Siðmennt

Málsvari manngildisstefnu og frjálsar hugsunar.

Siðmennt - félag siðrænna húmanista á Íslandi, var stofnað 1990. Félagið er málsvari manngildisstefnu (húmanisma) og frjálsrar hugsunar, óháð trúarsetningum, og stendur fyrir veraldlegum athöfnum.

Meira um Siðmennt

Það er mikilvægt að eiga val.

Frá árinu 1989 hefur Siðmennt staðið fyrir borgaralegum fermingum.

Mörg ungmenni á fermingaraldri eru ekki reiðubúin til að vinna trúarheit. Sum eru annarrar trúar eða trúa á guð á sinn hátt og önnur eru ekki trúuð. Fyrir þau ungmenni er borgaraleg ferming góður kostur.

Nánari upplýsingar um borgaralega fermingu

Fallegar veraldlegar eða húmanískar nafngjafarathafnir.

Siðmennt býður uppá uppá þjónustu athafnarstjóra við fallegar veraldlegar eða húmanískar nafngjafarathafnir til þess að gefa barni formlega nafn og fagna þeirri merku ákvörðun í lífi þess og fjölskyldunnar.

Meira um veraldlega nafngjöf

Siðmennt leiðir pör saman til giftingar óháð kynhneigð eða lífsskoðun.

Veraldleg/húmanísk gifting fer fram til að fagna því að par (óháð kynhneigð) vill opinbera heit sín til hvors annars á formlegan og hátíðlegan máta fyrir framan fjölskyldu sína og vini.

Nánar um veraldlega giftingu

Til að minnast látins ættingja eða vinar á virðulegan máta.

Veraldleg útför fer fram til að minnast á formlegan og virðulegan máta látins ættingja eða vinar rétt eins og þær trúarlegu, en munurinn er sá að í veraldlegri athöfn fer ekki fram lestur trúarlegra ritninga, bænalestur eða sálmasöngur.

Meira um veraldlega útför

Stjórnvöld eiga að vera hlutlaus og óháð trúarbrögðum.

Stjórnvöld eiga að tryggja frelsi einstaklinga og vernda rétt þeirra til að lifa samkvæmt þeim lífsskoðunum sem þeir sjálfir kjósa. Stjórnvöld eiga að vera hlutlaus, óháð trúarbrögðum og eiga ekki að hygla ákveðnum lífsskoðunum umfram önnur.

Meira um áherslur Siðmenntar í trúfrelsismálum

Taktu þátt í starfsemi Siðmenntar!

Siðmennt fagnar nýjum félögum. Til viðbótar við hinn félagslega ávinning að því að vera félagi í Siðmennt fá félagar afslátt af athafnaþjónustu félagsins.

Stjórn félagsins svarar öllum skriflegum erindum félagsmanna og aðstoðar eftir bestu getu og aðstöðu.

Hafðu samband

Siðmennt lét birta auglýsingu í Fréttablaðinu þann 7. desember síðastliðinn til að leiðrétta misskilning um stefnu félagsins. Auglýsingin var greidd með frjálsum framlögum meðlima í Siðmennt. Hægt er að skoða auglýsinguna hér á pdf formi.

Siðmennt hefur sent frá sér opið svarbréf við svarbréfi Karls Sigurbjörnssonar biskups. Biskup hvorki dró til baka né baðst afsökunar á ummælum sínum um að Siðmennt væru „hatrömm samtök“ en þess í stað talaði um að málflutningur Siðmenntar væri „hatrammur“. Hann vitnaði síðan í skjal sem Siðmennt sendi Menntaráði Reykjavíkur fyrir tveimur árum, en þar voru talin upp þau atriði sem Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna ályktaði um að væru trúarleg starfsemi eða trúboð í skólum og ættu ekki að eiga sér stað.

Lesa áfram ...

Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði skrifar:

Upplýsingin var eitt mesta framfaraspor í sögu Vesturlanda. Gagnrýnin hugsun skaut rótum og bókstarfstrú var ýtt til hliðar. Farið var í vaxandi mæli að greina á milli veraldlegs og andlegs valds. Aðskilnaður ríkis og kirkju fylgdi víða í kjölfarið. Margir upplýsingarmenn deildu á kirkjuna fyrir að boða bábiljur og kröfðust þess að kirkjan hætti áróðri sínum gegn skapandi og gagnrýnni hugsun í þeim fjölmörgu barnaskólum sem hún rak. Þátttaka kirkjunnar í skólastarfi varð í kjölfarið eitt af heitustu pólitísku deilumálum í Evrópu á 19. öld.

Lesa áfram ...

Stjórn Siðmenntar sendi Karli Sigurbjörnssyni biskup Þjóðkirkju Íslands í gær 5. desember bréf þess efnis að félagið fari fram á við biskup að biðjast afsökunar, draga til baka eða leiðrétta opinberlega ummæli sín um að „Siðmennt [séu] hatrömm samtök“ sem höfð voru eftir honum og skrifuð í tveimur fréttum á bls 2 í dagblaðinu 24-Stundum föstudaginn 30. nóvember s.l.

Einnig er áréttað nú beint við biskup, eins og áður hefur verið gert gegnum greinaskrif, að Siðmennt hefur aldrei mælt mót kristinfræðslu eða trúarbragðafræðslu í skólum.

Siðmennt mun bíða svars frá Karli Sigurbjörnssyni biskupi Þjóðkirkju Íslands. Bréfið er birt hér í heild sinni.

Lesa áfram ...

ÞAÐ er ótrúlegt að horfa upp á háttsetta og virta einstaklinga fara ítrekað fram með ósannindi um Siðmennt. Í laugardagskvöldfréttum Ríkissjónvarpsins fullyrti Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, að Siðmennt væri á móti trúarbragðafræði og kristinfræði og taldi félagið jafnvel vera á móti jóla- og páskafríum. Í Staksteinum Morgunblaðsins, sunnudaginn 2. desember, heldur nafnlaus ritstjórn blaðsins hinu sama fram.

Þetta er allt rangt eins og margoft hefur komið skýrt fram í málflutningi Siðmenntar.

Þessar ranghugmyndir um stefnu Siðmenntar, sem andstæðingar félagsins setja reglulega fram, hafa margoft verið leiðréttar. Margoft! Það er því forkastanlegt að virtir aðilar í samfélaginu geti leyft sér að rægja skoðanir samborgara sinna með þessum hætti. Það er lágmarks krafa mín að umræddur ráðherra og nafnlausi ritstjórnarfulltrúinn biðji Siðmennt afsökunar.

Að lokum hvet ég lesendur til að skoða vefsíðu Siðmenntar – www.sidmennt.is og kynna sér raunverulega stefnu félagsins.

Stjórnarmaður í Siðmennt sendir fjölmiðlum erindi vegna umræðunnar um trúarlegt starf í skólum:

Kæru fjölmiðlamenn. Vinsamlegast komið þessu á framfæri:

Nánast alltaf þegar umræðan um trúfrelsi fer af stað birtast yfirlýsingar um Siðmennt – félag siðrænna húmanista á Íslandi – sem eiga ekki við rök að styðjast. Því miður eru þessi ósannindi stundum endurtekin af fjölmiðlamönnum gagnrýnislaust. Að gefnu tilefni vill ég sem stjórnarmaður í Siðmennt koma eftirfarandi á framfæri:

Sjá: Siðmennt er EKKI á móti litlu jólum eða kristinfræðslu

Sjá einnig:
Satt og logið um stefnu Siðmenntar
Ráðherra og ritstjórn skálda stefnu Siðmenntar
(www.skodun.is)

Undanfarna daga hefur farið fram mikil umræða í fjölmiðlum vegna nýs lagafrumvarps Menntamálaráðherra um breytingar á lögum um grunnskóla. Í kjölfar ítrekaðra beiðna Siðmenntar ásamt fleiri félagasamtaka hérlendis og dóms sem féll í Mannréttindadómstóli Evrópu í Strasbourg í sumar tók menntamálaráðuneytið sig til og kom með þessa verulega góðu breytingartillögu.

Lesa áfram ...

Hópur kristinna trúfélaga, þar á meðal þjóðkirkjan, sendi alþingismönnum og sveitastjórnarmönnum bréf 10. nóvember sl. þar sem farið er fram á að kristinfræðikennsla verði efld í grunnskólum og að kristið siðferði fái aukið vægi í menntun og uppeldi komandi kynslóða. Það sætir nokkurri furðu þar sem kristinfræðin er nú kennd börnum allt frá fyrsta bekk grunnskólans. Stefna Siðmenntar, félags siðrænna húmanista á Íslandi, hefur verið að hvetja til kennslu í trúarbragðafræði, heimspeki, siðfræði og gagnrýnni hugsun og vill ítreka þá stefnu í ljósi kröfu trúfélaganna. Krafa þeirra er einnig hæpin í ljósi þess að skilgreininguna á „kristnu siðferði“ vantar. Sumir forvígismanna þessa gjörnings hafa ítrekað fordæmt samkynhneigð og bænaganga hópsins var kölluð „pray-pride“ sem mótvægi við „gay-pride“. Er fordæming Biblíunnar og þessara forvígismanna á samkynhneigð einn hornsteina þessa „kristna siðferðis“, svo dæmi sé tekið?

Krafa kristinna trúfélaga um aukna kristinfræðikennslu staðfestir að þeim þykir hún vænleg til að efla kristna trú. Hún styður því það sem Siðmennt og aðrir hafa löngum bent á, að námsefni kristinfræðinnar er fjarri því hlutlaust. Það hampar kristinni trú án þess að tillit sé tekið til annarra og slíkt samræmist ekki almennu siðferði.

Kynningarfundur fyrir unglinga sem áhuga hafa á borgaralegri fermingu 2008 og aðstandendur þeirra
verður haldinn laugardaginn 17. nóvember 2007 kl. 11:00 – 12:00 í Háskólabíói sal 2

Lesa áfram ...

Vegna umræðu undanfarna daga vill Siðmennt, félag siðrænna húmanista á Íslandi, árétta skoðun sína á hjónabandinu og giftingum.

Lesa áfram ...


Login