Siðmennt

Málsvari manngildisstefnu og frjálsar hugsunar.

Siðmennt - félag siðrænna húmanista á Íslandi, var stofnað 1990. Félagið er málsvari manngildisstefnu (húmanisma) og frjálsrar hugsunar, óháð trúarsetningum, og stendur fyrir veraldlegum athöfnum.

Meira um Siðmennt

Það er mikilvægt að eiga val.

Frá árinu 1989 hefur Siðmennt staðið fyrir borgaralegum fermingum.

Mörg ungmenni á fermingaraldri eru ekki reiðubúin til að vinna trúarheit. Sum eru annarrar trúar eða trúa á guð á sinn hátt og önnur eru ekki trúuð. Fyrir þau ungmenni er borgaraleg ferming góður kostur.

Nánari upplýsingar um borgaralega fermingu

Fallegar veraldlegar eða húmanískar nafngjafarathafnir.

Siðmennt býður uppá uppá þjónustu athafnarstjóra við fallegar veraldlegar eða húmanískar nafngjafarathafnir til þess að gefa barni formlega nafn og fagna þeirri merku ákvörðun í lífi þess og fjölskyldunnar.

Meira um veraldlega nafngjöf

Siðmennt leiðir pör saman til giftingar óháð kynhneigð eða lífsskoðun.

Veraldleg/húmanísk gifting fer fram til að fagna því að par (óháð kynhneigð) vill opinbera heit sín til hvors annars á formlegan og hátíðlegan máta fyrir framan fjölskyldu sína og vini.

Nánar um veraldlega giftingu

Til að minnast látins ættingja eða vinar á virðulegan máta.

Veraldleg útför fer fram til að minnast á formlegan og virðulegan máta látins ættingja eða vinar rétt eins og þær trúarlegu, en munurinn er sá að í veraldlegri athöfn fer ekki fram lestur trúarlegra ritninga, bænalestur eða sálmasöngur.

Meira um veraldlega útför

Stjórnvöld eiga að vera hlutlaus og óháð trúarbrögðum.

Stjórnvöld eiga að tryggja frelsi einstaklinga og vernda rétt þeirra til að lifa samkvæmt þeim lífsskoðunum sem þeir sjálfir kjósa. Stjórnvöld eiga að vera hlutlaus, óháð trúarbrögðum og eiga ekki að hygla ákveðnum lífsskoðunum umfram önnur.

Meira um áherslur Siðmenntar í trúfrelsismálum

Taktu þátt í starfsemi Siðmenntar!

Siðmennt fagnar nýjum félögum. Til viðbótar við hinn félagslega ávinning að því að vera félagi í Siðmennt fá félagar afslátt af athafnaþjónustu félagsins.

Stjórn félagsins svarar öllum skriflegum erindum félagsmanna og aðstoðar eftir bestu getu og aðstöðu.

Hafðu samband

Stjórn Siðmenntar minnir á að námskeið vegna borgaralegrar fermingar 2005 hefjast í annarri viku janúarmánaðar. Fermingarbörn og foreldrar þeirra fá nánari upplýsingar um námskeiðin sendar til sín með pósti undir lok desembermánaðar. Allar upplýsingar um námskeiðin verða einnig birtar hér á vefsíðu Siðmenntar fljótlega.

Stjórn Siðmenntar, félags um borgaralegar athafnir, mótmælir þeirri tillögu sem nú liggur fyrir Alþingi um að skerða framlög til Mannréttindaskrifstofu Íslands og þar með hætta á að lama starfssemi hennar. Mannréttindaskrifstofan hefur alla tíð starfað óháð samtökum og stofnunum og verið óháður álitsgjafi og umsagnaraðili ýmissa álitamála er snerta mannréttindi. Það hefur verið eitt af grundvallaratriðum í stefnu siðrænna húmanista um heim allan að hafa í heiðri mannréttindi eins og kveðið er á um í mannréttindayfirlýsingu Sameinuð þjóðanna og Mannréttindasáttmála Evrópu. Á Íslandi hefur Mannréttindaskrifstofan verið sá aðili sem verið hefur þar fremst í flokki. Siðmennt átelur framkomnar hugmyndir um skerðingu framlags ríkisins og hvetur þingmenn til þess að hafna henni.

Lesa áfram ...

UNDANFARNAR vikur hafa átt sér stað á síðum dagblaðanna skoðanaskipti um niðurstöður nefndar sem skipuð var af forsætisráðherra um stöðu samkynhneigðra á Íslandi. Sem betur fer hefur viðhorf Íslendinga gagnvart samkynhneigðum breyst á síðastliðnum 5-10 árum. Samkynhneigðir sjá vonandi fram á það að innan ekki margra ára njóti þeir sömu mannréttinda og aðrir Íslendingar.

Í skýrslu nefndarinnar er einnig áskorun til ríkiskirkjunnar að breyta afstöðu sinni til giftingar samkynhneigðra en afstaða hennar hefur ekki breyst í takt við almenningsálitið. Nokkrar greinar hafa birst að undanförnu þar sem kirkjan er gagnrýnd fyrir afstöðu sína og m.a. að hafa sett málið í nefnd árið 1994 án þess að neitt markvert hafi frá þeirri nefnd komið síðan.

Trúarofstækismenn hafa einnig látið í sér heyra og verja afstöðu ríkiskirkjunnar og vísa, sem satt er, til þess að í Biblíunni er mjög skýr afstaða tekin gegn samkynhneigð. Það má einnig benda á að í sömu bók er svipuð afstaða til kvenna og fólks sem hefur aðra trú eða eru trúlausir. Slíkt fólk á ekki uppá brúsapall Biblíunnar. Trúarofstækismenn hafa bent á að ef afstöðu kirkjunnar verði breytt gangi það gegn Biblíunni og orði Guðs auk þess að þar hrynji meginstoð kristinna manna sem hlýða boðskap bókarinnar í einu og öllu. Þó er greinilegt að fulla einingu um slíka afstöðu er ekki að finna meðal kirkjunnar manna. Nokkrir prestar hafa andæft og er það vel. Hins vegar hafa þeir undirtökin sem vilja flýta sér hægt eða ekki neitt.

Ég vil benda fólki á þá kreppu sem sumir setja sig í að telja Biblíuna guðs orð og ekki megi víkja frá boðskap henni. Bókin er samansafn greina sem valdar voru mörg hundruð árum eftir meinta tilvist Jesú hér á jörð. Til greina komu margar aðrar ritaðar greinar sem síðan var hafnað. Það er ekki einn maður og heldur ekki guð sem skrifaði þessa bók heldur er tímaskeið ritunar hennar mörg hundruð ár og þar af leiðandi margir mismunandi höfundar með ólíkar skoðanir.

Því þykir mér það heldur undarlegt að ekki megi víkja frá mannfjandsamlegum boðskapi hennar sem nóg er af – það hefur gerst áður. Frá því á tímum upplýsingarinnar, þegar heimspekingar hófu gagnrýni á trúna, hefur kristin kirkja, oft gegn vilja sínum, þurft að endurskoða ýmislegt sem haldið hefur verið fram. Jörðin var miðpunktur alheimsins og snerust allar aðrar stjörnur í kringum hana auk þess að kirkjan taldi jörðina flata. Vísindin gátu hins vegar smátt og smátt leiðrétt slíkt. Svo mannfjandsamlegt er sumt sem í Biblíunni stendur að boðskapur Gamla testamentisins hefur nánast verið lagður til hliðar, nema af ofsatrúarhópum, og skýringin hefur verið að sá hluti verði að “skoðast í ljósi Krists”! Það hefur aftur á móti leitt til þess að ýmsar ósamhljóma túlkanir hafa komið fram og helgast frekar af ljósi einhvers annars og oftast þess sem vill túlka boðskapinn svo henti viðkomandi.

Framan af öldum helgaðist afstaða kristninnar til kvenna af drottnun karla og að þær væru eign þeirra en síðustu 30-50 ár hafa margar kirkjudeildir, m.a. íslenska lúterskirkjan, breytt þeirri afstöðu og telja konur allt að því jafnar körlum. Viðhorfin til samkynhneigðra hafa verið eins en sumir telja samkynhneigð synd og að hægt sé að “afhomma” þá einstaklinga. Ótrúlegur dónaskapur felst í því að bjóða “syndurunum” fyrirgefningu og að þeir séu velkomnir í hús kristinna manna láti þeir af syndinni.

Fyrir mig, sem félaga í Siðmennt, er þetta mál spurning um mannréttindi homma og lesbía (sjá einnig www.sidmennt.is). Siðmennt er félagsskapur siðrænna húmanista sem telja rökhyggju, skynsemi og vísindalegar niðurstöður um málefni eiga að ráða en ekki kreddur, hindurvitni eða trú á eitthvað yfirnáttúrulegt og óútskýranlegt. Að virða einstaklinginn eins og hann er án tillits til kynhneigðar, litarháttar, trúar eða stjórnmálaskoðana er meginatriði fyrir mig. Virðingu fyrir réttindum annarra tek ég fram yfirkreddur trúarinnar.

Bjarni Jónsson fjallar um réttindi samkynhneigðra

Höfundur er áhugamaður um mannréttindi.

Siðmennt hefur sent Fræðsluráði, Leikskólaráði og Jafnréttisnefnd Reykjavíkur bréf þar sem athygli er vakin á óviðeigandi afskiptum trúhreyfinga af skólastarfi í Reykjavík.

Siðmennt telur að trúaráróður eigi ekki heima í skólum sem reknir eru á kostnað almennings. Skólinn á að vera hlutlaus fræðslustofnun. Í merkilegu stefnuplaggi Reykjavíkurborgar, Fjölmenningarstefna Reykjavíkurborgar, er gerð virðingaverð tilraun til þess að setja starfsreglur um hvernig beri að vinna í því þjóðfélagi sem við búum við í dag.

Lesa áfram ...

Laugardaginn 30. október 2004 kl. 11:00 – 12:00 verður haldinn kynningarfundur um borgaralegar fermingar árið 2005. Öllum þeim sem hafa nú þegar skráð sig, eða haft samband og sýnt áhuga, verður sent fundarboð. Fundurinn verður haldinn í Kvennaskólanum, Fríkirkjuvegi 9, nýbyggingu, 1. hæð stofum 2,3 og 4.

Lesa áfram ...

Stjórn Siðmenntar fagnar tillögum nefndar forsætisráðherra um réttarstöðu samkynhneigðra á Íslandi sem kynntar hafa verið að undanförnu. Siðmennt er málsvari mannúðarstefnu og frjálsrar hugsunar, óháð trúarsetningum.

Lesa áfram ...

Upptaka af borgaralegri fermingu 4. apríl 2004 er nú fáanleg á bæði DVD mynddiski og VHS myndbandi. Hægt er að panta eintak með því að senda tölvupóst á upptaka@sidmennt.is. Pöntunum verður safnað saman og efnið fjölfaldað þegar nokkrar pantanir hafa borist. Eintakið kostar 3000 krónur hvort sem pantað er DVD eða VHS og rennur hluti ágóðans í styrktarsjóð Siðmenntar. Upptakan er afar vel unninn og frágangur til fyrirmyndar eins og sjá má á meðfylgjandi myndum.

Lesa áfram ...

Fjölmörgum myndum frá borgaralegri fermingu 2004 hefur verið bætt við myndasíðuna. Nú eru þar að finna myndir bæði af undirbúningsnámsskeiðum og af athöfninni sjálfri. Myndasíðan er sem fyrr á slóðinni: www.sidmennt.is/media/ferming_2004/.

Nokkrar myndir af Borgaralegri fermingu 4. apríl 2004 eru komnar á netið. Hægt er að nálgast þær á slóðinni www.sidmennt.is/media/ferming_2004. Ef einhver lumar á góðum myndum af fermingunni og ert til í að deila þeim með öðrum er sá hinn sami beðinn um að hafa samband við vefstjóra Siðmenntar á netfangið siggi@sidmennt.is.

Hörður Torfason, söngvaskáld og leikstjóri, flutti einstaklega fallega ræðu við Borgaralega ferminu sem haldin var 4. apríl 2004 í Háskólabíói. Stjórn Siðmenntar þakkar Herði kærlega fyrir sitt framlag.

Lesa áfram ...


Login