Siðmennt

Málsvari manngildisstefnu og frjálsar hugsunar.

Siðmennt - félag siðrænna húmanista á Íslandi, var stofnað 1990. Félagið er málsvari manngildisstefnu (húmanisma) og frjálsrar hugsunar, óháð trúarsetningum, og stendur fyrir veraldlegum athöfnum.

Meira um Siðmennt

Það er mikilvægt að eiga val.

Frá árinu 1989 hefur Siðmennt staðið fyrir borgaralegum fermingum.

Mörg ungmenni á fermingaraldri eru ekki reiðubúin til að vinna trúarheit. Sum eru annarrar trúar eða trúa á guð á sinn hátt og önnur eru ekki trúuð. Fyrir þau ungmenni er borgaraleg ferming góður kostur.

Nánari upplýsingar um borgaralega fermingu

Fallegar veraldlegar eða húmanískar nafngjafarathafnir.

Siðmennt býður uppá uppá þjónustu athafnarstjóra við fallegar veraldlegar eða húmanískar nafngjafarathafnir til þess að gefa barni formlega nafn og fagna þeirri merku ákvörðun í lífi þess og fjölskyldunnar.

Meira um veraldlega nafngjöf

Siðmennt leiðir pör saman til giftingar óháð kynhneigð eða lífsskoðun.

Veraldleg/húmanísk gifting fer fram til að fagna því að par (óháð kynhneigð) vill opinbera heit sín til hvors annars á formlegan og hátíðlegan máta fyrir framan fjölskyldu sína og vini.

Nánar um veraldlega giftingu

Til að minnast látins ættingja eða vinar á virðulegan máta.

Veraldleg útför fer fram til að minnast á formlegan og virðulegan máta látins ættingja eða vinar rétt eins og þær trúarlegu, en munurinn er sá að í veraldlegri athöfn fer ekki fram lestur trúarlegra ritninga, bænalestur eða sálmasöngur.

Meira um veraldlega útför

Stjórnvöld eiga að vera hlutlaus og óháð trúarbrögðum.

Stjórnvöld eiga að tryggja frelsi einstaklinga og vernda rétt þeirra til að lifa samkvæmt þeim lífsskoðunum sem þeir sjálfir kjósa. Stjórnvöld eiga að vera hlutlaus, óháð trúarbrögðum og eiga ekki að hygla ákveðnum lífsskoðunum umfram önnur.

Meira um áherslur Siðmenntar í trúfrelsismálum

Taktu þátt í starfsemi Siðmenntar!

Siðmennt fagnar nýjum félögum. Til viðbótar við hinn félagslega ávinning að því að vera félagi í Siðmennt fá félagar afslátt af athafnaþjónustu félagsins.

Stjórn félagsins svarar öllum skriflegum erindum félagsmanna og aðstoðar eftir bestu getu og aðstöðu.

Hafðu samband

Eftirfarandi ávarp flutti Björn Jóhannsson, fyrrverandi fermingarbarn hjá Siðmennt, á málþinginu „Vörður á lífsleið barna – málþing um hlutverk ólíkra trúarbragða í uppeldi“. Var það haldið 27. apríl 2010 á vegum Leikskólasviðs Reykjavíkurborgar, Menntasviðs Reykjavíkurborgar og Rannsóknastofu í fjölmenningarfræðum. Björn Jóhannsson var fulltrúi Siðmenntar.

Komið þið sæl

Ég fermdist borgaralega á vegum Siðmenntar vorið 2007. Þegar borgaraleg ferming er nefnd vakna hjá ýmsum margar spurningar. Hvað er borgaraleg ferming? Til hvers og fyrir hverja er hún? Hverjir taka þátt í borgaralegri fermingu? Hversvegna tók ég þátt og hvers virði var það fyrir mig að taka þátt í borgaralegri fermingu?

Lesa áfram ...

Eftirfarandi ræðu flutti Dagur Fróði Kristjánsson fermingarbarn í fermingarathöfn sinni í Háskólabíói 18. apríl 2010.

Í dag verð ég að manni

Uppskriftin kemur frá Þórarni Eldjárn.

Efst er höfuðið með harðfisk og tölvukubbi

svo hjartað, bara dæla rétt og slétt.

Neðst belgur á tveim fótum fullur af gubbi.

Er formúlan að manni svona létt?

Nei, gleymum því ekki að maðurinn hefur mál.

Málið birtir tilfinningar og sál.

Góðan dag ágætu gestir.

Með tíð og tíma hef ég komist að því að það borgar sig alltaf að vera jákvæður því ef maður fer jákvæður út í hlutina verða þeir miklu skemmtilegri. Ég las einu sinni setningu sem hafði mikil áhrif á mig hún hljómar þannig: þeir sem ná langt í lífinu segja að 90 prósent af öllu sem gerist, gerist innra með manni en aðeins 10 prósent fyrir utan mann. Ég tók því þannig að þá stjórnar maður í raun og veru sinni eigin hamingju.

Lesa áfram ...

Eftirfarandi grein birtist á visi.is föstudaginn 7. maí 2010.

Í tilefni 20 ára afmælisárs síns mun Siðmennt, félag siðrænna húmanista á Íslandi halda yfirgripsmikið málþing um gildi veraldlegrar skipan á grunnstoðum þjóðfélagsins, laugardaginn 8. maí í Öskju, húsi HÍ frá kl 10:00 til 14:00. Fimm félagar í Siðmennt munu flytja stutt erindi og taka við spurningum úr sal. Málþingið endar á pallborðsumræðum.

Lesa áfram ...

Sjá textaútgáfu af tilkynningu:

Lesa áfram ...

Eftirfarandi ræða var flutt í Háskólabíói í athöfnum borgarlegrar fermingar 18. apríl 2010 af Evu Þórdísi Ebenezersdóttur, þjóðfræðinema við Háskóla Íslands.

Kæru fermingarbörn gleðilega hátíð og til hamingju með daginn.

Fermingin er meðal annars sögð marka þau tímamót þegar við verðum fullorðin því við ferminguna séum við tekin í fullorðinna manna tölu. Eitt af því sem flestir kljást við á þessum tímamótum, og í raun í gegnum lífið allt, er að reyna að átta sig á hver maður er. Þessi spurning „hver er ég?“ leitaði svolítið á mig þegar ég var beðin um að tala hér í dag, því fæstir sem hér eru vita hver ég, Eva Þórdís, er. Ég lagðist því í svolitla sjálfsskoðun og mig langar að segja ykkur hver ég er og vona um leið að sú frásögn geti orðið ykkur til góðs í leitinni að ykkur sjálfum.

Þegar ég fæddist kom í ljós að vinstri fóturinn minn var ekki eins og fætur eru flestir, hann var stuttur og snúinn. Í kjölfarið af fæðingunni mættu foreldrar mínir oft einkennilegum viðbrögðum fólks sem vissi ekki alveg hvort það átti að óska þeim til hamingju með barnið eða færa þeim samúðarkveðjur vegna fötlunarinnar. Þau brugðu því oft á það ráð að benda fólki á þau ættu eitt barn fyrir og að vísitölu fjölskyldan var hjón með 1,97 barn, þau hefðu því bara viljað vera nákvæm! :) Viðbrögðin voru yfirleitt andköf og vandræðagangur í nokkrar sekúndur þar til fólk áttaði sig á því að þetta var grín. Þegar gríninu var náð gat fólk hlegið svolítið og áttað sig á því að auðvitað voru hamingjuóskir réttu viðbrögðin við fæðingu barnsins.

Lesa áfram ...

Eftirfarandi ræðu flutti Inga Rán Ármann fermingarbarn í fermingarathöfn sinni í Háskólabíói 18. apríl 2010.

Góðir gestir,

Ég ætla að segja frá hversvegna ég tók þá ákvörðun að fermast borgaralega. Um þennan valkost að fermast borgaralega vissi ég ekki um, fyrr en hann Styrmir frændi minn tók þá ákvörðun í fyrra að fermast á þann hátt. Ég kynnti mér viðfangsefnið nánar og komst að þeirri niðurstöðu að ég vildi fermast borgaralega.

Lesa áfram ...

Sunnudaginn 18. apríl fór 22. borgaralega fermingin á vegum Siðmenntar fram í Háskólabíó. Fermingarbörnin hafa aldrei verið fleiri og eru í heild 166 að þessu sinni, þar af 12 í nýjum Akureyrarhópi og 4 verða fermd Fljótdalshéraði þann 19. júní.

Þeim áfanga að stiga inn í heim fullorðinna fagnar ungt fólk með fjölskyldum sínum víða um heim með athöfn og veislu. Á Íslandi eins og víða í hinum vestræna heimi hefur þessi þáttur kristnast svo mjög að hann snýst orðið mikið til um dálítið aðra hluti en að fagna tímamótum í aldri og viðhorfi til eigin stöðu í samfélaginu. Siðmennt hefur lagt kapp við að að færa samfélaginu aftur þann möguleika að halda hátíðlega athöfn í þessum tilgangi á veraldlegum og manneskjulegum nótum án þess að trúarbrögð komi við sögu. Sífellt fleiri velja þá leið og fyrir nokkru orðið ljóst að sú þjónusta á erindi við íslendinga.

Lesa áfram ...

Eftirfarandi ræðu flutti Árni Reynir Guðmundsson fermingarbarn í fermingarathöfn sinni í Háskólabíói 18. apríl 2010.

Komið þið sæl

Mig langar að flytja stutt ávarp sem ég samdi með smá hjálp frá pabba mínum.

Ástæðan fyrir því að ég fermdist ekki kristilega er sú að ég trúi ekki öllu sem í biblíunni stendur.   Í stað þess að fylgja fjöldanum langaði mig miklu frekar að gera það sem ég taldi rétt og fermast borgaralega.

Þegar ég sagði afa mínum og ömmu frá þessu, gaf afi minn mér bókina Blekking og þekking eftir Níels Dungal. Bókin er mjög sniðug en hún deilir svolítið á biblíuna og það sem í henni stendur. Það er margt gott í þessari bók eins og það er margt gott í biblíunni. En báðar bækurnar eru kannski orðnar svolítið gamlar og þær eiga ekki endilega jafn vel við og þegar þær voru skrifaðar.

Lesa áfram ...

Eftirfarandi ræða var flutt í Háskólabíói í athöfnum borgarlegrar fermingar 18. apríl 2010 af Þorvarði Tjörva Ólafssyni bróður Gísla Rafns Ólafssonar, stjórnanda íslensku alþjóða-björgunarsveitarinnar. Gísli Rafn skrifaði ræðuna og hefði flutt hana sjálfur en var tepptur í útlöndum vegna eldsumbrotanna í Eyjafjallajökli og komst því ekki til landsins.

Kæru fermingabörn, foreldrar, systkini og aðrir gestir

Að vera komin í fullorðinna manna tölu er stór stund í lífi hvers einstaklings. Um allan heim er á einn eða annan hátt haldið upp á þetta stóra skref. Hér á landi hefur sú hefð skapast að fagna fermingu á veglegan hátt með mikilli veislu og gjafaflóði. Hjá hirðingjum í Afríku er úlfalda slátrað og einnig slegin upp mikil veisla sem oft stendur í nokkra daga.

En hjá stórum hluta mannkyns er oftast lítill dægramunur gerður þó að barn komist í fullorðinna manna tölu. Yfir milljarður jarðarbúa býr við það mikla fátækt að þau eiga erfitt með að tryggja eina máltíð á dag. Mörg börn hætta ung í skóla til þess að vinna fyrir sér eða betla á götum úti og þurfa því að takast á við hluti sem fullorðnir ættu einir að þurfa að gera.

Lesa áfram ...

Þórgnýr Dýrfjörð flutti eftirfarandi ávarp við borgaralega fermingu sem var haldin í Ketilhúsinu á Akureyri þann 24. apríl 2010.

Ágætu ungmenni, foreldrar og forráðamenn, góðir gestir.

Það ánægjulegt að vera hérna með ykkur og heiður að fá að ávarpa fyrsta hópinn sem fermist með borgaralegum hætti hér á Akureyri.

“Það sést hverjir rækta sinn innri mann. Það sést hverjir eru hamingjusamir – það sést hverjir drekka Egils Kristal!”

Svona hljómar auglýsing sem dynur á okkur í útvarpi og sjónvarpi þessa dagana. Henni er ætlað að draga upp í huga okkar mynd af einhverri staðal manneskju sem lítur út og hagar sér með einhverjum ákveðnum hætti – og líður óskaplega vel af því að drekka íslenskt ropvatn út plastflösku. (Reyndar gæti hinn möguleikinn verið að allir sem líður vel eigi það sameiginlegt að drekka íslenskt ropvatn af tegundinni Kristall.)

Það vakna eða ættu að vakna margar spurningar þegar maður veltir fyrir sér auglýsingunni. Getur það verið að maður verði hamingjusamur af því að drekka ákveðna tegund af vatni eða getur verið að engin trúi því að maður sé hamingjusamur ef maður drekkur ekki þessa ákveðnu tegund af gosvatni?

Það vakna spurningar um markaðshyggju og þá sýn að við séum fyrst og fremst neytendur og það megi skilgreina okkur utan frá, ef svo má að orði komast sbr. slagorðið “fötin skapa manninn”.

Það vakna gagnrýnar spurningar og við erum minnt á nauðsyn þess að við séum gagnrýnin í hugsun og látum ekki mata okkur á hvaða vitleysu sem er. Margt bendir til þess að það sem helst fór úrskeiðis í íslensku samfélagi á síðustu árum hafi einmitt verið að við virkjuðum ekki gagnrýna hugsun með jákvæðum hætti. Vissulega voru margir gagnrýnir en raddir þeirra náðu ekki í gegn – því andrúmsloftið var gagrýnisslaust. Birtingarmyndirnar voru margskonar. Muni ég rétt þá var t.d. einu sinni forsíðufrétt á Fréttablaðinu að sérinnflutt kengúrukjöt yrði á boðstólnum í brúðkaupi eins eiganda blaðsins. Það er ótrúlegt að við skyldum láta þetta yfir okkur ganga.

Það má til sanns vegar færa að sköpun hafi verið mikil á síðustu árum og skapandi hugsun fengið að njóta sín. Það var t.d. heilmikil nýsköpun í fjármálageiranum. En skapandi hugsun virkar best ef gagnrýnin hugsun er höfð með í farteskinu. Með sama hætti dugar hin gagnrýna hugsun ekki ein og sér – sá sem gagnrýnir bara strandar fljótt.Það er engin endir á þeim fjanda sem mannskeppnan hefur fundið upp á og gengið langt í fantagangi án þess að nokkur maður stigi á hemlana – án þess að fjöldin risi gegn. Þess vegna þurfum við hvert og eitt að vera hressilega vakandi og ætla ekki öðrum að hugsa fyrir okkur.

Auglýsingin sem ég nefndi í upphafi vekur fleiri spurningar. Hún vekur eiginlega spurninguna um hamingju, lífsgleði og innihaldsríkt líf. Sem við erum áreiðanlega sammála um að leiðir ekki af því einu að þamba vatn. Mig langar að ljúka þessu ávarpi á að takast eilítið á við spurninguna um hamingjuna.

Hvað er eiginlega hamingja?

Það hafa margir tekist á við þessa spurningu en fyrir mína parta þá hefur engin svarað henni með jafn sannfærandi greinargerð og Aristóteles hinn forngríski sem var uppi um 350 árum f. Kr.

Hann velti fyrir sér sambandinu milli ánægju og hamingju. Erum við hamingjusöm þegar okkur líður vel? Og hvenær líður okkur vel? Í vel heitu baði með rólega tónlist á spilaranum, í fullum veiðiskrúða liggjandi á árbakkanum, á tónleikum með uppáhalds hljómsveitinni? Jú áreiðanlega á það við um mörg okkar – að okkur líði vel við þessar eða svipaðar kringumstæður. En erum við endilega hamingjusöm á slíkum vellíðunarstundum? Kannski, en það er ekki víst. Það var ein niðurstaða Aristótelesar að það sé ekki nauðsynlegt samband milli ánægju og hamingju og heldur ekki óánægju og óhamingju. Okkur getur liðið illa tímabundið án þess að vera endilega óhamingjusöm.

En hvað þá um samfelldar ánægjustundir. Margir kannast við þá notalegu tilfinningu sem fylgir því að skrá sig inn á hótel. Vitandi að við taka rólegir afslappaðir og áhyggjulausir dagar þar sem maður sleppur við að þrífa, taka til og elda. En maður veit líka að dvölin tekur enda. Hugsum okkur nú að
hótelstjórinn kæmi til okkar daginn fyrir brottför og segði að við hefðum unnið ókeypis viku til viðbótar – okkur til ómældrar gleði og ánægju. En hvað ef hann segði okkur að við hefðum verið dæmd til að dvelja á hótelinu næstu 10 árin. Það er óvíst að það ylli okkur gleði, ánægju eða tilhlökkun – nú eða hamingjusemi. Þannig hamingjan er ekki fólgin í samfelldum ánægjustundum eða hvað?

Aristióteles var tilgangshyggjumaður, hann gerði ráð fyrir að allir hlutir í heiminum ættu sér tilgang eða eiginverk – honum fannst það skýra hvernig heimurinn gengur fyrir sig. Tilgangur skósmiðisins er að smíða góða skó, tilgangur fræsins er að spíra og vaxa upp sem fagurt blóm sem gefa af sér ný fræ, tilgangur flautuleikarans er að leika fagurlega á flautu sína. Nú er tilgangshyggja umdeild, ekki síst á 20. öldinni, en við skulum leiða það hjá okkur í þetta skiptið – en menn hafa í.þ.m. komist að þeirri niðurstöðu að fyrirbæri náttúrunnar geti haft tilgang á þess að nokkur hafi gefið þeim eða sett þeim tilganginn fyrirfram – þannig er tilgangur innbyggður í þróunarkenningu Darwins svo dæmi sé tekið.

En spurningin er þá þessi hvert gæti verið tilgangur eða eiginverk mannsins?

Ímyndum okkur spriklandi ungabarn í höndum okkar. Og hvað gerist ef við hugsum sómasamlega um það? Jú það þroskast. Niðurstaða Aristótelesar var einmitt sú að eiginverk eða tilgangur mannsins væri falið í þroskanum. Tilgangur mannsins er að þroskast. Þá spyrjum við uppfull af gagnrýnni hugsun – getur þú sagt okkur herra Aristóteles; hvað er þá þroski?

Hann á að sjálfsögðu svar við þeirri spurningu einnig. Þroski felst í því að gera möguleika að raunveruleika. Og þetta er augljóst með ungabarnið; í því býr möguleikinn til að tala, að ganga, hlaupa, að hlæja, að lesa og skrifa og læra að blístra. Barnið þroskast eftir því sem þessir möguleikar verða að raunveruleika. Aristóteles taldi að sjálf hamingjan væri fólgin í þessu en með vissum skilyrðum þó.

En fyrst má spyrja. Er þessi þroski sem við höfum lýst – er hann bundinn við barnæskuna og ungdómsárin? Er möguleiki að honum ljúki þegar við verður 21 árs? Nei auðvitað ekki – kenning Aristótelesar gengur í raun út á að við munum aldrei geta gert alla þá möguleika sem í okkur búa að raunveruleika – að þar sé falinn brunnur sem aldrei verður tæmdur.

Og það eru ólíklegustu hlutir sem draga fram möguleikana – og gjarna hlutir sem okkur þykja ógnvekjandi eða þeir ögra okkur – hlutir sem við erum ekki viss um að getum valdið. Þannig er það líklegra að til að laða fram möguleikana að stíga brekkuna í stað þess að sækjast eftir flatneskjunni.

En stórar stundir eins og að eignast barn hrinda okkur fram í þroska – en verkefni eins og að koma saman bútasaumsteppi í fyrsta skiptið getur gert vel falda möguleika að verkuleika.

En segjum að þetta sé rétt hjá Aristótelesi að hamingjan sé fólgin í þroska – og að það sé verkefni sem aldrei lýkur – að við náum þá aldrei endanlega á áfangastaðinn “HAMINGJA” – heldur erum sífellt á ferðlagi þangað. Megum við þá ganga hvernig sem er fram í því að gera okkar möguleika að veruleika – og jafnvel á kostnað annarra? Megum við prika á öxlum annarra í fjallgöngunni á möguleikafjallinu svo gripið sé til algengrar samlíkingar?

Nei segir Aristóteles. Dyggð og hamingja verða ekki aðskilin. Dyggð er meðalvegurinn milli tveggja lasta. Þannig byggir hann skynsemina inn í hugmynda um hamingju sem þroska. Það gerist þannig að dyggð er skynsamlega leiðin milli tveggja lasta. Þannig er hugrekki meðalvegurinn milli fífldirfsku og hugleysis. Fífldirfska er óskynsamlega mikið hugrekki og hugleysi er óskynsamlega lítið hugrekki.

Kona sem stingur sér eftir drukknandi barni án þess að hugsa sig um og bjargar því er sannarlega hugrökk – karl sem þorir ekki að stinga sér af því hann er hræddur um að sjórinn sé svo agalega kaldur er huglaus – og sá sem stingur sér ósyndur í ískaldan sjóinn án þess að eiga nokkra möguleika á að bjarga er fífldjarfur. Þetta er skynsemiskenning fyrst og fremst – og nokkurs konar gæðastjórnun á leit okkar eftir hamingjunni. Þær tryggja líka að við tökum fullt tillit til annarra.

Við sjáum áreiðanlega afleiðingarnar af lastalífinu undanfarin ár á Íslandi – þeir sem gengu hvað lengst í að gera möguleika, sem þeir töldu sína, að veruleika – keppast nú við að skrifa greinar og beiða þess að þjóðin fyrirgefi þeim yfirganginn. Betur þeir hefðu haft skynsemina að leiðarljósi. Eins og við sögðum skapandi hugsun er best með gagnrýna hugsun í farteskinu.

Dyggðirnar eru líka svo snjallar ef svo má að orði komast. Þær gera nefnilega ekki algjöra kröfu til manns – maður getur verið hófsemdarmaður án þess að lifa algjöru meinlætalífi, maður getur hlotið einkunina hugrakkur þó þær stundir komi að það bregðist honum. Búi maður yfir dyggð þá hefur maður tilhneigjingu til að breyta í samræmi við hana. Annar kostur við dyggðirnar er að þær má tileinka sér – það má ástunda þær og æfa þær. Maður sem tekur heiðarlega ákvörðun um að vera þagmælskur – er minntur á það í hvert sinn sem hann ætlar að rjúfa trúnað og kjafta leyndarmáli. Það er eins og að rekast utan í stiku á ferðalagi sínu.

Nú hví er ég að tala um þetta einmitt í dag? Jú það er til þess að minna okkur öll á og ekki síst fermingarbörnin á að hugsa um lífið sem leit að möguleikum og leiðum til þess að gera þá að veruleika – að hamingjan er ekki fólgin í dansi á rósum heldur fjölbreytilegum áskorunum og skinum og skúrum lífisins. Og þó að stundum sé talað um vatn sem undirstöðu lífsins – þá felst lífið ekki í ropvatnsflöskum sama hvort þær heita Kristall eða Perrier!

Ég hef engar áhyggjur af ykkur – þið hafið sýnt í verki hugrekki og hafið sýnt í verki að þið eruð tilbúin að taka sjálfstæðar ákvarðanir.

Stundum er talað um hamingjuna í skilningi Aristótelesar sem farsæld – að markmiðið sé farsæld í lífinu og snýst ekki um ofgnótt af öllum sköpuðum hlutum heldur það sem er skynsamlegt og þroskandi.

Ég vil að endingu óska ykkur hjartanlega til hamingju með daginn og farsældar í framtíðinni.

Takk fyrir.

Þórgnýr Dýrfjörð


Login