Siðmennt

Málsvari manngildisstefnu og frjálsar hugsunar.

Siðmennt - félag siðrænna húmanista á Íslandi, var stofnað 1990. Félagið er málsvari manngildisstefnu (húmanisma) og frjálsrar hugsunar, óháð trúarsetningum, og stendur fyrir veraldlegum athöfnum.

Meira um Siðmennt

Það er mikilvægt að eiga val.

Frá árinu 1989 hefur Siðmennt staðið fyrir borgaralegum fermingum.

Mörg ungmenni á fermingaraldri eru ekki reiðubúin til að vinna trúarheit. Sum eru annarrar trúar eða trúa á guð á sinn hátt og önnur eru ekki trúuð. Fyrir þau ungmenni er borgaraleg ferming góður kostur.

Nánari upplýsingar um borgaralega fermingu

Fallegar veraldlegar eða húmanískar nafngjafarathafnir.

Siðmennt býður uppá uppá þjónustu athafnarstjóra við fallegar veraldlegar eða húmanískar nafngjafarathafnir til þess að gefa barni formlega nafn og fagna þeirri merku ákvörðun í lífi þess og fjölskyldunnar.

Meira um veraldlega nafngjöf

Siðmennt leiðir pör saman til giftingar óháð kynhneigð eða lífsskoðun.

Veraldleg/húmanísk gifting fer fram til að fagna því að par (óháð kynhneigð) vill opinbera heit sín til hvors annars á formlegan og hátíðlegan máta fyrir framan fjölskyldu sína og vini.

Nánar um veraldlega giftingu

Til að minnast látins ættingja eða vinar á virðulegan máta.

Veraldleg útför fer fram til að minnast á formlegan og virðulegan máta látins ættingja eða vinar rétt eins og þær trúarlegu, en munurinn er sá að í veraldlegri athöfn fer ekki fram lestur trúarlegra ritninga, bænalestur eða sálmasöngur.

Meira um veraldlega útför

Stjórnvöld eiga að vera hlutlaus og óháð trúarbrögðum.

Stjórnvöld eiga að tryggja frelsi einstaklinga og vernda rétt þeirra til að lifa samkvæmt þeim lífsskoðunum sem þeir sjálfir kjósa. Stjórnvöld eiga að vera hlutlaus, óháð trúarbrögðum og eiga ekki að hygla ákveðnum lífsskoðunum umfram önnur.

Meira um áherslur Siðmenntar í trúfrelsismálum

Taktu þátt í starfsemi Siðmenntar!

Siðmennt fagnar nýjum félögum. Til viðbótar við hinn félagslega ávinning að því að vera félagi í Siðmennt fá félagar afslátt af athafnaþjónustu félagsins.

Stjórn félagsins svarar öllum skriflegum erindum félagsmanna og aðstoðar eftir bestu getu og aðstöðu.

Hafðu samband

Fermingarbörnunum í Borgaralegri fermingu 2010 hefur verið raðað niður á fermingaratharnirnar skv. eftirfarandi:

Athöfn í Háskólabíói 18. apríl kl. 11:00
Fermingarstjóri: Steinar Harðarson athafnarstjóri Siðmenntar

Lesa áfram ...

Sænski sálfræðingurinn Håkan Järvå heldur fyrirlestur þriðjudaginn 30. mars kl. 13:00 (til 14:00) í Málstofu Sálfræðideildar (Lögbergi stofu 102) með yfirskriftinni “The Battle for Our Minds”. Vantrú, Siðmennt og Sálfræðiskor HÍ standa að komu hans hingað. Håkan lýsir sálfræði bókstafstrúar vel: „…how abandoning oneself for a higher cause affects the brain, hypnosis and altered states of consciousness and the heuristics of the brain that makes us vulnerable for manipulation and susceptible to authority figures“. Þetta er ómissandi viðburður fyrir áhugafólk um eðli mannshugans.

Siðmennt, félag siðrænna húmanista á Íslandi, er málsvari manngildisstefnu og frjálsrar hugsunar. Það starfar óháð trúarsetningum og stendur fyrir félagslegum athöfnum. Siðmennt var stofnað 15. febrúar 1990 og verður 20 ára 15. febrúar n.k. Það er við hæfi að spyrja hvað hefur breyst í íslensku samfélagi á þessum tveimur áratugum í kjölfar stofnun Siðmenntar.

Hugtakið lífsskoðunarfélag hefur náð fótfestu í þjóðfélaginu. Siðmennt hefur unnið markvisst að því að kynna hugtakið fyrir þjóðinni. Lífsskoðunarfélög geta verið bæði veraldleg og trúarleg. Með lífsskoðunarfélagi er átt við félagsskap sem fjallar um siðfræði, þekkingarfræði og þjónustar við tímamótaathafnir fjölskyldna. Þessi viðfangsefni eru sambærileg þjónustu trúfélaga en inntakið er ekki trúarlegt og athöfnunum stýrir athafnarstjóri í stað prests. Hugtakið lifsskoðunarfélag er nú víða notað, bæði meðal almennings og innan stjórnsýslunnar. Þekkingarfræðin fjallar um hvernig við getum öðlast skilning á umheiminum, þ.e. hvað sé haldbær þekking og hvað ekki.

Nú (Gallup des. 2009) eru 74% þjóðarinnar þeirra skoðunar að það beri að aðskilja ríkið og kirkju. Ennfremur eru 70% meðlima þjóðkirkjunnar sammála því. Siðmennt hefur frá upphafi barist fyrir raunverulegu trúfrelsi á Íslandi. Þar með fyrir aðskilnaði ríkis og kirkju og gegn hvers kyns mismunun lífsskoðunarfélaga. Með fullum aðskilnaði gætu nokkrir milljarðar króna sparast árlega.

Í dag þykir sjálfsagt og eðlilegt að unglingar velti fyrir sér hvort þeir vilji fermast kirkjulega eða borgaralega eða alls ekki. Borgaraleg ferming verður vinsælli valkostur með ári hverju. Þannig hefur þátttakendum í borgaralegri fermingu fjölgað um 35% frá því á síðasta ári og eru nú ríflega 160 talsins skipt niður á sex námskeiðshópa auk fjarnáms. Það verða fjórar athafnir í vor; tvær í Reykjavík, ein á Akureyri og ein á Fljótsdalshéraði.

Lesa áfram ...

[Þessi grein var birt í Morgunblaðinu 3. febrúar 2010 og einnig á www.skodun.is]

„Fordómar Siðmenntar gagnvart kristinni trú og fagmennsku kennara eru löngu orðnir augljósir og þegar rök þeirra eru úr lausu lofti gripin færi betur á að ritstjórar blaðanna stöðvuðu slíkar greinar. En í þessu sem öðru þurfa forsvarsmenn Siðmenntar ætíð að hafa síðasta orðið og því fróðlegt að sjá hvenær næsta grein birtist.“

Með þessum orðum lýkur grunnskólakennarinn Fjalar Freyr Einarsson grein sem hann skrifar um Siðmennt. Grein sem ber titilinn „Staðlausir stafir Siðmenntar“.

Titillinn og lokaorðin eru áhugaverð af ýmsum ástæðum. Þó helst þeim að innihald greinarinnar er lítið annað en samansafn af staðlausum stöfum um Siðmennt og þeirri ótrúlegu tillögu grunnskólakennarans, uppfræðara barna, að greinar frá Siðmennt verði ritskoðaðar að hætti Google í Kína.

Afstaða kennarans til tjáningarfrelsis er að mörgu leyti skiljanleg þegar hún er sett í sögulegt samhengi. Ritskoðun hefur í gegnum tíðina verið helsta vopn þeirra sem hafa valdið og ekki síður þeirra sem hafa vondan málstað að verja. Ef ritstjórar Morgunblaðsins ákveða að hlýða kennaranum og ákveða að koma í veg fyrir birtingu þessarar greinar fá lesendur blaðsins seint að vita að fullyrðingar kennarans um Siðmennt eru rangar eða með öðrum orðum staðlausir stafir.

Í grein sinni fullyrðir Fjalar að Siðmennt sé á móti fræðslu um trúarbrögð. Þetta er vitleysa sem hefur svo oft verið leiðrétt að það eru aðeins til tvær líklegar ástæður fyrir því að kennarinn fer með þessa staðlausu stafi. Annað hvort er hann ótrúlega fáfróður um efnið sem hann skrifar um eða hann er beinlínis að segja ósatt málstað sínum til framdráttar. Hvorug skýringin ber vott um vönduð eða heiðarleg vinnubrögð af hálfu uppfræðara barna.

Sannleikurinn er auðvitað sá að Siðmennt styður eindregið öfluga kennslu um trúarbrögð, siðfræði og gagnrýna hugsun. Þetta hefur alltaf verið stefna félagsins og hefur það komið skýrt fram í opinberum stefnuskrám Siðmenntar, ótal blaðagreinum, opinberum erindum og fjölmiðlaumfjöllun. Það sem Siðmennt hefur gagnrýnt er trúboð og trúariðkun innan opinberra skóla. Slíkt er ekki það sama og fræðsla um trú og trúarbrögð. Fjölmörg dæmi um umkvartanir foreldra vegna trúboðs og trúariðkunar í skólum má finna á vef Siðmenntar, www.sidmennt.is. Þar má líka finna stefnuskrár, opinber erindi og blaðagreinar þar sem afstaða Siðmenntar kemur skýrt fram. Ég hvet kennarann til að kynna sér þar stefnu Siðmenntar áður en hann nýtir sér næst tjáningarfrelsið og hvetur til ritskoðunar.

Að lokum vil ég nota tækifærið og vitna í stefnuskrá Siðmenntar, sem væntanlega er til vitnis um „fordóma“ og „umburðarleysi“ félagsins:

„Siðmennt lítur svo á að sannfæringarfrelsi, trúfrelsi og tjáningarfrelsi teljist til almennra lýðréttinda. Þau skuli ná til allra og þau megi hvorki afnema né skerða undir neinum kringumstæðum. Félagið telur að hið opinbera (ríkið, stjórnkerfið, þingið, dómskerfið, mennta- og heilbrigðiskerfið) eigi að starfa eftir veraldlegum leikreglum og án merkimiða einstakra trúar- eða lífsskoðunarfélaga. Félagið fer því fram á aðskilnað ríkis og kirkju og berst fyrir breytingum á lagaákvæðum sem mismuna þeim er standa utan trúfélaga.“

Höfundur situr í stjórn Siðmenntar.

Í viðtali við fjölmiðla og á vefnum tru.is í desember setur biskup Íslands kirkjuna í stöðu fórnarlambs og kvartar yfir því að starfsmenn og börn í leikskóla skuli ekki einbeita sér að trúarlegum boðskap á friðarstund í aðdraganda jóla. Mér hefur einnig borist til eyrna að Biskupsstofa hafi kvartað yfir erindi sem sent var í nóvember til allra forstöðumanna leik- og grunnskóla í Reykjavík þar sem áréttað er réttilega að skólar séu vettvangur fræðslu en ekki trúboðs. Einnig hef ég grun um að það pirri starfsmenn kirkjunnar að nokkrir leik- og grunnskólar hafa á undanförnum árum afþakkað boð presta um kirkjuferðir og neitað þeim um að heimsækja skóla til að boða trú. Til að fyrirbyggja allan misskilning og koma í veg fyrir að umræðan endi í vitleysu þá vil ég taka fram eftirfarandi: Siðmennt leggst ekki gegn jólaundirbúningi í skólum. Hvorki föndri né litlu jólunum. Hinsvegar er rétt að árétta að skólar eru veraldlegir og er griðarstaður barna frá heimilum þar sem foreldrar hafa mismunandi lífsskoðanir. Ég hef heyrt að algengasta kvörtunarefni foreldra í skólum sé vegna trúmála! Er það sú sýn sem skólayfirvöld vilja flagga?

Í pistil sínum segir biskup:

Lesa áfram ...

Stjórn Siðmenntar minnir þá foreldra á sem hafa ekki greitt námskeiðsgjald vegna borgaralegrar fermingar 2010 að gera það í allra síðasta lagi á eindaga þriðjudaginn 5. janúar. Kennslustundirnar byrja hjá fyrsta hópnum þriðjudaginn 5. janúar og því er fyrsta kennsluvikan framundan.

Hafi greiðsla fyrir námskeiðinu ekki verið innt af hendi né samið um skiptingu greiðslu hjá þeim sem eru í erfiðleikum fyrir síðdegi föstudags 8. janúar, verður litið svo á að hætt hafi verið við þátttöku. Vinsamlegst hafið samand við gjaldkera Siðmenntar (sjá hér) ef þið hafið spurningar. Nánari upplýsingar eru sendar bréflega til skráðra þátttakenda.

Hér eru nokkrar grundvallarupplýsingar fyrir foreldra fermingarbarna í BF 2010.

Aðalkennari BF er Jóhann Björnsson heimspekingur.
hs. 553-0877, gsm. 844-9211 – netfang: johannbjo@gmail.com

Mætingaskylda er í tíma. Forföll skal boða til kennara. Fermingarbörnum og aðstandendum þeirra er velkomið að hafa samband við kennara í síma eða með tölvupósti.

Námskeiðin og tímaplön

Haldin verða fjögur 12-vikna námskeið og 2 helgarnámskeið. Tímaplanið er sem hér segir:

Þriðjudagar kl. 16:30 til 17:50 byrjar 5. janúar.
Miðvikudagar kl. 16:30 til 17:50 byrjar 6. janúar
Fimmtudagar kl. 16:30 til 17:50 byrjar 7. janúar.
Föstudagar kl. 15:30 til 16:50 byrjar 8. janúar.

Þriðjudags-, miðvikudags-, fimmtudags- og föstudagsnámskeið fara fram í Kvennaskólanum Fríkirkjuvegi 9, á 1.hæð í nýbyggingu skólans, stofu N6. Jóhann verður með GSM símann með sér ef einhver finnur ekki kennslustofuna.

Helgarnámskeið í Reykjavík verður eins og hér segir:

Fyrri hluti: laugardaginn 6. febrúar og sunnudaginn 7. febrúar
Seinni hluti: laugardaginn 6. mars og sunnudaginn 7.mars

Helgarnámskeiðið verður haldið í stofu 12 í Réttarholtsskóla, við Réttarholtsveg 10. Gengið er inn frá hringtorgi við skólann. Tekið verður á móti þátttakendum í inngangi skólans. Jóhann verður með GSM símann með sér. Kennslan hefst kl.10:00 alla dagana og stendur til kl. 16:00 á laugardögum og til 15:00 á sunnudögum.

Ef veður og færð verða ómöguleg á fyrrgreindum helgum verður helgarnámskeiðið haldið næstu helgi á eftir.

Helgarnámskeið á Akureyri verður eins og hér segir:

Fyrri hluti: laugardaginn 23. janúar og sunnudaginn 24. janúar
Seinni hluti: laugardaginn 13. mars og sunnudaginn 14. mars

Kennarar verða Jóhann Björnsson og Jón Einar Haraldsson. Kennslan fer fram í Brekkuskóla. Nánari upplýsingum um Akureyrarnámskeiðið verður dreift til þeirra sem það á við, með netpósti. Ef veður og færð verða ómöguleg á fyrrgreindum helgum verður helgarnámskeiðinu frestað samkvæmt samkomulagi.

Stjórn Siðmenntar þakkar öllum sem tekið hafa þátt í starfi félagsins á liðnum árum. Árið sem nú er að líða hefur verið viðburðarríkt og sífellt fjölgar meðlimum í Siðmennt. Nú rétt fyrir áramót eru skráðir félagsmenn orðnir 300 talsins og um 17 þúsund manns hafa tekið þátt með einum eða öðrum hætti í viðburðum á vegum félagsins.  Stjórn Siðmenntar óskar öllum landsmönnum gæfuríks komandi árs.

Í desember blaði Þjóðarpúls Gallup 2009 var greint frá niðurstöðum nýrrar könnunar á vilja landsmanna fyrir aðskilnaði ríkis og kirkju.  Mælingin var unnin úr netkönnun sem gerð var dagana 12.-25. nóvember 2009.  Svarhlutfall var 70.8% og úrtaksstærð 2403 manns.  Úrtakið er tilviljunarúrtak úr Viðhorfahópi Capacent Gallup og eru í því einstaklingar af öllu landinu 18 ára og eldri.

Niðurstaðan var sú að tæplega 60% segjast hlynnt aðskilnaði ríkis og kirkju, 20% eru hvorki hlynnt né andvíg og 20% andvíg.  Af því fólki sem tóku afstöðu með eða á móti, segjast því  74% vera hlynnt aðskilnaði en aðeins 26% andvíg.   Capacent Gallup birti í línuriti þróun þessa fylgis með aðskilnaðinum frá árinu 1994 og er það samanburður 13 kannana alls að þessari meðtalinni.

adsk-rsk-94-09

Meirihlutastuðningur við aðskilnaðinn hefur verið stöðugur á bilinu 58-67% þar til að hann féll í desember 2007 og náði þá tæpum meirihluta 51%.  Niðurstaða könnun-arinnar nú er því stórt stökk upp í stuðningi við aðskilnaðinn og hefur hann nú náð sögulegu hámarki í 74%.  Þetta vekur upp spurningar um orsakir þess og verða mögulegar útskýringar aldrei annað en tilgátur þó áhugavert sé að velta vöngum yfir þeim.

Skoðum fyrst töflu Gallup með greiningum á vissum hópum innan úrtaksins:

Lesa áfram ...

Formlegri skráningu er lokið í Borgaralega fermingu, en umsóknarfrestur rann út 1. desember 2009.

Um metþáttöku er að ræða en alls eru skráð 164 ungmenni og er það 36.6% aukning frá í fyrra.  Svipað stökk í þátttöku var síðast árið 2006 þegar fjöldinn jókst um 37.6%.

Leyfðar verða seinskráningar fram til 20. desember 2009 í síðasta lagi og greiðist þá 1000 kr seinskráningargjald til viðbótar þannig að námskeiðskostnaður er nú  kr. 25.000 fyrir þá sem skrá sig til og með 20. desember.

Hið 12 vikna fermingarnámskeið hefst 4. janúar og á skráningargjald að vera greitt fyrir 6. janúar.

Hátíðleg athöfn Borgaralegrar fermingar árið 2010 verður haldin sunnudaginn 18. apríl í Háskólabíói.  Fermingarathöfn verður einnig á Akureyri laugardaginn 24. apríl og er vonast til að hægt verði að halda þar athöfn á hverju ári upp frá þessu.

Umsjónarmenn og kennarar Borgaralegrar fermingar hlakka til að hitta alla í janúar.


Login