Lífsskoðanir Íslendinga og trú

Niðurstöður könnunarinnar benda til þess að veraldlegar lífsskoðanir séu í mikilli sókn á Íslandi. 

Siðmennt fól Maskínu að framkvæma könnun í nóvember 2015 um lífsskoðanir Íslendinga. Lagðar voru fyrir 18 spurningar. Könnunin var lögð fyrir Þjóðargátt Maskínu á netinu og fór fram 13. til 25. nóvember 2015. Íslendingar á aldrinum 18-75 ára af öllu landinu tóku þátt. Svarendur voru 821 og voru gögnin vigtuð með tilliti til kyns, aldurs og búsetu í samræmi við upplýsingar úr Þjóðskrá.

Niðurstöður könnunarinnar benda til þess að veraldlegar lífsskoðanir séu í mikilli sókn á Íslandi. Staða þjóðkirkjunnar hefur líklega aldrei verið veikari og sífellt færri Íslendingar eru hlynntir afskiptum hins opinbera af trú og lífsskoðunum. Hægt er að nálgast niðurstöðurnar í heild neðst á þessari síðu.

Helstu niðurstöður eru þessar:

Trú, tilvist guðs og þjóðkirkjan

Undanfarin ár hefur oft verið staðhæft að íslenska þjóðin sé kristin þjóð. Einnig er því haldið fram að vegna ákvæðis í stjórnarskrá um þjóðkirkju, skuli hið opinbera styðja kirkjuna umfram önnur trú- og lífsskoðunarfélög með fjárframlögum. Með sömu rökum er talað fyrir trúarstarfi í skólum.

Sú staðhæfing að íslenska þjóðin sé kristin er ekki í samræmi við afstöðu meirihluta Íslendinga, sem birtist í könnun Maskínu. Samkvæmt könnuninni segjast 46% Íslendinga vera trúuð, sem er lægsta gildi sem sést hefur í könnunum. Tæp 30% segjast ekki trúuð og 23,7% segjast ekki geta sagt til um hvort þau séu trúuð eða ekki. Þó 46% Íslendinga segist trúaðir eru ekki nema 36% sem trúa helstu kenningum kirkjunnar um guð, eilíft líf og upprisuna. Yngsti aldurshópurinn sker sig úr en 80,5% telja enga vissu fyrir guði, eru trúlaus eða trúa alls ekki. Fjórðungur svarenda telur sig eiga mikla samleið með þjóðkirkjunni en á bilinu 46-47% telja sig eiga litla eða enga samleið með henni.

Trúfrelsi og veraldlegt samfélag

Könnunin staðfestir almennan stuðning við aðskilnað ríkis og kirkju. Ríflega 72% þeirra sem segjast hlynntir eða andvígir aðskilnaði ríkis og kirkju eru hlynntir aðskilnaði. Þegar fólk er spurt hvort ríkið eigi að styrkja trúfélög þá eru 29% sátt við núverandi fyrirkomulag, það er að ríkið styrki þjóðkirkjuna hlutfallslega meira en önnur trú- og lífsskoðunarfélög, á meðan 25% telja að ríkið eigi að styrkja öll trúar- og lífsskoðunarfélög hlutfallslega jafnt. Langstærsti hópurinn eða 46%, telur að ríkið eigi ekki að styrkja trú- eða lífsskoðunarfélög.

Þjóðkirkjan er fjölmennasta trúfélag landsins. Fram til ársins 2013 voru nýfædd börn sjálfkrafa skráð í trúfélag móður en í kjölfar lagabreytinga það ár þurfa foreldrar að tilheyra sama trúfélagi svo barnið skráist sjálfkrafa. Í könnuninni kemur fram að meirihluti eða 60% vill ýmist að ríkið haldi ekki skrá um lífsskoðanir fólks (29,9%) eða að foreldrar þurfi að skrá börn sín sérstaklega (29,6%). Enn sker yngsti aldurshópurinn sig úr en 90% þeirra styðja breytt fyrirkomulag.

Þegar spurt er hvort þjóðkirkjuákvæði eigi heima í stjórnarskrá Íslands svarar 61% þeirra sem taka afstöðu því neitandi. Leitast var við að setja spurninguna fram á skýrari og hlutlausari hátt en gert var í þjóðaratkvæðagreiðslunni 2012 en þá töldu 57% að ákvæði ætti að vera í stjórnarskrá.

Háværar deilur um þátttöku skólabarna í kirkjuferðum eru orðnar fastur liður á aðventu og hafa sumir gert þá kröfu að skólar sjái um kirkjuferðir barna og að þær fari fram á skólatíma. Í könnuninni er spurt hvort skólar eigi að halda trúarlegu hlutleysi og er afgerandi meirihluti eða 69% hlynntur því.

Líknandi dauði

Að lokum voru þátttakendur spurðir hvort þeir væru hlynntir eða andvígir því að „einstaklingur geti fengið aðstoð við að binda endi á líf sitt ef hann er haldinn ólæknandi sjúkdómi (líknandi dauði).“Niðurstaðan var afgerandi og kom nokkuð á óvart. Þrír af hverjum fjórum eru hlynntir því að leyfa líknandi dauða en aðeins um 7% eru því andvíg. Þegar aðeins er litið til þeirra sem eru hlynntir eða andvígir eru 91-92% hlynnt líknandi dauða en aðeins 8-9% andvíg. Það er afar merkileg niðurstaða en í könnunum erlendis hefur stuðningur við líknandi dauða hvergi mælst jafn mikill, að því er við best vitum.

Reykjavík 13. janúar 2016

Heimild:
Nánar:

Eldri kannanir:
Helstu niðurstöður í myndum: