Siðmennt http://sidmennt.is Félag siðrænna húmanista á Íslandi Sat, 18 Apr 2015 22:36:39 +0000 en-US hourly 1 Borgaraleg ferming 2015 í Reykjanesbæ – ræða http://sidmennt.is/2015/04/18/borgaraleg-ferming-2015-i-reykjanesbae-raeda/ http://sidmennt.is/2015/04/18/borgaraleg-ferming-2015-i-reykjanesbae-raeda/#comments Sat, 18 Apr 2015 21:55:12 +0000 http://sidmennt.is/?p=6195 Ræða sem Jónas Sigurðsson, tónlistarmaður, flutti við borgaralega fermingu í Reykjanesbæ 18. apríl 2015.

Jónas SigurðssonKæru fermingarbörn, foreldrar, forráðamenn og systkini, afar og ömmur, langömmur, langafar og aðrir gestir.

Takk fyrir að sýna mér þann heiður að fá að tala fyrir ykkur í dag.

Þið eruð svo falleg krakkar og flott.  Til hamingju með þennan merkilega áfanga.  Þetta er stór dagur í lífi ykkar allra.   Fermingardagurinn sjálfur.   Þetta er dagur sem þið eigið líklega eftir að muna alla ævina.  Það hljómar kannski ekki svo merkilega í dag en ég get sagt ykkur að þeir verða merkilegri og merkilegri með hverju árinu sem líður, þessi sérstöku dagar í lífi okkar.   Fermingin er einn af þessum stóru viðburðum sem maður bíður eftir árum saman.

Ég man hversu lengi ég beið eftir minni fermingu.  Ég man þegar ég var 10 ára og hugsaði,  “eftir 4 ár fermist ég”.  Það hefðu alveg eins getað verið tíu þúsund ár.  Ég man svo þegar það var bara eitt ár í ferminguna mína.  Það var alveg ótrúlega langur tími.  Þegar maður er 12-13 ára er eitt ár eins og heil eilífð.  Þegar maður er 40 ára er finnst manni eitt ár svona eins og jólafríið er hjá ykkur krökkunum.   Mér skilst að þegar maður er orðinn svona 80 ára þá er eitt ár svona eins og einn þáttur af Modern Family.   

Eða kannski frekar eins og einn þáttur af Workaholics.

Svona virkar tíminn furðulega.    Tíminn er allt öðruvísi þegar maður lítur til baka heldur en þegar maður horfir áfram.

Þegar ég var beðinn um að tala hérna fyrir ykkur hugsaði ég lengi um hvað ég vildi segja.  Fyrst hugsaði ég: “Vá, en fallegur heiður”.  Svo hugsaði ég “Hvað á ég að segja?  Hvað vildi ég, Jónas 40 ára að einhver hefði sagt við mig Jónas 13 ára?”.    Það var erfitt að svara því.  Sérstaklega af því að Jónas 13 ára var alltaf með svo mikið ADHD í gangi.  Ég held að ég hefði bara setið þarna með ykkur krakkar og hugsað stanslaust:  “Hvenær er þetta búið?  Er þessi ræða ekki að verða búin?  Ég get ekki beðið eftir partýinu og gjöfunum!!!,  Hvað ætli ég fái mikinn pening?   Hvað ætti ég að skrifa í ritvinnsluforritið á nýju tölvunni sem ég fæ í fermingargjöf?”  ..Þúsund hugsanir hefðu streymt svona í gegnum hugann á þessum fallega degi.

Því það er nefnilega flókið að vera ungur.  Maður hugsar svo hratt.  Allt gerist svo hratt.  Það getur verið erfitt stundum.   Það er auðvelt að gera mistök.  Að særa einhvern óvart.  Segja óvart eitthvað við vini sína sem maður meinti ekki.  Svo eru það samskiptin við mömmu og pabba sem geta verið flókin á þessum tíma að ekki sé nú minnst á hin gríðarflóknu ástamál sem fara yfirleitt að valda miklu hugarangri á þessum árum..

En í alvöru,  ég hugsaði að það sem ég hefði mest þurft að heyra einhvern 40 ára kall segja væri  “Slakaðu á vinur minn.  Þú ert frábær nákvæmlega eins og þú ert.  Þú þart ekkert að gera neitt, verða neitt, sanna neitt, breytast neitt.  Þú þarft bara að vera áfram þú sjálfur og að læra að elska það að vera ÞÚ en ekki einhver annar.  Það er það eina sem þú þarft að gera”  Þess vegna segi ég við ykkur fermingarbörn:  “Þið eruð algjörlega frábær nákvæmlega svona eins og þið eruð núna!”.   Og ég get sagt ykkur meira:  ég veit að ég hef rétt fyrir mér.

Það hefur líklega sjaldan verið eins flókið að vera unglingur eins og núna.    Heimurinn hefur breyst svo mikið.  Þið hafið líklega mesta frelsi sem nokkur kynslóð ungs fólks hefur haft á Íslandi.  Þið hafið aðgang að ótrúlegustu upplýsingum.  Bæði að öllu því fallega þarna úti sem fólk er að gera og einnig því ljóta.   Í þessu felast mikil tækifæri en um leið miklar áskoranir.

Það er athyglisvert að ungt fólk er talið vera afar mikilvægur markhópur fyrir auglýsingar.   Auglýsingar eru sérstaklega hannaðar til að senda skilaboð til ungs fólks með földum skilaboðum að eitthvað sé AÐ sem þurfi að laga með því að kaupa ákveðna vöru.   Til dæmis  “Vertu frjáls,  drekktu kók”.   Eins og maður sé ekki frjáls.  Eins og maður verði frjáls bara af því að drekka gosdrykk.    “Vertu ungur,  njóttu lífsins .. með KREDITKORTI!”      “VERTU SVONA”.   “VERTU HINSVEGIN”.   “Njóttu þess að vera ungur!”   “Breyttu heiminum!”   “Lifðu til FULLS  –  En helst í skóm frá okkur!!!”

Það er oft sagt við unglinga að þau séu að upplifa bestu ár ævi sinnar!  Er það ekki pínu sorgleg skilaboð frá fullorðnum ef við pælum í því?  En allavega,  maður heyrir þessu kastað fram:  “Unga fólk … þið eruð að upplifa bestu ár ævinnar!  Passið að njóta þeirra í botn og ekki gleyma að drekka kók!”

Ég held aftur á móti að mörgum krökkum líði hreint ekki þannig.  Það er stressandi að vera í skólanum.   Það er stress að líta nógu vel út.   Að láta ekki taka af sér einhverja ömurlega mynd sem færi beint á netið.   Þegar ég var í grunnskóla tók það circa 3 vikur að framkalla mynd!  Sem sagt, einhver tók mynd af manni í partý og síðan þurfti að senda filmuna í bæinn í framköllun og bíða eftir að eintakið kæmi aftur með rútunni 3 vikum seinna.  Og ef maður var ekki ánægður með hárgreiðsluna á myndinni gat maður látið myndina hverfa með einhverjum klækjum.  Nú getur ömurleg mynd af manni verið kominn í allar tölvur í heiminum … eða jörðinni allavega .. á millisekúndum.    Já,  millisekúndum.    Og það er engin leið að láta hana hverfa aftur.

Eitt af því sem er flókið við að vera ungur eru kröfurnar sem maður upplifir.   Fullorðna fólkið segir gjarnan “Þú getir orðið allt sem þú vilt”.  “Fylgdu draumum þínum og þú getur orðið alveg frábær, náð miklum árangri og sannað þig”.

En maður veit bara oft ekkert svo vel hvað manni langar að gera eða verða.    Þess vegna segi ég aftur við ykkur:  “Slakið á.  Þið eruð algjörlega frábær nákvæmlega svona.  Bara hlusta á hjartað og vera maður sjálfur.  Í góðum fíling.”

Mig langar að segja ykkur líka að við, fullorðna fólkið, við þurfum verulega mikið á ykkur unga fólkinu að halda.   Málið er að ungt fólk eins og þið eruð algjörlega nauðsynleg til að koma hreyfinga á hlutina.   Ungt fólk spyr nefnilega spurninga eins og “AF HVERJU?”    Fullorðna fólkið svarar þá gjarnan “ÞETTA ER BARA SVONA,  HÆTTU AÐ SPYRJA”   En ég segi .. aldrei hætta að spyrja.

Við þurfum að spyrja eins og börn:

- Af hverju eiga sumir ekki fyrir mat?

- Af hverju svelta sum börn?

- Af hverju eru sumir fullorðnir svona pirraðir og óþolinmóðir?

- Af hverju þurfa bankar að græða svona mikið?

- Þarf maður að vinna ef manni finnst það leiðinlegt?

- Af hverju þarf maður yfirhöfuð að gera eitthvað leiðinlegt?

Við megum aldrei hætta að setja spurningamerki við það sem innsæið segir okkur að sé ekki rétt.  Alveg sama hversu margir segja “Tja,  en þetta er bara svona!”

Ef ég ætti að gefa ykkur einhver ráð út í lífið þá myndi ég leggja til að þið reynduð að hafa í huga að það er:

Bannað að hugsa illa um sjálfan sig.

Bannað að horfa í spegil og hugsa “ekki nógu gott”.

Bannað að bera sig saman við aðra.

Helst að vera í góðum fíling og hlusta á það hvernig manni líður.

Aldrei láta neinn tala sig út í að gera eitthvað sem manni líður ekki vel með.

OG að lokum að koma fram við alla aðra eins og þú vilt að aðrir komi fram við þig.

Sem sagt umgangast aðra eftir þessum sömu reglum og þið umgangist ykkur sjálf.

Ég var staddur í skóla úti á landi fyrir nokkrum árum og var að dunda við að skoða myndirnar sem krakkarnir höfðu teiknað og kennararnir höfðu síðan hengt upp á vegg.   Þar höfðu krakkarnir greinilega verið að teikna upp sína framtíðardrauma.   Eitt barnið hafði teiknað mynd af sér skælbrosandi með hóp af furðudýrum í kringum sig.   Á myndinni stóð skrifað með fallegri barnaskrift  “Ég óska að ég muni eiga þúsund apa í framtíðinni”.   Þetta þótti mér vera mér vera ótrúlega falleg framtíðarsýn.   Það er enginn draumur of stór eða skrýtinn.  Eða einfaldur.   Af hverju ekki að eiga þúsund apa?   Er það ekki bara mesta snilld í heiminum?

Og hverju þarf maður alltaf að verða eitthvað?   Af hverju má maður ekki bara vera í friði? Bara vera, í góðum fíling með vinum sínum og fjölskyldu.   Þurfa allir að “sigra heiminn”?

Málið er nefnilega að þegar þú SIGRAR heiminn,  þá þarf einhver að TAPA.

Þegar þú hinsvegar verður besta útgáfan af sjálfum þér og lifir í friði við guð og menn þá tapar enginn.  Svo getur maður nefnilega sett sér markmið og notið þess að ná markmiðum sínum.  En það er þá ekki til að sanna fyrir heiminum að maður sé einhvers virði.  Heldur einfaldlega til að njóta lífsins og hafa gaman af þessum tíma sem okkur er úthlutað í þessum stórmerkilega og skrýtna heimi umkringd frábæru fólki eins og ykkur.  Og það merkilega er að þannig breytum við heiminum líka.

Þó það hljómi ótrúlega fyrir ykkur krakkar þá get ég lofað ykkur því að þið verðið fertug árið 2041.

Allt umhverfið í kringum ykkur á eftir að breytast á svo ótrúlegum hraða næstu árin, miklu meira en þið getið ímyndað ykkur en það merkilega er að á sama tíma þá eru aðrir hlutir sem munu ekki breytast neitt.  Árið 2041 á ykkur ennþá eftir að líða eins og þið séuð ekki mikið eldri en í dag.  Vonandi eigið þið eftir að halda vinskap við hvort annað og hittast á svona fermingar-reunion.  Þá eigið þið eftir að hlæja að því hvernig allir gömlu félagarnir eru alveg eins inni við beinið þó þeir séu breyttir í útliti.  Hvernig allir eru innst inni ennþá sömu týpurnar og þeir voru í grunnskólanum.   Vonandi á ykkur eftir að þykja vænt um hvort annað.  Og mikið væri gaman ef eitthvert ykkar myndi mæta með þúsund apa til veislunnar.

Til hamingju með daginn.

Jónas Sigurðsson

]]>
http://sidmennt.is/2015/04/18/borgaraleg-ferming-2015-i-reykjanesbae-raeda/feed/ 0
Borgaraleg ferming 2015 í Reykjavík – ræða http://sidmennt.is/2015/04/13/borgaraleg-ferming-2015-i-reykjavik-raeda/ http://sidmennt.is/2015/04/13/borgaraleg-ferming-2015-i-reykjavik-raeda/#comments Mon, 13 Apr 2015 11:38:06 +0000 http://sidmennt.is/?p=6182 Ræða sem Sævar Helgi Bragason, formaður Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness og B.Sc. í jarðfræði frá Háskóla Íslands, flutti við borgaralega fermingu sem fór fram í Háskólabíói  12. apríl 2015.

Heil og sæl öllsömul!

Sævar Helgi BragasonTil hamingju með daginn!

Það er mér sönn ánægja að vera treyst til að ávarpa ykkur í dag.

Um hvað talar maður eiginlega á svona degi og fyrir framan svona glæsilegan hóp?

Mig langar mest af öllu til að segja ykkur frá magnaðasta stað sem ég veit um, alheiminum, en þá getur verið erfitt að stoppa mig og við gætum verið hér þangað til í næstu viku — sem byrjar reyndar bara á morgun. Það er víst ekki nægur tími til þess.

Talandi um tíma. Kannski ætti ég að segja ykkur frá því af hverju tíminn líður hægar nálægt svartholum og af hverju þið yrðuð eins og spaghettí ef þið félluð ofan í svarthol? Kannski ætti ég að segja ykkur frá stað þar sem sólin skín aldrei? Nei, það má alveg misskilja hvar sá staður er. Sá staður sem ég er með í huga er annars á tunglinu.

Ef til vill datt einhverjum í hug staður á líkama okkar. Já, líkaminn. Kannski ætti ég að segja frá fallegustu staðreynd sem ég veit um: Þá staðreynd að öll frumefnin í líkömum okkar — járnið í blóðinu, kolefnið í vöðvunum og kalsíumið í beinunum —  urðu til þegar stærstu stjörnurnar í alheiminum sprungu og dreifðu innyflum sínum um geiminn, svo að nýjar stjörnur, eins og sólin okkar og Jörðin og lífið, gátu fæðst úr öskustónni. Þið eruð bókstaflega stjörnuryk! Eiginlega mætti segja að þið séuð ruslið í alheiminum. Og ég meina það alls ekki á neikvæðan hátt. Við öll, lífið á Jörðinni, erum nefnilega ótrúlega merkilegt rusl: Gáfaðar leifar sprunginna stjarna sem velta eigin uppruna og örlögum fyrir sér! Finnst ykkur það ekki merkilegt?

Að sjálfsögðu kom upp í hugann að tala um hluti eins og mannréttindi, mikilvægi þess að geta sett sig í spor annarra og sýna samkennd, sýna öðru fólki virðingu og kærleika, eitthvað sem aldrei nóg er af, eða þá staðreynd að þið eruð öll svo til fullkomin frá náttúrunnar hendi og að þið ættuð aldrei nokkurn tímann að hafa áhyggjur af því hvað öðrum finnst um ykkur eða hvernig þið lítið út. Þið eruð nefnilega frábær eins og þið eruð, stútfull af hæfileikum sem þið eigið að rækta og nýta, ykkur sjálfum til góða en þó aðallega samfélaginu og plánetunni okkar til góða.

Ég vil nefnilega að þið breytið heiminum. Þið og börnin ykkar í framtíðinni þurfið að breyta heiminum til hins betra. Engin pressa samt.

Hvernig getum við breytt heiminum?

Við getum til dæmis byrjað á okkur sjálfum.

Ég trúi því að við viljum öll vera besta útgáfan af sjálfum okkur.

Eins og áður sagði erum við öll stútfull af hæfileikum en allir þurfa að hafa fyrir því að rækta þá og nýta. Meira að segja Taylor Swift, Lionel Messi og Beyoncé og allar hinar gervistjörnurnar (alvöru stjörnur eru sólir, þið vitið), þurftu að leggja mikið á sig til að komast þangað sem þau eru í dag. Það eru bara örfáir sem fæðast snillingar en snillingar þurfa líka að hafa fyrir hlutunum.

Í dag ertu afrakstur þeirra ákvarðana sem þú tókst dagana á undan, svo ég vitni til orða kanadíska geimfarans Chris Hadfield. Allt sem þú gerir hefur áhrif á þig: Hvaða mat þú lætur ofan í þig, hvaða bækur þú lest, hvaða kvikmyndir þú horfir á, hvað þú gerir við frítímann. Lærðirðu eitthvað nýtt? Ef þú tekur ákvörðun um að breyta einhverju í lífi þínu er magnað að sjá hversu hraðar breytingarnar verða og hversu áhrifaríkar þær eru. Lífið sjálft grípur auðvitað inn í. Þú upplifir vonbrigði og vandamál, bæði stór og lítil, og gerir það besta og lærdómsríkasta sem allir gera mörgum sinnum í lífinu en eiga erfitt með að viðurkenna, mistök. Já, mistök eru besta leiðin til að læra eitthvað nýtt og gera okkur að bestu útgáfunni af sjálfum okkur. Lykilatriðið er að sætta sig við vonbrigði og mistök, þótt það sé stundum mjög erfitt.

Vertu manneskjan sem þig langar til að vera. Vertu besta útgáfan af sjálfum eða sjálfri þér.

En hvernig fer maður að því?

Auðvitað er engin ein aðferð best en í mínum huga er best að láta hjartað ráða för og láta gott af sér leiða. Hjartað er býsna góður áttaviti. Öll eigum við okkur nefnilega stóra drauma og frá hjartanu fáum við ástríðuna sem við þurfum til að láta þá rætast. Og það er fólk með stóra drauma sem breytir heiminum. Það er fólkið sem sendi okkur til tunglsins og fólkið sem tryggði okkur þá velsæld sem við búum við í dag.

Í fyrra átti ég mér þann stóra draum að gera öllum grunnskólanemendum og kennurum á Íslandi kleift að sjá sólmyrkvann. Af hverju? Fyrri ástæðan var einfaldlega sú að sem flestir fengju að sjá magnað, ógleymanlegt, furðulegt og vonandi áhrifaríkt sjónarspil. Hin ástæðan var sú, að reyna að efla áhuga ykkar á vísindum og náttúrunni. Hvers vegna? Vegna þess að áhuga á vísindum fylgja gjarnan tvö tól sem eru einstaklega dýrmæt í daglegu lífi: Forvitni og efi.

Í heilum ykkar er mikil auðlind. Þar eiga ótalmargar hugmyndir eftir kvikna. Ástríðan og forvitnin leiðir ykkur áfram og efinn hjálpar ykkur að sía slæmar hugmyndir frá góðum. Með stórum draumum og ástríðu, forvitni og efa, getur þú breytt heiminum.

Mig langar að segja ykkur draumi vísindamanns sem hét Carl Sagan.

Hátt yfir sólinni og plánetunum siglir ómannað geimskip burt frá heimaplánetunni sinni þessa stundina, með meiri hraða en nokkur annar manngerður hlutur, svo hratt að það kæmist héðan frá Reykjavík til Keflavíkur á rétt rúmum tveimur sekúndum. Snemma í febrúar árið 1990 bárust geimskipinu áríðandi skilaboð frá Jarðarbúum, sem vísindamaður að nafni Carl Sagan átti stóran þátt í að útbúa. Geimskipinu var skipað að snúa myndavélum sínum við og horfa í átt að sólinni og plánetunum sem nú voru í fjarska.

Hlýðið leit geimskipið til baka og tók þá þessa mynd sem sést hér fyrir aftan. Innan í hringnum er Jörðin úr álíka mikill fjarlægð og Plútó er frá sóinni. Þegar Carl Sagan sá þessa fremur óskýru mynd skrifaði hann texta sem mér finnst að ætti að vera skyldulesning i öllum skólum í heiminum, eða kannski frekar meitlaður í stein hjá Sameinuðu þjóðunum þar sem allir þjóðarleiðtogar sæju hann. Tilvitnun hefst:

Frá þessum fjarlæga sjónarhóli virðist Jörðin ekkert sérstaklega áhugaverð. En fyrir okkur horfir það öðruvísi við. Líttu aftur á þennan punkt. Þetta er hér. Þetta er heimilið okkar. Þarna erum við. Þarna hafa allir sem þú elskar, allir sem þú þekkir, allir sem þú hefur nokkurn tíma heyrt getið, hver einasta manneskja sem til hefur verið, lifað lífi sínu.

Hugsaðu þér blóðsúthellingarnar af völdum allra þessara hershöfðingja og keisara svo þeir gætu, í dýrðarljóma og sigurvímu, orðið tímabundnir valdsherrar á brotabroti af punkti. Hugsaðu þér alla þá endalausu grimmd sem íbúar eins hornsins á þessum punkti beita öðrum vart aðgreinanlegum íbúum einhvers annars horns, hve oft þeir misskilja hver aðra, hve áfjáðir þeir eru um að drepa hver aðra, hve ákaft hatur þeirra er.

Jörðin eini hnötturinn sem við vitum um hingað til að geymir líf. Við getum hvergi annars staðar farið, að minnsta kosti í náinni framtíð. Hvort sem okkur líkar betur eða verr er Jörðin, í augnablikinu, þar sem við stöndum og föllum.

Ef til vill sýnir ekkert betur heimsku hroka mannanna en þessi fjarlæga mynd af örlítilli veröld okkar. Fyrir mér undirstrikar hún ábyrgð okkar að hugsa betur hvort um annað og varðveita og vernda eina heimilið sem við þekkjum, föla bláa punktinn.

Tilvitnun lýkur. (Hér fyrir neðan má hlusta á Carl Sagan lesa upp þessa frábæru hugvekju – innskot ritstjóra vefs Siðmenntar)

Hugsið jafn vel um Móður Jörð eins og þið hugsið um ykkar eigið heimili á Móður Jörð. Munið, við höfum öll áhrif og getum breytt heiminum með því að byrja á okkur sjálfum. Margt smátt gerir eitt stórt. Ef við göngum undan með góðu fordæmi verða brátt flestir, ef ekki allir, með okkur í liði.

Ekki láta neinn draga úr ykkur neistann. Verið besta útgáfan af sjálfum ykkur. Þið eruð öll uppfull af hæfileikum. Nýtið þá og látið drauma ykkar rætast!

Takk fyrir mig, eigið stórkostlegan dag og vegni ykkur vel í næstu hringferðum ykkar um sólina!

Sævar Helgi Bragason
Formaður Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness

]]>
http://sidmennt.is/2015/04/13/borgaraleg-ferming-2015-i-reykjavik-raeda/feed/ 0
Siðmennt styður afnám laga um guðlast http://sidmennt.is/2015/03/10/sidmennt-stydur-afnam-laga-um-gudlast/ http://sidmennt.is/2015/03/10/sidmennt-stydur-afnam-laga-um-gudlast/#comments Tue, 10 Mar 2015 16:28:49 +0000 http://sidmennt.is/?p=6131 Siðmennt styður frumvarp til laga um breytingu á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940,
með síðari breytingum (guðlast).

Félagið sendi Alþingi eftirfarandi umsögn þann 19. febrúar 2015

___

Siðmennt styður framlagt frumvarp til laga um almenn hegningarlög (guðlast).

Í bréfi sem Siðmennt sendi þingmönnum 16. október 2014 segir meðal annars orðrétt:

“9. Lagt er til að 125 gr. í lögum nr. 19/1940 verði afnumin en sú grein fjallar um guðlast

Lögin eru óþörf og óviðeigandi. Þau hefta tjáningar- og skoðunarfrelsi fólks. Í könnun sem Pew Research Centre gerði árið 2012 kemur fram að lög gegn guðlasti eru í tæpum fjórðungi ríkja heims og sérstök lög sem banna fólki að skipta um trú (apostasy) eru í 11% ríkja.

Mannréttindastofnun Sameinuðu þjóðanna gaf út árið 2012 „Rabat aðgerðaráætlunina“ (Rabat plan of Action) um bann við hatursorðræðu á grundvelli þjóðernis, kynþátta eða trúarlegs haturs sem hvetur til mismununar, óvildar eða ofbeldis. Þar er hvatt til þess að lög eða lagaákvæði um guðlast verði afnumin.

Oft eru ríki þar sem skortur er á lýðræði og frelsi gagnrýnd fyrir að refsa fólki fyrir guðlast og þá jafnvel með dauðadómi. Þegar þessi ríki eru gagnrýnd benda talsmenn þeirra oft, réttilega, á að sambærileg lög séu einnig í gildi í „vestrænum“ lýðræðisríkjum. Því eru það mikilvægt skilaboð til umheimsins að afnema lög um guðlast á Íslandi. Ríki sem beita slíkum lögum með alvarlegum afleiðingum eiga ekki að geta bent til að mynda á Ísland og sagt að svona sé þetta nú líka þar.”

Afnám 125. greinar laga nr. 19/1940 er því í fullu samræmi við stefnu Siðmenntar í trúfrelsismálum.

___

]]>
http://sidmennt.is/2015/03/10/sidmennt-stydur-afnam-laga-um-gudlast/feed/ 0
Námskeiði í Borgaralegri fermingu frestað í dag vegna veðurs http://sidmennt.is/2015/03/10/namskeidi-i-borgaralegri-fermingu-frestad-i-dag-vegna-vedurs/ http://sidmennt.is/2015/03/10/namskeidi-i-borgaralegri-fermingu-frestad-i-dag-vegna-vedurs/#comments Tue, 10 Mar 2015 15:26:46 +0000 http://sidmennt.is/?p=6128 Vegna aftakaverðurs á höfuðborgarsvæðinu í dag þriðjudag hefur námskeiði Siðmenntar, sem vera átti kl 16:30 í Kvennó, verið frestað.

]]>
http://sidmennt.is/2015/03/10/namskeidi-i-borgaralegri-fermingu-frestad-i-dag-vegna-vedurs/feed/ 0
Stjórnarskipti í Siðmennt – spennandi dagskrá framundan http://sidmennt.is/2015/03/10/stjornarskipti-i-sidmennt-spennandi-dagskra-framundan/ http://sidmennt.is/2015/03/10/stjornarskipti-i-sidmennt-spennandi-dagskra-framundan/#comments Tue, 10 Mar 2015 10:22:29 +0000 http://sidmennt.is/?p=6110 Á nýliðnum aðalfundi var Jóhann Björnsson, heimspekingur og kennari, kosinn nýr formaður. Tekur Jóhann við formennsku af Hope Knútsson sem gegnt hefur embættinu undanfarin 19 ár.

Fyrsti stjórnarfundur eftir aðalfund var haldinn í gær þar sem ný stjórn skipti með sér verkum.

Stjórn Siðmenntar 2015:

Jóhann Björnsson – Formaður
Sigurður Hólm Gunnarsson – Varaformaður
Steinar Harðarson – Gjaldkeri
Steinunn Rögnvaldsdóttir – Ritari
Hope Knútsson – Stjórnarmaður

Varamenn í stjórn eru:

Auður Sturludóttir
Bjarni Jónsson
Guðbjörg Kristín Eiríksdóttir
Hrafnkell Tjörvi Stefánsson
Inga Auðbjörg
Kristinn Theodórsson
Þorsteinn Örn Kolbeinsson

Fjölbreytt dagskrá framundan

Siðmennt – félag siðrænna húmanista er 25 ára á þessu ári og að því tilefni mun félagið halda áfram að bjóða upp á ýmsar uppákomur og málþing. Í október í fyrra var haldið vel sótt námskeið: „Lifað án trúarbragða“. Í nóvember sama ár stóð félagið fyrir málþingi um Íslam sem var afar vel sótt og vakti mikla umræðu. Í janúar á þessu ári stóð Siðmennt síðan fyrir málþingi um líknardauða. Húsfyllir var á því málþingi og óhætt að segja að umfjöllun um málefnið hafi verið mikil í samfélaginu í kjölfarið.

Framundan eru ýmsir áhugaverðir viðburðir sem verða kynntir betur þegar nær dregur. Má þar nefna málþing með heimspekingnum Stephen Law í byrjun september og Menningarhátíð Siðmenntar sem haldin verður í október.

Ítarlegri dagskrá verður kynnt á vefsíðu Siðmenntar og á Facebook þegar nær dregur.

]]>
http://sidmennt.is/2015/03/10/stjornarskipti-i-sidmennt-spennandi-dagskra-framundan/feed/ 0
Ávarp flutt í Laugarneskirkju 1. mars 2015 á samkomu um trúfrelsi http://sidmennt.is/2015/03/03/avarp-flutt-i-laugarneskirkju-1-mars-2015-a-samkomu-um-trufrelsi/ http://sidmennt.is/2015/03/03/avarp-flutt-i-laugarneskirkju-1-mars-2015-a-samkomu-um-trufrelsi/#comments Tue, 03 Mar 2015 17:06:55 +0000 http://sidmennt.is/?p=6093 Jóhann Björnsson, nýkjörinn formaður Siðmenntar, flutti eftirfarandi ávarp í Laugarneskirkju 1. mars 2015 á samkomu um trúfrelsi.

Í Oxford yfirlýsingunni um hugsana og tjáningarfrelsi sem alþjóðasamtök húmanista (International Humanist and Ethical Union) gaf út eftir heimsþingið 2014 segir meðal annars:

“Rétturinn til hugsana- og trúfrelsis er einn og sami réttur fyrir alla. Mannréttindi, eins og þau eru orðuð í 18. grein Mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna og nánari útfærslum hennar, eru og ættu að vera ein og óskipt réttindi sem vernda mannlega reisn og frelsi allra manna með því að standa vörð um rétt þeirra til að hafa persónulega sannfæringu af hvaða tagi sem er, trúarlega eða ekki trúarlega.

Aldrei skyldi þvinga nokkurn mann nokkurs staðar til að láta af eða taka upp trú. Hugsanafrelsi felur í sér réttinn til að þróa með okkur, gaumgæfa, búa yfir og tjá sannfæringu okkar án þvingana, og geta látið í ljós skoðanir okkar og sýn á veröldina hvort sem hún er trúarleg eða ekki, án þess að óttast þvinganir. Það felur í sér rétt til að skipta um skoðun eða hafna trú sem við höfðum áður eða sem okkur var áður innrætt. Þrýstingur um að lúta hugmyndafræði ríkis eða kennisetningum trúarbragða er ofríki.

Trúfrelsi er fortakslaust en athafnafrelsi vegna trúar er það ekki. Sem ábyrgðarfullir samfélagsþegnar viðurkennum við að stundum verður að takmarka athafnafrelsi okkar svo fremi sem – og aðeins í þeim tilvikum – að gjörðir okkar skerða réttindi og frelsi annarra.”

Hér er minnt á að frelsi eins nær ekki lengra en að nefi næsta manns. Trúfrelsið getur ekki gengið svo langt að það brjóti á næsta manni. Því miður er of oft gengið á rétt annarra í nafni trúfrelsis og það var breski heimspekingurinn John Stuart Mill sem vakti athygli á því í bók sem hann gaf út árið 1859 og heitir á íslensku Frelsið. Þar segir hann meðal annars:

“Sú skoðun, að hver maður beri ábyrgð á trúrækni allra annarra, hefur valdið öllum trúarofsóknum sögunnar …. hugarfar trúarofsóknarmannsins, … líður engum öðrum að gera það, sem trú þeirra leyfir, vegna þess að trú hans sjálfs leyfir það ekki. Þetta er sú trú, að guð hafi ekki einungis andstyggð á athæfi vantrúarmannsins, heldur telji okkur samsek, ef við látum slíkan mann óáreittan.”

Hér minnir Mill okkur á vanda sem trúfrelsinu fylgir. Því miður er það of oft svo að fólk unir öðrum ekki að hafa aðra lífsskoðun, trú eða sannfæringu en það sjálft og beytir hinum ýmsu brögðum til þess að planta eigin sannfæringu í huga annarra.

Þessi afstaða er mikið böl eins og Mill benti réttilega á. Því miður á hún rætur sínar að rekja í trúarkenningum sem í eigin sjálfumgleði krefjast þess að öðrum sé boðað eitthvert erindi sem stundum er kallað fagnaðarerindi. Slík erindi geta hæglega birst sem hinn versti ófögnuður í áköfum trúarhita.

Það var vegna þessa, það var vegna þess að fólk hefur rétt á því að vera látið í friði með lífsskoðanir sínar og trúarsannfæringu sem fulltrúi Siðmenntar í nefnd sem starfaði á vegum Menntamálaráðuneytisins, gerði þá kröfu að í leiðbeinandi verklagsreglum ráðuneytisins um samskipti trúar- og lífsskoðanafélaga og skóla yrði kveðið á um þetta:

“Eftir fremsta megni skal forðast að nemendur og foreldrar séu settir í þá aðstöðu að þurfa að gera grein fyrir lífsskoðunum sínum”.

Þetta ætti ekki eingöngu að eiga við í skólum heldur er þetta regla sem ætti að eiga við í samfélaginu öllu. Fólk á að hafa skílausan rétt á því að vera frjálst frá ágangi trúar- og lífsskoðana.

Þetta þýðir að félög, trúarleg eða ekki trúarleg myndu taka stórt framfaraskref ef þau létu af þeim hvimleiða sið að reyna sí og æ að koma eigin sannfæringu að í huga annars fólks.
Í stað þess að fara út um heimsbyggðina til þess að gera alla menn að lærisveinum með góðu eða illu ættum við að fara út um heimsbyggðina og njóta þess að upplifa margbreytileikann og leyfa fólki að hafa sína sannfæringu og trú í friði og ekki hnýsast í hugarheim þess sem vill halda honum út af fyrir sig.

Jóhann Björnsson

]]>
http://sidmennt.is/2015/03/03/avarp-flutt-i-laugarneskirkju-1-mars-2015-a-samkomu-um-trufrelsi/feed/ 0
Skýrsla formanns 26. febrúar 2015 http://sidmennt.is/2015/03/02/skyrsla-formanns-26-februar-2015/ http://sidmennt.is/2015/03/02/skyrsla-formanns-26-februar-2015/#comments Mon, 02 Mar 2015 15:13:50 +0000 http://sidmennt.is/?p=6078

Aðalfundur_Hope_ræða

Til hamingju með 25 ára afmæli Siðmenntar! Siðmennt vex mjög hratt! Vorið 2013 áður en við fengum skráningu sem lífsskoðunarfélag voru 300 manns í félaginu og nú eru félagarnir orðnir 1200! Þetta er mikill vöxtur og sýnir að í samfélaginu hefur verið þörf á fleiri valkostum en eingöngu trúfélögum. Fólk leitar til Siðmenntar fyrst og fremst til að nýta sér þjónustu okkar. Árið 2014 var Siðmennt með 114 veraldlegar athafnir (nafngjöf, giftingar og útför) sem var 44% aukning frá árinu á undan. Einnig var 40% fjölgun í borgaralegri fermingu. Fermingarathafnir okkar í fyrra voru 9 talsins, þar af tvær á nýjum stöðum, á Flúðum og á Höfn. Nú í vor eru bæði námskeið og athöfn á nýjum stað: Reykjanesbæ. Annað ár í röð eru fermingarbörnin rúmlega 300.

Við erum með miklu fleiri verkefni en nokkru sinni fyrr, erum orðin miklu þekktari, erum að gera mjög marga góða hluti en við erum enn umdeild sem er í sjálfu sér bara fínt! Sem málsvari manngildisstefnu og frjálsrar hugsunar reynum við að nýta sem flest tækifæri til að vekja athygli á trúfrelsismálum, siðferðismálum og mannréttindum.

 

Dæmi um verkefni árið 2014:

 • Haldið var þriggja kvölda námskeið um Húmanisma eða Líf án trúarbragða sem Jóhann Björnsson stýrði.
 • Haldið var vel sótt og umdeilt málþing um hvort Íslendingar þurfi að óttast íslam. Mikið var fjallað um málþingið í fjölmiðlum.
 • Haldið var málþing um líknardauða sem 130 manns sóttu. Þar voru fluttar mjög persónulegar frásagnir aðstandenda og hugmyndir heimspekinnar voru reifaðar. Við opnuðum umræðu í íslensku Þjóðfélagi – og það var jú markmiðið með málþinginu. Þetta var ef til vill einn mikilvægasti opni fundur sem Siðmennt hefur haldið í 25 ára sögu okkar. Málþingið vakti mikla athygli og fjölluðu flestir fjölmiðlar á landinu um þetta mál í heila viku.
 • Við tókum þátt í að endurvekja umræðukvöldin sem kölluð eru “Efast á kránni” – 40 manns sóttu fund þar sem fjallað var um muninn á milli Vantrúar og Siðmenntar
 • Stjórn Siðmenntar sendi þingmönnum erindi sem hét: Tíu atriði til að tryggja trúfrelsi og jafnrétti
 • Stofnaður var Siðmenntarspjallhópur á Facebook einungis fyrir félaga og þar er mjög lífleg umræða og margir félagar mjög virkir
 • Siðmennt gefur út fréttabréf oftar en áður.
 • Nú gefum við peninga til góðgerðamála. Gerðum það tvisvar í fyrra, til Kvennaathvarfsins strax eftir að við fengum fyrstu úthlutun sóknargjalda, og um haustið gáfum við til SOS barnaþorpa. Héðan í frá munum við veita samtökum og einstaklingum sem vinna að góðgerðarmálum árlegan styrk, um leið og við veitum húmanistaviðurkenningu Siðmenntar.
 • Við skipuðum formlegan fjölmiðlafulltrúa, Sigurð Hólm Gunnarsson.
 • Siðmennt fékk boð um að flytja fjóra pistla í vikulegum útvarpsþætti Rásar 1 „Trú, menning og samfélag“. Jóhann Björnsson samdi og flutti pistlana. Þema fyrsta þáttar var líf án guðs og ódauðleiki sálarinnar, annar þáttur var um gagnrýna hugsun, þriðji um siðferði og fjórði um tilgang lífsins og hamingjuna. Þetta var afskaplega mikilvægt fyrir félagið að fá tækifæri til að kynna hugmyndafræði húmanismans með þessum hætti.
 • Við fengum leyfi frá Breska Húmanistafélaginu til að þýða, framleiða og dreifa fjórum vinsælum myndböndum um húmanisma sem BHA gaf út með Stephen Fry sem kynni. Reynir Harðarson þýddi en Felix Bergsson og Sigrún Valbergsdóttir lásu inn á myndböndin.
 • Annað ári í röð var Siðmennt beðið um að flytja jólahugvekju á útvarpstöðinni X-inu kl. 18:00 á aðfangadagskvöld. Jóhann Björnsson flutti ávarpið.
 • Eins og undanfarin ár héldum við hugvekju fyrir Alþingismenn sem valkost við messu í Dómkirkju fyrir setningu Þingsins. 10 þingmenn mættu siðast og flutti Huginn Freyr Þorsteinsson heimspekingur ræðu sem heitir „Verðum að gera betur – Upplýsingabyltingin og nútíminn.“
 • Svanur Sigurbjörnsson hélt erindi fyrir hönd Siðmenntar um vísindi og trú á málþingi með sama heiti á vegum Samráðsvettvangs trúfélaga.
 • Siðmennt gerðist stofnaðili að Alþjóðlegum samtökum gegn lögum um guðlast.

 Auk þess tók Siðmennt virkari þátt í alþjóðlegu samstarfi en nokkur sinni fyrr.

 • Í águst sendum við til dæmis fjóra fulltrúa á heimsþing húmanista á vegum International Humanist and Ethical Union í Oxford, Englandi. Þemað var hugsana- og tjáningarfrelsi. Við heimkomuna þýddum við „yfirlýsinguna um hugsana- og tjáningarfrelsi“ og dreifðum henni.
 • Í janúar sendi Siðmennt 5 fulltrúa úr stjórninni á fyrsta fund samtaka norrænna húmanista í Osló til að bera saman bækur okkar. Þar voru saman komnir fulltrúar úr 6 félögum sem í eru samtals 100.000 félagsmenn en Noregur hefur algera sérstöðu þar sem 84.000 eru í norsku samtökunum! Á fundinum var ákveðið að halda samstarfi norrænu félaganna áfram.

Örstutt um kynningarmál en við erum alltaf að kynna félagið og húmanisma fyrir öðrum hópum. Tvö dæmi:

 • Haldinn var mjög góður kynningarfundur um Siðmennt og borgaralega fermingu í Keflavik s.l. haust á vegum Málfundarfélagsins Faxa.
 • Félagið fékk beiðni frá tveimur hópum háskólastúdenta (heimspekinema og stjórnmálafræðinema) fyrir svo kallaða „Vísindaferð“ s.l. haust. Þessir tveir fundir heppnuðust mjög vel og átti sér stað góð umræða. Nemarnir voru yfir sig hrifnir og vilja fá okkur aftur í ár. Sigurður Hólm Gunnarsson, Bjarni Jónsson, Jóhann Björnsson og Steinunn Rögnvalds töluðu við nemana.

 

Það hefur verið árleg hefð hjá okkur síðan 2005 að veita Húmanistaviðurkenningu og á árinu 2014 heiðruðum við þrjár kvenkyns mannréttindalögfræðinga: þær Sigríði Rut Júlíusdóttur, Katrínu Oddsdóttur og Helgu Völu Helgadóttur. Fræðslu- og vísindaviðurkenningu Siðmenntar fékk Ævar Þór Benediktsson fyrir vísindabók og sjónvarpsþátt fyrir börn.

Nú er minn tími búinn sem formaður Siðmenntar. Ég hef verið í þessu hlutverki í 19 ár og hefur það verið stór hluti af minni sjálfsmynd á þessu tímabili og reyndar lengur en það. Siðmennt hefur verið partur af mér frá því að ég hóf undirbúning fyrir fyrstu borgaralegu fermingu á Íslandi árið 1988 eða fyrir 27 árum síðan. Mér finnst bara eðlilegt að yngri manneskja taki við formennskunni nú. Félagið er komið á nýtt vaxtarskeið. Siðmennt er svo heppið að vera með mjög hæft og einlægt fólk í stjórn félagsins.

Ég býð mig fram til að vera áfram í stjórn Siðmenntar og verð áfram framkvæmdastjóri borgaralegra ferminga. Ég er mjög þakklát fyrir að hafa haft tækifæri að vinna í nær þrjá áratugi með svo mörgum frábærum húmanistum. Þið hafið auðgað líf mitt. Ég held að Siðmennt hafi nú þegar haft mjög jákvæð áhrif á íslenskt samfélag og ég veit að Siðmennt mun hafa áhrif áfram. Ég hlakka til þess að halda áfram að taka þátt í að móta starf Siðmenntar.

Takk kærlega fyrir mig.

Hope Knútsson

]]>
http://sidmennt.is/2015/03/02/skyrsla-formanns-26-februar-2015/feed/ 0
Nýr formaður Siðmenntar – Hope Knútsson hættir Jóhann Björnsson tekur við! http://sidmennt.is/2015/02/27/nyr-formadur-sidmenntar-hope-knutsson-haettir-johann-bjornsson-tekur-vid/ http://sidmennt.is/2015/02/27/nyr-formadur-sidmenntar-hope-knutsson-haettir-johann-bjornsson-tekur-vid/#comments Fri, 27 Feb 2015 09:38:46 +0000 http://sidmennt.is/?p=6060 Aðalfundur_Hope_Jóhann2Á aðalfundi Siðmenntar, félags siðrænna húmanista á Íslandi sem haldinn var 26. febrúar, urðu formannaskipti í félaginu. Hope Knútsson, stofnandi félagsins og formaður til 19 ára, ákvað að gefa ekki kost á sér til áframhaldandi formennsku. Var Hope kærlega þakkað fyrir hennar framlag í þágu siðræns húmanisma en félagið heldur upp á 25 ára starfsafmæli félagsins á þessu ári. Á fundinum var einnig ákveðið að gera Hope Knútsson að heiðursfélaga í Siðmennt.

Jóhann Björnsson, heimspekingur og kennari, var kosinn nýr formaður. Jóhann hefur verið yfirmaður fermingarfræðslu borgaralegrar fermingar síðastliðin 17 ár. Hann hefur setið í stjórn Siðmenntar í á annan áratug og hefur víðtæka reynslu úr starfi siðrænna húmanista.

Við kjör til stjórnar Siðmenntar urðu þessir fyrir valinu:

Aðalstjórn Siðmenntar

Hope Knútsson
Jóhann Björnsson
Sigurður Hólm Gunnarsson
Steinar Harðarson
Steinunn Rögnvaldsdóttir – nýr frambjóðandi til aðalstjórnar

Varastjórn Siðmenntar

Auður Sturludóttir – nýr frambjóðandi til varastjórnar
Bjarni Jónsson
Guðbjörg Kristín Eiríksdóttir
Hrafnkell Tjörvi Stefánsson
Inga Auðbjörg Kristjánsdóttir – nýr frambjóðandi til varastjórnar
Kristinn Theodórsson
Þorsteinn Kolbeinsson

Aðalfundur_salurÍ aðalstjórn er Steinunn ný en hún sat í varastjórn á síðasta ári. Sitjandi meðlimir aðalstjórnar eru hoknir af reynslu af starfi Siðmenntar. Tveir nýir bætast við varastjórnina en það eru þær Auður og Inga Auðbjörg. Svavar Kjarrval sem setið hefur í varastjórn síðustu þrjú ár gaf ekki kost á sér til endurkjörs.

Félögum í Siðmennt hefur fjölgað mjög hratt. Í upphafi árs 2013 voru þeir 300 en ári síðar rúmlega 500. Um síðustu áramót voru félagarnir orðnir tæplega 1.200!

Nánari upplýsingar um Hope Knútsson
Aðalfundur_Hope_Bjarni_HeiðursverðlaunHope Knútsson stóð að fyrstu borgaralegu fermingarathöfninni á Íslandi árið 1989 sem varð upphafið að Siðmennt. Hope var einn helsti hvatamaður að því að hleypa félaginu af stokkunum árið 1990 eða fyrir 25 árum síðan.

Hope hefur alltaf unnið einstaklega óeigingjarnt starf fyrir Siðmennt og ávallt boðin og búin til þess að leggja á sig ómælda vinnu til að þjóna siðrænum húmanisma.

Hope Knútsson er með bachelors gráðu í sálfræði og heimspeki frá City University í New York auk masters gráðu í iðjuþjálfun frá Columbia University.

Að auki hefur Hope gefið mikið af sér til íslensks samfélags, frá því hún flutti til landsins árið 1974, en hún hefur staðið að og stofnað ótal frjáls félagasamtök og oftar en ekki setið í stjórnum þeirra og stundum sem formaður. Þau félög sem um ræðir eru m.a. Iðjuþjálfafélag Íslands en Hope stóð að stofnun námsbrautar í iðjuþjálfun hér á landi, Geðhjálp, Samtök heilbrigðisstétta, Kynfræðifélag Íslands, samtök enskumælandi útlendinga og Fjölmenningarráðs svo eitthvað sé nefnt.

]]>
http://sidmennt.is/2015/02/27/nyr-formadur-sidmenntar-hope-knutsson-haettir-johann-bjornsson-tekur-vid/feed/ 0
Aðalfundur Siðmenntar http://sidmennt.is/2015/02/26/6057/ http://sidmennt.is/2015/02/26/6057/#comments Thu, 26 Feb 2015 16:45:29 +0000 http://sidmennt.is/?p=6057 Logo_mediumVið minnum á aðalfund Siðmenntar sem verður haldinn í kvöld, 26. febrúar, á Grand Hotel Reykjavík við Sigtún. Við verðum í salnum Setrið, sem er á fyrstu hæð (gengið inn frá Sigtúni). Fundurinn hefst kl 20:00 og reiknað með honum ljúki 22:00. Auk hefðbundinna aðalfundarstarfa verður Saga Garðarsdóttir með uppistand og boðið upp á veitingar.

]]>
http://sidmennt.is/2015/02/26/6057/feed/ 0
Upptaka af málþingi um líknardauða http://sidmennt.is/2015/02/01/upptaka-af-malthingi-um-liknardauda/ http://sidmennt.is/2015/02/01/upptaka-af-malthingi-um-liknardauda/#comments Sun, 01 Feb 2015 07:40:16 +0000 http://sidmennt.is/?p=6032 Siðmennt hélt málþing um líknardauða fimmtudaginn 29. janúar 2015 á Hótel Sögu. Markmiðið var að fjalla um þetta viðkvæma málefni út frá sjónarhóli heimspekinnar og út frá upplifun aðstandenda. Yfirskrift málþingsins var: „Að deyja með reisn – líknardauði”.

Upptöku af málþinginu má skoða hér: 

Frummælendur:

Jóhann Björnsson – heimspekingur og stjórnarmaður í Siðmennt
Erindi: „Er einhver nokkurn tíma betur kominn liðinn en lífs? Um líf og dauða frá sjónarhóli heimspekinnar.“

Sylviane Pétursson Lecoultre – iðjuþjálfi
Erindi: Sylviane er ekkja manns sem var með ólæknandi krabbamein og valdi að deyja líknardauða í Sviss árið 2013. Sylviane fjallar um reynslu þeirra hjóna.

Ingrid Kuhlman – framkvæmdastjóri
Erindi: „Pabbi vildi fá að deyja“ – Faðir Ingridar, Ton Kuhlman sem var hollenskur ríkisborgari, var með þeim fyrstu til að fá ósk um líknardauða uppfyllta.

Fundastjórn:
Sigurður Hólm Gunnarsson – iðjuþjálfi og stjórnarmaður í Siðmennt.

____________________

Fjölmiðlaumfjöllun um líknardauða:

____________________

Upptaka

____________________

]]>
http://sidmennt.is/2015/02/01/upptaka-af-malthingi-um-liknardauda/feed/ 2