Menntun athafnarstjóra Siðmenntar

Athafnarstjórar Siðmenntar þurfa að standast kröfur félagsins um þekkingu um athafnir og verklega framkvæmd þeirra.

Athafnarstjóri þarf að vera orðinn a.m.k. 25 ára.

Félagið kennir ekki eða þjálfar alla þá hæfileika og færni sem athafnarstjóri þarf að hafa, frá grunni.

Námskeiðið er stutt og getur aldrei búið til fullgerða athafnarstjóra eingöngu á því sem þar er kennt. Nemar í athafnarstjórnun þurfa því fyrirfram að hafa áhuga, burði, þekkingu og færni á eftirfarandi sviðum:

 • Sjálfstraust – sjálfstæði til að vinna einn og sýna frumkvæði – vera leiðbeinandi.
 • Heimspekilega nálgun til textavinnslu og áhuga á húmanískum hugleiðingum og fræðum.
 • Áhuga á því að hjálpa fjölskyldum og hafa ánægju af því að gera daginn þeirra eftirminnilegan.
 • Ritfærni – gott vald á íslensku og ritun hennar. Skipulega hugsun við ritun ræðu.
 • Talfærni – fær um að tala skýrt og ráða við að koma fram fyrir framan fjölda fólks.
 • Snyrtimennska – færni til að líta snyrtilega út og sparilega. Forðast prjál eða að vera áberandi.
 • Kurteisi, þolinmæði, innsæi í þarfir fólks.  Búa yfir jákvæðni og vera hvetjandi og sýna hluttekningu.
 • Hlýleiki, yfirvegun og virðuleiki (solemnity).
 • Miðlun gleði og húmors.

Ekki er farið fram á ákveðnar gráður eða stig menntunar en í umsókn um námið þarf að koma fram lýsing á því hvaðan reynsla viðkomandi er sótt og hvernig áhugasvið og lífsreynsla viðkomandi tengist þessu.

Í gegnum samræðu eða viðtal við umsjónarkennara Siðmenntar í athafnarstjórnun þarf að koma í ljós að þessi vettvangur sé áreiðanlega  passandi fyrir mögulegan nema og að raunsæjar væntingar og sjálfsmat séu til staðar.

Í námi Siðmenntar er eftirfarandi talið nauðsynlegt að ná valdi á:

 • Þekkingu á sögu og starfi Siðmenntar .
 • Grunnþekkingu á sögu og eðli húmanismans.
 • Þekkingu á tilgangi og eðli athafnanna.
 • Þekking á hugtökum varðandi athafnir og notkun þeirra.
 • Verkferlið frá því að beðið er um athöfn þar til henni er lokið.
 • Þekkingu á lögum og reglugerðum kringum athafnir.
 • Viðtalstækni, undirbúningsviðtalið og æfingar fyrir athafnir.
 • Ritun texta athafna, sérstaklega hugvekjan og saga umbeiðenda.
 • Uppsetning athafna, umhverfi, staðsetningar og útfærsla eftir óskum og möguleikum.
 • Flutningur ræðu og texta athafna.  Hraði, hljómfall, ljóðalestur og fleira.
 • Fatnaður og útlit.
 • Óvæntar uppákomur – neyðartilvik.  Öryggisatriði.
 • Samstarfsaðilar, tónlist og fjárhagsþættir.

Námskeiðin 2015 og 2016 voru 4 vikur í fjarnámi og tvo daga í kennslu í lok þess tíma. Líklegt að kennt verði tvær helgar í næsta námskeiði. Standast þarf gæðakröfur í samskiptalegum, skriflegum (efnistök og framsetning) og munnlegum þáttum námsins og eftir að búið er að stýra nokkrum athöfnum undir umsjá leiðbeinanda og standast þær með prýði er náminu lokið.  Félagið er þó sífellt að endurmennta og hjálpa afhafnarstjórum sínum að vaxa í starfi.  Það þurfa ekki allir athafnarstjórar að taka að sér útfarir.

Frá hausti 2016 hefur Athafnaráð Siðmenntar séð um kennslumálin. Í ráðinu eru Svanur Sigurbjörnsson,  Inga Auðbjörg Kristjánsdóttir og Tinna Rut Jóhannsdóttir.

Áhugasamir um nám í athafnarstjórnun geta send netpóst á athafnir@sidmennt.is

Það vantar sérstaklega athafnarstjóra sem eru búsettir utan höfuðborgarsvæðisins og hvetur félagið áhugasama þar sérstaklega til að hafa samband.

(Uppfært 24. ágúst 2017 frá maí 2015 – SS)