Alþýðufylkingin styður jafnrétti lífsskoðana en hefur ekki tekið afstöðu um aðskilnað ríkis og kirkju

Siðmennt sendi öllum framboðum til Alþingis fimm spurningar og óskaði eftir afstöðu þeirra. Svörin verða birt á næstu dögum í þeirri röð sem þau bárust.

Spurningarnar snúa að veraldlegu samfélagi og nauðsynlegt að kjósendur geti áttað sig á afstöðu framboðanna.

althydufylkingin

Styður framboðið aðskilnað ríkis og kirkju?

SV: Alþýðufylkingin styður jafnrétti allra lífsskoðana. Í því felst að minnsta kosti að Þjóðkirkjan njóti ekki forréttinda umfram önnur trúfélög. Bein krafa um fullan aðskilnað er þó ekki í stefnu Af.

Mun framboðið beita sér fyrir því að á næsta kjörtímabili verði hafinn undirbúningur að ferli sem ljúki með aðskilnaði ríkis og kirkju?

SV: Sjá sp. 1: Þótt flokkurinn sem slíkur geri ekki beina kröfu um aðskilnað, mundu a.m.k. sumir fulltrúar hans gera það í krafti samviskufrelsis.

Styður framboðið skráningu trúar- og lífsskoðanir almennings?

SV: Alþýðufylkingin hefur ekki beina stefnu í því máli, enda er opinber skráning nátengd utanumhaldi ríkisins um þjóðkirkjunnar. Við mundum fyrst beita okkur fyrir fullkomnu jafnrétti allra lífsskoðana.

Mun framboðið beita sér fyrir því að þau sem standa utan trúfélaga verði undanþegin svokölluðum sóknargjöldum?

SV: Já, þar sem það er mismunun vegna lífsskoðana.

Mun framboðið að beita sér fyrir því að afnema lagaskyldu (lög nr. 35/1970) um að sveitarfélögum sé skylt að sjá trúfélögum fyrir ókeypis lóðum og ívilnunum tengdum því?

SV: Já, þar sem það er mismunun vegna lífsskoðana.

 

Frá Siðmennt:

Sumar spurningarnar gætu virst léttvægar en falla í þann flokk sem við getum kallað „frelsis“ málefni. Þó þau skori ekki hátt í áherslum kjósenda eins og t.d. heilbrigðismál og skólamál þá eru margir sem telja þau þrátt fyrir það mikilvæg. Fólk samsamar sig viðhorfum framboðanna og mátar sig við þau.

Það skal tekið fram að Siðmennt tekur ekki afstöðu til einstakra flokka eða frambjóðenda

Píratar styðja aðskilnað ríkis og kirkju

Siðmennt sendi öllum framboðum til Alþingis fimm spurningar og óskaði eftir afstöðu þeirra. Svörin verða birt á næstu dögum í þeirri röð sem þau bárust.

Spurningarnar snúa að veraldlegu samfélagi og nauðsynlegt að kjósendur geti áttað sig á afstöðu framboðanna.

piratar

Styður framboðið aðskilnað ríkis og kirkju?

Já.
Þetta er samþykkt stefna Pírata:

Stefna ber að fullum og algjörum aðskilnaði ríkis og kirkju og jafnri stöðu allra trúar- og lífsskoðunarfélaga. Um Þjóðkirkjuna gildi sömu lög og reglur og um önnur trúar- og lífsskoðunarfélög.

Mun framboðið beita sér fyrir því að á næsta kjörtímabili verði hafinn undirbúningur að ferli sem ljúki með aðskilnaði ríkis og kirkju?

Já.

Það þarf að endurskoða samninginn sem ríkið gerði um kirkjujarðir með tilliti til hvort hann sé sanngjarn og eðlilegur um þær eignir sem um er að ræða. Einnig þarf að skoða hvort betra væri að greiðslur ríkisins væru skilgreindar sem afborganir frekar en afnot.

Miðað við þróun á lífsskoðunum almennings og viðhorfi til kirkjumála er ekki ólíklegt að í náinni framtíð muni þjóðaratkvæðagreiðsla samþykkja aðskilnað ríkis og kirkju. Það er því ekki óskynsamlegt fyrir ríkið að búa sig undir það.

Styður framboðið skráningu trúar- og lífsskoðanir almennings?

Höfum ekki mótað stefnu um hvort ríkið fylgist með þróun trúmála eða skrái einstaklinga, það er þó grundvallar munur á því að skrásetja einstaklinga og fylgjast með almennri þróun íslensku þjóðarinnar með könnunum.

Ef ríkið innheimtir ekki sóknargjöld er ekki sérstök ástæða til að fylgjast með trúarskoðunum einstaklinga. Lýðrannsóknir geta svarað spurningum um hvernig trúhneigð Íslendinga þróast.

Mun framboðið beita sér fyrir því að þau sem standa utan trúfélaga verði undanþegin svokölluðum sóknargjöldum?

Já.

Mun framboðið að beita sér fyrir því að afnema lagaskyldu (lög nr. 35/1970) um að sveitarfélögum sé skylt að sjá trúfélögum fyrir ókeypis lóðum og ívilnunum tengdum því?

Já. Píratar hafa lagt fram frumvarp þess efnis nú þegar. Meðan lögin skylda sveitarfélög til að úthluta trúfélögum lóðir verður að fara eftir þeim, en það er óeðlilegt að gefa trúfélögum lóðir ókeypis þegar almennur skortur er á íbúðarhúsnæði.

 

Frá Siðmennt:

Sumar spurningarnar gætu virst léttvægar en falla í þann flokk sem við getum kallað „frelsis“ málefni. Þó þau skori ekki hátt í áherslum kjósenda eins og t.d. heilbrigðismál og skólamál þá eru margir sem telja þau þrátt fyrir það mikilvæg. Fólk samsamar sig viðhorfum framboðanna og mátar sig við þau.

Það skal tekið fram að Siðmennt tekur ekki afstöðu til einstakra flokka eða frambjóðenda.

Upptaka af málþingi um tjáningarfrelsið

Kennarar eiga sem fagmenn að forðast hatursorðræðu

Siðmennt hélt málþing á Akureyri 1. október s.l. þar sem rætt var um tjáningarfrelsið og hvar væru mörk hatursorðræðu. Rætt var meðal annars um hvort takmarka ætti tjáningarfrelsi opinberra starfsmanna og sérstaklega var rætt um kennara í því samhengi.

Frummælendur voru Jóhann Björnsson kennari og formaður Siðmenntar, Dr. Sigrún Sveinbjörnsdóttir prófessor við H.A. og Dr. Sigurður Kristinsson prófessor við H.A. Fundarstjóri var Dr. Sigrún Stefánsdóttir forseti hug- og félagsvísindasviðs H.A.

Upptaka af málþingi um tjáningarfrelsið

Inngangserindi Jóhanns Björnssonar heitir „Þegar kennarinn kennir sjálfan sig – Eru hommar, húmanistar og trúboðar í skólum landsins?“

Ræddi Jóhann ýmis umdeild mál sem kennarar hafa tjáð sig opinberlega um, s.s. málefni innflytjenda og samkynhneigðra. Auk þess skoðaði hann stöðu stjórnmálamanna og forstöðumanna trúar- og lífsskoðunarfélaga sem jafnframt starfa sem kennarar.

Sigrún Sveinbjörnsdóttir flutti erindið „Sjálfsmynd barna og unglinga í mótun – orð og ábyrgð kennara.“ Gerði hún grein fyrir rannsókn þar sem lífsánægja hinsegin unglinga var skoðuð. Þar kemur m.a. í ljós að unglingar sem skilgreina sig sem hinsegin hafa minni lífsánægju en aðrir unglingar og heilsa þeirra er almennt lakari. Viðhorf hinsegin unglinga til skólans er einnig neikvæðara en annarra unglinga og upplifa þeir oftar að kennarar viðurkenni þá ekki eins og þeir eru.

Sigurður Kristinsson nefndi erindi sitt „Tjáningarfrelsi og ábyrgð fagstétta.“

Hann ræddi um tjáningarfrelsið og mögulegar takmarkanir þess, hatursorðræðu, frelsi og fagmennsku.

Málþingið var vel sótt og tóku fjölmargir þátt í almennum umræðum að loknum framsöguerindum.

sidmenntakureyri-53

sidmenntakureyri-54

Málþing á Akureyri um tjáningarfrelsið

Á maður að segja allt sem maður má segja? – Hver eru mörk tjáningarfrelsis í skólastarfi?“

Laugardaginn 1. október heldur Siðmennt málþing um tjáningarfrelsið á Hótel KEA kl. 11:00-13:00.

Skráning á málþingið á Facebook

attractive young man with mouth and lips sealed on tape to prevent from speaking free keeping him mute and censored in freedom of speech and expression concept
Upptaka af málþinginu

Umræða um tjáningarfrelsið hefur aukist á undanförnum árum. Áleitnar spurningar hafa vaknað um frelsi fólks til að tjá sig:

  • Hvar liggja mörk tjáningarfrelsisins?
  • Hvenær er tjáning hatursorðræða?
  • Geta opinberir starfsmenn sagt allt það sem þeim liggur á hjarta utan vinnutíma? Svo sem á eigin Facebook síðu, bloggi eða í fjölmiðlum?
  • Er hægt að takmarka á tjáningarfrelsi opinberra starfsmanna?
  • Á maður að segja allt sem maður má segja?

 Siðmennt boðar til málþings til að ræða meðal annars þessar spurningar.

 Þrír frummælendur munu flytja stutt erindi en síðan verður boðið upp á pallborðsumræður og tekið á móti spurningum fundargesta.

Frummælendur:

Jóhann Björnsson, heimspekingur, kennari og formaður Siðmenntar.
Erindi: „Þegar kennarinn kennir sjálfan sig – Eru hommar, húmanistar og trúboðar í skólum landsins?“

Sigrún Sveinbjörnsdóttir, prófessor í sálfræði við félags- og hugvísindasvið Háskólans á Akureyri.
Erindi: „Sjálfsmynd barna og unglinga í mótun – orð og ábyrgð kennara.“

Sigurður Kristinsson er prófessor í heimspeki við hug- og félagsvísindasvið Háskólans á Akureyri.
Erindi: „Tjáningarfrelsi og ábyrgð fagstétta.“

Fundarstjóri:

Dr. Sigrún Stefánsdóttir, forseti hug- og félagsvísindasviðs Háskólans á Akureyri. 

Nánar um frummælendur og fundarstjóra:

Jóhann-Björnsson-400Jóhann Björnsson
Jóhann Björnsson er BA í heimspeki frá Háskóla íslands. MA í heimspeki frá Katholieke Universiteit Leuven í Belgíu, Kennsluréttindi frá Háskóla íslands. Jóhann hefur stundað kennslu í grunnskóla og í fullorðinsfræðslu undanfarin ár.

Jóhann hefur verið formaður Siðmenntar frá febrúar 2015 en setið í stjórn síðan 1997. Hann hefur kennt á undirbúningsnámskeiðum fyrir borgaralega fermingu frá 1997 ásamt því að vera kennslustjóri námskeiðanna.

___

sigrun-sveinbjornsdottirSigrún Sveinbjörnsdóttir
Sigrún Sveinbjörnsdóttir er prófessor í sálfræði við félags- og hugvísindasvið Háskólans á Akureyri.

Rannsóknir hennar snúa að málefnum unglinga, hvernig þau spjara sig – og hefur m.a. þróað kvarða til að meta spjörunaraðferðir unglinga.

Sigrún hefur verið hluti af rannsóknarteyminu „Heilsa og lífskjör skólabarna“ frá 2005 (sjá www.hbsc.org ) sem er alþjóðlegt rannsóknarsamstarf undir væng Evrópudeildar WHO. Þáttur hennar þar hefur verið að skoða líðan og ýmiss konar viðhorf og aðstæður hinsegin unglinga  og er með upplýsingar frá fyrirlögnum 2006, 2010 og 2014 – en tæp 90% allra unglinga á landinu svara spurningalistum á fjögurra ára fresti. Á þessum gögnum byggir Sigrún erindi sitt.

___

sigurdur-kristinssonSigurður Kristinsson
Sigurður Kristinsson er prófessor í heimspeki við hug- og félagsvísindasvið Háskólans á Akureyri.

Hann lauk doktorsprófi í heimspeki frá Cornell háskóla 1996 og hefur kennt við Háskólann á Akureyri frá árinu 2000.

Helstu sérsvið rannsókna hans eru siðfræði, siðfræðileg sálarfræði og stjórnmálaheimspeki. Hann hefur m.a. lagt stund á siðfræði starfsgreina og er höfundur bókarinnar Siðareglur, sem út kom hjá Siðfræðistofnun árið 1991.

___

sigrun-stefansdottir

Sigrún Stefánsdóttir

Dr. Sigrún Stefánsdóttir er forseti hug- og félagsvísindasviðs Háskólans á Akureyri. Hún er fjölmiðlafræðingur að mennt og hefur komið víða við m.a. sem fréttamaður hjá RÚV og verið kennari  á háskólastigi í fræðum tengdum fjölmiðlum. Sigrún er fædd og uppalin á Akureyri.