Jólahugvekja 2016 – Við eigum bara eitt líf

Hér má hlusta á og lesa jólahugvekju sem Jóhann Björnsson, formaður Siðmenntar, flutti á X-inu 9,77 á aðfangadag.

 

Ég var staddur í Noregi í ágúst árið 2011. Það er í sjálfu sér ekki í frásögu færandi, nema vegna þess að þetta var sama ár og voðaverkin voru framin í Útey og í Osló. Víða í borginni mátti sjá skemmdir eftir öflugar sprengingar sem höfðu haft það eina markmið að valda manntjóni. Norska þjóðin var í sárum og sorg eftir að fjöldi ungs fólks hafði fallið fyrir hendi byssumanns sem lét hatrið stýra gjörðum sínum.

Ég sat ráðstefnu þar sem þemað var húmanismi og friður. Fjöldi áhugaverðra fyrirlesara tók þátt en það var einn fyrirlesari sem vakti öðrum fremur sérstaka athygli mína. Þetta var fullorðinn maður að nafni Johan Galtung. Hann var þá 81 árs gamall, fæddur 1930. Johan þessi hefur á langri starfsævi sinni lagt mikið af mörkum til friðar- og sátta um allan heim, bæði með akademískum störfum sínum innan veggja háskóla og einnig á vettvangi deilna og stríðsátaka sem sáttasemjari á milli stríðandi fylkinga.

Eftir fyrirlesturinn keypti ég af honum bók sem er nokkuð athyglisverð. Það mætti ætla að maður sem starfað hefur lengst af á vegum háskóla og virtra alþjóðastofnana væri að selja lærðar og þykkar bækur og ritgerðir, en svo var ekki. Bókin sem ég keypti af honum kallast: Fljúgandi appelsína segir sögu sína. Hún er ekki þung fræðileg úttekt á friðamálum og sáttaumleitunum heldur dæmisaga handa börnum og öllum öðrum, eins og hann kemst að orði í undirtitli. Það er rétt að hafa í huga að dæmisögur og textar sem eiga erindi við börn eiga oftar en ekki einnig mikið erindi við fullorðna.

Aðalsöguhetjan í bókinni er appelsína sem ferðast víða og sér margt. Í henni er einnig sagt frá öðrum appelsínum sem hafa unun af því að gera fólk hamingjusamt með næringu sinni og bragði. Framtíðarsýn þeirra er þannig að þær telja lífi sínu borgið ef einhver vill snæða þær og jafnframt gróðursetja kjarnana þannig að fleiri appelsínur fái dafnað í framtíðinni.

Í þessari dæmisögu er appelsínan sem er í aðalhutverki  höfð fljúgandi til þess að hún geti farið víða og hratt yfir og veitt okkur lesendum góða yfirsýn yfir veruleikann sem mannfólkið býr við.

Appelsínan fljúgandi tók eftir því á ferð sinni að það getur verið erfitt að gera fólki til hæfis og það getur verið erfitt að ná sáttum ef ekki er nóg fyrir alla.

Hefur fólk ekkert betra að gera en að berjast um hluti þegar einstaklingarnir eru tveir en appelsínan sem þeir báðir vilja fá er bara ein? spurði appelsínan fljúgandi þegar hún varð vitni að hatrammri baráttu fólks um eina appelsínu.

Áfram hélt appelsínan ferðalagi sínu til þess að skoða hegðun mannfólksins. Á næsta viðkomustað sá appelsínan fund mikilvægra fulltrúar þjóða sem höfðu talið sér trú um að því meira sem þeir töluðu því betra. Víðar fór hún og sá hvernig lögfræðingarnir skylmuðust með lögunum til þess að finna sigurvegara og fjármálamennirnir létu peningana ráða úrslitum. Hagfræðingarnir sem appelsínan sá héldu í þá trú að enginn væri í raun vinalegur heldur töldu þeir að allar manneskjur væru þannig gerðar að þær hugsuðu bara um eigið skinn, og ef einhver vildi fá appelsínuna yrði öllum brögðum beitt til til að svo yrði. 

Þessi dæmisaga er lýsandi fyrir margt sem má verða vitni að á degi hverjum, margt sem mannkyn þarf að takast á við. Ber þar helst að nefna óvild og eigingirni, stríð og hatur, fátækt og fólk á flótta, græðgi og sóun. Við þetta má síðan bæta stærsta úrlausnarefni mannkyns um þessar mundir sem eru loftslags – og umhverfismál.

Appelsínan fljúgandi sem fyrr er greint frá furðaði sig á því hvernig mannfólkið leysti úr ágreiningsmálum sínum. Ekki þarf að leita langt til þess að sjá hversu óhæft mannfólkið er til að greiða úr ágreiningi. Stríðið í Sýrlandi sem nú hefur geysað í alltof mörg ár er gott dæmi. Ég held að það sé ómögulegt fyrir okkur íbúa Íslands að gera sér í hugarlund þær hörmungar sem þar eru lagðar á fólk. Þar hefur hatrið og miskunnarleysið fengið að ráða för með skelfilegum afleiðingum sem enginn veit hvernig muni fara. Hversvegna hefur enginn herforinginn, stjórnmálamaðurinn eða hermaðurinn staldrað við og spurt: Hvers vegna erum við að þessu? Fyrir hvað erum við að berjast?

Bara ef fleiri myndu gera sér grein fyrir því að við eigum bara eitt líf og það er dýrmætara en svo að við getum eytt því í stríðsrekstur. Hvers virði er að sigra stríð ef maður á svo eftir að deyja frá þessu öllu saman í fyllingu tímans?

Í bók Johans Galtungs segir einnig frá því þegar appelsínan varð vitni að þeirri ranghugmynd fjölmargra stjórnmálamanna að því meira sem þeir töluðu því mikilvægari töldu þeir verk sín. Samræðan er vissulega af hinu góða, með samræðunni má komast að því sem er satt og rétt, gott og fagurt. Samræðan leiðir til sannleikans og þagnarinnar var eitt sinn sagt. En samræða er ekki það sama og að tala. Við þekkjum eflaust öll dæmi af málglöðum stjórnmálamönnum sem

tala bara til þess að hafa orðið og tala bara til þess að önnur sjónarmið komist ekki að eða tala bara til þess að sigra aðra. Það eru þesskonar stjórnmálamenn sem Johan Galtung var að vara við. Slíkum stjórnmálamönnum verður lítið úr verki, hver sem viðfangsefnin eru, hvort sem þarf að stöðva stríð, koma í veg fyrir hungur eða bæta loftgæðin svo fáein brýn verkefni séu nefnd.

Síðast liðið sumar var ég svo lánsamur að fá tækifæri til að ferðast um Suður Afríku. Hluta ferðarinnar fór ég á reiðhjóli og var því mun nær íbúunum heldur en ef ég hefði bara ferðast í bíl. Það var vissulega heillandi á margan hátt að ferðast með þessum hætti en á sama tíma fann ég fyrir ákveðinni ónotakennd. Það sem olli þessum ónotum var ekki bara að verða vitni að þeirri gríðarlegu fátækt sem á sér stað í fátækrahverfunum, þar sem fólk hefur komið sér upp skúrum úr bárujárni, án viðunandi hreinlætisaðstöðu, kyndingu, rafmagni og vatni. Steinsnar frá, mátti nefnilega sjá forréttindahóp samfélagsins búa í nútímalegum og ríkmannlegum húsum sínum. Kjör þessara þjóðfélagshópa sem þarna mætast eru gjörólík.  Sá böggull fylgir skammrifi að til þess að njóta lífsins í velferðinni þarf að greiða hana því verði að búa umkringdur rammgerðum múrgirðingum auk rafmagnsgirðinga, varðhundi og skilti sem á stendur að ef einhver vogi sér inn í garðinn megi búast við vopnaðri varðsveit. Ójafnréttið, óréttlætið og misskiptingin er allt um lykjandi. Þarna upplifir maður ýkstustu birtingarmyndir misskiptingarinnar.

Fátækt er margslungin og mismunandi eftir samfélögum. Hún er mæld á mælikvarða sem tekur mið af efnahagi þeim sem finna má í sérhverju samfélagi á hverjum tíma. Við höfum heyrt af því á undanförnum vikum og mánuðum að fátækt og þar á meðal fátækt barna sé vaxandi hér á landi. Fátækt er ekki vírus, náttúruhamfarir eða slys. Fátækt er verk mannanna, segir í grein sem ég las eitt sinn. Þar var því jafnframt haldið fram og réttilega að mínu mati að verðmætum heimsins er ranglega skipt á milli fólks. Einn af mælikvörðum þess hversu gott samfélagið er fer eftir því hvernig komið er fram við fátækt fólk. Það er mikilvægt að við höfum þessi orð i huga fátækt er ekki vírus, náttúruhamfarir eða slys, fátækt er verk mannanna, þegar við ræðum um fátækt og viðbrögð við henni.

Fátækt hefur ekki bara að gera með fjármuni og húsnæði. Aðsteðjandi umhverfisvandi sem við öll búum við sem íbúar heimsins er ávísun á fátækt. Fyrr á þessu ári var greint frá því í fréttum að loftmengun sé nú helsta ástæða barnadauða í heiminum. Unicef barnahjálp Sameinuðu þjóðanna hefur af þessu miklar áhyggjur. Það var ekki að heyra að íslenskir stjórnmálamenn

hefðu af þessu máli miklar áhyggjur fyrir síðustu alþingiskosningar. Ekki reyndust þeir heldur hafa miklar áhyggjur af hlýnun jarðar. Engu að síður var talað mikið fyrir kosningarnar þó þessi mál hafi ekki komist á dagskrá. Óneitanlega minntu margir þeirra á stjórnmálamennina sem Johan Galtung sagði frá í bók sinni og héldu að því meira sem þeir töluðu því mikilvægari töldu þeir verk sín. En þó maður segi eitthvað þá er vissulega ekki sama hvað maður segir. Það er nefnilega hægt að hafa mörg orð um fánýta hluti.

Í áðurnefndri sögu Johans Galtung um appelsínurnar er ekki bara minnt á hvernig einstakir hlutir eins og ein appelsína getur valdið ósætti á meðal fólks og hvernig græðgin stýrir gjörðum fólks. Það er einnig bent á að mögulegt er að nálgast hlutina á annan hátt. Það er mögulegt að nálgast hlutina án þess að fara í stríð, án þess að skipta á ranglátan hátt eða án þess að eyðileggja þá eins og svo mörgum er tamt þegar þeir umgangast náttúruna.

Skoðum dæmi úr bók Johans: Tvær stúlkur sem appelsínan rekst á á ferð sinni, þurftu ekki að berjast um appelsínuna þar sem þær kusu að njóta fegurðar hennar með því að horfa á hana. Það þarf ekki alltaf að borða appelsínu til að njóta hennar. Það er hægt að njóta fegurðar hennar með augunum og það má gera án átaka. Þetta var nálgun stúlknanna og þetta er spurning um viðhorf. Með hvaða viðhorfi nálgumst við veruleika okkar.

Það sama má gera þegar fagurt dýralíf er annarsvegar. Það þarf ekki alltaf að drepa til þess að upplifa fegurðina í dýralífinu. Í fyrrgreindri ferð minni um Suður Afríku var virðinngarleysið gagnvart náttúru og dýralífi áhyggjuefni margra þar sem dýralíf er fallegt en á sama tíma viðkvæmt. Sumir telja sig ekki geta notið dýralífsins án þess að sjá dautt dýr fyrir framan sig á meðan aðrir benda á að það er vissulega mikils virði að njóta lifandi náttúru.

Það þarf ekki heldur alltaf að eignast hlutina eða ráða yfir þeim, komst appelsínan að í þessari ferð sinni þegar hún fylgdist með tveimur vinum. Í stað þess að berjast um hver ætti að fá að njóta appelsínunnar ákváðu þeir að skilja hana eftir. Vinátta okkar er meira virði en appelsína, sögðu þeir þar sem þeir yfirgáfu hana í stað þess að deila um hver ætti að fá hana. Þeir hefðu samt getað farið aðra leið en að skilja hana eftir segir í þessari dæmisögu. Þeir hefðu getað gefið einhverjum öðrum hana, einhverjum sem kynni að meta slíka gjöf og þyrfti á henni að halda.

Undir lok ferðarinnar í sögunni góðu sem hefur fylgt okkur hér í dag hitti appelsínan börn sem fundu skynsamlega lausn sem öðrum hafði ekki dottið í hug. Nú auðvitað skiptum við appelsínunni á milli okkar. Þá fær engin allt en allir fá eitthvað, sögðu börnin. Ekki vitlaust það. Börnin eiga það nefnilega til að flækja hlutina ekki um of heldur leita einföldustu lausnanna sem oft kunna að reynast bestar.

Kanadíska söngvaskáldið Leonard Cohen sem er flestum kunnur lést fyrr á þessu ári rúmlega áttræður að aldri. Skömmu áður en hann lést gaf hann út sinn síðasta hljómdisk. Í einu af ljóðunum sem hann flytur á diskinum veltir hann upp fjölmörgum spurningum og þar á meðal þessum: Hvað ef sólin tapaði geislum sínum og við lifðum í endalausu myrkri? Hvað ef tréin væru án laufa og sjórinn algjörlega vatnslaus?

Þessar spurningar Cohens eru síður en svo fráleitar og minna okkur á mikilvægi þess að fara vel með það sem við höfum. Við eigum bara eitt líf og afkomendur okkar líka og það er ekki ástæða til annars en að allir fái notið þeirra gæða sem það býður upp á. Til þess að svo megi verða þurfum við öll að hjálpast að með virðinguna að vopni, virðinguna fyrir hvert öðru, virðinguna fyrir náttúrunni og gæðum lífsins og virðinguna fyrir framtíðinni og lífsskilyrðum komandi kynslóða.

í lok barnabókar Johans Galtung sem hefur verið sem rauður þráður í hugvekju minni er lærdómurinn dreginn saman í einni spurningu og hún er þessi: Segðu mér hvað þú gerir þegar appelsínurnar eru ekki nógu margar og ég skal segja þér hver þú ert.

Þessa spurningu má orða á eftirfarandi hátt sem við ættum öll að hafa sem veganesti inn í framtíðina: Segðu mér hvað þú gerir þegar þú stendur frammi fyrir hinum ýmsu aðstæðum og ég skal segja þér hver þú ert?

Ágætu hlustendur. Stjórn Siðmenntar og aðstandendur útvarpsstöðvarinnar X ins fm 97,7 óska ykkur gleðilegra jóla og farsæls komandi árs.

Jóhann Björnsson

Er lýðræðið í krísu?

Sævar Finnbogason  doktorsnemi í heimspeki við Háskóla Íslands flutti hugvekju við setningu Alþingis þann 6. desember 2016: „Er lýðræðið í krísu?“

Ágætu þingmenn og aðrir gestir.

Sævar Finnbogason

Er lýðræðið í krísu? Þið þekkið væntanlega öll einhverja útgáfu af brandaranum þegar læknirinn segir við sjúklinginn, „hvort viltu heyra góðu fréttirnar eða slæmu fréttirnar fyrst?“.

Góðu fréttirnar eru þær að lýðræðishugsjónin og sú trú að lýðræði sé þrátt fyrir allt skásta stjórnarformið, er við hestaheilsu. Slæmu fréttirnar eru hinsvegar þær að það er virðist sama á hvaða mælikvarða er litið; hvort sem það er traust á stjórnvöldum, stjórnmálaflokkum og stofnunum eða almennt minnkandi kosningaþátttöku, að lýðræðið  í flestum vestrænum lýðræðisríkjum er krísu.

Eflaust kemur þessi upptalning Íslendingum ekki á óvart, eftir allt það sem hér hefur gengið á frá Hruni. En staðan er sú að í dag er það upplifun margra borgara í lýðræðisríkjum beggja vegna Atlantsála að fulltrúalýðræðið sé komið í vissar ógöngur. Upplifun er sú að kjörnir fulltrúar ýmist megi sín lítils gagnvart sérhagsmunaöflunum eða gangi jafnvel beinlínis gangi erinda þeirra á kostnað almannahagsmuna í ákveðnum málum. Þeim finnst það orðið litlu skipta hver er kosinn til valda. Kjör þeirra batna ekki, ójöfnuður heldur áfram að aukast og ný skörð eru hoggin í velferðarkerfið.
Með réttu eða röngu er það svona sem stjórnmálin blasa við mörgum.

Ef okkur er annt um lýðræðið, og þá á ég einnig við fulltrúalýðræðið, verðum við rannsaka betur orsakir þessarar óánægju og finna lýðræðislegar leiðir til þess að bregðast við henni.

Eitt af sjúkdómseinkennunum og jafnframt ein helsta hættan sem stafar að lýðræðinu í Evrópu og Skandinavíu um þessar mundir er uppgangur þjóðernispoppúlista sem ala á þjóðernishyggju, andúð í garð útlendinga, minnihlutahópa og alþjóðasamvinnu,  sem nærist einmitt á andrúmslofti óánægju og ótta.

Við skulum þó fara varlega og varast óþarfa einfaldanir og alhæfingar. Þó að BREXIT hafi reynst vatn á millu þjóðernissinna þar í landi, fer því auðvitað fjarri að allir sem kusu með úrsögn úr Evrópusambandinu séu þjóðernissinnar eða rasistar.

Sumir töldu að með úrgöngu úr Evrópusambandinu myndi innflæði vinnuafls, einkum frá austurhluta Evrópu stöðvast og við það myndu laun hækka og draga úr atvinnuleysi meðal innfæddra Breta. Það er auðvelt að skilja slík rök fólks sem vinnur þau illa launuðu og ósérhæfðu störf sem erlent vinnuafl sækir gjarnan í.

Enn aðrir trúðu því að um leið og Bretland segði sig úr sambandinu myndu svimandi fjárhæðir sem haldið var fram að rynnu til Evrópusambandsins streyma inn í breska heilbrigðiskerfið. Þeir urðu hins vegar fyrir sárum vonbrigðum þegar talsmenn úrsagnarinnar leiðréttu loksins þann “misskilning” stuttu eftir atkvæðagreiðsluna.

Það hefur líka komið á daginn að nokkur hópur þeirra sem kaus með úrsöginni gerði það hvorki vegna andúðar á Evrópusambandinu eða útlendingum, heldur —að því er virðist til þess að mótmæla— “kerfinu” án þess að kynna sér fyllilega hvað í úrsögninni fólst. Fyrir þennan hóp má segja að BREXIT hafi síður snúist um Evrópusambandið sem slíkt heldur um uppreisn gegn kerfinu, það er að segja stjórnmálastéttinni, sérhagsmunaöflum og fjármálakerfinu og jafnvel menntafólki sem réri að því öllum árum að Bretar yrði áfram í ESB.

Í þessu sjáum við skýrt klofninginn á milli þeirra sem verst eru settir, fólksins sem þarf að treysta á framfærslu velferðarkerfis, fólksins sem vinnur á lægstu laununum og hefur minnsta menntun og svo hinna sem hafa það best í samfélaginu. Það er eins og þessir hópar búi hvort í sínum heimi, hvor með eigin orðræðu og hagsmuni sem varla skarast.
Og eftir því sem verkefni ríkisins verða flóknari og umfangsmeiri og stjórnmálin að sama skapi flóknari og sérhæfðari, eykst enn valdaójafnvægið milli þeirra.

Þá er hættan sú að fólk hreiðri um sig í skotgröfnum og við þær aðstæður er öll uppbyggileg samræða ómöguleg.

Þessi lýðræðiskrísa er í grófum dráttum sú lýðræðiskrísa (eða Legitimation Crisis) sem þýski heimspekingurinn Jurgen Habermas spáði árið 1975 að kæmi upp ef ekki væri gripið til ráðstafana til þess að styrkja forsendur lýðræðislegrar samræðu í samfélaginu og lýðræðislega þátttöku almennings. Þetta höfum við vanrækt.

Ég vil taka það skýrt fram að ég er ekki að tala gegn fulltrúalýðræðinu. Enda þurfum við á því að halda. Fyrir því eru tvær megin ástæður. Sú fyrri er sú að venjulegir borgarar hafa einfaldlega ekki tök á því að setja sig inn í allan þann fjölda umfangsmikilla mála sem kjörnir fulltrúar fjalla um. Sú seinni er að fulltrúalýðræðið hefur marga kosti sem við ættum efla og virkja enn frekar enn frekar með auknu samráði við almenning af ýmsu tagi.

Það virðist ljóst að til þess að vinna okkur út úr þeirri krísu sem fulltrúalýðræðið er í þurfum við að þróa lýðræðishugmyndir okkar þannig að allir hópar samfélagsins hafi rödd og komi sínum hagsmunum og sjónarmiðum á framfæri á jafnræðisgrundvelli.

En það sem vill hins vegar stundum gleymast er að upplýst skoðanamyndun krefst góðs aðgengis að upplýsingum, öflugra og óháðra fjölmiðla og sérstakrar fræðslu um þau málefni sem eru til umræðu hverju sinni. Mér er næst að segja að við þurfum að stórefla lýðræðismenntun. Og það má færa rök fyrir því þetta sé sá þáttur í þessu öllu saman sem gæti reynst hvað torveldastur þegar við horfum upp á það hvernig miðlar á Netinu á borð Facebook og Google ýta undir þennan vanda með því að reyna að birta okkur aðeins það sem þeir telja að við viljum sjá og heyra. Þannig að við eigum á hættu að lokast inni í bergmálsklefum á Netinu, þar sem við rekumst aðeins á þá sem við erum sammála.

Ein algengasta mótbáran við hugmyndum af þessu tagi er að fara eigi varlega í allar breytingar á stjórnskipulaginu til þess að kollsteypa því ekki. Sígandi lukka er best, en við megum ekki vera svo hrædd við að gera tilraunir að steinrennum. Því lýðræðið ætti einmitt ekki að vera meitlað í stein heldur lifandi afl í samfélaginu.

Ég held að einn helsti lærdómurinn af nýafstöðunum forsetakosningum í Bandaríkjunum sé sá að þegar stórir hópar í samfélaginu eru farnir að upplifa sig afskipta í lýðræðinu getur illa farið.

Bandaríkjamenn kusu yfir sig forseta sem sagðist í kosningabaráttu sinni ætla að meina öllum múslímum að koma til landsins í ótilgreindan tíma og byggja vegg eftir endilöngum landamærum Mexíkó og Bandaríkjanna og láta Mexíkó borga framkvæmdina. Burtséð frá þessu (og mætti þó tína margt annað til), er ástæða til að hafa verulegar áhyggjur af viðhorfi Trumps til mannréttinda. Aðspurður um það hvernig hann myndi takast á við ógnina sem stafar af hryðjuverkamönnum sagði hann að þar sem hryðjuverkamönnunum væri sama um eigið líf, því myndi hann —ef hann yrði kjörinn forseti— ráðast á fjölskyldur þeirra.
Eða eins og hann orðaði það sjálfur „You have to take out their families“.

Getur verið að nær helmingur kjósenda í Bandaríkjum hafi beinlínis kosið hann út af þessum hryllingi? Vissulega einhverjir. En nær væri að segja að fólk hafi kosið hann þrátt fyrir þetta allt. Margt þessa fólks sem hefði líklega kosið Bernie Sanders er það hefði staðið til boða.

Þetta var fólkið sem er búið að missa trúna á hin hefðbundnu stjórnmál. Fólkið sem —með réttu eða röngu— telur að kerfið gangi beinlínis erinda stórfyrirtækja og Wall Steet á kostnað almannahagsmuna. Þetta er fólkið sem treystir ekki „kerfinu“ lengur.

Þau efast um að Trump byggi vegginn, hvað þá að honum takist að láta Mexíkó borga fyrir hann eða að hann ætli sér raunverulega að geri árásir á fjölskyldur grunaðra hryðjuverkamanna.

Nei, þegar rýnt er kosningaúrslitin birtast samskonar klofningur og í BREXIT og kosningarnar í það minnsta öðrum þræði snúast um eitthvað allt annað en raunverulega var kosið um. Eða, eins og einn kjósandi Trumps orðaði það, hvort sem hann getur staðið við allt það sem hann hefur lofað eða ekki er hann þó allavega ekki stjórnmálamaður.

Ég veit að ég hef hér á köflum dregið upp dökka mynd af stöðunni. En ég held að staðan sé hreint ekki eins dökk á Íslandi. Það er hinsvegar staðreynd að það er hópur fólks á Íslandi rétt eins og í öðrum Vestrænum lýðræðisríkjum sem finnst hann afskiptur. En við erum hinsvegar í þeirri öfundsverðu stöðu á Íslandi að við getum breytt þessu. Hér hefur líka ýmislegt áunnist á undanförnum árum. Og þrátt fyrir allt sem hefur gengið hér á, á undanförnum árum—og kannski einmitt þess vegna— vitum við að lýðræðið hér á vel að þola það að við þróum það áfram í átt að aukinn þátttöku almennings og prófum okkur áfram með nýjar leiðir.

Og kannski má segja að við séum einmitt núna í miðri slíkri tilraun, þegar verið er að setja Alþingi á þessum óvenjulega tíma, rúmum mánuði eftir kosningar — þegar ekki er enn búið að mynda nýja ríkisstjórn— til þess fjalla um fjárlagafrumvarp sem lagt er fram af starfsstjórn.

Og það er sama hvert maður lítur, það virðist enginn vera að fara af hjörunum úf af þessu.

Borgaraleg ferming 2016 á Akureyri – ræða

Ræða sem Odda Júlía Snorradóttir, menntaskólanemi, flutti við borgaralega fermingu sem fór fram í Hofi á Akureyri 28. maí 2016.

Odda Júlía SnorradóttirKæru fermingarbörn, aðstandendur, starfsfólk siðmenntar og aðrir góðir gestir, ég heiti Odda Júlía og vil óska ykkur öllum innilega til hamingju með daginn.

Þegar þið flottu fermingarbörn ákváðuð að fermast ekki hjá þjóðkirkjunni tókuð þið stóra ákvörðun, en það mætti segja að ákvörðunin um að fermast borgaralega hafi verið enn stærri. Þið munuð reglulega vera spurð hvers vegna þið tókuð þessa ákvörðun, ekki bara núna heldur oft á komandi árum. Ég er allavega ennþá spurð hvers vegna ég fermdi mig á þennan veg og hvað borgaraleg ferming sé eiginlega?

Þegar þú fermist hjá kirkjunni, staðfestir þú trú þína á krist. En orðið ferming þýðir einmitt staðfesting. Hvað var það sem að ég staðfesti fyrir fimm árum þegar að ég fermdist og hvað er það sem að þið eruð staðfesta hér og nú?

Nú færi ég ykkur eina tillögu að svari.

Með minni borgaralegu fermingu staðfesti ég trú mína á síbætanlegu samfélagi og gaf það loforð að nýta hvert tækifæri til þess að bæta samfélagið, að vera fyrirmynda borgari. Það að vera hluti af samfélagi færir okkur bæði réttindi og skyldur. Þú hefur rétt til þess að iðka þá trú sem þú kýst, til þess að ganga í skóla, til þess hafa þínar eigin skoðanir og tjá þær. Þó þarft þú að gæta þess að þú skerðir ekki frelsi annara til að njóta sömu réttinda. Skyldurnar geta aftur á móti verið öllu flóknari, en þær þurfa ekki að vera það, þú getur tamið þér ákveðinn hugsunarhátt, ákveðin lífsstíl, til þess að auðvelda sjálfum þér að uppfylla þær.

Einstaklingar sem að bæta samfélagið gera það á jafn misjafnan hátt og þeir eru margir. Það eru vissi gildi sem þó standa uppúr og eru jafnvel nauðsynleg. Ef samfélag okkar á að ganga upp og virka er til dæmis nauðsynlegt að bera virðingu fyrir náunganum og það er ekki bara virðing fyrir öðrum manneskjum sem skiptir máli heldur virðing fyrir allri plánetunni. Virðing fyrir umhverfinu, dýrum og öllu lífríkinu er jafn mikilvægt. Ég ætla ekki að halda áróðursræðu um mikilvægi þess að flokka þó það sé bæði mikilvægt og kúl en við verðum auðvitað að huga að umhverfi okkar til að geta bæði ræktað okkur sjálf og samfélagið.

Í samskiptum, sama hvort þau séu jákvæð eða í leiðinlegri dúr, þá er gríðarlega gott og hollt að geta hlustað á sjónarmið annara og tekið tillit til þeirra sama þó þú sért alveg ósammála. Það er nefnilega ekki samasem merki á milli þess að virða skoðanir fólks og að vera sammála því.
Við höfum öll lent í því að vinur okkar eða vinkona er til dæmis í ljótri peysu. Kannski í horgrænni flíshettupeysu með neongulum ermum eða ferlega hallærislegri jólapeysu með afmynduðum jólasveini. Einhverri sem er a.m.k. alveg úr takt við okkar eigin tískuhugmyndir. En við segjum samt ekki neitt, það gæti sært vin okkar og auðvitað hefur vinur okkar rétt á að hafa sinn eiginn stíl rétt eins og við.

Að sama skapi ber okkur ekki skylda til að virða allar skoðanir sem við heyrum jafnvel þó við virðum fólkið sem hefur þessar skoðanir.
Skoðanir eins og: Allir múslímar eru hryðjuverkamenn er til dæmis alls ekki skoðanir sem á að virða.
Við verðum að geta verið gagnrýnin í hugsun til þess að benda á fordómafullar skoðanir eða viðmót sem eru hatursfull í garð hópa eða einstaklinga. En þá er fræðsla miklu sniðugri tæki í stað þess að fordæma og skamma. Tökum sem dæmi fólk sem segist ekki fíla femínisma en hefur ekkert á móti jafnrétti kynjanna, þeir einstaklingar hafa þarna ranga mynd af hugmyndafræði femínista. Þá er miklu sniðugra að útskýra fyrir þeim að mál femínista snúist einmitt um jafnrétti kynjanna frekar en að kalla þá vitlausa eða hneykslast.

Þannig er það líka þegar við mótum okkar skoðanir. Sumt leiðum við hjá okkur en annað situr eftir. Það er margt sem hefur áhrif. Hvort sem við erum að tala um fjölskylduna, vinina, skólann, fjölmiðla eða einfaldlega þann sem við erum skotin í. Við söfnum upplýsingum, heyrum mismunandi sjónarmið og skoðanir, lærum og öðlumst reynslu og sköpum síðan úr þessum hrærigraut eigin hugmyndir og sjónarmið. Það er óhjákvæmilegt að verða fyrir einhverjum áhrifum þó við megum ekki trúa á og samþykkja þau í blindni. Við verðum þó að muna að okkur getur skjátlast og við verðum líka að vera opin fyrir nýjum rökum og hugmyndum.

Þetta snýst svo mikið um að treysta á eigin dómgreind. Vega og meta aðstæður og geta brugðist tiltölulega rétt við hverju sinni. En þó við bregðumst ekki rétt við, sem kemur fyrir alla einhvern tímann á lífsleiðinni, þá verðum við að geta tekið ábyrgð á
gjörðum okkar.

Nú hafið þið fengið einhvern grunn í siðfræði, og eflaust glímt við einhverjar snúnar klípusögur, ef til vill voru þær líka mis ýktar. Raunin er sú að við lendum í ýmsum klípum í þessu hversdagslega lífi okkar, kannski ekki eins hádramatískum og þeim sem þið lásuð, en klípum engu að síður. Tökum dæmi úr skólanum, það er hópavinna í íslensku og þú ert sett eða settur í hóp með bekkjafélaga þínum. Þið hafið tvo daga til að leysa verkefnið og á fyrsta degi missir bekkjafélagi þinn nákominn ættingja og þann seinni fer hann í jarðaför. Þú endar á því að vinna allt verkefnið að mestu leiti ein eða einn. Þegar kennarinn lætur ykkur hafa jafningjamat getur þú ekki ákveðið hvort að þú eigir að segja kennaranum að þú hafir gert verkefnið einn eða ljúga og segja ekki frá.

Ykkur finndist þetta ef til vill auðveldari spurning ef bekkjarfélaginn hefði ekki gert neitt því hann var í tetris allan tímann. En málin eru nefnilega ekki alltaf svo einföld. Með þessu má tildæmis sýna að veröldin er ekki svört og hvít, er í lagið að segja í vissum aðstæðu ekki sannleikan? en þetta kennir okkur líka að þekkja og þroska okkar sjálf og eigið siðferði. Það er einmitt það sem þið þurfið að gera á næstu árum, að einhverju leiti mun þetta gerast sjálfkrafa en það er gott að hafa það í huga og temja sér strax góð gildi. Gildi á borð við ást, umhyggju, sanngirni, réttlæti, virðingu og gjafmildi og þar fram eftir götunum.

Allt þetta á eftir að nýtast ykkur í framtíðinni og ég er ekki bara að tala um lengst í burtu „þegar ég verð gömul og hrukkótt” framtíðinni eða þegar þið eruð komin með vinnu og börn og farin að hafa áhyggjur af sköttum og lánum. Þetta nám sem ég hóf hefur veitt mér forskot í hinum ýmsu fögum í skólanum nú þegar, og ég er sko unglamb.
Já með þessu skírteini sem þið takið við í dag gefið þið einskonar loforð um að vera

fyrirmynda borgarar fylgjast með því sem er að gerast í samfélaginu og leggja ykkar af mörkum, taka þátt í samfélagsumræðum, kosningum og því sem gerir samfélagið að því sem það er, bætir það og gefur því lit.

Já kæru fermingarbörn og já ég leyfi mér að kalla ykkur börn, því að það eru jú ennþá nokkrar mínútur áður en að þið verðið tekin í fullorðinnamanna tölu ég hef alla trú á að þið munuð bera út þann boðskap sem að þið hafið fengið í ykkar fræðslu og standa ykkur vel, verða með sanni fyrirmynda borgarar.

Odda Júlía Snorradóttir

Borgaraleg ferming 2016 í Reykjavík – ræða

Ræða sem Katrín Lilja Sigurðardóttir (“Sprengju-Kata”), efnafræðingur, flutti við borgaralega fermingu sem fór fram í Háskólabíói 24. apríl 2016.

Katrín Lilja Sigurðardóttir Apr24_2016 Háskólabíó_2Komið öll heil og sæl og innilega til hamingju með þennan fallega dag og mikilvægan áfanga. Ég vil byrja á að þakka ykkur kærlega fyrir að bjóða mér hingað og segja nokkur orð. Þetta er mér sannur heiður.

Þið fermingarbörn eruð stjörnur dagsins, svo að ég hef ákveðið að fjalla um ykkur, eða réttara sagt, hvernig ég sé ykkur á þessum degi.

Hver eruð þið? Hvaðan komið þið og til hvers eruð þið hér?

Fyrst ætla ég þó að spóla til baka um nokkur ár og rifja upp einn dag þegar ég var svona þriggja ára. Ég man að ég var að leika mér með strumpana mína inni í eldhúsi heima. Í leiknum mínum bjuggu strumparnir í ofninum. Skyndilega þurfti ég nauðsynlega að komast að því hvað gerist ef strumpur væri hitaður í ofni. Jú, það get ég sagt ykkur. Ef maður setur strump á ofngrindina og hækkar svo ofninn í botn þá bráðnar strumpurinn. Hann lekur niður á botn og verður þar að klessu sem er mjög illa lyktandi og erfitt er að þrífa.

Nokkru síðar sátum við, ég og Siggi litli bróðir minn, ein inni í herbergi heima. Ég hef verið svona fjögurra ára og hann ekki nema tveggja. Ég veit ekki alveg hvernig það kom til en þarna vorum við að leika okkur með heftara. Ég man að ég leit á heftarann og svo á litlu puttana á honum og sagði: “Siggi, ætli heftið drífi í gegnum puttann?” Við systkinin veltum þessu fyrir okkur nokkra stund og svo var ákveðið að prófa. Jú, heftið dreif gegnum puttann!

BF Apr24_2016 Háskólabíó_3Þetta voru frekar einfaldar tilraunir sem ég gerði á mínum barnsárum. Mörgum árum síðar hóf ég nám í efnafræði við Háskóla Íslands. Þá urðu tilraunirnar sem ég gerði töluvert flóknari og ég skoðaði efnin frá öðru sjónarhorni en þegar ég var fjögurra ára, en þó með sama áhuga og áður.

Í háskólanum lærði ég að efnin allt í kringum okkur eru búin til úr atómum. Aðeins eru til um 91 mismunandi atóm í náttúrunni og þau eru kölluð frumefni. Atómin mynda svo tengi sín á milli á mjög sérstakan hátt til að búa til flóknari efnasambönd. Þessi atóm eru svo agnarlítil að í einni frumu í mannslíkamanum eru um 100 þúsund milljarðar (100.000.000.000.000) atóma. Í frumunni vinna þessi atóm saman á ótrúlega fullkominn máta. Svo eru um 37 þúsund milljarðar (37.000.000.000.000) frumna í einum mannslíkama. Hver einasta fruma, hvert einasta atóm, hefur ákveðið hlutverk í mannslíkamanum eða sinnir ákveðnu verkefni. Vökvar líkamans, bakteríur og ýmislegt annað spila líka stór hlutverk. Vissuð þið til dæmis að þegar þið verðið skotin í einhverjum og fáið svona fiðrildi í magann, þá gerist það vegna ákveðinna efna sem framleiðast í líkamanum og hinn aðilinn skynjar.
Þetta er allt efnafræði.

Það sem mér þykir allra merkilegast er að þessi vel uppraðaða atómheild sem við erum getur lært og tileinkað sér, gengið um og sagt brandara, haft skoðanir og tekið misgáfulegar ákvarðanir, eins og t.d. að hefta í putta. Það er alveg hreint magnað hvernig hægt að raða atómum þannig saman að þær myndi heild sem hefur sína einstöku kímnigáfu, sinn eigin persónuleika, skoðanir og sköpunargáfu.

Enginn eins og allir einstakir!

BF Apr24_2016 Háskólabíó_2Ok, ef þið voruð ekki búin að fatta það, þá er ég að reyna að segja ykkur að þið eruð hvert og eitt alveg magnað kraftaverk. Sköpunarverk sem hefur verið í þróun í yfir 2000 milljón ár, en vísindamenn halda því fram að fyrir 2100 milljón árum hafi komið fram svokallaðir heilkjörnungar, það eru lífverur úr frumum sem eru með kjarna. Þessar lífverur voru forfeður ykkar! Hver og einn kroppur hérna inni var í raun alveg 2100 milljón ár að þróast og heilkjörnungar var fyrsta skrefið í þeirri þróun.

Þannig að góð sköpunarverk eru greinilega lengi í þróun. Það sama má segja um sköpunarverk okkar mannanna. Síðan menn gerðu sín fyrstu verkfæri hafa vægast sagt orðið ansi miklar framfarir. Fyrstu verkfærin voru einföld, í raun bara steinar sem voru höggnir þannig til að þá var hægt að nota sem verkfæri. Síðan þá hefur maðurinn lært geysilega margt, þróað með sér ótrúlega mikla tækni og lært að nýta auðlindir Jarðar sér í hag. Þessari þekkingaröflun mætti líkja við snjóbolta sem er rúllað áfram og stækkar jafnt og þétt. Boltinn var bara eitt snjókorn þegar fyrsta verkfærið var smíðað og svo hefur hann stækkað í aldanna rás þegar kynslóðirnar hafa bætt á hann þekkingu. Í dag er snjóboltinn gríðarstór og segja mætti að nútímatækni byggir á öllum snjókornunum sem nú eru í boltanum.

Þá hef ég aðeins skoðað hver þið eruð og hvaðan þið komið en nú komið þið loks til sögunnar. Dagurinn í dag, fyrsti dagurinn ykkar í fullorðinna manna tölu, er betri en nokkur annar dagur til að taka við þekkingarsnjóboltanum mikla. Það felst mikil ábyrgð í að rúlla þessum bolta og það er mikilvægt að rúlla honum í rétta átt. Það skiptir geysimiklu máli að nýta tækniþróun til góðs fyrir okkur og fyrir umhverfi okkar.

Miklu máli skiptir að hvert og eitt ykkar hafi sitt hlutverk en þó að þið séuð öll að vinna sem ein heild og að sama markmiði.
Virkið ykkar persónulega eldmóð og menntið ykkur í því sem vekur mestan áhuga ykkar. Þannig öðlist þið hvert og eitt sitt einstaka hlutverk í þessu samfélagi sem þið eruð nú að taka við.

Gjörið svo vel. Veröldin er ykkar.

Katrín Lilja Sigurðardóttir