Siðmennt

Málsvari manngildisstefnu og frjálsar hugsunar.

Siðmennt - félag siðrænna húmanista á Íslandi, var stofnað 1990. Félagið er málsvari manngildisstefnu (húmanisma) og frjálsrar hugsunar, óháð trúarsetningum, og stendur fyrir veraldlegum athöfnum.

Meira um Siðmennt

Það er mikilvægt að eiga val.

Frá árinu 1989 hefur Siðmennt staðið fyrir borgaralegum fermingum.

Mörg ungmenni á fermingaraldri eru ekki reiðubúin til að vinna trúarheit. Sum eru annarrar trúar eða trúa á guð á sinn hátt og önnur eru ekki trúuð. Fyrir þau ungmenni er borgaraleg ferming góður kostur.

Nánari upplýsingar um borgaralega fermingu

Fallegar veraldlegar eða húmanískar nafngjafarathafnir.

Siðmennt býður uppá uppá þjónustu athafnarstjóra við fallegar veraldlegar eða húmanískar nafngjafarathafnir til þess að gefa barni formlega nafn og fagna þeirri merku ákvörðun í lífi þess og fjölskyldunnar.

Meira um veraldlega nafngjöf

Siðmennt leiðir pör saman til giftingar óháð kynhneigð eða lífsskoðun.

Veraldleg/húmanísk gifting fer fram til að fagna því að par (óháð kynhneigð) vill opinbera heit sín til hvors annars á formlegan og hátíðlegan máta fyrir framan fjölskyldu sína og vini.

Nánar um veraldlega giftingu

Til að minnast látins ættingja eða vinar á virðulegan máta.

Veraldleg útför fer fram til að minnast á formlegan og virðulegan máta látins ættingja eða vinar rétt eins og þær trúarlegu, en munurinn er sá að í veraldlegri athöfn fer ekki fram lestur trúarlegra ritninga, bænalestur eða sálmasöngur.

Meira um veraldlega útför

Stjórnvöld eiga að vera hlutlaus og óháð trúarbrögðum.

Stjórnvöld eiga að tryggja frelsi einstaklinga og vernda rétt þeirra til að lifa samkvæmt þeim lífsskoðunum sem þeir sjálfir kjósa. Stjórnvöld eiga að vera hlutlaus, óháð trúarbrögðum og eiga ekki að hygla ákveðnum lífsskoðunum umfram önnur.

Meira um áherslur Siðmenntar í trúfrelsismálum

Taktu þátt í starfsemi Siðmenntar!

Siðmennt fagnar nýjum félögum. Til viðbótar við hinn félagslega ávinning að því að vera félagi í Siðmennt fá félagar afslátt af athafnaþjónustu félagsins.

Stjórn félagsins svarar öllum skriflegum erindum félagsmanna og aðstoðar eftir bestu getu og aðstöðu.

Hafðu samband

Ferming 2010

Eftirfarandi eru upplýsingar fyrir fjölskyldur með ungmenni í Borgaralegri fermingu 2011.

Jólabréf með nafnalista – Sent til fjölskyldna í des 2010.
Jólabréf BF (í pdf) – Nafnalisti (í Excel formati)

Athugið að nauðsynlegt er að vera með pdf-skoðara uppsettan í tölvunni sinni. Við mælum með Foxit Reader þó Adobe Readerinn gamli standi alltaf fyrir sínu. Excel skjöl er einnig hægt að lesa með hinum ókeypis Open Office pakka, fyrir þá sem ekki eru með Excel frá Microsoft.

Borgaraleg ferming 2008

Tilkynning frá Siðmennt um breytingu á lokadegi seinskráningar í borgaralega fermingu.

Ljóst er að annað árið í röð er met þátttaka í borgaralegri fermingu.  Allir námskeiðshópar eru því fullir og þurfti að bæta við nýjum hópi til að mæta þessum auknu vinsældum.  Ungmennin eru nálægt tvö hundruð.  Auk Reykjavíkur verða haldin námskeið á Akureyri og Selfossi.

Leyfa átti seinskráningar til 20. desember, en sökum þessarar stöðu verður að hætta viðtöku skráninga eftir morgundaginn, 15. desember 2010.   Í dag og á morgun eru því síðustu forvöð til að tilkynna þátttöku.

Lesa áfram ...

rúv

Reykjavík 10. nóvember 2010

Undanfarið hefur Siðmennt, félag siðrænna húmanista á Íslandi, orðið fyrir mikilli gagnrýni frá starfsmönnum Þjóðkirkjunnar í fjölmiðlum. Hefur sú gagnrýni meðal annars komið frá prestum og sjálfum biskupnum yfir Íslandi. Stjórn Siðmenntar fagnar allri málefnalegri umræðu um mannréttindi og ólíkar lífsskoðanir.

Stjórn Siðmenntar vill þó gera alvarlegar athugasemdir við þau ósannindi sem hafa verið látin falla um félagið á vettvangi RÚV. Húmanistar hafa verið sakaðir um að vilja banna fræðslu um trúarbrögð í skólum, vilja banna jólaundirbúning og meira að segja hafa húmanistar verið sakaðir um að vilja banna öðru fólki að trúa og hafa sína lífsskoðun. Þetta eru allt meiðandi rangfærslur sem þarf að leiðrétta.

Lesa áfram ...

Borgaraleg ferming 2008

Kynningarfundur fyrir unglinga sem áhuga hafa á borgaralegri fermingu 2011 og aðstandendur þeirra verður haldinn:

Laugardaginn 13. nóvember 2010 kl. 11:00 – 12:00 í sal 1 í Háskólabíói

Á kynningarfundinum verður næsta fermingarnámskeið Siðmenntar kynnt, gert grein fyrir einstökum efnisþáttum, tímum og umsjónarmönnum þeirra. Skráningarblöðum verður dreift og fólk velur hvaða námskeið hentar því best. Munið að koma með penna.

Ennfremur verður greint frá tilhögun væntanlegrar athafnar næsta vor og sýnt verður kynningarmyndband frá athöfnunum sem haldnar voru vorið 2010.

Það er þegar búið að manna nefnd foreldra og forráðamanna til að hafa umsjón með athöfninni.

Lesa áfram ...

Siðmennt 2010-14

Fimmtudaginn 4. nóvember var hin árlega Húmanistaviðurkenning Siðmenntar afhent og fór viðburðurinn fram á Hótel Loftleiðum. Handhafi viðurkenningarinnar árið 2010 er Hörður Torfason sem hefur sinnt mikilvægu og áratugalöngu starfi í þágu mannréttinda á Íslandi.

Í ár var úthlutað í þriðja sinn í flokki viðurkenningar sem hefur fengið heitið Fræðslu- og vísindaviðurkenning Siðmenntar. Árið 2008 hlaut Pétur Tyrfingsson sálfræðingur hana en 2009 hlaut Orri Harðarson hana. Eitt af megin umfjöllunarefnum félagsins er þekkingarfræðin og stuðningur við vísindalega þekkingarleit og fræðslu. Félagið veitir viðurkenningu þeim aðila eða samtökum sem hafa fært þjóðinni mikilvægt framlag í þessum efnum. Að þessu sinni er það Ari Trausti Guðmundsson jarðvísindamaður og rithöfundur sem hlýtur viðurkenninguna.

Lesa áfram ...

Þingsetning

Eftirfarandi erindi flutti Eyja Margrét Brynjarsdóttir, heimspekingur, á samverustund Siðmenntar á Hótel Borg, föstudaginn 1. október. Tilefnið var setning Alþingis og bauð Siðmennt þingmönnum upp á það val að mæta til veraldlegrar samverustundar í stað messu í Dómkirkjunni.

Af vandaðri hugsun

Eyja Margrét Brynjarsdóttir

Í bók sinni Thinking to some purpose eða Hugsun að einhverju gagni sem kom út árið 1939 veitir breski heimspekingurinn Susan Stebbing leiðsögn um skýra og vandaða hugsun, en í þeim efnum þótti henni ýmislegt betur mega fara í bresku samfélagi. Hún skrifar:

Það er knýjandi þörf nú á dögum fyrir borgara í lýðræðisríki að hugsa vel. Prentfrelsi og frelsi þingsins nægja ekki. Vandi okkar stafar að hluta til af okkar eigin heimsku, að hluta til af hagnýtingu þessarar heimsku og að hluta til af okkar eigin fordómum og persónulegu löngunum.

Lesa áfram ...

Hugvekja Siðmenntar

Hugvekja fyrir þingmenn

Fjórir þingmenn mættu í samverustund Siðmenntar á Hótel Borg í dag, þar sem Eyja Margrét Brynjarsdóttir, heimspekingur, flutti erindi um vandaðar hugsanir.

Þingmennirnir voru Katrin Jakobsdóttir, Árni Þór Sigurðsson, Mörður Árnason og Skúli Helgason.

Siðmennt þakkar þingmönnunum ánægjulega samveru og óskar þeim velfarnaðar í starfi á nýhöfnu þingi.

Þingsetning

F R É T T A T I L K Y N N I N G

30. september 2010

Siðmennt býður upp á veraldlegan valkost í hugvekju fyrir þingsetningu

Löng hefð hefur verið fyrir því að setning Alþingis hefjist á guðsþjónustu í Dómkirkjunni. Fyrir setningu Alþingis í maí og október 2009 opnuðust aðrir valkostir fyrir þingmenn þegar Siðmennt bauð þeim sem ekki kjósa að ganga til kirkju upp á heimspekilega hugvekju og léttar veitingar að Hótel Borg.

Siðmennt vill benda á að Alþingi er veraldleg stofnun og er það í hæsta máta óeðlilegt að setning Alþingis hefjist með trúarathöfn. Við teljum að lífsskoðunarfélög eigi ekki að hafa hönd í bagga með formlegri dagskrá Alþingis, en á meðan hin evangelísk-lúterska kirkja fær einkaaðgang að Alþingi með messu sem forsetinn og ríkisstjórnin hafa sótt , mun Siðmennt, félag siðrænna húmanista á Íslandi, bjóða alþingismönnum að koma á Hótel Borg áður en þing er sett  föstudaginn 1. október kl. 13:30 og hlýða á Eyju Margréti Brynjarsdóttur, heimspeking, flytja stutta hugvekju. Hún nefnir hana: AF VANDAÐRI HUGSUN.

Allir alþingismenn eru hjartanlega velkomnir til að eiga stutta samverustund óháð öllum trúarsetningum áður en þeir ganga til þingstarfa.

Borgaraleg ferming 2008

Um þessar mundir ákveða fjölmörg ungmenni hvort og þá hvernig þau hyggist fermast að vori. Frá árinu 1989 hefur Siðmennt, félag siðrænna húmanista staðið fyrir borgaralegum fermingum í Reykjavík. Borgaralegar fermingar eru valkostur fyrir öll ungmenni burtséð frá trúar-eða lífsskoðunum þar sem megináherslan í fermingarfræðslunni er að efla gagnrýna hugsun, siðvit og farsæl viðhorf til lífsins.  Um nokkurra ára skeið hefur Siðmennt komið til móts við áhugasöm ungmenni utan af landi með því að bjóða upp á undirbúningsnámskeið í formi helgarnámskeiða í Reykjavík.

Síðastliðinn vetur varð sú ánægjulega breyting vegna mikils áhuga á norður- og austurlandi að haldið var undirbúningsnámskeið fyrir borgaralega fermingu á Akureyri. Tvær fermingarathafnir voru síðan haldnar s.l. vor , önnu í Ketilhúsinu á Akureyri þar sem alls 12 ungmenni fermdust borgaralega og hin var á Fljótsdalshéraði þar sem þrjú ungmenni fermdust.

Lesa áfram ...

Nú er orðið einfaldara en áður að tryggja að réttar upplýsingar séu að finna í trúfélagaskráningu Þjóðskrár Íslands. Þar sem lög gera í dag ráð fyrir að börn séu sjálfvirkt skráð í trúfélag móður komast margir að því á fullorðinsárum, að þeir eru skráðir í þjóðkirkjuna eða önnur trúfélög gegn vilja sínum. Þjóðkirkjan hefur verið og er  stærst og því færast flestir sjálfkrafa í þann söfnuð og það veitir Þjóðkirkjunni áframhaldandi óeðlilegt forskot á önnur lífsskoðunarfélög í formi sóknargjalda sem innheimt eru fyrir einstaklinga sem annars væru jafnvel skráðir í önnur trúfélög eða utan trúfélaga.

Við mælum með því að fólk leiðrétti skráningu sína sem fyrst, til að hún endurspegli réttar lífsskoðanir landsmanna og gefi þannig eðlilega mynd af hvernig þessum málum er háttað.

Netskil fara þannig fram að pdf skjal er fyllt út á netinu hér og eftir það er skjalið vistað á tölvunni og því skilað með því að smella hér. Undirritun er óþörf, en í stað hennar þarf viðkomandi að auðkenna sig með rafrænu skilríki á debetkorti eða veflykli Ríkisskattstjóra.

Um skil með öðrum hætti en rafrænum er fjallað hér.


Login