Siðmennt

Málsvari manngildisstefnu og frjálsar hugsunar.

Siðmennt – félag siðrænna húmanista á Íslandi, var stofnað 1990. Félagið er málsvari manngildisstefnu (húmanisma) og frjálsrar hugsunar, óháð trúarsetningum, og stendur fyrir veraldlegum athöfnum.

Meira um Siðmennt

Það er mikilvægt að eiga val.

Frá árinu 1989 hefur Siðmennt staðið fyrir borgaralegum fermingum.

Mörg ungmenni á fermingaraldri eru ekki reiðubúin til að vinna trúarheit. Sum eru annarrar trúar eða trúa á guð á sinn hátt og önnur eru ekki trúuð. Fyrir þau ungmenni er borgaraleg ferming góður kostur.

Nánari upplýsingar um borgaralega fermingu

Fallegar veraldlegar eða húmanískar nafngjafarathafnir.

Siðmennt býður uppá uppá þjónustu athafnarstjóra við fallegar veraldlegar eða húmanískar nafngjafarathafnir til þess að gefa barni formlega nafn og fagna þeirri merku ákvörðun í lífi þess og fjölskyldunnar.

Meira um veraldlega nafngjöf

Siðmennt leiðir pör saman til giftingar óháð kynhneigð eða lífsskoðun.

Veraldleg/húmanísk gifting fer fram til að fagna því að par (óháð kynhneigð) vill opinbera heit sín til hvors annars á formlegan og hátíðlegan máta fyrir framan fjölskyldu sína og vini.

Nánar um veraldlega giftingu

Til að minnast látins ættingja eða vinar á virðulegan máta.

Veraldleg útför fer fram til að minnast á formlegan og virðulegan máta látins ættingja eða vinar rétt eins og þær trúarlegu, en munurinn er sá að í veraldlegri athöfn fer ekki fram lestur trúarlegra ritninga, bænalestur eða sálmasöngur.

Meira um veraldlega útför

Stjórnvöld eiga að vera hlutlaus og óháð trúarbrögðum.

Stjórnvöld eiga að tryggja frelsi einstaklinga og vernda rétt þeirra til að lifa samkvæmt þeim lífsskoðunum sem þeir sjálfir kjósa. Stjórnvöld eiga að vera hlutlaus, óháð trúarbrögðum og eiga ekki að hygla ákveðnum lífsskoðunum umfram önnur.

Meira um áherslur Siðmenntar í trúfrelsismálum

Taktu þátt í starfsemi Siðmenntar!

Siðmennt fagnar nýjum félögum. Til viðbótar við hinn félagslega ávinning að því að vera félagi í Siðmennt fá félagar afslátt af athafnaþjónustu félagsins.

Stjórn félagsins svarar öllum skriflegum erindum félagsmanna og aðstoðar eftir bestu getu og aðstöðu.

Hafðu samband

Siðmennt hefur borist ábending um nýstárlega gjöf fyrir íhugul fermingarbörn og ungmenni. Um er að ræða tveggja kvölda námskeið í skapandi skrifum og gagnrýnni hugsun sem haldið verður í lok apríl og byrjun maí í samstarfi við Þorvald Þorsteinsson og www.kennsla.is.

Námskeiðið er byggt á bókinni Tvískinna, en höfundur hennar er Davíð Stefánsson, bókmenntafræðingur. Bókin fjallar um mikilvægi þess að auka gagnrýna hugsun til að brynja sig gegn skilaboðum frá neyslusamfélaginu og hvetur unglinga og alla aðra lesendur hennar til skapandi hugsunar og skrifa.

Davíð býður upp á gjafabréf á námskeiðið og eintak af bókinni fyrir kr. 12.500 kr. Allar nánari upplýsingar má finna á heimasíðu bókarinnar.

Trúarbrögð og útfararsiðirNú eftir áramótin kom út ný bók sem heitir Trúarbrögð og útfararsiðir, gefin út af Kirkjugörðum Reykjavíkurprófastsdæma. Bók þessi er að mestu þýdd úr norskri bók eftir Gunnar Neegaard, sem ber sama heiti, en í henni eru einnig þrír nýir frumsamdir kaflar um bálfarir, ásatrú og húmanisma. Kaflinn um húmanismann er saminn af Svani Sigurbjörnssyni fyrir Siðmennt, en félaginu var boðið af ritstjóra bókarinnar og þýðanda, Guttormi Helga Jóhannessyni að kynna sína sögu, hugmyndafræði og útfararsiði þar sem systurfélag okkar í Noregi átti sinn stað í norsku frumútgáfunni.

Lesa áfram ...

Siðmennt hefur barist fyrir því rúm 3 ár að fá samþykkt lög á Alþingi sem viðurkenni veraldleg lífsskoðunarfélög á við þau trúarlegu.  Einnig hefur Siðmennt stutt Samtökin ’78 í því að fá hjónabandslöggjöfina undir einn hatt.  Fleiri mikilvæg mál hafa verið á dagskrá og þá ekki síst félagslegt og fjárhagslegt jafnræði allra lífsskoðunarfélaga, sem þýðir í raun að staðan þjóðkirkja sé lögð niður og ekkert lífsskoðunarfélag fái að njóta forréttinda hjá hinu opinbera.

Hér er yfirlit yfir þær ályktanir sem stjórnmálaflokkar landsins hafa látið frá sér að loknum landsfundum nýlega.   Mikilla tíðinda sætir frá sumum þeirra.

Lesa áfram ...

Aðalfundur Siðmenntar var haldinn í gær 19. mars og var með hefðbundnu sniði.  Í ræðu formanns kom fram að margt jákvætt hefur átt sér stað í starfi Siðmenntar síðastliðið ár og ber einna hæst að félagið hóf athafnaþjónustu með sex athafnarstjórum sem stýra giftingum, nafngjöfum og útförum á veraldlegan máta.  Einnig varð félaginu talsvert ágengt í réttindabaráttu sinni og fékk mannréttindaverðlaun Samtakanna ’78.

Lesa áfram ...

Aðalfundur Siðmenntar verður haldinn fimmtudaginn 19. mars 2009, kl. 20:00, í græna salnum á annarri hæð veitingahússins Restaurant Reykjavík (áður Kaffi Reykjavík) við Vesturgötu 2.

Félagið býður upp á kaffi/te og hægt verður að
kaupa aðrar léttar veitingar á staðnum.

Allir félagsmenn velkomnir!

Fyrsta gifting samkynhneigðs pars í Noregi fór fram á vegum Human-Etisk Forbund (HEF) þann 22. febrúar síðastliðin. Með henni var stigið enn eitt skrefið í átt til jafnra mannréttinda samkynhneigðra í Noregi. Hjúskaparlögum í Noregi var breytt á þann veg að í stað sérstakra laga um vígslu samkynhneigðra voru sett ein lög um giftingar fyrir alla óháð trú eða kynhneigð. HEF, sem er stærsta lífsskoðunarfélag Noregs að undanskyldu ríkiskirkjunni, hefur um árabil gift pör. Lagabreytingin er með beina vísun í Mannréttindayfirlýsinguna og er raunverulegt skref í átt til jafnræðis lífsskoðana.

Einungis tvö lífsskoðunarfélög hafa ákveðið að framkvæma vígslu samkynhneigðra para samkvæmt nýju lögunum – HEF og Unitarar. Þjóðkirkjan norska felldi á þingi sínu í haust að virða mannréttindi allra í þjóðfélaginu og ætlar ekki að gifta samkynhneigða. HEF var síðan fyrsta lífsskoðunarfélagið sem framkvæmdi vígslu samkynhneigðra í Noregi! HEF er systurfélag Siðmenntar og hefur verið skráð sem lífsskoðunarfélag frá árinu 1981. Félagið stendur fyrir þúsundum félagslegra athafna á ári hverju og hefur Siðmennt einnig hafið slíka starfssemi.

Brúðkaup
Cecilia Patricia Stensland (t.v.) og Janne Lemvig Abrahamsen gengu í hjónaband laugardaginn 21. febrúar með fána samkynhneigðra í bakgrunni við Kjelsås Folkets hus í Oslo.

Brúðkaup
„Loksins eru við jöfn gagnkynhneigðum pörum. Við höfum fengið sömu réttindi og skyldur. Það er yndisleg tilfinning“, segir Janne Lemvig Abrahamsen (t.h.) við Aftenposten.

Í tilefni Darwin daga 2009 og málþings í Háskóla Íslands sem Siðmennt er samstarfsaðili að.

Charles Darwin

Charles Darwin

Fimmtudaginn 12. febrúar nk. verður víða um heim haldið uppá 200 ára fæðingarafmæli vísindamannsins Charles Robert Darwins og um leið fagnað 150 ára afmæli útgáfu tímamótaverks hans, Uppruna tegundanna, þar sem færð vorufram í fyrsta sinn sannfærandi gögn og rök fyrir þeirri tilgátu að lífverur jarðar hefðu tekið þróunarlegum breytingum yfir milljónir ára. Nokkru síðar birti Darwin útskýringar á þróun mannsins og kynbundnu vali í náttúrunni í bókinni  Ætterni mannsins og kynbundið náttúruval (1871), en sú bók olli miklum usla meðal margra samtímamanna hans, sem fannst niðurlægjandi að vera bendlaðir við sameiginlegan uppruna með öpum.

Lesa áfram ...

Þann 1. desember sl. sendi Jafnréttisstofa frá sér eftirfarandi yfirlýsingu til stjórnvalda í kjölfar erindis Reynis Harðarsonar, félaga í Siðmennt, til hennar um þá lagagrein laga um skráð trúfélög frá 1999, sem kveður á um að ungabörn skulu sjálfkrafa vera skráð í trúfélag móður frá fæðingu:

„Jafnréttisstofa telur annmarka á þessu ákvæði laganna um skráð trúfélög. Í fyrsta lagi er það tæpast í samræmi við jafnréttislögin og bann þeirra við mismunun á grundvelli kyns að kyn þ.e. móðerni ráði því alfarið í hvaða trúfélag barn er skráð frá fæðingu. „

Lesa áfram ...

Kynningarfundur fyrir unglinga sem áhuga hafa á borgaralegri fermingu 2009 og aðstandendur þeirra verður haldinn Laugardaginn 15. nóvember 2008 kl. 11:00 – 12:00 í Háskólabíói sal 1.

Lesa áfram ...

Í dag voru viðurkenningar Siðmenntar afhentar við hátíðlegt tækifæri í Restaurant Reykjavík við Vesturgötu. Að þessu sinni voru viðurkenningarnar tvær. 

Hin fyrri var Húmanistaviðurkenning Siðmenntar sem var afhent í 4. sinn.  Þau voru veitt Rauða krossi Íslands fyrir einstakt og óeigingjarnt starf í þágu mannúðar og heilsuverndar á Íslandi og víða um heim.  Í ræðu Hope Knútsson, formanns Siðmenntar sagði m.a. að hjálparstarf Rauða krossins kæmi víða að, t.d. við kaup og rekstur sjúkrabifreiða, athvörf fyrir geðfatlaða og heimilislausar konur, aðstoð við fanga og fátæka, neyðaraðstoð í náttúruhamförum, opin neyðarsímalína 1717 fyrir fólk í erfiðleikum, móttaka flóttamanna og aðstoð við erlenda hælisleitendur.  Listi góðverka Rauða kross Íslands er of langur til að telja upp.  Starfsemi samtakanna er í anda húmanisma og taldi stjórn Siðmenntar Rauða krossinn einstaklega verðugan þessarar viðurkenningar félagsins.  Það var Kristján Sturluson, framkvæmdastjóri Rauða kross Íslands sem veitti Húmanistaviðurkenningu Siðmenntar 2008 viðtöku.   Auk viðurkenningarskjals fékk Rauði krossinn skúlptúrlistaverkið „Flæði“ eftir Elísabetu Ásberg að gjöf.

Síðari viðurkenning kvöldsins var Fræðslu- og vísindaviðurkenning Siðmenntar 2008, en það er ný viðurkenning sem veitt fyrir mikilvægt framlag í þágu fræslu um vísindi á Íslandi.  Handhafi viðurkenningarinnar var Pétur Tyrfingsson, formaður Sálfræðingafélags Íslands, sem gegnum greinaskrif og framkomu í ljósvakamiðlum hefur gefið þjóðinni heilsteypta mynd af því hvað eru vísindi og hvað gervivísindi.  Pétur hefur þannig sýnt gott fordæmi í því að fræða almenning um tilurð vísindalegrar þekkingar og að það skipti máli að ekki sé öllu því sem borið er á borð tekið sem staðreyndum án faglegrar skoðunar og gagnrýni.  Auk viðurkenningarskjals fékk Pétur bókargjöf frá Siðmennt við afhendinguna.  Hann sagði í þakkarræðu sinni m.a. að það ylli honum áhyggjum að vissar lyfjabúðir væru farnar að selja smáskammtaremidíur hómopata, en hann vildi treysta því að þegar hann kæmi í lyfjabúð fengi hann aðeins vörur sem stæðust gæðastaðla lyfjafyrirtækja og hefðu þá virkni sem lofað væri.

Báðum viðurkenningarhöfum kvöldsins var klappað lof í lófa af viðstöddum.  Að lokum sungu trúbadorarnir Þorvaldur Örn Árnason og Gunnar Guttormsson nokkur vel valin lög og var vel fagnað.


Afmælishátíð Siðmenntar

Skráning á afmælishátíð Siðmenntar

Að tilefni 25 ára afmælis Siðmenntar verður sérstök hátíðardagskrá laugardaginn 3. október kl 20-23 í Salnum í Kópavogi.

Felix Bergsson stýrir hátíðinni. Boðið verður upp á tónlist og aðra skemmtun. Nákvæm dagskrá auglýst síðar.

Í Salnum eru sæti fyrir tæplega 300 manns og eru félagsmenn hvattir til að fagna saman og er aðgangur ókeypis.

Þar sem það er takmarkaður sætafjöldi eru félagsmenn hvattir til að skrá sig á hátíðina sem fyrst.

Skráðu þig á hátíðina hér

Hafðu samband

Hafðu samband

Viltu gerast félagi í Siðmennt?

Siðmennt fagnar nýjum félögum. Skráðu þig í félagið ef þú vilt styðja eða taka þátt í starfsemi Siðmenntar

Skráðu þig í Siðmennt

Sendu okkur tölvupóst

Borgaraleg ferming

Skráning í BF

Login