unglingar velja að fermast borgaralega?

Allskonar unglingar velja að fermast borgaralega. Sumir tilheyra trúfélögum, aðrir ekki, sumir eiga við fötlun að stríða og aðrir ekki, sumir eru af erlendum uppruna og sumir hafa ekki náð fullkomnum tökum á íslensku, sumir eru bráðgerir og eiga mjög auðvelt með nám og sumir eiga erfitt með nám. Tekið er á móti hverjum og einum eins og hann er og er fjölbreytt mannlíf álitinn mikill kostur.

Ef maður á við fötlun eða röskun að stríða getur maður samt verið með í borgaralegri fermingu?

Já. Borgaraleg ferming er fyrir alla, burtséð frá því hvernig einstaklingarnir eru. Lömun, sjónskerðing, einhverfa, athyglisbrestur, ofvirkni og geðrænir erfiðleikar eru dæmi um fatlanir og raskanir sem sumir þátttakendur hafa átt við að glíma. Við komum til móts við alla og finnum lausnir.

Hvað er gert á undirbúningsnámskeiðinu?

Þátttakendur læra margt sem mun gagnast þeim í lífinu. Fjallað er meðal annars um siðfræði, gagnrýna hugsun, að taka erfiðar ákvarðanir, mannleg samskipti, mismunandi lífsskoðanir og lífsstíl, tilfinningar, skaðsemi vímuefna, sjálfsmyndina og samskipti kynjanna, hamingjuna, tilgang lífsins, fordóma og fjölmenningu, að vera unglingur í auglýsinga og neyslusamfélagi, umhverfismál, sorg og áföll. Þátttakendur fá mörg tækifæri til þess að mynda sér skoðun á hinum ýmsu málum og taka þátt í rökræðum.

Hvernig er athöfnin?

Að námskeiði loknu fer fram falleg og virðuleg athöfn og taka þau fermingarbörn sem vilja þátt í henni með ýmsum hætti s.s. tónlistarflutningi, ljóðalestri og ávörpum. Einnig koma gestir sem flytja ávörp. Í lok athafnar fá þátttakendur viðurkenningarskjal til staðfestingar þess að hafa tekið þátt í námskeiðinu.

Er hægt að vera með í fræðslunámskeiðinu en ekki athöfninni?

Já. Alveg sjálfsagt er að taka þátt í fermingarfræðslunni án þess að taka þátt í athöfninni og hafa sumir gert það.

Ef maður býr úti á landi getur maður verið með í borgaralegri fermingu?

Já. Undanfarin ár höfum við verið að fjölga helgarnámskeiðum úti á landi, og eru þau haldin t.a.m. á Akureyri, í Reykjanesbæ og á Selfossi. Ef 10 þátttakendur eða fleiri eru frá sama svæði er mögulegt að senda kennara á staðinn og halda helgarnámskeið. Einnig er haldið helgarnámskeið í Reykjavík sem stendur yfir í tvær helgar.

Ef maður býr í útlöndum getur maður tekið þátt í borgaralegri fermingu?

Já, þátttakendur sem búa erlendis gefst kostur á fjarnámi, fá send námsgögn og eru í vikulegu tölvupóstssambandi við kennarann.

Hvar get ég fengið fleiri upplýsingar og skráð mig?

Á vef Siðmenntar eða hjá verkefnastjóra borgaralegra ferminga, sem er Heiðrún Arna Friðriksdóttir, ferming@sidmennt.is – sími: 899-3295