Könnun: Opinberir skólar eiga að halda trúarlegu hlutleysi

Flestir Íslendingar eru sammála Siðmennt um að opinberir leik- og grunnskólar eigi að halda trúarlegu hlutleysi. Siðmennt, sem lengi hefur talað fyrir trúarlegu hlutleysi opinberra skóla, hefur ítrekað verið sakað um að tala fyrir hönd „háværs minnihluta“. Ef marka má niðurstöður í könnun Maskínu virðist það þvert á móti vera (hávær?) minnihluti sem er ósammála því að opinberir skólar eigi að halda trúarlegu hlutleysi.

Lesa

Könnun: Langflestir vilja aðskilja ríki og kirkju

Mikill meirihluti (72%) er hlynntur aðskilnaði ríkis og kirkju meðal þeirra sem segjast hlynntir eða andvígir aðskilnaði. Er þessi niðurstaða í samræmi við niðurstöður í könnunum Gallup árin 1998 til 2015 sem allar hafa sýnt meirihlutastuðning við aðskilnað.

Lesa

Könnun: Íslendingar vilja fella ákvæði um þjóðkirkju úr stjórnarskrá

Á bilinu 47-48% eru hlynnt því að ákvæði um þjóðkirkju verði fellt úr stjórnarskránni en tæplega 30% eru því andvíg, samkvæmt könnun Maskínu fyrir Siðmennt. Þegar aðeins er litið til þeirra sem taka afstöðu, sem sé þeir sem eru hlynntir eða andvígir, eru á bilinu 61-62% hlynnt því að fella ákvæðið út. Þetta er öfug niðurstaða við þá sem fékkst í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu 2012 en leitast var við að setja spurninguna fram á skýrari og hlutlausari hátt í þessari könnun.

Lesa

Könnun: Fleiri kristnir (68,8%) en trúaðir (46,6%). Rúmur fjórðungur viss um tilvist guðs

06 Hvað lýsir best því sem gerir þig kristinnUm 46% Íslendinga telja sig trúuð ef marka má niðurstöður í könnun Maskínu. Um 30% segjast ekki vera trúuð og hartnær 24% geta ekki sagt til um hvort þau séu trúuð eða ekki.

Hlutfall þeirra sem trúa á guð er samt mun lægra því af þeim sem telja sig trúaða segja 61% að þau trúi á guð á meðan fjórðungur segist ekki hafa vissu fyrir því að guð eða æðri máttur sé til. Þannig virðist sem að rúmur fjórðungur (28%) Íslendinga sé visst um tilvist guðs (0,61 x 0,46).

Þrátt fyrir að innan við helmingur Íslendinga segist trúaður (46%) segjast fleiri en tveir af hverjum þremur játa kristna trú (68,8%). Fleiri eru semsagt kristnir en trúaðir.

Þessi niðurstaða kann að virðast mótsagnakennd en þegar svörin eru skoðuð nánar kemur í ljós að skilgreining svarenda á því að vera kristinn er ansi víð.

Þegar þeir sem segjast „játa kristna trú“ eru spurðir hvaða skilgreining lýsi best hvað gerir þá kristna kemur í ljós að rétt rúmlega þriðjungur (36%) af þeim sem segist játa kristna trú segist trúa á „Guð, Jesú, upprisuna og eilíft líf – aðhyllist boðskap Biblíunnar“.*

Meðal þeirra sem játa kristna trú er algengast (43,4%) að þeir skilgreini trú sína á þennan hátt: „Ég er ekki með öllu viss um tilvist Guðs en trúi á boðskap kristninnar og siðferði hennar“**
Um 20% þeirra sem játa kristna trú segjast „trúlaus“ eða ekki trúa á guð.

Því mætti velta fyrir sér hvaða skilning fólk leggur í þá fullyrðingu að “játa kristna trú”.
____

* Af heildinni er því tæpur fjórðungur sem aðhyllist boðskap Biblíunnar
** Af heildartölunni eru það því um 30% sem efast um tilvist Guðs en vilja þó setja sig undir hatt kristninnar.

Heimild:
Nánar:

Eldri kannanir: