Húmanískt viðbragðsteymi Siðmenntar stofnað

Sólveig Ásgrímsdóttir, sálfræðingur

Sólveig Ásgrímsdóttir, sálfræðingur

Siðmennt hefur stofnað húmanískt viðbragðsteymi sem ætlað er að sinni sálgæslu á veraldlegum grunni. Þjónustan er fólgin í viðtölum við fólk sem lendir í áföllum eða þarf á aðstoð að halda í persónulegum málum.

Þjónustan verður á veraldlegum grunni og hentar því öllum. Hún verður gjaldfrjáls félagsmönnum en fyrir aðra er innheimt hóflegt gjald.

Þjónustunni er ekki ætlað að vera meðferðarúrræði heldur bjóða félagsmönnum og öðrum sem til félagsins leita upp á fyrsta samtal um málefni þeirra og vísa þeim síðan á fagaðila utan Siðmenntar til áframhaldandi úrvinnslu eða meðferðar.

Verkefni sem í fyrstu er ætlað að sinna eru:

 • Fyrsta samtal við félagsmenn um úrræði og þaðan vísað til fagaðila
 • Sálgæsla á veraldlegum grunni
 • Stuðningur við athafnastjóra ef alvarleg mál koma upp
 • Vera stjórn innan handar í málum sem koma upp og varða stuðning
 • Veita samtal um málefni félagsmanna sem leita eftir stuðningi þegar þeir lenda í „krísum“.
 • Veita áfallahjálp utanaðkomandi aðila

Dæmi um mál sem hafa borist félaginu:

 • Ráðgjöf varðandi útfararskrá
 • Ráðgjöf vegna dauða foreldris barna og unglinga
 • Áfallahjálp og nærvera vegna sjálfsvígs
 • Samtöl við einstaklinga sem eru deyjandi t.d. vegna krabbameins
 • Viðtöl við deyjandi aldraða einstaklinga
 • Aðstoð við útfarir lítilla barna
 • Einstaklingur með sjálfsvígshugmyndir
 • Krísa í samskiptum fjölskyldu

Hópur félagsmanna Siðmenntar með menntun og reynslu við störf sem sálfræðingar, læknar, iðjuþjálfar og önnur fagleg störf þessu tengd annast þjónustuna. Síðar meir er hugsanlegt að nokkrir athafnastjórar sem þjálfað hafa með sér færni í gagnvirkri hlustun geti sinnt hluta af þessum málum.

Ákveðið var að bjóða upp á þjónustuna þar sem leitað hefur verið til félagsins með ósk um aðstoð en einnig atvik í starfi stjórnarmanna og athafnastjóra sem krefjast slíkrar ráðgjafar.

Sólveig Ásgrímsdóttir, sálfræðingur mun leiða verkefnið. Hún hefur áratuga reynslu í starfi sem sálfræðingur og kom að stofnun áfallateymis Rauða krossins.

Generic selectors
Ströng leit
Leita í fyrirsögnum
Leita í megintexta
Leita í færslum
Leita á síðum
Sía eftir flokkum
English News
Fréttir
Greinar
Ræður
Viðburðir - upptökur