Borgaraleg ferming 2016 í Reykjavík – ræða

Ræða sem Katrín Lilja Sigurðardóttir (“Sprengju-Kata”), efnafræðingur, flutti við borgaralega fermingu sem fór fram í Háskólabíói 24. apríl 2016.

Katrín Lilja Sigurðardóttir Apr24_2016 Háskólabíó_2Komið öll heil og sæl og innilega til hamingju með þennan fallega dag og mikilvægan áfanga. Ég vil byrja á að þakka ykkur kærlega fyrir að bjóða mér hingað og segja nokkur orð. Þetta er mér sannur heiður.

Þið fermingarbörn eruð stjörnur dagsins, svo að ég hef ákveðið að fjalla um ykkur, eða réttara sagt, hvernig ég sé ykkur á þessum degi.

Hver eruð þið? Hvaðan komið þið og til hvers eruð þið hér?

Fyrst ætla ég þó að spóla til baka um nokkur ár og rifja upp einn dag þegar ég var svona þriggja ára. Ég man að ég var að leika mér með strumpana mína inni í eldhúsi heima. Í leiknum mínum bjuggu strumparnir í ofninum. Skyndilega þurfti ég nauðsynlega að komast að því hvað gerist ef strumpur væri hitaður í ofni. Jú, það get ég sagt ykkur. Ef maður setur strump á ofngrindina og hækkar svo ofninn í botn þá bráðnar strumpurinn. Hann lekur niður á botn og verður þar að klessu sem er mjög illa lyktandi og erfitt er að þrífa.

Nokkru síðar sátum við, ég og Siggi litli bróðir minn, ein inni í herbergi heima. Ég hef verið svona fjögurra ára og hann ekki nema tveggja. Ég veit ekki alveg hvernig það kom til en þarna vorum við að leika okkur með heftara. Ég man að ég leit á heftarann og svo á litlu puttana á honum og sagði: “Siggi, ætli heftið drífi í gegnum puttann?” Við systkinin veltum þessu fyrir okkur nokkra stund og svo var ákveðið að prófa. Jú, heftið dreif gegnum puttann!

BF Apr24_2016 Háskólabíó_3Þetta voru frekar einfaldar tilraunir sem ég gerði á mínum barnsárum. Mörgum árum síðar hóf ég nám í efnafræði við Háskóla Íslands. Þá urðu tilraunirnar sem ég gerði töluvert flóknari og ég skoðaði efnin frá öðru sjónarhorni en þegar ég var fjögurra ára, en þó með sama áhuga og áður.

Í háskólanum lærði ég að efnin allt í kringum okkur eru búin til úr atómum. Aðeins eru til um 91 mismunandi atóm í náttúrunni og þau eru kölluð frumefni. Atómin mynda svo tengi sín á milli á mjög sérstakan hátt til að búa til flóknari efnasambönd. Þessi atóm eru svo agnarlítil að í einni frumu í mannslíkamanum eru um 100 þúsund milljarðar (100.000.000.000.000) atóma. Í frumunni vinna þessi atóm saman á ótrúlega fullkominn máta. Svo eru um 37 þúsund milljarðar (37.000.000.000.000) frumna í einum mannslíkama. Hver einasta fruma, hvert einasta atóm, hefur ákveðið hlutverk í mannslíkamanum eða sinnir ákveðnu verkefni. Vökvar líkamans, bakteríur og ýmislegt annað spila líka stór hlutverk. Vissuð þið til dæmis að þegar þið verðið skotin í einhverjum og fáið svona fiðrildi í magann, þá gerist það vegna ákveðinna efna sem framleiðast í líkamanum og hinn aðilinn skynjar.
Þetta er allt efnafræði.

Það sem mér þykir allra merkilegast er að þessi vel uppraðaða atómheild sem við erum getur lært og tileinkað sér, gengið um og sagt brandara, haft skoðanir og tekið misgáfulegar ákvarðanir, eins og t.d. að hefta í putta. Það er alveg hreint magnað hvernig hægt að raða atómum þannig saman að þær myndi heild sem hefur sína einstöku kímnigáfu, sinn eigin persónuleika, skoðanir og sköpunargáfu.

Enginn eins og allir einstakir!

BF Apr24_2016 Háskólabíó_2Ok, ef þið voruð ekki búin að fatta það, þá er ég að reyna að segja ykkur að þið eruð hvert og eitt alveg magnað kraftaverk. Sköpunarverk sem hefur verið í þróun í yfir 2000 milljón ár, en vísindamenn halda því fram að fyrir 2100 milljón árum hafi komið fram svokallaðir heilkjörnungar, það eru lífverur úr frumum sem eru með kjarna. Þessar lífverur voru forfeður ykkar! Hver og einn kroppur hérna inni var í raun alveg 2100 milljón ár að þróast og heilkjörnungar var fyrsta skrefið í þeirri þróun.

Þannig að góð sköpunarverk eru greinilega lengi í þróun. Það sama má segja um sköpunarverk okkar mannanna. Síðan menn gerðu sín fyrstu verkfæri hafa vægast sagt orðið ansi miklar framfarir. Fyrstu verkfærin voru einföld, í raun bara steinar sem voru höggnir þannig til að þá var hægt að nota sem verkfæri. Síðan þá hefur maðurinn lært geysilega margt, þróað með sér ótrúlega mikla tækni og lært að nýta auðlindir Jarðar sér í hag. Þessari þekkingaröflun mætti líkja við snjóbolta sem er rúllað áfram og stækkar jafnt og þétt. Boltinn var bara eitt snjókorn þegar fyrsta verkfærið var smíðað og svo hefur hann stækkað í aldanna rás þegar kynslóðirnar hafa bætt á hann þekkingu. Í dag er snjóboltinn gríðarstór og segja mætti að nútímatækni byggir á öllum snjókornunum sem nú eru í boltanum.

Þá hef ég aðeins skoðað hver þið eruð og hvaðan þið komið en nú komið þið loks til sögunnar. Dagurinn í dag, fyrsti dagurinn ykkar í fullorðinna manna tölu, er betri en nokkur annar dagur til að taka við þekkingarsnjóboltanum mikla. Það felst mikil ábyrgð í að rúlla þessum bolta og það er mikilvægt að rúlla honum í rétta átt. Það skiptir geysimiklu máli að nýta tækniþróun til góðs fyrir okkur og fyrir umhverfi okkar.

Miklu máli skiptir að hvert og eitt ykkar hafi sitt hlutverk en þó að þið séuð öll að vinna sem ein heild og að sama markmiði.
Virkið ykkar persónulega eldmóð og menntið ykkur í því sem vekur mestan áhuga ykkar. Þannig öðlist þið hvert og eitt sitt einstaka hlutverk í þessu samfélagi sem þið eruð nú að taka við.

Gjörið svo vel. Veröldin er ykkar.

Katrín Lilja Sigurðardóttir

Borgaraleg ferming 2016 á Selfossi – ræða

Ræða sem Sævar Helgi Bragason, formaður Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness og B.Sc. í jarðfræði frá Háskóla Íslands, flutti við borgaralega fermingu sem fór fram á Hótel Selfossi 16. apríl 2016.

Heil og sæl öllsömul!

Til hamingju með daginn!

Það er mér sönn ánægja að vera treyst til að ávarpa ykkur í dag.
Um hvað talar maður eiginlega á svona degi og fyrir framan svona glæsilegan hóp?

Mig langar mest af öllu til að segja ykkur frá magnaðasta stað sem ég veit um, alheiminum, en þá getur verið erfitt að stoppa mig og við gætum verið hér þangað til í næstu viku — sem byrjar reyndar bara á morgun. Það er víst ekki nægur tími til þess.
Talandi um tíma. Kannski ætti ég að segja ykkur frá því af hverju tíminn líður hægar nálægt svartholum og af hverju þið yrðuð eins og spaghettí ef þið félluð ofan í svarthol? Kannski ætti ég að segja ykkur frá stað þar sem sólin skín aldrei? Nei, það má alveg misskilja hvar sá staður er. Sá staður sem ég er með í huga er annars á tunglinu.

Ef til vill datt einhverjum í hug staður á líkama okkar. Já, líkaminn. Kannski ætti ég að segja frá fallegustu staðreynd sem ég veit um: Þá staðreynd að öll frumefnin í líkömum okkar — járnið í blóðinu, kolefnið í vöðvunum og kalsíumið í beinunum — urðu til þegar stærstu stjörnurnar í alheiminum sprungu og dreifðu innyflum sínum um geiminn, svo að nýjar stjörnur, eins og sólin okkar og Jörðin og lífið, gátu fæðst úr öskustónni. Þið eruð bókstaflega stjörnuryk! Eiginlega mætti segja að þið séuð ruslið í alheiminum. Og ég meina það alls ekki á neikvæðan hátt. Við öll, lífið á Jörðinni, erum nefnilega ótrúlega merkilegt rusl: Gáfaðar leifar sprunginna stjarna sem velta eigin uppruna og örlögum fyrir sér! Finnst ykkur það ekki merkilegt?

Að sjálfsögðu kom upp í hugann að tala um hluti eins og mannréttindi, mikilvægi þess að geta sett sig í spor annarra og sýna samkennd, sýna öðru fólki virðingu og kærleika, eitthvað sem aldrei nóg er af, eða þá staðreynd að þið eruð öll svo til fullkomin frá náttúrunnar hendi og að þið ættuð aldrei nokkurn tímann að hafa áhyggjur af því hvað öðrum finnst um ykkur eða hvernig þið lítið út. Þið eruð nefnilega frábær eins og þið eruð, stútfull af hæfileikum sem þið eigið að rækta og nýta, ykkur sjálfum til góða en þó aðallega samfélaginu og plánetunni okkar til góða.

Ég vil nefnilega að þið breytið heiminum. Þið og börnin ykkar í framtíðinni þurfið að breyta heiminum til hins betra. Engin pressa samt.

Hvernig getum við breytt heiminum?

Við getum til dæmis byrjað á okkur sjálfum.

Ég trúi því að við viljum öll vera besta útgáfan af sjálfum okkur.

Eins og áður sagði erum við öll stútfull af hæfileikum en allir þurfa að hafa fyrir því að rækta þá og nýta. Meira að segja Taylor Swift, Lionel Messi og Beyoncé og allar hinar gervistjörnurnar (alvöru stjörnur eru sólir, þið vitið), þurftu að leggja mikið á sig til að komast þangað sem þau eru í dag. Það eru bara örfáir sem fæðast snillingar en snillingar þurfa líka að hafa fyrir hlutunum.

Í dag ertu afrakstur þeirra ákvarðana sem þú tókst dagana á undan, svo ég vitni til orða kanadíska geimfarans Chris Hadfield. Allt sem þú gerir hefur áhrif á þig: Hvaða mat þú lætur ofan í þig, hvaða bækur þú lest, hvaða kvikmyndir þú horfir á, hvað þú gerir við frítímann. Lærðirðu eitthvað nýtt? Ef þú tekur ákvörðun um að breyta einhverju í lífi þínu er magnað að sjá hversu hraðar breytingarnar verða og hversu áhrifaríkar þær eru. Lífið sjálft grípur auðvitað inn í. Þú upplifir vonbrigði og vandamál, bæði stór og lítil, og gerir það besta og lærdómsríkasta sem allir gera mörgum sinnum í lífinu en eiga erfitt með að viðurkenna, mistök. Já, mistök eru besta leiðin til að læra eitthvað nýtt og gera okkur að bestu útgáfunni af sjálfum okkur. Lykilatriðið er að sætta sig við vonbrigði og mistök, þótt það sé stundum mjög erfitt.

Vertu manneskjan sem þig langar til að vera. Vertu besta útgáfan af sjálfum eða sjálfri þér.
En hvernig fer maður að því?

Auðvitað er engin ein aðferð best en í mínum huga er best að láta hjartað ráða för og láta gott af sér leiða. Hjartað er býsna góður áttaviti. Öll eigum við okkur nefnilega stóra drauma og frá hjartanu fáum við ástríðuna sem við þurfum til að láta þá rætast. Og það er fólk með stóra drauma sem breytir heiminum. Það er fólkið sem sendi okkur til tunglsins og fólkið sem tryggði okkur þá velsæld sem við búum við í dag.

Árið 2015 átti ég mér þann stóra draum að gera öllum grunnskólanemendum og kennurum á Íslandi kleift að sjá sólmyrkvann. Af hverju? Fyrri ástæðan var einfaldlega sú að sem flestir fengju að sjá magnað, ógleymanlegt, furðulegt og vonandi áhrifaríkt sjónarspil. Hin ástæðan var sú, að reyna að efla áhuga ykkar á vísindum og náttúrunni. Hvers vegna? Vegna þess að áhuga á vísindum fylgja gjarnan tvö tól sem eru einstaklega dýrmæt í daglegu lífi: Forvitni og efi.

Í heilum ykkar er mikil auðlind. Þar eiga ótalmargar hugmyndir eftir kvikna. Ástríðan og forvitnin leiðir ykkur áfram og efinn hjálpar ykkur að sía slæmar hugmyndir frá góðum. Með stórum draumum og ástríðu, forvitni og efa, getur þú breytt heiminum.

Mig langar að segja ykkur draumi vísindamanns sem hét Carl Sagan.

Hátt yfir sólinni og plánetunum siglir ómannað geimskip burt frá heimaplánetunni sinni þessa stundina, með meiri hraða en nokkur annar manngerður hlutur, svo hratt að það kæmist héðan frá Reykjavík til Keflavíkur á rétt rúmum tveimur sekúndum.

Snemma í febrúar árið 1990 bárust geimskipinu áríðandi skilaboð frá Jarðarbúum, sem vísindamaður að nafni Carl Sagan átti stóran þátt í að útbúa. Geimskipinu var skipað að snúa myndavélum sínum við og horfa í átt að sólinni og plánetunum sem nú voru í fjarska.

Hlýðið leit geimskipið til baka og tók þá þessa mynd sem sést hér fyrir aftan. Innan í hringnum er Jörðin úr álíka mikill fjarlægð og Plútó er frá sóinni. Þegar Carl Sagan sá þessa fremur óskýru mynd skrifaði hann texta sem mér finnst að ætti að vera skyldulesning i öllum skólum í heiminum, eða kannski frekar meitlaður í stein hjá Sameinuðu þjóðunum þar sem allir þjóðarleiðtogar sæju hann. Tilvitnun hefst:

Frá þessum fjarlæga sjónarhóli virðist Jörðin ekkert sérstaklega áhugaverð. En fyrir okkur horfir það öðruvísi við. Líttu aftur á þennan punkt. Þetta er hér. Þetta er heimilið okkar. Þarna erum við. Þarna hafa allir sem þú elskar, allir sem þú þekkir, allir sem þú hefur nokkurn tíma heyrt getið, hver einasta manneskja sem til hefur verið, lifað lífi sínu.
Hugsaðu þér blóðsúthellingarnar af völdum allra þessara hershöfðingja og keisara svo þeir gætu, í dýrðarljóma og sigurvímu, orðið tímabundnir valdsherrar á brotabroti af punkti. Hugsaðu þér alla þá endalausu grimmd sem íbúar eins hornsins á þessum punkti beita öðrum vart aðgreinanlegum íbúum einhvers annars horns, hve oft þeir misskilja hver aðra, hve áfjáðir þeir eru um að drepa hver aðra, hve ákaft hatur þeirra er.
Jörðin eini hnötturinn sem við vitum um hingað til að geymir líf. Við getum hvergi annars staðar farið, að minnsta kosti í náinni framtíð. Hvort sem okkur líkar betur eða verr er Jörðin, í augnablikinu, þar sem við stöndum og föllum.

Ef til vill sýnir ekkert betur heimsku hroka mannanna en þessi fjarlæga mynd af örlítilli veröld okkar. Fyrir mér undirstrikar hún ábyrgð okkar að hugsa betur hvort um annað og varðveita og vernda eina heimilið sem við þekkjum, föla bláa punktinn.

Tilvitnun lýkur. (Hér fyrir neðan má hlusta á Carl Sagan lesa upp þessa frábæru hugvekju – innskot ritstjóra vefs Siðmenntar)

Hugsið jafn vel um Móður Jörð eins og þið hugsið um ykkar eigið heimili á Móður Jörð. Munið, við höfum öll áhrif og getum breytt heiminum með því að byrja á okkur sjálfum. Margt smátt gerir eitt stórt. Ef við göngum undan með góðu fordæmi verða brátt flestir, ef ekki allir, með okkur í liði.

Ekki láta neinn draga úr ykkur neistann. Gefist aldrei upp. Verið besta útgáfan af sjálfum ykkur. Þið eruð öll uppfull af hæfileikum. Nýtið þá og látið drauma ykkar rætast!

Takk fyrir mig, eigið stórkostlegan dag og vegni ykkur vel í næstu hringferðum ykkar um sólina!

Sævar Helgi Bragason

Borgaraleg ferming 2016 í Kópavogi – ræða

Ræða sem Alma Ýr Ingólfsdóttir, mannréttindalögfræðingur, flutti við borgaralega fermingu í Salnum í Kópavogi 10. apríl 2016.

Alma Ýr Ingólfsdóttir ræðumaður 10 apríl 2016
Alma Ýr Ingólfsdóttir

Kæru fermingabörn, fjölskyldur og vinir.

Innilega til hamingju með daginn.

Ég er afskaplega þakklát fyrir að fá að vera hérna með ykkur á þessum merku tímamótum. Ég hélt ég myndi vakna daginn eftir fermingu sem miklu þroskaðri kona, eiginlega bara mjög fullorðin. Það varð ekki raunin, það gerist nefnilega ekki á einum sólarhring. Í sumar fagna ég fagna tuttugu og fjögurra ára fermingarafmæli og fannst þess vegna kjörið að líta yfir fermingarmyndaalbúmið á meðan ég ritaði þessi orð. Satt best að segja lít ég út eins og ég sé amma mín, nema bara með teina, í alltof stórum frakka. Ég passaði mig meðvitað að brosa ekki og ég held það sé til ein mynd af mér brosandi. Einhver hafði nefnilega sagt mér að ef ég myndi brosa þá myndi það eyðileggja myndirnar, ég auðvitað trúði því í einfeldni minni. Ég bið ykkur því, kæru fermingabörn að brosa ykkar blíðasta í dag og alla aðra daga.

Á þessum tíma þótti ég ekkert sérstaklega töff. Ég var há og ofboðslega grönn og stundaði íþróttir og námið af kappi, það þótti frekar hallærislegt og þykir mér það enn í dag frekar óskiljanlegt. Hvað var eða er svona hallærislegt við það? Blessunarlega tókst mér þó að standa með sjálfri mér og hef eftir mesta megni reynt að láta drauma mína rætast, sumir hafa ræst og aðrir ekki, en ég er ekki hætt. Eru orð mín því til ykkar, ekki láta neitt stoppa ykkur í því að ná markmiðum ykkar.

Þegar ég horfir yfir glæsilegan hóp eins og ykkar, komandi kynslóð, þá spyr ég mig hvaða ráðleggingar eða viskuorð get ég gefið ykkur? Ég gæti vissulega þulið upp alls konar heilræði eða fullorðinsleg “gáfuorð”, en hver gætu þau verið? Virðing og jafnrétti er mér hugleikið, þá á ég ekki einungis við jafnrétti milli kynjanna, heldur í sinni víðtækustu mynd. Við fæðumst öll jöfn, einstök en um leið misjöfn, með mismunandi hlutverk og við mismunandi aðstæður. Þess vegna eru samfélög mismunandi, með mismunandi menningu, trúarbrögð, þjóðerni, einstaklingar með mismunandi litarhaft, kynhneigð, kynvitund, einstaklingar með fötlun og svo lengi mætti telja. Það gerir samt ekki eitt samfélag merkilegra en annað. Það veitir okkur ekki þann rétt að gera lítið úr öðrum.

Fyrir mér er fjölbreytileikinn svo fallegur, ég held að hann geri okkur að betri einstaklingum þar sem við þurfum að geta sett okkur í spor annarra og virt aðra eins og þeir eru. En af hverju erum við svo föst í því að skilgreina okkur sem venjuleg og aðra sem ekki falla undir “normið” öðruvísi og stundum afbrigðileg? Við á Íslandi tilheyrum vissulega forréttindahópi. Hér ríkir ekki stríðsástand, við þurfum ekki að flýja heimili okkar eða hræðast það að missa fjölskyldumeðlimi vegna árása. Við þurfum heldur ekki að hafa áhyggjur af því að fá ekki hreint vatn eða verða limlest. Vissulega eru aðstæður á Íslandi þannig að sumir búa við verri aðstæður en aðrir, en ég held að við séum samt svo fljót að gleyma því hvað við höfum það í heildina gott. Við erum frekar á þeim stað að hafa áhyggjur af því að einhver eigi flottari síma eða sjónvarp en við sjálf.

Ég er á því að upplifanir, reynsla og mótlæti sé jafn mikilvægur skóli og menntun sem við fáum eða kjósum okkur. Af því að ég fór að tala um fjölbreytileikann, þá langar mig að halda áfram að tala um eigin upplifanir og reynslu. Eins og ég sagði áðan þá þótti ég ekki “töff” unglingur, a.m.k. ekki í grunnskóla. Ég fann mig mjög vel í menntaskóla og kynntist fólki eins “mér”, naut mín til hins ítrasta og get ég fullyrt að þetta var einn besti tími lífs míns. Á þessum tíma var ég ekki mikið að spá í hvernig fólk í minnihlutahópum hefði það, ég var allt of upptekin við að verða skotin, fara í sleik og njóta. Það situr mjög í mér atvik þar sem ég var stödd í íþróttatíma og kennarinn lét okkur lesa grein um mann sem hafði misst báðar fætur vegna steranotkunar. Ég hugsaði með mér að frekar myndi ég vilja deyja en að missa báðar fætur, líf þessa manns hlyti að vera ömurlegt, aumingja hann, fannst þetta nánast ógeðslegt ég var svo sjokkeruð. Hálfu ári seinna vakna ég á gjörgæslu við það að yfirlæknir deildarinnar er að segja mér að til þess að bjarga lífi mínu yrði að taka af mér báðar fætur fyrir neðan hné. Í morfín vímu gaf ég honum þumalinn – “let´s do it”. Tveimur vikum seinna var ég aftur vakin og mér tjáð að núna væri búið að fjarlægja báðar fætur og framundan væri ströng endurhæfing. Eina sem kom upp í hugann minn var að nú hefði karma bitið mig illilega í rassinn vegna hugsana minna í garð mannsins sem ofnotaði stera. Hvernig á ég að geta lifað eðlilegu lífi? Hvað eru gervifætur og hvernig í ósköpunum virka þeir? Er þetta hægt? Hvað á fólki eftir að finnast um þetta? Mun ég ganga út? Þetta voru fyrstu vangaveltur mínar. Ég hitti svo mann sem var alveg eins og ég, að vísu eldri en pabbi, en hann var samt eins og ég og voru hans ráð þau ráð sem ég hef enn að leiðarljósi, að gefast ekki upp.

Mig langaði heldur ekkert að gefast upp, mig langaði að klára námið mitt, vera með vinum og fjölskyldu, leika mér, njóta og lifa. Upp frá þessu hef ég gert allt til þess að gera það. Einu hindranirnar sem ég hef upplifað eru fordómar sem finnast í samfélaginu. Ég tilheyri nefnilega ekki því sem við skilgreinum sem norm. Ég þyki nefnilega ekki venjuleg. En hvað er að vera venjulegur? Þá þyki ég heldur ekki eðlileg. Ég veit heldur ekki hvað það er að vera eðlilegur.

Við, samfélagið okkar og samfélög um allan heim erum nefnilega búin að ákveða hvað það er að vera venjulegur og eðlilegur, fallegur og aðlaðandi, og fólk eins og ég fellur ekki þar undir. Ég er samt ekki sammála því og vil breyta því viðhorfi. Lengi vel klæddist ég einungis langerma rúllukragabolum af því að ég var svo viss um að fólki finndist ör sem ég er með svo hræðileg. Ég var alltaf að fela mig. Svo einn daginn fékk ég nóg af því, af hverju átti ég að fela mig af því að samfélagið var búið að móta einhverjar staðalmyndir um það hvað væri fallegt og hvað væri það ekki. Staðalmyndir eru nefnilega svo forneskjulegar og byggja á úreldum hugmyndum. Mér finnast þær jafn fáránlegar og hrukkukrem sem eiga að eyða hrukkum á sjö dögum eða að með því að taka inn 1 teskeið af kókosolíu á dag grennist maður svo um muni. Staðalmyndir byggja líka á því að það sé bara til ein tegund af fegurð og ef þú fallir ekki þar undir það þá eigir þú lítið erindi í þetta líf. Nýjasta bólan er svo “bjútí-fílter”, ef þú notar hann ekki á prófíl myndina þína á facebook þá þykir þú ekki eins sætur og færð þar af leiðandi færri “læk”. Samkvæmt þessu ætti ég þá bara að fela mig í einhverjum helli.

En hver var tilgangurinn með þessari reynslusögu minni? Ekki gefast upp. Ekki láta mótlæti og asnalegar staðalmyndir koma í veg fyrir að þú sért þú, gerðu allt til þess að láta markmið og drauma þína rætast. Jafnframt var tilgangurinn sá að fá okkur öll til þess að virða aðra eins og þeir eru, hvernig sem þeir eru, sama hvaða skoðanir þeir hafa, eða hvaðan þeir koma. Umburðarlyndi og virðing gerir okkur einungis að betri manneskjum heldur bætir það samfélagið okkar, viðhorfið okkar verður nefnilega allt annað. Fögnum fjölbreytileikanum af virðingu.

Enn og aftur, til hamingju kæru fermingabörn. Ég óska ykkur alls hins besta og vona að þið eigið dásamlegan dag.

Kærar þakkir fyrir mig.

Alma Ýr Ingólfsdóttir, mannréttindalögfræðingur

Sá einnig:

Námskeið í athafnarstjórnun – Siðmennt óskar eftir nemum af landsbyggðinni

Helgina 14-15. maí mun Siðmennt standa fyrir námskeiði í athafnarstjórnun.

Ljósm. Bragi Þór Jósefsson
Ljósm. Bragi Þór Jósefsson

Áhersla verður lögð á að fá nema á námskeiðið sem búsettir eru á landsbyggðinni því að þar sárvantar athafnarstjóra.  Eftirspurn eftir athafnarstjórum í nafngjafir og sérstaklega giftingar hefur aukist mikið síðustu 2 árin úti á landi.  Giftingar í náttúrufegurð landsins njóta vaxandi vinsælda, bæði meðal Íslendinga og erlendra para.  Það vantar athafnarstjóra í alla landsfjórðunga.

Þátttökuskilyrði. Til þess að koma til greina sem nemi í athafnarstjórnun hjá Siðmennt þarf umsækjandi að hafa náð 25 ára aldri og:

  • Eiga samleið í lífsskoðunum með félaginu (sjá stefnuskrá Siðmenntar).
  • Hafa áhuga á athöfnum, mannlegum samskiptum og því að gera athafnardag fólks eftirminnilegan.
  • Búa yfir reynslu í því að koma fram og halda ræður/fyrirlestra.  Skýrmælgi og opna tjáningu.
  • Geta ritað gott mál og skipulegan texta með heimspekilegri nálgun og andríki.
  • Búa yfir sjálfstrausti, hlýleika, yfirvegun, snyrtimennsku, þolinmæði, staðfestu, sveigjanleika og frumkvæði.

Þá er kunnátta í tungumálum (a.m.k. ensku) æskileg.  Fleiri atriði eiga við en þau eru rædd nánar við umsækjendur eftir fyrirspurn/umsókn.

Námskeiðið er í tveimur hlutum:

  1. Fjarkennsla í 4 vikur.  Lesefni vikulega og eitt ritverkefni.  Hefst 17. apríl. (má hefjast viku síðar ef nauðsyn ber til).
  2. Námskeið helgina 14-15. maí.  Viðvera 09-16 báða dagana.  Staðsetning líklega á höfuðborgarsvæðinu. Umsækjendur af landsbyggðinnni fá greiddan ferðakostnað.

Námskeiðsgjald er 0 kr.  Að loknu námskeiði er ákveðin þjálfun sem þarf að uppfylla áður en vígsluleyfi fæst fyrir giftingar.  Ábyrgðarmaður athafna Siðmenntar er Jóhann Björnsson, formaður félagsins.

Námskeiðið beinist aðallega að því að kenna athafnarstjórnun við nafngjafir og giftingar.  Athafnarstjórnun við útfarir er einnig kennd en ekki er ætlast til að athafnarstjóraefni taki þær að sér eftir námskeiðið. Athafnarstjórar Siðmenntar eiga þess einnig kost að stýra athöfnum borgaralegrar fermingar.

Umsóknir (með nafni, kt., heimilisfangi og síma) óskast sem fyrst eða í síðasta lagi 16. apríl.  (undanþágu frá fresti má skoða til 10. maí).  Þær skal senda á athafnir@sidmennt.is

Fagstjóri athafnaþjónustu Siðmenntar og umsjónarkennari námskeiðsins er Svanur Sigurbjörnsson.

Framkvæmdastjóri Siðmenntar og rekstrarstjóri athafnaþjónustunnar er Bjarni Jónsson.

Nánari upplýsingar má fá með sendingu fyrirspurnar til Svans/Bjarna á athafnir@sidmennt.is