Skráðir í Þjóðkirkjunni undir 70%

Þeim sem skráðir eru í Þjóðkirkjunni hefur fækkað úr 90% í 69.89% á aðeins 20 árum. Þessi þróun hefur verið hröð þrátt fyrir að sjálfkrafa skráningu ungbarna fram til 2013. Árið 1998 var mannfjöldi á Íslandi 272.381 og skráðir í kirkjuna voru 244.893 en árið 2017 eru landsmenn orðnir 338.349 og skráðir í kirkjuna 236.481.

Árið 2013 var gerð breyting á lögum um skráningu og þurfa nú báðir foreldrar að vera í sama trú- eða lífsskoðunarfélagi svo barnið skráist sjálfkrafa. Siðmennt telur að þessu þurfi að breyta þannig að til þurfi eigið frumkvæði eða í tilfelli barna að foreldrar taki upplýsta ákvörðun t.d. með skírn eða annarri skráningu.

Í Siðmennt eru nú skráðir hjá Þjóðskrá 1.769 sem er 0.53% af landsmönnum en að auki eru 150 sem aðeins eru skráðir hjá félaginu. Samtals eru því 1.919 í Siðmennt!

Zuistum fækkar úr 3.087 (0.93%) í 2.845 (0.84%). Rétt er að vekja athygli á að á síðasta ári var skráð nýtt félag – DíaMat – félag um díalektíska efnishyggju sem hefur 23 skráða félagsmenn.

Þeir sem velja að standa utan allra félaga heldur áfram að fjölga og eru nú 20.500 en voru árið 1998 5.591 talsins. Þeir sem tilheyra flokkuninni “önnur trúfélög og ótilgreint” hefur á sama tíma fjölgað úr 3.539 í 31.021.

Húmanistar fagna afnámi guðlastlaga hjá SÞ

 

The International Humanist and Ethical Union (IHEU) flutti í dag mál fyrir mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna þegar tekin var fyrir „Universal Period Review“ (UPR) skýrsla um mannréttindi á Íslandi. Málflutningur IHEU var í samvinnu við Siðmennt og European Humanist Federation.

Í yfirlýsingu sinni minnti Elizabeth O’Casey, fulltrúi IHEU, á að „lög um guðlast verndaði hugmyndir en ekki fólk og með því eru þau ógnun við grundvallar mannréttindi“.

Hún tók einnig undir skoðun Siðmenntar að það væri nauðsyn á stofnun þjóðbundinnar mannréttindaskrifstofu á Íslandi sem byggði á starfi Mannréttindaskrifstofu Íslands sem Siðmennt væri aðili að.

Í fréttatilkynningu frá IHEU í dag segir Bjarni Jónsson, framkvæmdastjóri Siðmenntar:

„Afnám guðlastlaganna á Íslandi var stórt skref til að styrkja tjáningarfrelsi fólks. Lagagrein var vissulega ekki mikið notuð en við sjáum þó dæmi um að hún hafi verið notuð hér á landi en einnig í Evrópu. Skoðanir og jafnvel trúarskoðanir á að vera hægt að gagnrýna, án þess að eiga hættu á að fólk verði dæmt fyrir, því það er hluti lýðræðislegra samfélagsumræðu sem er öllum nauðsynleg.

Mikil samstaða náðist á þingi Íslendinga um að afnema lögin m.a. til að beina sjónum að grundvallar mannréttindum allra. Með því að nefna afnámið í tengslum við UPR skýrslu um Ísland er verið að draga athygli að nauðsyn þess að allir hafi réttinn til að tjá sig óháð hvar þeir búa.

Yfirlýsinguna í heild má lesa í meðfylgjandi frétt.

At UN, Humanists commend Iceland on abolition of blasphemy law

Eitt hundraðasta athöfnin!

Steinar Harðarson hefur náð þeim merka áfanga að hafa verið úthlutað eitt hundruðustu athöfn sinni sem athafnarstjóri Siðmenntar. Hann er því reynslumesti athafnarstjóri félagsins en 40 konur og karlar sinna þessu mikilvæga starfi. Á meðfylgjandi mynd er Steinar að stjórna giftingu sumarið 2016 við Hvaleyrarvatn.

Steinar var í hópi fyrstu félagsmanna Siðmenntar sem sóttu námskeið í athafnastjórnun síðla árs 2007. Hann hefur sinnt flestum nafngjöfum allra, verið öflugur við giftingar en einnig þjónustað flestar útfarir á vegum Siðmenntar. Það er mikilvægt fyrir Siðmennt að hafa slíkan dugnaðarfork á sínum snærum sem nýtur trausts og álits þeirra sem hann hefur þjónað.

Á tímabilinu frá 2007-2017 eru skráðar 838 athafnir sem Siðmennt hefur sinnt og hefur farið hratt fjölgandi. Það sem einkennir athafnirnar er að þær eru veraldlegar, persónulegar, fallegar og miðast við óskir þeirra sem til félagsins leita. Ekki er spurt um trú eða lífsskoðun, kynhneigð eða litarhátt heldur er verið þjónusta fólk.

Stjórn Siðmenntar óskar Steinari til hamingju.