Tökum þátt í Vísindagöngunni 22. apríl

Siðmennt hvetur alla til þátttöku í Vísindagöngunni 22. apríl, sem hefst kl. 13:00 frá Hallgrímstorgi og styðja við markmið göngunnar sem er að „ sýna vísindafólki samstöðu og um leið fagna vísindum sem mikilvægri stoð í lýðræðislegu samfélagi.“

Í stefnuskrá Siðmenntar segir:

Siðmennt telur að uppgötvanir í vísindum og nýjungar í tækni geti stuðlað að betra lífi. Þróun siðferðis þarf að vaxa jöfnum skrefum með þróun vísinda og þau þarf að nota til uppbyggingar en ekki niðurrifs og eyðileggingar. Húmanisminn tekur mið af því að áreiðanleg þekking um okkur sjálf og heiminn verði til við stöðugt ferli athugunar, rannsóknar og endurskoðunar. Vísindin gefa okkur aðferðir og tæki, en mannleg siðferðisgildi verða að vísa leiðina.

Ræða Karitasar Hörpu Davíðsdóttur við fermingarathöfn 8. apríl á Selfossi

 

Góðan dag og gleðilega hátíð.

Þvílíkur heiður, og á sama tíma ábyrgð, að fá að ávarpa ykkur á þessum degi. Eftir að hafa skoðað undanfara mína ætla ég heldur ekki að ljúga, ég er ekki alveg laus við að finna smá pressu.

Um hvað talar maður fyrir svona flottan hóp á þessum tímamótum lífs ykkar? Ég gæti talað svo lengi hérna um svo margt, hve misjöfn við öll erum en hver flott við erum og hundrað prósent nóg eins og við erum. Ég segi „við“ því ég þarf reglulega að minna mig á það sjálf. Hvað það er mikilvægt að vera maður sjálfur. Hvað það er mikilvægt að vera meðvitaður um umhverfi sitt, samfélag og geta nýtt gagnrýna hugsun í sem flestu. Hvað þið eigið mikið framtíðina fyrir ykkur og spennandi tíma framundan. Þó ætla ég að reyna að halda mig við eitt efni í dag.

Þið eruð að koma inn á erfiða og krefjandi aldur að mörgu leiti, líka dásamlegan að öðru leiti, en ég man sjálf eftir að vera full af efasemdum, sjálfsefa og samanburði á ykkar aldri. Vonandi eruð þið laus við það en ef þið hafið fundið fyrir því, þá eruð þið alls ekki þau einu.

Mig langar aðeins að kynna mig fyrir ykkur. Ég heiti Karitas Harpa, ég geng undir ýmsum titlum. Ég er dóttir, systir, frænka, barnabarn, helst titla ég mig söngkonu og móðir. Mér þykir líklegt að mér hafi verið þetta tækifæri meðal annars vegna þátttöku minni í The Voice fyrr í vetur.

Fyrir ykkur sem hinsvegar kannist ekki við mig, þá langar mig að segja ykkur aðeins frá sjálfri mér. Ég heiti, eins og áður sagt, Karitas Harpa. Ég er 26 ára gömul. Ég er einstæð móðir. Ég bý á Selfossi. Ég á tvö systkini. Ég starfa að hluta í félagsmiðstöðinni á svæðinu ásamt því að vera kennari og leiðbeinandi í tónlist fyrir börn á grunnskólaaldri.

Ég á hund sem heitir Kleina, átti einu sinni kött sem hét Pepsi Max og sonur minn heitir einmitt Kavíar (djók)

Ég hef alltaf haft gaman af því að syngja, alveg síðan ég var pínulítil en lengst af gerði ég það sem áhugamál eingöngu. Ekki af því að ég gæti ekki gert það af fullu, ekki af því ég hefði ekki hæfileikana, heldur hafði ég ekki nægilega trú á sjálfri mér. Ég reyndi í mörg ár að hugsa mér, finna og prófa mismunandi vinnur, nám og þess háttar sem þóttu raunhæfari en endaði alltaf á því að leita aftur í sönginn.

Nú smá pása frá sjálfri mér

Hversu margir hérna hafa lesið Harry Potter? Konan sem skrifaði þær bækur, bjó til söguna frá upphafi til enda, heitir J.K.Rowling. Henni var neitað af ekki einu, ekki tveimur heldur 12 útgáfufyrirtækjum áður en eitt lítið og þá lítið þekkt fyrirtæki sagði „já“ við að gefa fyrstu bókina út. Þá var hún orðin 32 ára. Hún var ekki gefin út í mörgum upplögum, 1000 held ég að talan hafi verið og helmingur þeirra fór á bókasöfn, svo aðeins 500 fóru í almenna sölu til að byrja með. Í dag er hún einn frægasti rithöfundur heims.

Er einhver hér sem æfir körfubolta? Michael Jordan, sem var eins og Lebron James þegar foreldrar ykkar voru ung (Jordans skórnir heita eftir honum) sagði einu sinni: „Ég hef misst meira en 9000 skot á ferli mínum. Ég hef tapað næstum 300 leikjum. Í 26 skipti hefur mér verið treyst fyrir því að skora vinningsskotið en mistekist. Mér hefur mistekist aftur og aftur í lífi mínu. (Og það er ástæðan fyrir velgengni minni)“

Fyrsta plata Katy Perry seldist í mjög fáum eintökum og var henni sagt upp af þónokkrum plötufyrirtækjum áður en hún „meikaði“ það og Walt Disney var sagt að hann hefði ekki nægilegt ímyndunarafl og rekinn úr vinnu sinni þá.

Þetta eru bara örfá dæmi, en með þessu er ég að reyna að segja að við sjáum fólk þegar það hefur náð langt í því sem það gerir en við heyrum ekki hvernig líf þeirra var áður en þau urðu fræg fyrr en einmitt, þau eru orðin fræg. Við vitum eiginlega ekkert hver neinn er fyrr en hann er orðinn „frægur“. Við fáum ekkert að fylgjast með ferli manneskju, sjáum ekki hversu margar æfingar manneskja fór á, söng á mörgum tónleikum eða las margar bækur heima.

Það sem allt þetta fólk á sameiginlegt er að þau gáfust ekki upp þegar hlutir gengu ekki upp í fyrsta, annað eða einu sinni þriðja skiptið. Þetta fólk er með alveg jafn marga klukkutíma í sínum sólahring og við hin, spurningin er bara hvernig við nýtum okkar sólahring.

Ég held að í fyrsta skiptið sem ég tók þátt í einhverskonar framkomu keppni var í 7. bekk í undankeppni stóru Upplestrarkeppnarinnar þá í Breiðholtsskóla. Ég vann ekki. Ég tók þátt í ótal stórum söngkeppnum sem mér stóð til boða í grunnskóla og framhaldsskóla, ég vann þær ekki – komst ekki einu sinni áfram í Söngkeppni Samfés né Söngkeppni Framhaldsskólanna. Ég tók meira að segja þátt í fyrstu seríu Ísland got talent, þið megið giska ég vann ekki. Ég hef sungið á óteljandi tónleikum og uppákomum en aldrei verið eitthvað „nafn“.

Það sem ég er að reyna að segja með þessu er einmitt, ég gafst ekki upp. Ég hélt áfram að koma fram þegar ég gat, ég fór í söngtíma, ég hélt áfram að taka þátt í keppnum, tók þátt í leikritum og söngleikjum í skóla, hélt áfram að vinna að því að bæta mig í mínu. Á tímabili var ég svo sviðshrædd að ég jarmaði meira á sviðinu heldur en ég söng á, ég hugsaði að best væri að hætta við að reyna einu sinni, finna mér eitthvað „raunhæfara“ en eftir að prófa líka allskonar mismunandi hluti, vinnur, nám og fleira er það söngurinn sem hefur alltaf veitt mér svo mikla gleði, ég hef alltaf elskað að syngja og í raun alltaf viljað vinna við það, svo ég ákvað að gefa mér tækifæri, ég ákvað gefa mér það að vera sú sem hafði trú á mér, ég ákvað að reyna af fullum krafti og leyfa mér ekki að gefast upp svo ég hélt áfram.

Síðasta sumar ákvað ég að taka þátt í The Voice og fara í það af alvöru, prófa að leyfa mér að reyna að láta draum minn verða að veruleika. Ég setti mér markmið, mörg lítil markmið. Áheyrnaprufur, battle, live.

Ég er að vona að þið eigið ykkur áhugamál, jafnvel draum. Ef þið eruð ekki búin að finna hann, hafið þið nægan af tíma til þess. Sjáiði hann fyrir ykkur, ímyndið ykkur og hugsið ykkur drauminn uppfylltan og finnið leiðir til að setja ykkur minni markmið til að ná því stóra. Það sem ég vona innilega er að þið finnið ykkur eitthvað sem veitir ykkur gleði og ánægju, hvort sem það sé tónlist, bóklegt nám, íþróttir, verkfræði, stærðfræði, náttúrufræði, handmennt, smíði eða hvað svo sem ykkur dettur í hug og vinnið að því, ræktið það. Missið ekki trú á ykkur sjálfum.

(Side note. Það sem er samt engu síður mikilvægt sem mig langar til að koma fram er hve stóru máli það skiptir að vera almennileg manneskja. Koma vel fram við fólk, allt fólk. Það skilar sér, það geislar af þér hvernig manneskja þú ert, vertu einlæg, vertu trú/r sjálfri þér, hlustaðu á röddina inni í þér sem maður hunsar alltof oft. Það sem í raun færði mér sigur í the Voice, eða voru öllu heldur bestu verðlaunin, alveg burt séð frá titlinum sjálfurm. Var vinskapurinn sem ég hafði myndað, vinnufélagar sem ég hafði lagt grunn fyrir og er að byggja ofan á í dag eftir keppnina, og vellíðanin sem fylgdi því að ég vissi að ég hafði gert mitt allra besta, verið besta útgáfan af sjálfri mér og meira gat ég ekki gert. Ég var sátt hvernig sem færi.)

Ég ætla sem sagt ekki að segja ykkur að þið getið gert allt sem þið viljið, það er bara því miður ekki nóg að vilja, HELDUR vil ég segja ykkur að þið getið gert ALLT sem þið eruð tilbúin að vinna fyrir.

Við lifum á svo miklum tækni tímum og tímum mikils hraða, ef við viljum horfa á eitthvað þá downloadum við því, langi okkur í nýju peysuna sem við sáum Kim K í eða skónna frá Kylie og Kendall eða þið skiljið, hoppum við á netið, pöntum, borgum og fáum liggur við daginn eftir svo það er auðvelt að detta í að allir hlutir eigi að gerast hratt en því miður og sem betur fer er það ekki þannig með velgengni. Það eru nefnilega engin leyndarmál að velgengni. Hún er afleiðing af undirbúningi, mikilli vinnu og að læra af mistökunum Tilfinningin sem þið síðan fáið þegar þið leggið ykkur fram við að ná einhverju og náið því svo, er svo góð! Þið kannski þekkið það frá því að læra undir próf og fá síðan góða einkunn, æfa íþróttir og æfingar skili afrakstri á mótum eða sýningum. Það verða alltaf nóg af röddum sem efast um hitt og þetta, ekki þið vera þau sem dragið ykkur sjálf niður.

Það koma erfiðir dagar, dagar þar sem manni langar til að gefast upp og finna eitthvað nýtt til að gera eins og ég talaði um áðan, finna sér nýjan draum og það er allt í lagi, bara aldrei gefast upp á sjálfum ykkur. Ekki þið vera þau sem rífið ykkur niður. Heimurinn er nógu harður til að maður snúist ekki gegn sjálfum sér.

Mér finnst alltaf svo gott að hugsa um það að þegar börn læra að labba detta þau svona hundrað sinnum á rassinn, ekki held ég að í eina sekúndu hugsi lítið barn „mjeeehhh kannski er þetta bara ekki fyrir mig“. Þau bara halda áfram að æfa sig þar til þau ná því! Spáið í því ef við hefðum bara hætt við við fyrsta fall…þá myndi bara enginn labba!

Ég er einstæð móðir sem vinnur í því daglega að vera fyrirmynd fyrir son minn, einhver sem hann horfir upp til og sýnir í orði sem og verki að það sé ekki vitleysa að eltast við drauma sína, sem ég svo vona að hann fylgi eftir í framtíð sinni.

Ég veit þið eruð í 8. bekk, eigið nokkur ár eftir af grunnskóla og flest fara í framhaldsskóla, en það er aldrei of snemmt til að byrja að rækta sig og byrja að trúa á það sem þið getið gert og byrja að leggja inn vinnuna.

 

Ræða Þórunnar Ólafsdóttur við fermingarathöfn Siðmenntar í Háskólabíó 2. apríl

 

Í hvert sinn sem ég lít stjörnuhimininn augum hugsa ég um afa minn. Hann kenndi mér að þekkja stjörnurnar og að þekkja og bera virðingu fyrir náttúrunni. Ómetanlegur lærdómur sem mun fylgja mér allt lífið. Hann trúði því á svo einlægan og fallegan hátt að mér væru allir vegir færir.

Svo einlægan, að ég fór að trúa því sjálf. Fyrir það verð ég honum ævinlega þakklát. Þegar afi kvaddi þennan heim var ég stödd í rútu í miðri Sahara eyðimörkinni um niðdimma nótt. Í þykku myrkrinu sem lá yfir eyðimörkinni skinu stjörnurnar skærar en nokkru sinni fyrr.

Ég horfði á stjörnuhimininn, þetta ótrúlega sköpunarverk sem afi hafði kennt mér að þekkja og dáðst að, og hugsaði hversu dýrmætur minnisvarði hann væri. Miklu dýrmætari en nokkur veraldlegur hlutur. Því sama hvar ég er stödd í heiminum, þá þarf ég ekki annað en að líta upp til að sjá undrið sem sjálfur stjörnuhimininn er. Hann minnir mig á afa. En hann minnir mig líka á það sem ég gleymi stundum – að ég get allt sem ég ætla mér.

En ég á ekki þennan stjörnuhimin ein. Þið eigið jafn mikið í honum og við afi. Og restin af heiminum á jafn mikið í honum og við öll. Hann er sameign allra jarðarbúa. Frá upphafi mannkyns hafa verið skapaðar minningar undir þessum sama stjörnuhimni. Hann umlykur staðinn sem er heimili okkar allra og hann hefur mismunandi þýðingu fyrir okkur öll – en munið að hann er okkar allra.

Undir þessum stjörnuhimni búa sjö milljarðar manns. Svo mikill fjöldi, að það krefst umhugsunar hversu mörg núll eiga heima fyrir aftan töluna sjö. En í rauninni skiptir það ekki öllu máli. Því það er okkur ekki hollt að hugsa eingöngu um stærð og fjölbreytileika mannkynsins í tölum. Hver einn og einasti íbúi þessarar plánetu á sér nafn, líf, drauma, vonir og þrár. Enginn þeirra er mikilvægari en annar. Við myndum öll eina heild.

Oft virðist kannski langt á milli okkar og þeirra sem búa annars staðar en á litlu eyjunni sem við köllum Ísland. En sama hvar við erum fædd erum við öll samsett af holdi og blóði og allskonar tilfinningum. Við erum öll gædd allskonar hæfleileikum og eiginleikum og erum ólík eins og við erum mörg. Og við komum hvert öðru við.

 

Kæru fermingarbörn!

Kæru foreldrar, systkini, ömmur, afar, ættingjar og ástvinir. Hjartanlega til hamingju með daginn.

Það er mér sannur heiður að fá að segja nokkur orð við ykkur á þessum stóra degi sem verður ykkur vonandi kær og eftirminnilegur um ókomna tíð.

Það fyrsta sem ég hugsaði þegar ég var beðin um að ávarpa ykkur hér í dag var „vá, þvílíkur heiður“.

En um leið hugsaði ég um ábyrgðina sem fylgdi því. „Hvað ætli ég geti sagt þeim sem þau vita ekki nú þegar? Hvað er hægt að segja við svona fjölbreyttan og kraftmikinn hóp með ólíka drauma um framtíðina? Hvernig tekst mér að kveikja áhuga þeirra allra?“

Ég get ekki svarað þeirri spurningu. Svo ég ákvað að bara tala beint frá hjartanu, um það mikilvægasta sem ég hef lært í þessu lífi og tel öllu öðru mikilvægara.

Ef ég á að gefa ykkur eitt heillaráð á þessum degi, þá er það að kynnast heiminum. Ekki láta ykkur nægja að hlusta á frásagnir annarra af stórfengleika hans eða göllum. Það er hægt að læra ótalmargt um heiminn í bókum, af frásögnum og á netinu. En vináttuna og skilninginn sem bíður ykkar úti í hinum stóra heimi þarf að sækja þangað. Ég hvet ykkur auðvitað til að lesa og leggja við hlustir. En sá sem upplifir veit ekki bara, heldur skilur.

Fetið ótroðnar slóðir, heimsækið fjarlæg lönd. Ekkert mun móta ykkur sem einstaklinga eins og skilningur og sjálfsprottinn kærleikur til þess sem er þarna handan sjóndeildarhringsins.

Áður fyrr var okkur nær ómögulegt að vita hvað gekk á hinu megin á hnettinum. Að minnsta kosti ekki fyrr en löngu eftir að atburðirnir áttu sér stað. Nútímatækni gerir það að verkum að við getum fylgst með nánast hverju sem er í rauntíma. En heimurinn er engu að síður ógnarstór og ómögulegt að kynnast honum án þess að leggja lykkju á leið sína og kynnast samferðafólki okkar.

Nálægðin sem netið skapar setur vissulega ákveðna pressu á okkur öll. Úr öllum áttum berast fréttir og upplýsingar. Við fylgjumst með stríðsátökum í beinni útsendingu. Við horfum upp á eymd og ofbeldi um allar koppagrundir, og stundum hugsum við kannski „mikið er heimurinn orðinn að hræðilegum stað“.

Það er vissulega rétt að margt hræðilegt á sér stað í heiminum. En heimurinn er ekki verri en hann var. Og hann er ennþá stútfullur af ósköp venjulegu fólki sem við eigum svo margt sameiginlegt með. Fólk sem seinna meir verður kannski vinir okkar, makar eða samstarfsfólk.

Það sem hefur breyst er að nú á dögum við vitum meira um það sem gengur á. Við erum sífellt að horfa upp á hörmungar sem voru okkur fjarlægri fyrir tilkomu tækninnar. Heimurinn hefur alltaf átt sínar björtu og dökku hliðar, en aukin þekking okkar á skuggahliðum hans leiðir líka sífellt til úrbóta.

Fyrsta skref í að leysa vanda er að horfast í augu við hann. Og það er það sem við erum að gera þegar við fáum fréttir af öllu því sem gengur á. Fréttirnar vekja samkennd flestra og smátt og smátt erum við að átta okkur á hlutverki okkar í þessu öllu saman.

Okkar bíða mörg og flókin úrlausnarefni um heim allan. Það þarf að stöðva stríð, koma á kynjajafnrétti, uppræta fordóma, tryggja fólki rétt til að elska fólk óháð kyni og uppruna, lækna sjúkdóma, stöðva hungursneyð, draga úr mengun og svo mætti lengi telja.

Ég veit að þetta hljómar allt saman flókið og yfirþyrmandi, en hugsið þá um fyrri kynslóðir og árangurinn sem náðst hefur. Mannréttindi eru tiltölulega ungt hugtak í mannkynssögunni, þó baráttan gegn óréttlæti sé líklega jafngömul mannkyninu.

Það er afar stutt síðan konur höfðu ekki kosningarétt. Það eru örfá ár síðan fyrsta parið af sama kyni gekk í hjónaband. Síðan fólk á vinnumarkaði öðlaðist rétt til sumarfrís, lágmarkslauna og hvíldartíma. Ekkert af þessu kom af sjálfu sér. En við njótum góðs af sleitulausri mannréttindabaráttu fyrri kynslóða og við þurfum að halda þeirri baráttu áfram. Það er sameiginleg ábyrgð okkar allra.

Það besta sem þið getið gert fyrir ykkur sjálf er líka það besta sem þið getið gert fyrir þennan heim. Ef þið vandið ykkur við að vera manneskjur, komið fram við samferðafólk og náttúru af alúð og virðingu, þá mun ykkur takast að bæta heiminn.

Kannski ekki allan í einu, en mannréttindabarátta er eins og púsluspil. Einn kubbur í einu. Framlag hvers og eins skiptir máli. Stundum krefst mikillar þolinmæði að finna næsta bút og oft mátum við marga áður en sá rétti finnst. Sumir eru meira að segja týndir.

En á endanum hefst þetta. Það er ekki von mín, heldur einlæg trú.  Og þó að ykkur líði stundum eins og einu litlu sandkorni í þessum risastóra heimi, þá eruð þið ekkert minni eða lítilvægari en öll hin sandkornin sem mynda heildina. Ef slíkar hugsanir leita á ykkur, horfið upp í stjörnuhimininn og minnið ykkur sjálf á að ykkur eru allir vegir færir.

Hver sá sem velur að leggja sitt af mörkum til þess að skilja heiminn, kynnast samferðafólki sínu og tala upphátt um óréttlæti bætir heiminn. Hver sá sem ber virðingu fyrir fjölbreytileikanum, réttir fram hjálparhönd, beitir ekki ofbeldi, lætur forvitnina og fróðleiksþorstann ráða för í stað óttans við hið óþekkta, sá leggur sitt af mörkum.

Fordómar verða til í tómarúminu sem skapast þegar spurning sem kviknar er ekki spurð. Þegar svara er ekki leitað og ótti í bland við ímyndunarafl fær leyfi til að ráða för.

Ég vona að þið farið út í lífið með óbilandi trú á ykkur sjálf. En ég vona líka að trú ykkar á aðra verði jafn sterk. Ekkert sundrar íbúum heimsins eins og tortryggni okkar í garð hvers annars. Leyfið ykkur að trúa því að fólk sé gott. Ef einstaklingur frá Akureyri skaðar aðra manneskju þýðir það ekki að Akureyringar séu vont fólk. Það þýðir einfaldlega það að einstaklingur frá Akureyri tók slæma ákvörðun.

Ef íbúi heimsins skaðar annan íbúa heimsins, þýðir það ekki að heimurinn sé vondur staður. Það þýðir að einn af þeim 7 milljörðum manns sem byggja þennan heim tók slæma ákvörðun

Ég vona þið verðið fólkið sem talar þegar brotið er á ykkur eða öðrum. Segið það sem ykkur býr í brjósti, jafnvel þó að röddin bresti og hjartað slái hratt.

Ég vona þið standið með þeim sem hefja upp raust sína gegn óréttlæti og að þið þorið að breyta rétt.

Ég vona að þið þorið að gera mistök. Þau kenna manni svo margt.

Ég vona að þið verðið fólkið sem býður samferðafólki ykkar inn í hlýjuna þegar stormur eða stríð geysar úti.

Ég vona að þið verðið fólkið sem leitar ekki aðeins svara, heldur líka nýrra spurninga.

Ég vona að þið verðið hamingjusöm, sterk og hugrökk og ég vona að þið leyfið samferðafólki ykkar að njóta góðs af því.

Ég vona að í svartasta náttmyrkri ævi ykkar skíni stjörnurnar svo skært, að þið minnist þess að ekkert er ykkur ofviða.

Ég vona að þið njótið fermingardagsins og megi allir ykkar dagar verða lærdómsríkir, bjartir og mikilvægir.

Skráðir í Þjóðkirkjunni undir 70%

Þeim sem skráðir eru í Þjóðkirkjunni hefur fækkað úr 90% í 69.89% á aðeins 20 árum. Þessi þróun hefur verið hröð þrátt fyrir að sjálfkrafa skráningu ungbarna fram til 2013. Árið 1998 var mannfjöldi á Íslandi 272.381 og skráðir í kirkjuna voru 244.893 en árið 2017 eru landsmenn orðnir 338.349 og skráðir í kirkjuna 236.481.

Árið 2013 var gerð breyting á lögum um skráningu og þurfa nú báðir foreldrar að vera í sama trú- eða lífsskoðunarfélagi svo barnið skráist sjálfkrafa. Siðmennt telur að þessu þurfi að breyta þannig að til þurfi eigið frumkvæði eða í tilfelli barna að foreldrar taki upplýsta ákvörðun t.d. með skírn eða annarri skráningu.

Í Siðmennt eru nú skráðir hjá Þjóðskrá 1.769 sem er 0.53% af landsmönnum en að auki eru 150 sem aðeins eru skráðir hjá félaginu. Samtals eru því 1.919 í Siðmennt!

Zuistum fækkar úr 3.087 (0.93%) í 2.845 (0.84%). Rétt er að vekja athygli á að á síðasta ári var skráð nýtt félag – DíaMat – félag um díalektíska efnishyggju sem hefur 23 skráða félagsmenn.

Þeir sem velja að standa utan allra félaga heldur áfram að fjölga og eru nú 20.500 en voru árið 1998 5.591 talsins. Þeir sem tilheyra flokkuninni “önnur trúfélög og ótilgreint” hefur á sama tíma fjölgað úr 3.539 í 31.021.