Siðmennt

Málsvari manngildisstefnu og frjálsar hugsunar.

Siðmennt - félag siðrænna húmanista á Íslandi, var stofnað 1990. Félagið er málsvari manngildisstefnu (húmanisma) og frjálsrar hugsunar, óháð trúarsetningum, og stendur fyrir veraldlegum athöfnum.

Meira um Siðmennt

Það er mikilvægt að eiga val.

Frá árinu 1989 hefur Siðmennt staðið fyrir borgaralegum fermingum.

Mörg ungmenni á fermingaraldri eru ekki reiðubúin til að vinna trúarheit. Sum eru annarrar trúar eða trúa á guð á sinn hátt og önnur eru ekki trúuð. Fyrir þau ungmenni er borgaraleg ferming góður kostur.

Nánari upplýsingar um borgaralega fermingu

Fallegar veraldlegar eða húmanískar nafngjafarathafnir.

Siðmennt býður uppá uppá þjónustu athafnarstjóra við fallegar veraldlegar eða húmanískar nafngjafarathafnir til þess að gefa barni formlega nafn og fagna þeirri merku ákvörðun í lífi þess og fjölskyldunnar.

Meira um veraldlega nafngjöf

Siðmennt leiðir pör saman til giftingar óháð kynhneigð eða lífsskoðun.

Veraldleg/húmanísk gifting fer fram til að fagna því að par (óháð kynhneigð) vill opinbera heit sín til hvors annars á formlegan og hátíðlegan máta fyrir framan fjölskyldu sína og vini.

Nánar um veraldlega giftingu

Til að minnast látins ættingja eða vinar á virðulegan máta.

Veraldleg útför fer fram til að minnast á formlegan og virðulegan máta látins ættingja eða vinar rétt eins og þær trúarlegu, en munurinn er sá að í veraldlegri athöfn fer ekki fram lestur trúarlegra ritninga, bænalestur eða sálmasöngur.

Meira um veraldlega útför

Stjórnvöld eiga að vera hlutlaus og óháð trúarbrögðum.

Stjórnvöld eiga að tryggja frelsi einstaklinga og vernda rétt þeirra til að lifa samkvæmt þeim lífsskoðunum sem þeir sjálfir kjósa. Stjórnvöld eiga að vera hlutlaus, óháð trúarbrögðum og eiga ekki að hygla ákveðnum lífsskoðunum umfram önnur.

Meira um áherslur Siðmenntar í trúfrelsismálum

Taktu þátt í starfsemi Siðmenntar!

Siðmennt fagnar nýjum félögum. Til viðbótar við hinn félagslega ávinning að því að vera félagi í Siðmennt fá félagar afslátt af athafnaþjónustu félagsins.

Stjórn félagsins svarar öllum skriflegum erindum félagsmanna og aðstoðar eftir bestu getu og aðstöðu.

Hafðu samband

Hópur kristinna trúfélaga, þar á meðal þjóðkirkjan, sendi alþingismönnum og sveitastjórnarmönnum bréf 10. nóvember sl. þar sem farið er fram á að kristinfræðikennsla verði efld í grunnskólum og að kristið siðferði fái aukið vægi í menntun og uppeldi komandi kynslóða. Það sætir nokkurri furðu þar sem kristinfræðin er nú kennd börnum allt frá fyrsta bekk grunnskólans. Stefna Siðmenntar, félags siðrænna húmanista á Íslandi, hefur verið að hvetja til kennslu í trúarbragðafræði, heimspeki, siðfræði og gagnrýnni hugsun og vill ítreka þá stefnu í ljósi kröfu trúfélaganna. Krafa þeirra er einnig hæpin í ljósi þess að skilgreininguna á „kristnu siðferði“ vantar. Sumir forvígismanna þessa gjörnings hafa ítrekað fordæmt samkynhneigð og bænaganga hópsins var kölluð „pray-pride“ sem mótvægi við „gay-pride“. Er fordæming Biblíunnar og þessara forvígismanna á samkynhneigð einn hornsteina þessa „kristna siðferðis“, svo dæmi sé tekið?

Krafa kristinna trúfélaga um aukna kristinfræðikennslu staðfestir að þeim þykir hún vænleg til að efla kristna trú. Hún styður því það sem Siðmennt og aðrir hafa löngum bent á, að námsefni kristinfræðinnar er fjarri því hlutlaust. Það hampar kristinni trú án þess að tillit sé tekið til annarra og slíkt samræmist ekki almennu siðferði.

Kynningarfundur fyrir unglinga sem áhuga hafa á borgaralegri fermingu 2008 og aðstandendur þeirra
verður haldinn laugardaginn 17. nóvember 2007 kl. 11:00 – 12:00 í Háskólabíói sal 2

Lesa áfram ...

Vegna umræðu undanfarna daga vill Siðmennt, félag siðrænna húmanista á Íslandi, árétta skoðun sína á hjónabandinu og giftingum.

Lesa áfram ...

Siðmennt – félag siðrænna húmanista á Íslandi veitti þann 1. nóvember Tatjönu Latinovic húmanistaviðurkenningu ársins 2007 fyrir óeigingjarnt starf í þágu mannréttinda á Íslandi.
Í áratug hefur Tatjana unnið að mestu í sjálfboðastarfi við málefni sem snerta mannréttindi, kvenréttindi og innflytjendamál og tekið virkan þátt í uppbyggingu fjölmenningarlegs samfélags á Íslandi.
Ræða Hope Knútsson formanns Siðmenntar:

Lesa áfram ...

Fréttabréf Siðmenntar hefur ekki komið út í nokkur ár en nú með tilkomu nýs fréttapóstlista til meðlima hefur skapast leið til að miðla upplýsingum á fljótlegan og hagkvæman hátt innan félagsins. Svanur Sigurbjörnsson stjórnarmaður Siðmenntar hefur skapað sér aukið svigrúm til að starfa fyrir Siðmennt og mun sjá um útgáfu fréttabréfsins. Að auki mun hann hafa yfirumsjón með athafnarstjórnarprógrammi Siðmenntar fyrir athafnir aðrar en borgaralega fermingu.

Lesa áfram ...

Eftirfarandi grein birtist í fréttablaðinu 18. október 2007

Eftir að Siðmennt stóð fyrir veraldlegri athöfn fyrir brúðhjón í Fríkirkjunni í Reykjavík hefur áhugi á veraldlegum athöfnum aukist.

Margir hafa lýst ánægju sinni með framtak Siðmenntar sem mun framvegis bjóða upp á aðrar veraldegar athafnir en fermingar, en það hefur félagið gert lengi. Siðmennt hefur þegar staðið einu sinni að athöfn fyrir brúðhjón og má geta þess að önnur sambærileg athöfn hefur þegar verið ákveðin. Þrátt fyrir jákvæð viðbrögð hafa ekki allir verið sáttir og má þar nefna sóknarprestinn Gunnar Jóhannesson. Telur hann rangt að athafnir og uppákomur sem ekki teljast trúarlegar eigi sér stað í kirkju. Ræðir hann sérstaklega umrædda athöfn sem Siðmennt hélt í Fríkirkjunni.

Lesa áfram ...

Gunnar Jóhannesson, sóknarprestur á Hofsósi, skrifar kostulega grein í Fréttablaðið 28. september síðastliðinn, þar sem hann fer mikinn gegn Siðmennt – félagi siðrænna húmanista á Íslandi. Gunnar lýsir yfir áhyggjum sínum yfir því að guðleysingjunum í Siðmennt hafi verið hleypt inn í Fríkirkjuna til að gefa saman par borgaralega. Leiðinlegt þykir mér að Gunnar hafi áhyggjur af því að trúleysingjar heimsæki kristilegar kirkjur en mun alvarlegra þykir mér þó að lesa þær rangfærslur sem Gunnar fer með um Siðmennt, stefnu félagsins og markmið.

Lesa áfram ...

PÉTUR Tyrfingsson sálfræðingur ritar áhugaverða grein í Morgunblaðið sunnudaginn 30. sept. þar sem hann gagnrýnir svokallaða „höfuðbeina- og spjaldhryggsjöfnun“ (HS-jöfnun) sem hann segir réttilega vera skottulækningar. Það er því miður sjaldgæft að menntaðir heilbrigðisstarfsmenn gagnrýni „óhefðbundnar lækningar“ og því fagna ég framtaki Péturs. Sérstaklega í ljósi þess að fjölmiðlar leyfa sér nánast aldrei að fjalla gagnrýnið um óhefðbundnar meðferðir.

Margir virðast vera þeirrar skoðunar að það sé rangt að gagnrýna óhefðbundnar lækningar. Fólk eigi að hafa val og það sé vont að svipta fólk voninni. Í grein um HS-jöfnun á doktor.is má til að mynda lesa:

„Verum því fordómalaus og opin og vinnum ávallt í kærleikanum. Tökum aldrei vonina frá fólki því að margar leiðir eru í boði til að bæta heilsubrest okkar. Kynnum okkur vel það sem í boði er og verum óhrædd að vísa hvert á annað og síðast en ekki síst, höfum hugfast að ,,Gjöful hendi er fögur, hvaðan sem hún kemur“.“

Rökum sem þessum hafna ég alfarið. Það er þvert á móti rangt að fullyrða að ákveðin meðferð skili árangri þegar fáar eða jafnvel engar rannsóknir benda til þess. Þeir sem lofa upp í ermina á sér með þessum hætti eru að misnota sér aðstöðu sjúklinga og aðstandendur þeirra. Vekja falskar vonir og verða jafnvel til þess að sjúklingar leiti sér ekki sannreyndrar meðferðar.

Töframeðferðir sem lækna nánast allt

Það sem einkennir oft skottulækningar eru órökstuddar fullyrðingar um að ákveðin meðferð eða einstök lyf lækni aragrúa af kvillum. Töframeðferð læknar næstum því allt. Þannig kemur fram í grein skrifaðri af Margréti Árnadóttur hjúkrunarfræðingi að HS-jöfnun geti „komið að gagni við nánast hvaða aðstæður sem er“. Eftirfarandi kvilla má víst bæta með HS-jöfnun:“Höfuðverkur, mígren, tíðaverkir, asthma, sinusitis, bronchitis, blöðrubólga, frosin öxl, liðagigt, ischias, langvinn tognun á ökkla, vandamál í liðum, RSI, meltingarvandamál, whiplash-skaðar, hryggskekkjur, bakverkir, hálsverkir, viðvarandi sársauki hvar sem er í líkamanum, spenna, kvíði, svefnleysi, sjóntruflanir, þrekleysi, vandamál á meðgöngu og eftir meðgöngu, þunglyndi, fylgikvillar skurðaðgerðar, samgróningar, ungbarnakveisa, pyloric stenosis, vandamál tengd fæðugjöf ungbarna, miðeyrabólgur, vökvi í eyrum, tonsillitis, ENT-vandamál, samþjöppun á höfuðkúpu vegna erfiðrar fæðingar ásamt öllum þeim truflunum sem því getur fylgt, námserfiðleikar, lesblinda, rangeygi, augnleti, ofvirkni, einhverfa, flogaveiki, cerebral palsy, hegðunarvandamál, bræðisköst, þráhyggjuhegðun, tannvandamál og TMJ-vandamál, höfuðskaðar og hin hárfínu áhrif þeirra á persónuleika og andlegt ástand, heilahimnubólga og langvinnir fylgikvillar hennar, post viral syndrome, ME, glandular fever, síþreyta, fylgikvillar hvaða langvinnra veikinda eða veiklandi sjúkdóms sem er.“

Það munar ekki um það. Töframeðferðin læknar þunglyndi, vökva í eyrum, námserfiðleika, rangeygi, ofvirkni og jafnvel einhverfu! Gott ef satt væri. Staðreyndin er sú að rannsóknir styðja ekki þessar fullyrðingar. Þannig kemur fram í ítarlegri samantekt líffræðingsins Steve E. Hartman og lífeðlisfræðingsins James M. Norton um gildi HS-jöfnunar að vísindarannsóknir bendi eindregið til þess að HS-jöfnun hafi enga virkni. Í stuttu máli eru ekki til neinar vísindalegar rannsóknir sem styðja fullyrðingar um lækningamátt HS-jöfnunar.

Kannski hafa vísindamenn rangt fyrir sér. Ef til vill er HS-jöfnun sú töframeðferð sem HS-jafnarar halda fram. En þar til vel hannaðar vísindalegar rannsóknir sýna fram á gildi meðferðarinnar hvet ég þá sem málið varðar að leita til læknis eða annarra heilbrigðisstarfsmanna sem beita sannreyndum aðferðum .

Höfundur er varaformaður Siðmenntar og nemandi í iðjuþjálfun.

Bróðursonur minn, séra Gunnar Jóhannesson, sóknarprestur í Hofsós- og Hólaprestakalli, birti vonda grein í Fréttablaðinu, föstudaginn 28. september sl. Efni hennar er að fordæma Siðmennt, félag siðrænna húmanista, fyrir veraldlega athöfn í Fríkirkjunni nýlega.

Lesa áfram ...

Lífsskoðanir okkar hafa djúp áhrif á það hvernig okkur reiðir af og hvernig lífshlaup okkar verður í því samfélagi sem við búum í. Uppgangur húmanískra siðferðishugmynda hefur orðið til þess að miklar framfarir hafa orðið í mannréttindamálum víða um heim og þá sérstaklega í hinum „vestræna“ hluta hans. Fólk hefur losað sig undan kreddukenndum hugmyndum trúarbragða, afvegaleiddrar þjóðernishyggju og forræðishyggju, sem lifði góðu lífi á gullöldum kirkjulegra valda í Evrópu.

Lesa áfram ...


Login